Markaðsvæðing heilbrigðisþjónustunnar

Það hlýtur að teljast afar áhugaverð frétt að þjóðnýting í Bandaríkjunum orsaki mikla hækkun á hlutabréfamörkuðum um allan heim. Sjá hér

Er svanasöngur nýfrjálshyggjunnar hafinn?

 

Því miður hafa fréttirnar ekki alveg náð til Íslands ennþá. Við ætlum m.a. að herma eftir einkavæðingarstefnu Margrétar Thatcher frá því fyrir 18 árum síðan og markaðsvæða heilbrigðiskerfið okkar. Frumvarp til sjúkratrygginga verður lagt fram í þinginu á morgun - a la Thatcher. 

 

Ég er orðin virkilega þreytt á því að sagt sé að þetta sé "ekki einkavæðing". Þetta býður upp á einkavæðingu samkvæmt öllum fræðilegum skilgreiningum á því fyrirbæri. Ef það hentar ekki stjórnmálamönnum að nota réttu orðin yfir það sem þeir eru að gera þá er það þeirra vandamál - fræðileg hugtök eru fræðileg hugtök og annað er blekkingarleikur. Nú stendur til að einkavæða íslenska heilbrigðiskerfið. Kemur slíkt á óvart þegar Sjálfstæðisflokkurinn á í hlut?! 

 

Það er sagt að við séum hér að herma eftir Svíum. Er það já? Og eftir hverjum hermdu Svíar? Jú, Bretum. Og eftir hverjum tók Thatcher? Kannski Chicago School of Economics, vöggu nýfrjálshyggjunnar í Ameríku? Og eftir hverjum tók Blair?!

 

Áhrifin af þessum breytingum í Bretlandi hafa verið greind með ítarlegum hætti af fræðimönnum.

 

Afleiðingarnar eru vægast sagt ömurlegar.

 

Hvar er alvöru umræða um þessi mál?


Frá Sveini Víkingi til Árna Matt

Í ritröðinni “Íslenzkar ljósmæður. Æviþættir og endurminningar” skrifar séra Sveinn Víkingur árið 1962:

                   “… konur hafa veitt aðstoð og hjálp við fæðingar hér allt frá landnámsöld og til þess einkum valizt þær konur, er öðrum voru fremri að handlagni, nærgætni og fórnarlund… um nafnlausa minningu þeirra leikur fögur birta, ekki síður en um heitið sem þeim var valið – ljósmóðir.“ Í aðdáun bætir Sveinn við að ljósmæður hafi, „í kyrrþey og án tillits til launa“, lagt fram „sérstakan og ómetanlegan skerf til íslenzks líknarstarfs og menningar.”

                    Þessi litla og magnaða stétt er nú risin upp í einhuga samstöðu, eftir langlundargeð og biðlund í gegnum árin, áratugina og aldirnar. Fyrsta verkfall íslenskra ljósmæðra frá upphafi er staðreynd. Uppsagnir um helmings ljósmæðra taka gildi um næstu mánaðamót. Þrátt fyrir að samningar takist getur verið að fyrir sumar sé það oft seint, þær hafa ráðið sig annað. Ef ekkert er hins vegar að gert er elsta fagstétt íslenskra kvenna að hruni komin. Gera ráðamenn sér grein fyrir alvöru málsins?

                    Frá stofnun Ljósmæðrafélags Íslands, sem á næsta ári fagnar 90 ára afmæli, var markmið félagsins að sjálfsögðu að standa að launa- og réttindabaráttu ljósmæðra, enda ekki vanþörf á. En hitt ber að hafa í huga að Ljósmæðrafélagið hafði frá upphafi mikinn metnað í að bæta menntun og þjálfun ljósmæðra og var því  ekki síður umhugað um skyldur ljósmæðra við samfélagið allt. Þar hefur til tekist framúrskarandi vel, öllum barnshafandi konum og fjölskyldum þeirra til heilla.

                    Menntun ljósmæðra á Íslandi er ein sú besta á byggðu bóli. Bakgrunnur þeirra er 6 ára háskólanám, og flestar hafa auk þess starfsreynslu við hjúkrunarstörf áður en þær hefja framhaldsnám í ljósmóðurfræðum. Með sanni má segja að ljósmæður hafi sýnt óheyrilega biðlund í að kjör þeirra séu leiðrétt. Um leið hafa þær verið sérlega framsæknar og duglegar við að afla sér frekari þekkingar, víðtækrar reynslu og færni. Þær eru ein af lykilstéttum heilbrigðisþjónustu sem státar hér af lægsta ungbarnadauða í heimi og mæðravernd eins og hún gerist best. 

                    Ljósmæður fortíðar unnu þrekvirki í okkar strjálbýla landi og þjóðin öll á ljósmæðrum í nútíð og fortíð skuld að gjalda. Framtíðin mun ekki bera þess bætur ef við greiðum ekki þá skuld nú þegar, þótt víst sé að hún verði aldrei öll gerð upp sem skyldi. Á hverjum degi bera ljósmæður tvö mannslíf í hendi sér og  taka á móti stórfenglegustu stund allra mæðra og feðra. Þær hjálpa okkur í heiminn. Ábyrgð hverra er meiri? 

                    Það á ekki að þurfa að nauðbeygja stjórnvöld til að efna eigin loforð. Nú er tækifæri fyrir ríkisstjórnina til að ganga fram fyrir skjöldu og koma fram af reisn. Ef við sem samfélag ráðum ekki við þetta verkefni, við hvað ráðum við þá?

Birtist í Morgunblaðinu 6. september 2008.


Samstaða með ljósmæðrum

Takk Lára Hanna fyrir öll myndböndin þín og færslur... Svo getið þið líka lesið Moggagreinar dagsins hér.

Og Fréttablaðsgrein dagsins er hér. Hann Jón vinur minn Bjarnason sem alltaf getur komið mér í gott skap hefur lengi verið svo heitur í ljósmæðradeilunni að við í kringum hann leiðum nú að því líkur að hann sé orðinn ófrískur. Það fer honum vel eins og margt annað - lesið greinina hans! 

Sjáumst svo á Austurvelli á morgun kl. 12.15 !


Þjóðin styður ljósmæður


Þjóðin styður ljósmæður
Austurvelli, föstudaginn 5. september kl. 12.15

Verkfall ljósmæðra er skollið á. Ríkisstjórnin axlar ekki ábyrgð og gerir þar með yfirlýsingar og fyrirheit að engu. Stjórnarsáttmálinn er marklaust plagg. Þarfir barnshafandi kvenna skipta ekki máli og störf ljósmæðra eru lítils virði.

Þó málið varði fyrst og fremst barnshafandi konur og hið nýja líf sem þær bera í skauti sér, þá snúast störf ljósmæðra um framtíð þessa lands í heild sinni. Ekkert er mikilvægara en endurnýjun þjóðarinnar. Til að hún geti orðið með eðlilegum hætti verður að tryggja þjónustu ljósmæðra og að störf þeirra og ábyrgð séu metin að verðleikum.

Ljóst er að þjóðin stendur með ljósmæðrum. Kennarar, hjúkrunarfræðingar, læknar og flugfreyjur hafa sent frá sér stuðningsyfirlýsingar, auk fjölda félaga- og hagsmunasamtaka. Fram til þessa hafa konur á barneignaraldri verið í framvarðarsveit stuðningsfólks sem er eðlilegt. Nú er þó svo komið að þjóðin öll verður að láta í sér heyra.

Mætum á Austurvöll kl. 12.15 og styðjum kjarabaráttu ljósmæðra.


Fjögur atriði fyrir fríið

Ég er að fara í frí - verð tölvulaus og allslaus í nokkurn tíma. Áður en ég fer bara nokkur atriði: 

Fyrsta atriði: Hér er undirskriftalisti til stuðnings við Paul Ramses og fjölskyldu hans, ekki láta undir höfuð leggjast að skrifa undir:

http://www.thepetitionsite.com/1/PaulRamses

Mótmælastaða heldur áfram kl. 12 á morgun og fimmtudag fyrir framan dómsmálaráðuneytið. Góð stund - ekki bara í þágu Paul Ramses og fjölskyldu heldur hælisleitenda almennt.  

Annað atriði: Forsætisráðherra sagði í dag þegar stuðningsfólk ljósmæðra fór fram á að staðið yrði við gefin loforð stjórnarsáttmálans til handa kvenna- og umönnunarstéttum að mál ljósmæðra yrðu "ekki leyst á þessum tröppum hér" - þ.e. stjórnarráðsins. Þetta er rangt. Þau verða einmitt leyst þarna og bara þarna. Ríkið semur í umboði stjórnvalda - grænt ljós til alvöru samninga þarf að koma frá tröppunum. 

Þriðja atriði: Það er misskilningur hjá viðskiptaráðherra og fleirum sem tala í hverjum einasta fréttatíma að við getum bara sisvona stokkið út í búð og svissað yfir í evru og ESB eins og ekkert sé, akradakabra og allt í gúddí. Hvert svo sem fólk vill stefna þurfum við fyrst að taka til heima hjá okkur og það er engin leið undan því - ekki einu sinni fyrir galdramenn á tröppum. (M.ö.o: kominn tími á nýja frétt og kominn tími á að taka til hendinni.)

Fjórða atriði: Lífið er hverfult og hamingjan enn frekar, njótið sólarinnar og blíðunnar. Ég er farin í sumarfrí!


Samstaða með ljósmæðrum í fyrramálið kl. 9.15

Það er í nógu að snúast þessa dagana við að veita aðhald gegn hinum ólíklegustu uppákomum valdakerfisins á ýmsustu vígstöðvum. Nú hafa vaskar konur tekið sig til og boða til samstöðu með ljósmæðrum við stjórnarráðið í fyrramálið kl. 9.15. Þess eins er krafist að staðið verði við gefin loforð - margítrekuð og margendurtekin loforð stjórnvalda til kvenna- og umönnunarstétta.

Hér er tilkynning sem ég var að fá í hendur:   Ljósmæðrafélag Íslands hefur farið fram á það við ríkisstjórnina að laun þeirra verði leiðrétt til samræmis við laun annarra háskólastétta með sambærilega menntun. Flótti hefur verið úr stéttinni að undanförnu og nýliðun ekki nægileg. Fjöldauppsagnir eru í farvatninu og líðan og öryggi fæðandi kvenna í uppnámi.  Ljósmæður þjónusta konur og börn á mikilvægustu augnablikum lífsins. Launakjör þeirra eru til marks um að hvorki þarfir né störf kvenna séu metin að verðleikum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er því lofað að kjör kvenna hjá hinu opinbera verði endurmetin, einkum hjá þeim stéttum þar sem konur eru í miklum meirihluta. Ljósmæður eru eingöngu konur – sem hlúa að fæðandi konum, ungbörnum og verðandi foreldrum.  

Samstaða við stjórnarráðið, þriðjudaginn 8. júlí, kl. 9.15.

Mætum!!!


Hótel Glymur í dag

Í dag milli kl. 14 og 18 er hátíð á Hótel Glym, Hvalfirði, þar sem öll innkoma af kaffihlaðborði og listaverkauppboði rennur beint í söfnun til styrktar Guðmundi á Finnbogastöðum. Guðmundur missti allt sitt þegar Finnbogastaðir í Árneshreppi á Ströndum brunnu til kaldra kola á dögunum.

Nánar er hægt að lesa um söfnunina og fleira á trekyllisvik.blog.is.

Eftirfarandi frétt er tekin þaðan:

Mundi og Písl "Ég fer suður á morgun og hlakka mikið til sunnudagsins," sagði Mundi á Finnbogastöðum um leið og hann klóraði Písl á bakvið eyrað.

Læðan Písl, sem orðin er 18 ára, býr nú í gamla fjósinu á Finnbogastöðum, meðan hún bíður eftir að nýtt íbúðarhús rísi.

Guðmundur sagðist orðlaus yfir þeim mikla velvilja, vináttu og stuðningi sem hann hefði fundið eftir brunann ógurlega 16. júní.

Við hvetjum alla sem vettlingi valda að koma í Hótel Glym í dag, milli 14 og 18. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Hótel Glymur stendur á frábærum útsýnisstað í kjarri vaxinni hlíðinni ofan við Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd, rétt vestan við Ferstiklu. Það tekur um 40 mínútur að keyra frá Reykjavík að Hótel Glym með því að fara Hvalfjarðargöngin en um það bil 1 klukkustund og 10 mínútur að keyra Hvalfjörðinn.

Við minnum á söfnun Félags Árneshreppsbúa til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum. Reikningsnúmer: 1161-26-001050 Kennitala: 4510892509.


Mannúð í millilendingu

Fídel Smári sonur Rosemary og Pauls fæddist á Landspítalanum í Reykjavík fyrir nokkrum vikum. Hann er myndardrengur. Íslensk ljósmóðir tók á móti honum í þennan heim, áður en hún sagði upp starfi sínu vegna svikinna loforða um bættan hag kvennastétta.

Nú er spurningin: Hvenær ætla yfirvöld að vísa Fídel Smára, 5 vikna, úr landi? Í dag, á morgun, í næstu viku? Og þá hvert?

Að því er best verður skilið var föður Fídels Smára, Paul Ramses, vísað af landi brott án mikils fyrirvara eða undirbúnings fyrir hann og fjölskylduna. Hann virtist í það minnsta grandalaus í þeirri trú að alvarlegt mál hans væri í vandvirku umsækjendaferli hérlendis. Í vikunni var Paul svo nauðugur á leið í ítalskar hælisleitendabúðir af því hann millilenti á Ítalíu á leið til Íslands og fékk þar vegabréfsáritun. Já, það getur reynst afdrifaríkt að millilenda ef maður er á flótta. Hvar millilenti mamman áður en hún fékk dvalarleyfi í Svíþjóð? En Fídel Smári?

Fídel Smári millilenti hvergi. Hann lenti beint á Íslandi þegar hann fæddist. Fjölskylduvæn millilendingarstefna undir yfirskini Schengen getur varla sent Fídel Smára aftur til baka á annan stað en Landspítalann. Eða hvað?

Paul á íslenska vini og kunningja og kom fyrst til landsins árið 2005. Paul hefur unnið að ýmsum uppbyggingarstörfum í Kenía og líf hans er nú í hættu, en alda ofbeldis og ofsókna hefur herjað í landinu.

Hvernig er í raun hægt að réttlæta þessa meðferð á Paul og fjölskyldu hans? Hvað knúði á? Og hvenær á yfirleitt að bæta úr aðstæðum og málsmeðferð hælisleitenda hérlendis? Þess er knýjandi þörf, umbúða- og millilendingarlaust.

Sumt er löglaust og siðlaust. Annað er löglegt en siðlaust. Svo er til enn annað sem er hvort tveggja í senn: löglegt og siðlegt.

Íslensk stjórnvöld gátu hæglega tekið umsókn Paul Ramses efnislega fyrir og leyft honum að dvelja hér áfram ásamt eiginkonu og nýfæddum syni á meðan málið væri kannað frekar með góðum vilja. Yfirvöldum var í sjálfsvald sett að vera þar bæði lögleg og siðleg.

Í millitíðinni hefði Paul Ramses getað verið hlíft við þeim “hreinsunum” sem nú standa yfir á Ítalíu gagnvart “ólöglegum innflytjendum” í stað þess að vera sendur beint í þann úfna faðm. Honum hefði einnig getað verið bjargað frá nöturlegum hælisleitendabúðum sem hafa verið harðlega gagnrýndar fyrir slæman aðbúnað.

Vonandi verður mömmu og syni ekki vísað lengra í burtu en á fæðingarstaðinn við Hringbraut og faðirinn kallaður aftur heim til lendingar. Það er jú hægt að halda því fram með einhverjum rökum að það hafi verið við Hringbraut sem fjölskyldan unga leit dagsins ljós og “lenti beint” á Íslandi. Mannúð millilendir ekki, og fjölskylda er fjölskylda.

Birtist í Morgunblaðinu 5. júlí 2008.


Mótmæli kl. 12-13 í dag

Atieno með Fidel, mánaðargamlan son hennar og Pauls

Fídel Smári fæddist fyrir nokkrum vikum á Landspítalanum í Reykjavík. Pabbi hans, Paul, hefur m.a. starfað með ABC-barnahjálp og tekið þátt í að stofna skóla með Íslendingum í Kenía, verkefni sem var þá stutt af íslenska utanríkisráðuneytinu.

Hann bauð sig fram til borgarstjórnarkosninga í heimalandinu og líf hans er í hættu fyrir vikið.

Og nú eru Íslendingar eins og alþjóð veit búin að stía fjölskyldunni í sundur og senda Paul fyrirvaralaust úr landi í lögreglufylgd.

Við erum ekki í lagi.

Eða nákvæmlega hvaða ítarlegu skýringar hafa verið gefnar hingað til á þessu framferði yfirvalda? Hvað knúði á um að svona yrði komið fram? Engin sannfærandi rök liggja fyrir - hvenær fáum við þau? 

Kl. 12-13 í dag er mótmælastaða fyrir framan dómsmálaráðuneytið.


Að mótmæla sjálfum sér og þakka í senn

Hér er hægt að smella ef ykkur leiðist.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband