Evruþvælan

Hvaða dómsdagsendemisþvæla er þetta eiginlega stöðugt og alla daga um hugsanlega evru án ESB-aðildar? Hversu eilíflega margar fréttir, orka, tími, fjármagn og afvegaleiðing á að fara í þessa endurteknu umræðu sem hefur nú staðið vikum og mánuðum saman?

Ef fólk vill taka upp evru á Íslandi þá verður Ísland að ganga í ESB. Þetta hefur legið fyrir lengi fyrir þau sem það vilja sjá.

Aðild að ESB er hins vegar miklu stærra og viðameira mál heldur en bara spurningin um evru. Fínt, við skulum ræða það út í hið óendanlega, en það breytir ekki því að einmitt núna liggja fyrir mýmörg og aðkallandi verkefni sem verður að takast á við og hafa ekkert með ESB-spurninguna að gera.

Krónan er ekki hinn undirliggjandi sökudólgur í gjaldþrota efnahags- og peningamálastjórn síðustu ára. Undirrót verðbólgu og óstöðugleika síðustu ára er m.a. stóriðjustefnan, óheft útrás fjármálafyrirtækja og aðrar þensluhvetjandi aðgerðir sem yfirvöld bera ábyrgð á.

Nú á að bjóða upp á sömu rússibana-vitleysuna áfram en telja okkur um leið trú um að þetta sé allt bara krónunni að kenna. Að stóriðjustefnan og allt hitt ruglið sé í lagi ef gjaldmiðillinn heitir evra. Þetta er þvæla og hrindir fókusnum í burtu frá þeim krefjandi verkefnum sem raunverulega liggja fyrir með áríðandi og afgerandi hætti - núna.

 

Núna er einmitt rétti tíminn líka fyrir alvöru rannsókn á gjaldeyrisviðskiptunum. Staðreyndir upp á borðið, takk.


Friðlýsing Skjálfandafljóts

Áhugahópur um friðlýsingu Skjálfandafljóts hefur verið stofnaður og sérstök heimasíða um málefnið er komin í loftið - sjá hér.

Markmið hópsins er að vinna að friðlýsingu vatnasviðs Skjálfandafljóts, stuðla að friðun og varðveislu landslags, náttúrufars og menningarminja og hvetja til þess að svæðið verði notað til útivistar, ferðaþjónustu og hefðbundinna nytja... og forðað frá virkjunum og spjöllum.

Hægt er að lýsa yfir stuðningi sínum við málefnið á síðunni hér - endilega gerið það!


Guðinn heitir græðgi: Frábært viðtal í Mogga í dag

Í Mogganum í dag er að finna frábært viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Ögmund Jónasson. Mæli eindregið með lestri!

Viðtalið er ítarlegt og kemur víða við. Efnahagsmálin, bankarnir, evran, NATÓ, virkjanir, misskipting, stjórnarandstaða, upplýst umræða og öflugt samfélag er meðal þess fjölmarga sem er rætt....

Ögmundur segir meðal annars:

Óheft markaðshyggja hefur umbreytt íslensku samfélagi í spilavíti. Við blasir þjóðfélag aukinnar misskiptingar, sennilega meiri en dæmi eru um áður í Íslandssögunni. Þegar menn tala um það í fullri alvöru að fara með heilbrigðsþjónustuna og orkukerfið, innviði samfélagins, út á þetta sama markaðstorg þar sem mönnum hefur mistekst jafn herfilega og dæmin sanna þá hlýtur maður að vara við því. Ég vil að sjálfsögðu blandað hagkerfi þar sem markaðurinn spreytir sig og samkeppni þar sem það á við, en samfélagsþjónustunni, innviðum samfélagsins, vil ég halda hjá samfélaginu...

...Mér finnst ekki vera sáluhjálparatriði að bankar séu í eigu hins opinbera og ég legg ekki að jöfnu bankana annars vegar og heilbrigðisþjónustuna hins vegar. Ég og mín skoðanasystkini vöruðum hins vegar við því að fjármálakerfið yrði einkavætt á einu bretti í okkar litla hagkerfi vegna þess að sú hætta blasti við að þeir sem hafa eignarhald á atvinnustarfseminni í landinu myndu jafnframt eignast bankana. Þeir sætu beggja vegna borðs og ættu fyrirtækin sem síðan leituðu til sama aðila um lánsfjármagn. Þetta varð þróunin...

...Ég orðaði einhvern tíma þá hugsun að ef ég stæði frammi fyrir því að senda annaðhvort þotuliðið úr landi eða íslenska jafnaðarmannasamfélagið þá myndi ég frekar vilja að þotumannskapurinn hefði sig á brott. Þá fékk ég það til baka að ég vildi alla bankastarfsemi úr landi. Það er af og frá. Ég vildi úr landi þann hugsunarhátt græðginnar sem leitt hefur til geigvænlegrar misskiptingar í samfélaginu. Ég er fylgismaður þess að við rekum hér öfluga, trausta og góða viðskiptabanka og er alls ekki andvígur því að til séu fjárfestingarsjóðir. En ég vil hafa skýr greinarmörk þarna á milli. Eins og stendur eru íslensku bankarnir að langstærstum hluta fjárfestingarsjóðir, sem róa lífróður. Þeir geta ekki sinnt viðskiptabankahlutverki sínu og soga til sín allan gjaldeyri til að standa skil á eigin skuldum. Staðan í banka- og gjaldeyrismálum er svo myrk í augnablikinu, þokan mikil, sögusagnirnar margar. Það þarf að rannsaka gjaldeyrisviðskiptin þegar í stað. Íslenskir fjármálamenn þurfa að fá tækifæri til að afsanna þann áburð að þeir séu að vinna að veikingu krónunnar...

...Umræðan um evruna er allt of einfölduð enda þjónar slíkt tilteknum valdahagsmunum. Tökum dæmi. Hérlendis hefur hingað til verið sátt um að það sé forgangsverkefni að halda fullri atvinnu. Á evrusvæðinu má segja að atvinnuleysi sé nánast notað sem hagstjórnartæki. Þar er langtum meira atvinnuleysi en hér. Viljum við slíkt?...

...Það er þreytandi að horfa upp á vanhugsaðar hugmyndir keyrðar í gegn með offorsi. Mér finnst hins vegar ekki erfitt að lúta tímabundið í lægra haldi. Ég er vanur því að eiga við fólk og virði leikreglur lýðræðisins. Ef ég verð undir eftir átök og upplýsta umræðu þá verð ég að taka því. Ég held áfram og gefst ekki upp. Mér finnst hins vegar óþolandi þegar upplýst umræða fær aldrei að eiga sér stað. Það gerist iðulega þegar við trúmenn markaðshyggjunnar er að glíma. Þeir horfa fjarrænum augum út í loftið og segja: Þetta er best komið í höndum markaðarins. Hvort heldur er að baða gamla konu, taka við slösuðum manni á bráðavakt, reka kaffihús eða róa til fiskjar. Sumt á heima á markaði og sumt ekki. En það er ekki hægt að tala við ofsatrúarfólk. Það horfir framhjá manni og endurtekur trúarjátninguna. Ef maður meðtekur ekki fagnaðarerindið þá er maður vantrúaður. Á móti öllu. Stalínisti. Í svona ástandi er erfitt að halda uppi upplýstri umræðu...

...Ef einhver stendur í þeirri trú að ég vilji kyrrstöðu þá er það misskilningur. Ég vil kraft og líf á öllum sviðum þjóðlífsins, endurnýjun og nýsköpun. Ég er fylgjandi margbreytileikanum og vara við einsleitninni. Með einkavæðingu og markaðsvæingu er því miður verið að keyra okkur inn í slíkan farveg. Gildismat okkur verður að vera byggt á heilbrigðum og sanngjörnum grunni til frambúðar. Jöfnuði og jafnrétti má aldrei aftur fórna á altari græðgi, spákaupmennsku og auðkýfingadýrkunar...

Viðtalið er sem fyrr segir miklu ítarlegra en hér er hægt að gera skil og kemur víða við, hér er bara tæpt á örfáum atriðum...

Takk!


Landkönnuðir á Gróttu

Ég hef áður gert útvarpsþátt Elísabetar Indru Ragnarsdóttur að umfangsefni hér á þessum síðum. Nú langar mig aftur að benda ykkur á upplífgandi Stjörnukíki frá því á síðasta laugardag um listnám og barnamenningu á Íslandi. Þar er talað við unga "jarðvísindamenn" og "landkönnuði" sem uppgötva Gróttu og fleira til undir leiðsögn Óskar Vilhjálmsdóttur og Margrétar Blöndal. Þær eru einmitt á meðal þessara gjöfulu og skapandi kvenna sem gera Ísland að betri stað til að búa á...

Hægt er að hlusta á þáttinn hér.


Uppgjör!

Jón Bjarnason 

Vaskur þingmaður Norðvesturkjördæmis ritar svo - ég geri orð hans að mínum:

Þeir keppast við að leita eftir samúð „ burðarásarnir“ sem farið hafa eins og gráðugir úlfar um eignir  almennings og skuldsett þjóðarbúið svo að  Ísland trónir nú hátt á lista yfir skuldugustu lönd heims.
Gengisfall, himinháir vextir og verðbólga í hæstum hæðum. Allt  var það fyrirsjáanlegt og við því var varað. 
Hinsvegar er það  almenningur í landinu, heimilin og íslenskt atvinnulíf sem fyrst og fremst blæðir. Þjóðin hlýtur að krefjast uppgjörs við þau stjórnvöld og þau öfl  sem hleyptu þessari taumlausu græðgisvæðingu af stað og nærðu hana með sífelldum gjöfum og skattaívilnunum.
„Ég tek fyllilega á mig þann hluta af ábyrgðinni sem hjá mér liggur sem þáttakandi í þessu. Ég er stærsti hluthafinn í þessu félagi og er sá aðili sem tapa þar mestu“ segir Magnús Þorsteinsson fyrrverandi stjórnarformaður Eimskipafélagsins í Viðskiptablaðinu í dag.
Borginmannlega talað fyrri hönd þeirra sem á undanförnum árum hafa valsað um með eigur þjóðarinnar í braski út um allan heim í skjóli taumlausarar markaðs-  og nýfrjálshyggju ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins sem setið hefur að völdum sl. 17 ár. Það getur vel verið að Magnús Þorsteinsson stjórnarformaður Eimskipa, "óskabarns þjóðarinnar" tapi  miklu en það er þjóðin sem tapar mestu.
Því fyrr sem er tekið til hendinni og gert upp við nýfrjálshyggju og græðgi síðustu ára og farið á ný inn á braut félagshyggju, hófsemdar og samhjálpar, því fyrr náum við okkur aftur á strik sem heilbrigð þjóð á traustum grunni.

Málfríður í sólarlagi ævinnar

Mikið var gaman að sjá umfjöllunina um Málfríði Einarsdóttur í Kiljunni. Ég var rétt í þessu að horfa á þáttinn á netinu - sjá hér.

Leigjandinn Guðbergur Bergsson fór m.a. á kostum og myndirnar sem hann tók af Málfríði í "sólarlagi ævi hennar" fallegar og minnisstæðar.

Góð vísa er aldrei of oft kveðin og endurtekningin er inntak lífsins: "Langamma mín giftist nauðug. Tvennt var það sem henni brá verst við um ævidagana: þegar hún sá auga sitt, sem hún hafði óvart stungið úr sér með skærum, koma ofan í kjöltu sína, og þegar Jón langafi minn bað hennar."

Þetta kemur mér alltaf til að brosa...

"Líklega líður jafnvel kartöflugrösunum betur núna. Eða þá hundunum. Allt stafar þetta, líka harðviðareldhúsin með krönum úr skíragulli, af auknum réttindum kvenna á Íslandi. Hver kom þeim réttindum á? Það veit ég en ég segi það ekki."

Sagði Málfríður stödd á Samastað tilverunnar. Málfríður átti að eigin sögn ætíð samastað, að minnsta kosti hefði hún aldrei þurft að vera hvergi... Heppin?


Að stækka og stækka og stækka svo meira

Á síðasta ári fór fram kosning í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík. Þá var deiliskipulags-tillaga um stækkun álvers felld í íbúakosningu.

Aðeins fáum dögum eftir kosninguna fóru á kreik sögur og jafnvel yfirlýsingar um hvernig hægt væri að koma sér hjá því að lúta niðurstöðunni og stækka samt. Mýmargar hugmyndir um hvernig hægt væri að fara á svig við lýðræðið komu þá fram, meira að segja úr munni "fulltrúa lýðræðisins". 

Meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þar sem Samfylkingin fer með völd hafði lýst yfir hlutleysi sínu í málinu eða neitað að tjá afstöðu sína, slíkt væri leyndó. Allir sem fylgdust grannt með vissu þó að slíkt var sýndarmennskan ein, bæjarstjórnin var langt frá því að vera hlutlaus - mjög langt. 

Nú er komið á daginn að álverið er einmitt samt að stækka. Vissulega ekki jafn mikið og þá var ráð fyrir gert, og vissulega ekki með sama hætti, en það stækkar samt. Þeir sem halda að nú sé stækkun lokið eru að láta sig dreyma, þetta er smjörþefurinn af því sem koma skal. Þessi bisness er einfaldlega þannig, ekki af illgirni heldur í eðli sínu - hann verður að stækka.

Hvaðan kemur orkan þegar álverin öll í hverju landshorni stækka? Erum við Íslendingar svo fullkomlega skyni skroppin að ætla að festa orkuauðlindir okkar í fleiri stækkandi álverum?

Þegar væntanlegt álver í Helguvík stækkar og væntanlegt álver á Bakka stækkar og... þegar allt hitt sem fyrir er stækkar og stækkar (ellegar hótar því að fara, eins og alltaf er gert), hvað þá?

Gjörðir hafa afleiðingar. Ef fólk hefur ekki hæfileika til að hugsa fram í tímann heldur festir sig í skammtíma-reddingum þá á það yfirleitt ekki að koma nálægt stórum ákvörðunum. Í upphafi skyldi endinn skoða... er ekki málið einmitt að læra það núna, í einmitt þessu árferði?


Af ránum um hábjartan dag

Að undanförnu hefur farið mikið fyrir fréttum um innbrot og rán af heimilum fólks. Þar láta óprúttnir greipar sópa og eira engu, ekki einu sinni fjölskyldumyndum og tilfinningatengdum munum sem engum geta gefið ánægju og auð nema heimilisfólkinu.

Þetta er ömurleg þróun í samfélaginu og gegn henni þarf að sporna með öllum tiltækum ráðum.

Um leið og innbrot aukast - eða í það minnsta nöturlegar fréttir af þeim - er ekki úr vegi að taka líka á öllum hinum sem fara um með ránshendi um hábjartan dag. Það eru þeir sem fara ránshendi um eignir þjóðarinnar í nafni trúarbragða hinna "frjálsu markaðsafla fjármagnsins", hola þær að innan, braska með og hirða allan gróða beint í eigin vasa, til þess eins að gripnum sé svo hent á haugana eða hann keyrður í kaf þegar illa árar á kostnað almennings.

Þá á einmitt ríkið að hlaupa til hjálpar. Ríkisrekinn halli, einkavæddur gróði - sama gamla sagan. Alltaf skal tapið lenda á venjulegu fólki en gróðinn fara beint til hinna sömu fáu.

Hversu mörg slík rán hafa farið fram á undanförnum árum við áköf fagnaðarlæti viðstaddra?

Er fólk stolt af því að hafa gert Ísland að sjóræningjaskipi?

Er afsökunin sú að slíkt sé gert svo víða og því sé í lagi að gera það hér - eða?


Hver á Jarðboranir?

Bara ein smá spurning:

Hver á Jarðboranir?


mbl.is Jarðboranir bora 50 holur fyrir OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðgjafar brunarústanna

"Fjársvikarar vaða uppi og siðferði í viðskiptum er í mylsnu. En fjárglæframenn sem leiddu hörmungar yfir hversdagsfólkið sitja áfram að sínu, eða öllu heldur því sem eftir er af verðmætum okkar allra. Þeir verða jafnvel ráðgjafar yfir brunarústum gjaldþrotastefnu þar sem þeir sjálfir kveiktu flesta eldana."

Úr leiðara Bjargar Evu Erlendsdóttur í 24 Stundum í dag.

Vel orðað.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband