Mánudagur, 15. september 2008
Hræðslan við staðreyndir
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs lagði fram á Alþingi sl. haust tillögu þess efnis að fram færi ítarleg og fagleg rannsókn á áhrifum og afleiðingum markaðsvæðingar samfélagsþjónustunnar.
Við héldum því fram að enginn gæti tapað á slíkri úttekt heldur mundu allir verða einhvers vísari líka þeir sem í bókstafstrú sinni halda uppi merkjum markaðsvæðingar í einu og öllu, nú síðast í heilbrigðismálum.
Við lögðum til að spurt yrði m.a.:
Hvernig hafa breytingarnar reynst almenningi? Hefur þjónustan batnað eða hefur hún orðið verri fyrir íbúana? Hefur aukin mismunun fylgt einkarekstri og markaðsvæðingu eða hefur jöfnu og gagnsæju aðgengi fleygt fram? Hvaða samfélagshópar hafa bætt stöðu sína með markaðsvæðingu og hvaða hópar hafa komið verr út úr breytingunum?
Hvernig hafa breytingarnar reynst þeim sem greiða fyrir þjónustuna? Hefur þjónustan orðið dýrari eða ódýrari fyrir einstaka greiðendur og samfélagið í heild sinni? Fæst betri þjónusta fyrir minna fjármagn eða er þessu öfugt farið?
Hvernig hafa breytingarnar reynst þeim sem veita þjónustuna? Hefur markaðs- og einkavæðing almennt bætt eða rýrt kjör starfsfólks? Hvaða áhrif hafa breytingarnar haft á atvinnuöryggi og vinnuaðstæður fólks og hvernig hefur einstökum hópum starfsfólks farnast?
Hvaða valkostir koma til skoðunar þegar bæta á almannaþjónustu? Hvaða aðferðafræði er beitt við samanburð á kostnaði? Hvernig eru kostir og gallar opinberrar þjónustu annars vegar og þjónustu einkaaðila metnir? Getur verið að hugmyndafræðilegar ástæður valdi því að sífellt hallar á hinn opinbera rekstur þegar ákvarðanir um einkavæðingu eða einkaframkvæmd eru teknar? Er til staðar gegnsætt og réttlátt matsferli þar sem allir veigamiklir þættir eru teknir til skoðunar við afdrifarík áform er lúta að markaðsvæðingu?
Hefði ekki verið eðlilegt að leita málefnalegra svara við einhverjum af þessum spurningum svara byggðum á rannsóknum og reynslu en ekki kreddukenndri einkavæðingartrú áður en heilbrigðisþjónustan var markaðsvædd enn frekar?
En nei, þessari málaleitan var að sjálfsögðu ekki sinnt.
Hvers vegna þessi hræðsla við að leita staðreynda?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 14. september 2008
Þjóðarsátt?
Mæli með þessum lestri hér.
Ætli það verði fjaðrafok yfir myndskreytingunni núna?
Eða er hún kannski bara fullkomið aukaatriði miðað við innihaldið. Sem er í grófum dráttum þetta:
Á einu ári - til dæmis þetta síðasta ár sem þau hafa dregið lappirnar við að afnema eigin sérréttindi - hafa ráðherrar í ríkisstjórn tryggt sér lífeyrishækkun UMFRAM aðra starfsmenn ríkisins að upphæð 23.610 krónur á mánuði.
Á maður svo að hlæja eða gráta þegar talað er fjálglega um þjóðarsátt og ljósmæður lögsóttar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 13. september 2008
Biðjist afsökunar!
ÁGÚST Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingar lýsti því yfir í vikunni að Ögmundur Jónasson ætti að biðjast opinberlega afsökunar á því að hafa sett Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra við hliðina á Gaddafi Líbýuleiðtoga á mynd á heimasíðu sinni.
ÖGMUNDUR hefur í mörg ár haldið úti einni öflugustu heimasíðu landsins, www.ogmundur.is. Þar er að finna hárbeitta pistla, innihaldsríka og fróðlega, og iðulega fylgja heimatilbúnar myndir sem skeytt er saman héðan og þaðan í pólitískt skop.
