Fullt af gleði og vilja uppvaxtaráranna?

"Ég spyr, áttum við ekki að hafa eitthvað út úr þessum framkvæmdum öllum, átti svæðið ekki að vaxa og dafna? Það má með sanni segja að uppgangur og fólksfjölgun hafa ekki aukist með tilkomu stóriðjunnar á Austurlandi. Ástandið er verra ef eitthvað er, flest af því sem álverið átti að bjarga er á niðurleið. Ég segi það allavega fyrir mitt leyti að koma heim núna er ekki eins og það var. Neikvæðni og almenn óánægja ríkir á staðnum og andrúmsloftið er ekki fullt af gleði og vilja eins og ég man eftir á mínum uppvaxtarárum."

Þetta skrifar Hildur Evlalía Unnarsdóttir í eftirtektarverðri grein í Morgunblaðinu í gær.

Allir héldu alltaf að allir hefðu lært eitthvað af hruni gamla Sovéts. En draugurinn gengur alltaf aftur, bara undir nýjum formerkjum. Risa-Galdralausn-Ríkisins er í boði hverra í dag?

Hér er hægt að lesa grein Hildar.


Tími ljósmæðra er kominn

500 milljarðar fyrir einkavæddu bankana sem græða fyrir hluthafana, ekkert mál. Fleiri hundruð milljónir fyrir hégómlega umsókn að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, ekkert mál. Eilífar brosandi ferðir um allan heim með dagpeningum, fylgdarliði og sóun, ekkert mál. Varnarmálastofnun og hernaðarútgjöld upp á að ganga 2 milljarða, ekkert mál.

En að bæta hag 200 ljósmæðra í landinu? Leiðrétta kjör þeirra eftir 6 ára háskólanám? Standa við gefin loforð?

Nei, þar er farið yfir strikið.

Allar ljósmæður eru hjúkrunarfræðingar. Eftir fjögurra ára hjúkrunarfræðinám fara þær að vinna við hjúkrun. Svo ákveða þær að fara í tveggja ára framhaldsnám til að vera ljósmæður. Þær útskrifast sem ljósmæður og byrja að vinna sem slíkar.

Og hvað gerist? Þær lækka í launum!

Guðlaug Einarsdóttir formaður Ljósmæðrafélags Íslands útskýrði þetta á yfirvegaðan hátt í Kastljósinu í gær:

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4365711

Hvað hefði gamli góði Kvennalistinn sagt - eða eru gamlar góðar Kvennalistakonur löngu búnar að svíkja allt sem þær stóðu fyrir og komnar í lið með hinum?


Að eiga góða granna

Einn minna góðu nágranna á Vesturgötu heitir Lára Hanna. Hún er dugnaðarforkur. Hún vinnur fulla vinnu og ábyggilega miklu meira en það en er um leið eitilhörð baráttukona fyrir betra samfélagi (í öllum sínum frítíma ímynda ég mér!).

Vesturgatan er afskaplega heppin að hún skuli búa einmitt á þeirri götu af því að hún berst með kjafti og klóm fyrir því að hún sé ekki eyðilögð með einhverju rugli - og treystið mér, það er yfirfullt af rugl-hugmyndum hér og allt um kring. Stundum held ég að púkar heimsins geri sér leik að því í hjáverkum að blása fólk yfirfullt af slæmum hugmyndum í skipulagsmálum. Svo sitja púkarnir hjá og hlæja að ruglinu sem kemst til framkvæmda.

Lára Hanna virðist engan áhuga hafa á að fara út í pólitík (lái henni hver sem vill) en hún lætur sig samfélagið varða og tekur virkan þátt í að gera það betra. Hún tekur sjálf til hendinni og tekur til sinna ráða: Einstaklingsframtakið í sinni bestu mynd. Við þurfum fleiri Láru Hönnur!

Mér finnst alltaf jafn broslegt þegar trúboðar frjálshyggjunnar tala með tár í augum um guðdóm þess og dýrð að samfélagið eignist fleiri auðjöfra. Svona svo brauðmolarnir hrökkvi til okkar hinna litla fólksins af leifum einkaþotanna - hvar eru þeir nú, blessaðir molarnir?

Ég vil að við eignumst fleiri Lárur.

Ég er sem sagt að drekka morgunkaffið mitt og horfa út um eldhúsgluggann - og horfi einmitt beint á eldhúsgluggann hennar Láru Hönnu nágranna... Hér eru myndböndin hennar, pistlar, músík og fleira til:

http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/


Húrra fyrir Spáni

Já, ég ætla bara að viðurkenna það: Ég á pínulítið eftir að sakna EM í fótbolta - þótt um leið sé ég fegin að málið er dautt. Ég var rosalega ánægð að Spánverjar skyldu vinna. Ég hélt reyndar aðallega með Tyrkjum og pínulítið líka með Portúgal en líka með Spánverjum, alltaf gott að hafa þrjá í takinu... svo þetta fór nú allt vel að lokum. Ég hrópaði og kallaði í úrslitaleiknum, spænsk í gegn.

Mér fannst Þorsteinn J. gera þættina mjög skemmtilega og fá til sín góða gesti. Held meira að segja að ég viti meira um fótbolta í dag en í gær, sem hlýtur að gera mig að enn betri aðdáanda íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta. Sem sagt: takk fyrir skemmtunina!


Reykás handa hræddri þjóð

Ragnar Reykás segir alltaf það sem fólk vill heyra.

Hann byrjar öll viðtöl á hástemmdum yfirlýsingum um ígrundaðar skoðanir sínar á líðandi stund. Fimm mínútum seinna er hann svo kominn á öndverða skoðun og talar jafnstoltur og sannfærður og áður. Korteri seinna er hann kominn annan hring.

Einn daginn er Reykás á móti álverum, næsta dag fylgjandi. Einn daginn er Reykás á móti einkavæðingu, næsta dag fylgjandi. Einn daginn er Reykás höfuðandstæðingur, næsta dag besti vinur. Einn daginn talar Reykás fyrir umönnunarstéttum, næsta dag fyrir auðjöfrum.

"Ég vil vernda Þjórsá!" hrópar Reykás. Svo tekur hann glaðbeittur skóflustungur og skrifar undir samninga. "Ég berst gegn spillingu!" hrópar Reykás. Svo ræður hann vini og flokksbræður í öll störf og nefndir. "Ég er á móti eftirlaunafrumvörpum!" hrópar Reykás. Svo byrjar hann að skjálfa. "Ég er á móti hrefnuveiðum!" hrópar Reykás. Svo halda veiðarnar áfram. "Ég vil rannsókn" hrópar Reykás og allt ætlar um koll að keyra. "Hvílíkt hugrekki! Hann talar! Og það með stóra bróður við hlið sér!" Svo verður engin rannsókn. "Ég er friðarsinni" hrópar Reykás. Svo býr hann til varnarmálastofnun þar sem millljarðarnir flæða. Það eru víst þannig útgjöld sem mest þarf á að halda í kreppunni.

Það er þó eitt mál þar sem Reykás sýnir staðfestu: Hann vill ganga í Evrópusambandið.

Og þó. Ekki einu sinni þar er hann allur þar sem hann er séður. Fyrir kosningar gleymist allt í einu að setja aðild að ESB á dagskrá. Málinu er snyrtilega ýtt til hliðar og vart á það minnst þegar það er ekki alveg í tísku. Best að herma frekar eftir hinum: Lofa kraftaverkum í velferðarmálum, stóriðjuhléi, stöðugleika í efnahag, barnvænu samfélagi, félagshyggju.

"Nei, nei, nei, nei, nei! Þetta er ekki einkavæðing! Þetta er ekki einkavæðing!" hrópar Reykás á hverjum degi á meðan glimrandi samvinna tekst með stóra bróður um að gera gallað heilbrigðiskerfi enn verra fyrir þorra almennings en betra fyrir þá sem vilja græða.

En enn er von: Þótt Reykás sé áhrifagjarn og agnarsmár, og röddin sé margfalt skrækari, háværari og ákveðnari en innistæða er fyrir, þá hefur hann vissulega tiltekna kosti. Það er hægt að treysta þvi að hann sé alltaf tækifærissinnaður, alltaf teygjanlegur og sveigjanlegur í verki þótt orðin segi annað. Með betri félagsskap gæti hann því hugsanlega gert ágæta hluti og snúið í allt annan hring.

Ragnar Reykás mun án efa fjölmenna á tónleikana í Laugardalnum í dag til verndar náttúru Íslands. Hann mun slá um sig og klappa og kinka kolli til viðstaddra og brosa og jafnvel hrópa húrrahróp á réttum stöðum þótt líklega skilji hann samviskuna eftir heima.

Á mánudag mætir hann svo glaðbeittur í vinnuna og skrifar upp á fleiri virkjanir og álver.

Ragnar Reykás: Stjórnmálaafl handa hræddri þjóð.

Birtist í Morgunblaðinu 28. júní 2008.


Endurkoman, Taka II

Komin aftur á bloggið! Já, vegna fjölda áskorana í sólinni! Cool 

Veit reyndar ekki alveg hversu dugleg ég verð að láta vita af mér hér yfir hásumartímann, ætla mér að vera mest á fjöllum í júlí og firnindum, en byrja altént á því að hlaða hér inn blaðagreinarnar mínar. Þær eru nú orðnar allmargar blessaðar svo ekki seinna vænna að byrja að skrá þær hér á veraldarvefinn.

Megi Spánn sigra á EM í dag!

Mæli svo með sjónarpslausum júlí - valfrjálsum það er.


Ekki jafn pínlegt og gleðilegt kínverskt ár rottunnar

 

Vini mínum einum finnst leiðinlegt að það standi ennþá "Gleðileg jól" á bloggsíðunni minni. Þótt hann segi að það styttist óðum í næstu jól og því sé þetta minna pínlegt með hverjum deginum þá ætla ég samt að létta honum lund og setja inn nýja færslu.

Í staðinn óska ég ykkur gleðilegs nýs árs og gæfuríks. Janúar er rétt nýliðinn en ég kannast við fleiri en einn sem vildu gjarnan banna þann mánuð og strika hann út af almanakinu. Nú er það orðið óþarfi af því að hann er að baki, sól hækkar og göfug markmið nást með nýja árið rétt að komast í ham. 

Ég býst við að vera í áframhaldandi fríi frá bloggi enn um sinn en bið ykkur vel að lifa!


Gleðileg jól!

Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vona að þið hafið það sem allra best yfir hátíðarnar.


Ef það var nóg handa...

 


Hvað hverfur? Hver svarar?

 

"Horfinn Búðafoss í Þjórsá? Horfinn Urriðafoss í Þjórsá? Sokkin Hagaey, hólmar og flúðir í Þjórsá? Tæmdur árfarvegur neðan stíflna í Þjórsá? Sokknar jarðir meðfram Þjórsá? Sokkin híbýli bónda á bökkum Þjórsár? Tuttugu og sjö milljón tonn af vatni ofan stíflugarða Þjórsár á hripleku sprungusvæði Suðurlandsskjálfta? Hækkuð grunnvatnsstaða sem setur sveitir á flot við Þjórsá? Fuglalífi eytt við Þjórsá? Gengd 6.000 laxa á ári upp Þjórsá tortímt? Hrygningarstöðvar þorsks undan ósum Þjórsár í hættu? Lífríki við Þjórsá í víðasta skilningi þess orðs stórskaðað? Útsýni og fegurð Þjórsár í byggð horfin og aldrei endurheimt?...

Fornminjar, m.a. ævaforn þingstaður og vöð í Þjórsá síðan um landnám, glataðar? Stórfelld rýrnun starfsgrundvallar og jarðahlunninda við Þjórsá og þá tekjumöguleika? Aðrar hugmyndir og atvinnutækifæri en virkjanir í Þjórsá burtreka? Stórfellt rask og sjónmengun við Þjórsá uppúr og niðrúr vegna vegalagninga? Þjórsá afgirt og viðvörunarflautur pípa? Friður og samkomulag í sveitum meðfram Þjórsá einskis virði?"

Svona spurði Kristín Guðmundsdóttir uppalin við Þjórsá í vor.

Ég er að vonast til þess að einhver ábyrgur gefi landsmönnum þá jólagjöf að svara. Og þá er ég ekki að meina að Landsvirkjun svari, ég er að meina að eigendur Landsvirkjunar svari - hverju svara þau? Eða eru allir þægilega búnir að gleyma því hver það er sem á Landsvirkjun?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband