Föstudagur, 10. október 2008
Má biðja griða?
Stundum skiptir pólitík ekki öllu máli í pólitík. Þegar raunsönn krísa kemur upp hjá heilli þjóð og hver klukkutími telur þá skiptir ekki bara máli hvaðan fólk kemur, frá hægri eða vinstri á skala stjórnmálanna.
Þá skiptir mestu máli að fólk hugsi skýrt, sé vel að sér, kunni að bregðast við, hratt og vel, skilji á milli aðalatriða og aukaatriða og umfram allt, þori að taka ákvarðanir og framfylgja þeim af festu. Og þá skiptir sannarlega máli að fólk hafi til að bera visku til að skynja hætturnar í stöðunni og forðast þær eins og heitan eld um leið og unnið er hratt. Til þess þarf samstilltan hóp.
Á þeim örlagaríku dögum sem við nú lifum hafa íslensk stjórnvöld klúðrað málum svo svakalega með flumbrugangi, fávisku og forystuleysi að mann setur bæði hljóðan og hryggan. Í viðkvæmri stöðu létu bæði ráðherrar ríkisstjórnarinnar og Seðlabankastjóri stórhættuleg orð falla á einn veg, og á annan veg gáfu stjórnvöld um leið óljós, óskýr og misvísandi skilaboð sem ýtt hafa undir glundroða. Einn daginn þarf engan aðgerðapakka og þann næsta þarf neyðarlög. Stjórnleysið er algjört. Það er hrópað að allir séu á sama báti en nei, það eru ekki allir á sama báti. Sumir bera ábyrgð og hana skulu þeir axla.
Hvers vegna var ekki endanlega gengið frá Glitnismálum á mánudagsnótt? Hvers vegna voru Bretar látnir halda að Íslendingar ætluðu ekki að standa við skuldbindingar sínar í Ice-Save? Hvað sagði Árni Matt við fjármálaráðherra Breta sem lét hann halda að sparifjáreigendur yrðu sviknir, og hvað sagði Geir við erlenda blaðamenn? Hvaða þrugl var þetta um gömlu vinina og nýju vinina og finnst Össuri Skarphéðinssyni við hæfi að gefa erlendum ríkjum fingurinn við svona aðstæður? Og hvernig kórónaði Seðlabankastjóri svo málið í Kastljósi?
Það hlaut að liggja kristaltært fyrir í huga ráðamanna að ef ekki væri dregin víglína og strax gefin út skýr skilaboð þá mundi Kaupþing falla með Landsbankanum. Í stað ábyrgðar var æru Íslendinga velt upp úr svaðinu og Bretar látnir halda að í engu yrði staðið við skuldbindingar. Ljóst var að slíkt hlyti að gera út af við Kaupþing, og það varð úr.
Nú skal enginn misskilja mig. Ólíkt öðrum í múgsefjunar- og hópsálarmennsku íslenskra stjórnmála tækifærismennskunnar höfum við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði alltaf gagnrýnt harðlega hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna. Við höfum mótmælt af festu því reglugerðarleysi og tómarúmi sem fjármálastofnanir fengu að svamla í og borið upp ítrekaðar og vandaðar tillögur um úrbætur um endurreisn efnahagsmála. Forystufólk VG fékk á sig óheyrilegar ákúrur fyrir að voga sér að ráðast gegn ofurlaunum og sjálftöku. Þotuliðið og nýfrjálshyggjan hefur skilið eftir sig svo sviðna jörð að þar mun ekkert heilt gróa um langa hríð.
En keðjuverkanir blindni og klúðurs af hálfu stjórnvalda eru gríðarlega afdrifaríkar og þyngri en tárum taki. Þær munu nú gróflega skerða lífskjör Íslendinga næstu árin og jafnvel áratugina. Sumir hafa misst ævisparnaðinn, aðrir kvíða því að missa vinnuna, vel rekin fyrirtæki stefna í þrot.
Nú reynir ríkisstjórnin sem mest hún má að hvítþvo sig af gjörningunum öllum. Þetta er víst allt bara Davíð Oddssyni að kenna. Áhættufíklarnir sem aðrir eru jafnvel farnir að stilla sér upp sem fórnarlömbum gagnvart hinum illa Davíð. Samfylkingin fer hér mikinn í orði en minna í verki. Ég spyr: Í umboði hverra er Sjálfstæðisflokkurinn við völd? Nákvæmlega hver er vinnuveitandi Davíðs Oddssonar? Og hver setur honum starfsreglurnar? Er það kannski Samfylkingin, einmitt sú Samfylking sem enn heldur Sjálfstæðisflokknum við völd logandi stafna á milli og sótsvörtum á samviskunni? Í fleiri mánuði hafa blikur verið á lofti í fjármálalífi þjóðarinnar enda erum við að upplifa heimssögulega viðburði í sögu kapítalismans. Hver voru viðbrögð ríkisstjórnarinnar? Hún sagðist fylgjast með, hér væri engin kreppa, hér þyrfti engar aðgerðir. Á ögurstundu sýndi hún svo fullkomið getuleysi til að skynja hætturnar og bregðast rétt við. Enginn aðgerðapakki eftir sleitulausa kaffifundi alla helgina, þetta rúllar bara á meðan heimilum í landinu blæðir.
Það sem kórónar alvarleikann er auðvitað sú staðreynd að sama hugmyndafræðin, sömu mennirnir og sömu öflin og kom okkur í þessi stórkostlegu vandræði sitja nú enn við völd og þykjast vera að bjarga því sem bjargað verður. Ætli bláa einkavinavæðingin sé langt undan? Orðræða brennuvarga og slökkviliðs er við hæfi: Þetta er eins og að biðja brennuvargana að slökkva eldana með olíunni sem þeir enn halda á í höndunum og eldspýtunum sem eftir eru eldana sem þeir sjálfir kveiktu.Má biðja griða?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 6. október 2008
Sagnfræði, sökudólgar og sannleikur
So, first of all, let me assert my firm belief that the only thing we have to fear is fear itself...
Svo talaði Franklin Roosevelt 4. mars 1933.
Nú er sagt að "sagnfræðin eigi að bíða" og ekki þurfi að leita að sökudólgum. Ég er ósammála því. Sagnfræðileysi er til þess eins gert að losa sökudólgana undan ábyrgð. Til að vita hvert verður að stefna þarf einmitt að vera með sagnfræðina á hreinu. "Sökudólgar" eru hér ekki bara tilteknir einstaklingar og öfl heldur hugmyndafræði og pólitísk stefna - bókstafstrú nýfrjálshyggjunnar, upphafning taumlausrar gróðahyggju og spákaupmennsku. Sú stefna blindrar einkavæðingar þar sem ríkið heitir "afskipti" en markaðsöflin "frelsi", svo truflað sem það nú annars er, má undir engum kringumstæðum halda áfram.
Þeir sem hafa framfylgt þessari stefnu ætluðu til að mynda að eyðileggja Íbúðalánasjóð. Samfylkingin virtist ætla að dansa með einkavæðingaröflum Sjálfstæðisflokknum í þeirri firru. Það var aðeins fyrir tilstilli samstöðu og fílefldra varna sem komið var í veg fyrir slíkt endemis óráð - enn sem komið er í það minnsta. Nú er Íbúðalánasjóður eitt af þeim akkerum sem heimilin í landinu eiga að geta reitt sig á. Einn hluti þess sem ríkisstjórnin var að kynna í dag varðandi það er einmitt nákvæmlega það sem VG lagði til nú í byrjun þings, en VG hefur með ráðum og dáð staðið vörð um Íbúðalánasjóð.
Að öðru leyti er nú ágætlega við hæfi að vitna í Roosevelt: Nú er ekki tíminn til að tala í gátum heldur að segja sannleikann, og hann allan. Það er ekkert að óttast nema óttann sjálfan - og sagnfræðilausa hálfsannleika.
Ráðamenn: Talið skýrt og umbúðalaust, og þá er allt hægt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Mánudagur, 6. október 2008
Og vaki nú allar góðar vættir yfir Íslandi
Megi okkur verða forðað frá frekara ráðaleysi og ringulreið duglausustu ríkisstjórnar lýðveldisins sem allra fyrst.
Og vaki nú allar góðar vættir yfir Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mánudagur, 6. október 2008
Taki pokann sinn
Ókunnug kona kom til mín í boði í gær og spurði hvar hún gæti nálgast ræðu Steingríms J. Sigfússonar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Steingrímur hefði borið af og nú væri mest áríðandi að Sjálfstæðisflokkurinn tæki pokann sinn og kæmi ekki nálægt stjórn landsins um langa hríð. Kona góð, ræðu Steingríms er hægt að nálgast hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. október 2008
Ennþá vaxa rófurnar í garðinum
Á Grænlandi er veturinn langur og dimmur og stundum ófært dögum saman. Ávaxtaúrvalið í nýlendubúðunum dönsku samanstendur þá einvörðungu af krumpuðum grænum eplum og ávöxtum í dós. Framkvæmdastjóri Bónus hvetur fólk nú til að birgja sig upp fyrir kreppuna, kaupa niðursuðudósir og íslenskt. Og fólk fer af stað, þyrstir í öryggi, eðlilega, og öll held ég líka að okkur þyrsti í anda í brjóst.
Steingrímur J. Sigfússon hélt ræðu í þingsölum í vikunni sem blés mér í brjóst. Ræðan kom frá hjartanu og byggði á væntumþykju til lands og þjóðar þar sem hann bauð fram sátt og tafarlausa aðgerðaáætlun. Slíkan neista og slíka forystu vantar því miður í ríkisstjórn Íslands, en vonandi nær hún vopnum sínum og það sem allra fyrst og þótt fyrir hefði verið - löngu fyrr. Ástandinu í efnahagsmálum er líkt við hamfarir. Peningakerfið riðar til falls. Sparnaður brennur upp, heimili og fyrirtæki sjá fram á þrengingar og jafnvel gjaldþrot. Bankar eru ófærir um að stunda venjuleg viðskipti við venjulegt fólk, slíkt er orðið fargið af glæfrafjárfestingum innan lands og utan.
Eitt af því góða við Ísland er að almennt vill fólk hjálpast að þegar gefur á bátinn fólk vill róa, jafnvel þótt ekki sé sjófært. En líklega er það sammerkt með okkur flestum að við viljum ekki láta nota okkur. Ég held þess vegna að sjúkraliðinn á Landspítalanum hafi engan sérstakan áhuga á því að gangast í ábyrgð fyrir Chelsea eða Westham, jafnvel þótt krakkarnir á heimilinu hafi gaman að fótbolta. Ég held líka að venjulegt fólk hafi engan sérstakan áhuga á að hjálpa bankastjórum að koma undir sig fótunum að nýju til þess eins að þeir geti snúið sér að því af alvöru að bryðja í sig samfélagsþjónustuna og orkugeirann. Fólk vill hjálpast að til þess að þjóðfélagið hverfi frá villu síns vegar og taki til hendinni við uppbyggingarstarf í anda jöfnuðar og réttlætis.
Góð vísa er aldrei of oft kveðin. Það ríður á að við setjum niður fyrir okkur nákvæmlega hvað það er sem við viljum aldrei fórna sama hvað á dynur. Viljum við endurheimta eða endanlega fórna íslensku velferðarsamfélagi jöfnuðar? Dettifoss, Skjálfandafljót, handritin ef þau gætu reddað okkur nú um stundarsakir eru þau þá föl? Eða ætlum við að bíta á jaxlinn og ala með okkur nægjusemi og sanngirni og geyma þannig dýrustu fjársjóðina fyrir næstu kynslóðir? Þegar heilu samfélagi er breytt í spilavíti hlýtur að endingu að koma að skuldadögum. Þá rignir jafnt yfir saklausa sem seka.
En úr öskustó græðginnar getur risið betra samfélag en áður og við skulum ekki fara á taugum þrátt fyrir allt og þótt syrti í álinn. Fiskurinn er enn í sjónum og ennþá vaxa rófurnar í garðinum.
Birtist í Morgunblaðinu 4. október 2008
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 2. október 2008
Glæsileg Svandís
Að vanda.
Og mikið er gott að sjá öfluga konu spurða út í stöðu mála, svona til tilbreytingar. Hefði kannski einhverju fleiru verið bjargað ef fleiri Svandísir hefðu verið á stjái í stjórnum fyrirtækja og stofnana - svona til að koma í veg fyrir ruglið?
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/02/orkuveitan_i_kroppum_dansi/
Orkuveitan í kröppum dansi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 2. október 2008
Afvötnun strax
Þetta er athyglisvert lesendabréf:
"Bankakerfið er Sjálfstæðisflokknum það sem SÍS var..."
Svo mikið er víst að stjórnmálaöfl sem ætla að voga sér að þeysa fram á völlinn með heilbrigðisþjónustuna okkar, velferðarkerfi, Íbúðalánasjóð og orkuna í iðrum jarðar og gefa það allt markaðs- og peningaöflunum á vald þau þurfa að fara í allsherjar afvötnun. Horfast í augu við raunveruleikann í stað þess að halda áfram í afneituninni. Það er algjört skilyrði fyrir bata og batnandi hag. Heimskapítalisminn riðar til falls og ætla þau að halda áfram að þjóna græðgisvæðingunni í blindni?
Ég segi það hins vegar alveg eins og er að þótt ég hafi aldrei haft mikla trú á þessari ríkisstjórn þá kemur ráðleysið og dugleysið sem þar ræður ríkjum mér enn í opna skjöldu. Á svona stundum þarf alvöru verkstjórn og dug og kjark í stað meðvirkni og máttleysis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 2. október 2008
Hvar er Samfylkingin?
Hlaupin í felur?
Bara spurning.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 2. október 2008
Hækjan og hagstjórnin
Traust og ábyrg efnahagsstjórn
Kraftmikið efnahagslíf er forsenda þess að hægt sé að halda áfram uppbyggingu í menntamálum, samgöngumálum og í heilbrigðis- og félagsmálum. Eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu í þágu heimila og atvinnulífs. Markmið hagstjórnarinnar er að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 29. september 2008
Bábiljunni að bráð
Við Íslendingar höfum löngum verið hjátrúarfull. Við trúum á stokka og steina, álfa og huldufólk og ýmislegt annað gott.
Það verður hins vegar að viðurkennast að á undanförnum árum höfum við farið offari í hjátrúnni og orðið hindurvitnum fullkomlega að bráð.
Þannig gerðist það á undraskömmum tíma að samfélagið allt varð heltekið af milljarðamæringavæðingu. Strákarnir okkar í útrás og yfirtöku urðu sem hendi væri veifað að góðhjörtuðum töfranornum á kústskafti einkaþotunnar sem þeystu heimshorna á milli til þess víst eins að gera Íslendinga alla auðugri. Töfrateppi einkavæðingar var slíkt að meira að segja Bessastaðir lutu í gras og gáfu út hástemmdar yfirlýsingar um hvernig heimurinn gæti lært af íslenskum undradrengjum milljarðanna. You ain´t seen nothing yet sagði stóra Ísland við litlu heimsbyggðina.
Nú þykir mér á margan hátt vænt um þennan eiginleika þjóðarsálarinnar. Við erum nýjungagjörn og auðtrúa og við erum snillingar í að redda, auk þess sem við höfum dálítið krúttlega tilhneigingu til mikilmennskubrjálæðis. Þetta er ekkert mál fyrir Jón Pál eða Jón Ásgeir og ekki heldur fyrir okkur hin.
Trúin á okkur sjálf, að ekkert vaxi okkur í augum, sveigjanleiki okkar og smæð, stuttar boðleiðir og kappsemi allt er þetta auður í sjálfu sér. En oft er það jú þannig að manns stærsti kostur er um leið manns augljósasti veikleiki. Við verðum ítrekað trúnni á reddinguna að bráð. Eitt árið er það loðdýrarækt, það næsta fiskeldi, annað árið er það stóriðja og hitt árið útrás, næsta árið evran: Alltaf finnum við eitthvað sem á að redda okkur frá hinni reddingunni sem brást.
En þannig er bara ekki lífið. Heilbrigðar undirstöður og manngildi verða aldrei til á kústskafti reddinga heldur byggjast upp með tíma, ráðum og dáð og ævinlega af einhvers konar blöndu af hugrekki, hugmyndaauðgi, aga, vinnusemi og úthaldi.
Erfiðustu hindurvitnin eru hins vegar þau sem við tökum ekki eftir að við trúum heldur gefum okkur sem augljós sannindi. Við erum meðvituð um að trúin á álfa er bara trú; við erum hins vegar ómeðvituð um að trúin á lögmál markaðarins er kennisetning en ekki vísindi. Staðreyndin blasir þó við: Kerfi fjölþjóðlegs auðvalds, arðráns og spákaupmennsku er rotið inn að rótum og meira að segja Bandaríki Norður-Ameríku kalla nú á þjóðnýtingu. Hver hefði trúað því fyrir 2 árum síðan þegar þjóðnýting var sagt með fyrirlitningu en einkavæðing var sæt sem sykur?
Gildin sem aldrei skulu hvika er það sem nú þarf að endurreisa í okkar litla samfélagi, samfélagi sem vissulega á ævinlega að hugsa stórt: Jöfnuður, jafnrétti, framsýni, frumkvæði, sanngirni, sjálfbærni, sjálfstæði. Það er í fínu lagi að trúa áfram á huldufólk en trúin á töfrateppi græðginnar og reddingarinnar skal víkja. Þótt fyrr hefði verið.
Birtist í Morgunblaðinu 20. sept. 2008
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)