ÝMSIR helstu leiðtogar vestrænna ríkja keppast nú um að taka í hönd Gaddafi og hrósa honum fyrir að selja opinberar eigur líbýsku þjóðarinnar í hendur fjölþjóðlegum einkaaðilum. Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti og Condoleeza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna eru meðal þeirra sem nú eru hæstánægð með Gaddafi. Condoleeza skartar einmitt hálsmeni frá Ingibjörgu Sólrúnu.
HVERS vegna úr varð fjaðrafok hjá tilteknum vinum heilbrigðisráðherra út af skopmynd Ögmundar er umhugsunarefni. Á sama tíma var afgreitt frá Alþingi frumvarp sem leggur tæki einkavæðingar á heilbrigðisþjónustu Íslendinga beint upp í hendurnar á Sjálfstæðisflokknum. Ætlar Samfylkingin að biðjast afsökunar á því?
Í LJÓSI þess að varaformaður "Jafnaðarmannaflokks Íslands" hefur krafist afsökunarbeiðni frá Ögmundi langar mig að fara fram á afsökunarbeiðni valdhafa á eftirfarandi:
-AÐ nauðbeygja þurfi ríkisstjórnina til að standa við brotabrot af gefnum loforðum, m.a. um bætt kjör kvennastétta, og að stétt ljósmæðra sé ítrekað sýnd lítilsvirðing;
-AÐ 100 milljónum af fé skattborgara sé sóað í eina heræfingu (af mörgum komandi), svipuð fjárhæð og nægir til að leiðrétta kjör ljósmæðra í heilt ár;
-AÐ nýtt ríkisbákn hermála rísi þar sem milljarðarnir flæða á meðan velferðarkerfið molnar;
-AÐ álvæðing Íslands og stórfelld náttúruspjöll séu á fullri ferð þvert á ítrekuð loforð um "Fagra Ísland";
-AÐ ráðherrar í "Jafnaðarmannaflokki Íslands" skuli enn ekki vera búin að afnema eigin sérréttindi í eftirlaunum, á sama tíma og misskipting í samfélaginu hefur aldrei verið meiri.
ÞETTA er ekki tæmandi listi, hér er bara fátt eitt nefnt.
EF þau sem bera ábyrgð á því sem að ofan greinir láta svo lítið að biðjast opinberlega afsökunar - þótt ekki sé nema á einu atriði - þá skal ég persónulega tryggja að Ögmundur Jónasson biðji einkavæðingarvin varaformanns Samfylkingarinnar afsökunar á að hafa skeytt honum saman við Frakklandsforseta að heilsa Líbýuleiðtoga.
SANNGJARN díll?
Birtist í Morgunblaðinu 13. september 2008.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 13. september 2008
Frá Láru Hönnu
larahanna.blog.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 12. september 2008
Ráðherrar af sérréttindum í þrepum?
Ljósmæður eiga að fá leiðréttingu í þrepum að mati Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Vasklega mælt?
Hvað með til dæmis 12 litla ráðherra sem njóta óheyrilegra sérréttinda í eftirlaunum - eiga þeir að minnka eigin sérréttindi í þrepum eða jafnvel bara í einu stökki? Hvenær má vænta tíðinda úr þeim ranni?
Hversu mikill sparnaður ætli sé í því litla máli að ráðherrar og þingmenn sitji við sama borð og til dæmis opinberir starfsmenn?
Gæti það jafnast á við eina litla heræfingu eða meira? Ein lítil heræfing kostar einmitt svipað og að leiðrétta kjör ljósmæðra í heilt ár.
Milljarðar fjúka í nýtt ríkisbákn hermálastofnunar, heræfingar og hégómlega umsókn að Öryggisráði SÞ - þar er engu til sparað.
Var það virkilega þetta sem fólk kaus í síðustu kosningum - var þetta í loforðalistunum, var það þetta sem fólk vill?
Ég held ekki.
Fólk á Íslandi þarf að fara að taka völdin í eigin hendur. Þetta gengur ekki lengur.
Gæti leitt til stigmögnunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 12. september 2008
Guðlaugur Þór hávaxnari en Gaddafi
Mér er illa við að vera fótóshoppuð. Ég meina, mér finnst bara allt í lagi að hrukkurnar mínar sjáist og sigið í hálsinum og bólurnar og baugarnir og allt þetta hitt sem ekki er í tísku. Hvers vegna að vera að falsa sig í mynd?
Þess vegna skil ég Guðlaug Þór mjög vel. Hvaða leyfi hefur Ögmundar Jónasson til að fótoshoppa Guðlaug Þór að honum forspurðum? Ég er bit og stend heils hugar með Guðlaugi og vinum hans í baráttunni.
Ég tók mig til og skammaði Félaga Ögmund fyrir ósmekklegheitin. Því miður hefur hann ekki enn látið segjast. Hann ypptir öxlum og segir að þetta sé nú bara góðlátlegur leikur og ekkert persónulegt frekar en allar hinar myndirnar á síðunni, svona til að skreyta þessa beittu og alvarlegu og ástríðufullu pistla. Ef Guðlaugur Þór er móðgaður hvað þá með alla hina sem hafa verið fótóshopperaðir á www.ogmundur.is? spyr Ögmundur óskammfeilinn þegar ég reyni að gera honum grein fyrir alvöru málsins.
Grín! Grín! hvæsi ég á hann af kratískri röggsemi. Finnst þér þetta virkilega fyndið! Hverjum finnst svona barnaskapur fyndinn! Engum! Engum!
En allt kemur fyrir ekki.
Þótt Nicolas Sarkozy og Condoleeza Rice og George Bush og Tony Blair og allir hinir heilsi og faðmi og knúsi Gaddafi sem óðast þegar hann selur opinberar eigur Líbýu, þá er það náttúrulega hneyksli að ímynda sér að Guðlaugur Þór mundi nokkurn tímann gera slíkt hið sama í opinberri heimsókn. Við Íslendingar þekkjum okkar mörk.
Svo er það auðvitað ekki bara hugmyndin sem slík sem er hneykslanleg þetta með að láta þá heilsast. Það er líka útfærslan.
Ég er til dæmis viss um að Guðlaugur Þór er í raunveruleikanum miklu hærri í loftinu en Gaddafi. Á myndinni er hann sýndur pínulítill eins og Sarkozy. Ég held líka að Guðlaugur sé miklu myndarlegri en Gaddafi í raunveruleikanum. Þetta kemur ekki nógu skýrt fram á myndinni. Gaddafi lítur út fyrir að vera kúl gæi með dökk sólgleraugu og biksvart hár á meðan Guðlaugur Þór er einhvern veginn eins og nýklipptur út úr greiningardeild, í gráum jakkafötum og rjóður í kinnum og eiginlega bara hálf sveitalegur við hliðina á Hollywoodlegum Gaddafi. Er ekki Gaddafi að nálgast sjötugt?
Félagi Ögmundur segist hafa meiri áhyggjur af því hvort meirihluti þingheims hafi yfirleitt lesið sjúkratryggingafrumvarpið (sem þau samþykktu í fyrradag sem landslög) heldur en hvort Guðlaugur sjáist á mynd með Gaddafi rétt eins og Sarkozy og allir hinir.
Í ljósi iðrunarleysis hef ég lagt til að hinn óforbetranlegi Ögmundur Jónasson skrái sig í Siðaskóla Sjálfstæðisflokksins og komi ekki þaðan út fyrr en hann er farinn að þekkja sín mörk. Hann spurði mig kvíðinn hverjir yrðu helstu kennarar í mannasiðum en ég sagði bara að slíkt mundi koma í ljós. Þeir væru án efa allir þaulreyndir.
Eitt verð ég þó að viðurkenna. Ég á eftir að sakna Ögmundar. Mér skilst að námið sé strangt með heimavist og öllu og fólk geti engu öðru sinnt á meðan. Þetta er synd fyrir okkur nánasta samstarfsfólk hans því hann gerir dagana okkar iðulega skemmtilegri og innihaldsríkari. Svo eru líka þó nokkuð margir í samfélaginu yfirleitt sem mega helst ekki við því að týna Ögmundi Jónassyni inn í völundarhús Siðareglna Sjálfstæðisflokksins. Fólk kemur iðulega aldrei aftur þaðan út.
Og þótt hann hafi ef til vill takmarkaðan fótóshopp-smekk að sumra mati þá verður þó að viðurkennast að hann hefur nokkuð áríðandi og mikilvægan málstað að verja. Ég veit að það er ekki í tísku frekar en hrukkur á mynd, en Ögmundur vill helst ekki að við séum seld. Allra síst vill hann að við séum ofurseld bókstafstrú Condoleezu og Bush um að allt, bókstaflega allt, sé til sölu í samfélaginu og eigi fyrst af öllu að rata beint í vasa einkavina. Hann stendur með hinum veikari, og það er hreint ekki í tísku.
En af því að hann er nú eins og hann er þá ætla ég að fyrirgefa Ögmundi fyrir Trípólí-tenginguna. Ég ætla meira að segja að fyrirgefa honum án þess að láta fúkyrðaflaum fylgja með, svona eins fylgir þegar Árni fyrirgefur Agnesi. Eins og dæmin sanna kann Sjálfstæðisflokkurinn öðrum fremur mannasiði, iðrun og fyrirgefningu, en við hin erum enn að læra og gengur hægt alltof hægt. Viðkvæmir eru því hvattir til þolinmæði.
Birtist í Viðskiptablaðinu 12. september 2008.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 11. september 2008
Skulu orð standa?
"Það er engin spurning um að þessi deila verður leyst. Það er tilboð á borðinu, mjög myndarlegt tilboð frá ríkinu... og ég efast ekkert um að ljósmæður og viðsemjendur ná saman eftir helgina... Það er enginn að tala um að þær eigi ekki að fá leiðréttingu."
Þetta sagði Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra í Silfri Egils á sunnudaginn.
Í gærkvöldi skall svo aftur á verkfall ljósmæðra. Formaður Ljósmæðrafélagsins segir ekkert nýtt útspil komið frá samninganefnd ríkisins, sama tilboð liggi á borðinu og fyrir hálfum mánuði síðan.
Gamla Kvennalistakonan Ingibjörg Sólrún hefur sig ekkert í frammi þegar kemur að litlu kvennastéttinni. Er hún týnd?
Ef þessi ríkisstjórn fæst að lokum til að standa við einn lítinn snefil af eigin stjórnarsáttmála og margítrekuðum loforðum þá gerir hún það sannarlega hvorki af reisn né af fyrra bragði. Hún gerir það nauðbeygð.
Ráðherrar! Gerið það nú í guðanna bænum fyrir samfélagið allt og áður en illa fer að mæta ljósmæðrum af sanngirni og létta áhyggjum af barnshafandi konum með því að standa við orð ykkar. Annað er óafsakanlegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 10. september 2008
Að setja lög og græða svo á þeim
Hvað finnst ykkur um þetta hér ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 10. september 2008
Hugtakið einkavæðing
Fylgismenn sjúkratryggingafrumvarpsins bregðast ókvæða við þegar bent er á þær dyr sem frumvarpið opnar á einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Minnihluta hefur verið legið á hálsi fyrir að nota orðið einkavæðing um það sem stjórnarliðar vilja frekar kalla einkarekstur og segja að eigi ekkert skylt við einkavæðingu.
Þessar deilur eru ekki til komnar að ástæðulausu. Það hentar stjórnvöldum einfaldlega betur að halda því fram að stjórnarflokkarnir séu eiginlega ekki að einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Slíkt er ekki endilega til vinsælda fallið og er enn viðkvæmara þegar kemur að rótgróinni grunnþjónustu íslenska velferðarkerfisins á borð við heilbrigðisþjónustu og menntun.
Í þessari orðræðu hefur oft verið vísað til þess að Íslendingar búi nú þegar við heilmikinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Þar er vitnað til sjálfstætt starfandi sérfræðinga og sjálfseignarstofnana, samtök, félög sjúklinga og aðstandenda, þ.e. félög án arðsemiskröfu (svokallaðra non-profit félaga), eins og DAS/Hrafnistu, SÍBS/Reykjalund o.s.frv.
VG hefur ítrekað bent á að það er langur vegur milli þess konar rekstrarforms annars vegar, þar sem allur ágóði sem til kann að verða fer aftur til baka inn í reksturinn til að bæta þjónustuna, og hins vegar einkarekstrar sem miðar að því að fá arð út úr rekstri heilbrigðis- eða öldrunarstofnana. Á þessu er grundvallarmunur - non-profit einkarekstur er einfaldlega allt annað en einkarekstur gróðans.
Í þessu samhengi er aftur vert að benda á umsögn Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors við Háskóla Íslands, en hann hefur ítrekað bent á skilgreiningu fræðimanna á hugtakinu einkavæðing. Í umsögn Rúnars segir m.a.:
Einkavæðing heilbrigðisþjónustu er yfirhugtak sem felur í sér eitt eða fleira af eftirfarandi:
a) Eignatilfærsla (sala eða afhending opinberra stofnana, opinberra fyrirtækja eða annarra opinberra eigna til einkaaðila). b) Tilfærsla á rekstri (frá hinu opinbera til einkaaðila, sbr. einkaframkvæmd). c) Tilfærsla á fjármögnun (þar sem einkafjármögnun kemur að hluta eða öllu leyti í stað opinberrar fjármögnunar áður).
Rekstrartilfærsla (svo sem einkaframkvæmd) í heilbrigðisþjónustu er sem sagt órjúfanlegur hluti einkavæðingar og jafnframt stórt heilsupólitískt málefni, en ekki bara eitthvert tæknilegt eða praktískt mál, eins og sumir stjórnmálamenn hafa haldið fram. Ástæðan er m.a. sú að aukinn einkarekstur heilbrigðisþjónustu dregur sjálfkrafa úr rekstrarlegri ábyrgð hins opinbera, (rekstrarleg ábyrgð hins opinbera er mest þegar hið opinbera annast sjálft rekstur þjónustunnar), auk þess sem einkareknar einingar (í hagnaðarrekstri) hafa tilhneigingu til að vera kostnaðarsamari (sjá síðar), og þjappa sér saman í þéttbýli (einkum efnalega betur stæðu þéttbýli) umfram opinbert reknar einingar. Þá getur reynst erfiðara að koma við heildstæðri og samfelldri heilbrigðisþjónustu gegnum einkareknar einingar vegna þess m.a. að þær beinast einkum að hinum ábatasamari þáttum heilbrigðisþjónustunnar og eru gjarnan í samkeppni um sjúklinga hver við aðra og við opinberar rekstrareinginar. Niðurstaðan getur orðið brotakennd og ósamfelld þjónusta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 9. september 2008
Fé skattborgara notað til að borga einkagróða
Í umsögn prófessors Rúnars Vilhjálmssonar um "sjúkratryggingafrumvarp" Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem planið er að afgreiða í einum grænum frá Alþingi í dag og á morgun segir meðal annars:
Fyrirliggjandi frumvarp til laga um sjúkratryggingar felur m.a. í sér að komið er upp sjúkratryggingastofnun til að semja um eða bjóða út heilbrigðisþjónustu á markaði gagnvart stofnunum og smærri aðilum. Þar með eru stjórntæki til einkavæðingar heilbrigðisþjónustu stórlega efld að því er varðar lið 2b
og: bendir allt til að frumvarpið muni leiða til aukins heildarkostnaðar við heilbrigðisþjónustuna á Íslandi.
Hægt er að lesa umsögnina alla hér.
Rúnar er prófessor og sérfræðingur - ekki stjórnmálamaður. Hann er sérfræðingur rétt eins og Allyson Pollock og Göran Dahlgren. Ég hvet ykkur eindregið til að lesa erindi þeirra sem nú hafa verið gefin út í bæklingi. Hér er Pollock og hér er Dahlgren.
Ég veit ekki til þess að nokkurt af þeim sé vinstrigrænt, og ég veit heldur ekki til þess að þau séu ungir jafnaðarmenn, heldur eru þau sérfræðingar og fagmenn á sínu sviði. Sjálfstæðisflokki finnst afleitt að vitna í fagfólk sem ekki eru á þeirra línu - hinni blindu bókstafstrú einkavæðingar.
Eða eigum við að segja einkavinavæðingar? Hverjir eru sérfræðingar okkar þar?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)