Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 23. apríl 2007
Dýrkeyptur gróði Alcoa
Fyrsta álið frá Alcoa í Reyðarfirði hefur litið dagsins ljós.
Ég vildi óska að allir Íslendingar hefðu fengið að kynnast því stórbrotna landsvæði sem eyðilagt var um alla tíð fyrir þetta ál - einstæðum gróðurvinjum hálendisins, stórfljótum, fossum, flúðum, jarðmyndunum - og eftir þau kynni fengið að greiða atkvæði um Kárahnjúkavirkjun og allt það sem henni hefur fylgt.
Ég er ekki í nokkrum vafa um það að ef allir hefðu gert sér grein fyrir því hvað þarna hefur átt sér stað og hefðu fengið um það að segja þá hefði niðurstaðan verið önnur. Tillögum VG um þjóðaratkvæðagreiðslu um stærstu framkvæmd Íslandssögunnar var hins vegar hafnað af öllum flokkum. 5 þingmenn af 63 vildu leyfa þjóðinni að segja sitt.
Ef þjóðin hefði fengið að ákvarða sjálf um málið þá held ég að fjármunum sem samsvara nokkrum "hátæknisjúkrahúsum" hefði skynsamlega verið varið í "eitthvað annað" og betra uppbyggingarstarf heldur en sovéskættuð náttúruspjöll. Aðrar og fjölbreytilegri hugmyndir um hvernig megi byggja upp blómlegt Ísland um allt land hefðu ef til vill fengið að njóta sín fyrir hundruðir milljarða.
Ef ríkisstjórnin heldur velli mun hún halda áfram á sömu braut. Hví ekki, ef hún fær til þess umboð? Viljum við það?
Fyrsta álið framleitt í álveri Alcoa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Mánudagur, 23. apríl 2007
83% kvenna fengið sig fullsadda af könnunum
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun er það skoðun yfirgnæfandi meirihluta fólks að það sé komið með upp í kok af skoðanakönnunum.
67% karla og 83% kvenna taldi að gefa ætti skoðanakönnunum snemmbúið sumarfrí og leyfa úrtaki þjóðarinnar að vera í friði næstu vikur og mánuði. 11% voru óákveðin eða hlutlaus. 5% hinna óákveðnu í málinu hafa hugsað sér að kjósa ríkisstjórnarflokkana í vor en eru þó ekki alveg viss í sinni sök.
Stjórnmálaskýrendur telja þessar niðurstöður um þreytu skoðana-kannana gefa vísbendingu um heilbrigðan uppreisnaranda og skynsemi íslensku þjóðarinnar.
"Þetta eru vissulega nokkuð afgerandi niðurstöður í bili en enn getur allt gerst" sagði helsti skýrandi sem aðstandendur leituðu til.
Könnunin var gerð í heimahúsi af frambjóðanda Vinstrigrænna í Suðvesturkjördæmi sunnudagsmorguninn 22. apríl 2007. Frávik og skekkjumörk eru töluverð og ekki fyllilega ljóst hversu mikið er að marka könnunina. Með góðum vilja er samt aldrei að vita.
Næsta könnun um kannanir verður birt hér á bloggsíðunni eftir viku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Heyr, heyr!
Heyr, heyr Segolene!
"Ég hvet alla þá sem vilja skipa mannúð ofar verðbréfamarkaðnum, alla þá sem vilja binda enda á óöryggið og forherðinguna til að sameinast" sagði Segolene Royal meðal annars í dag.
Sjálfstæðisflokkurinn er að rjúka upp í skoðanakönnunum og stjórnin að halda velli. Hvað er í gangi?!
Nú má enginn liggja á liði sínu! Andstæðingar peningahyggjunnar sameinist og bjóðið ykkur fram til starfa í baráttunni!
Hvað sögðu þau ekki í frönsku byltingunni:
Frelsi, jafnrétti, bræðralag - ou la mort!
Royal hvetur andstæðinga peningahyggjunnar til að sameinast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Eirík í leðrið!
Eiríkur Hauksson og félagar ætla að ákveða núna um helgina hvort hann verði í leðurfrakkanum á Eurivision. Las það í blaðinu í morgun.
Mín afstaða er skýr: Ég vil Eirík í leðri! Frá toppi til táar!
Eiríkur er mega töffari og á að vera það áfram - leðrið blívur.
Ekki nema hann vilji fá sér svona ABBA-galla eins og Björn og Benny. Mér finnst Björn (lengst til vinstri) koma sérstaklega sterkur út á báðum myndum.
Annars held ég að Eiríkur komist áfram sama í hverju hann er. En ég held líka alltaf að einhver sem ég þekki vinni í lottóinu svo það er kannski ekki alveg að marka. Áfram Ísland!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Hver lofar?
Ef ég á að segja alveg eins og er þá finnast mér kosningaloforð frekar þreytandi.
Í kosningunum í vor hlýtur að vera kosið um forgangsröðun og raunverulega sannfæringu en ekki nýþveginn loforðalista eða tilbúna ímynd sem er hrist fram úr erminni til að ná í fylgi.
Ég er að hugsa um að lofa bara þessu og engu öðru: að vinna samviskusamlega og fylgja eigin sannfæringu. Stefnan og forgangsverkefnin eru skýr og þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hafa sýnt það í verki á undanförnum árum hvar hjarta þeirra slær og fyrir hvað þau standa. Mér finnst þau hafa staðið sig frábærlega í þinginu og mér finnst þau eiga skilið að fá góða kosningu - ekki út á loforð eða ímynd eða áróður nokkrum vikum fyrir kosningar heldur fyrir vel unnin verk, dugnað, þrautseigju og baráttu á liðnum árum. Baráttu fyrir góðum málstað.
Gömul kona sem mér þótti vænt um sagði að það ætti ekki að spyrja hverju væri lofað heldur hver lofaði, ekki hver orðin væru heldur hver léti þau frá sér, hverjum væri treystandi til að standa við sitt og hafa skýra dómgreind og réttlætiskennd.
Napoleon Bonaparte sagði eitthvað á þessa leið: Ef þú vilt komast langt í þessum heimi skaltu lofa öllu en ekki standa við neitt.
Hafði Napoleon rétt fyrir sér?! Virkar minni okkar kjósenda ekki lengur en í 3 vikur og er stjórnmálaöflum aldrei refsað fyrir svikin loforð og tækifærismennsku?!
Afsönnum Napoleon!
Svo sagði held ég Bangsímon eitthvað um loforð á þessa leið einhvern tímann einhvers staðar: Ég lofa að vera góður bangsi í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 21. apríl 2007
Hættum við að sukka?
Íslenskt samfélag er á ýmsan hátt gegnsýrt af alkóhólisma, sukki, meðvirkni og afneitun. Okkur finnst oft þægilegra að halda bara áfram á fylleríinu í stað þess að taka okkur taki.
Þeir sem kjósa meintan "stöðugleika í efnhagsmálum" ríkisstjórnarinnar eru að kjósa einmitt þetta: áframhaldandi sukk, skuldasöfnun og afneitun.
Góðærið er fengið að láni hjá komandi kynslóðum og sett á kostnað tekjulægri stétta samfélagsins. Stöðugleikinn er stöðugur í niðurrifi sínu á íslenska velferðarsamfélaginu, hruni í tannheilsu barna, stórauknum komugjöldum sjúklinga og aukinni misskiptingu og fátækt.
Skuldir íslenskra heimila eru einhverjar hinar mestu í heimi - rúmlega 200% af ráðstöfunartekjum.
Halló?
Nánast allar skattabreytingar sitjandi ríkisstjórnar hafa miðað að því að bæta stöðu fjármagnseigenda og nýríkra yfirstétta. Kostnaði við velferðarþjónustu hefur verið velt yfir á neytendur (hinum tekjulægri til mikilla miska) og skattar og gjöld lágtekjufólks hafa aukist á meðan milljarðamæringum er pakkað inn í dúnmúkan bómull.
Nei, ég hef ekki á móti þeim sem allt eiga til alls og miklu meira til, en ég hef á móti hróplegu óréttlæti í íslensku samfélagi. Blind þjónkun við auðvald kemur niður á þeim sem síst skyldi og er okkur öllum til skammar. Það eiga allir að greiða sinn réttláta hlut til samfélagsins - og við erum öll jafnar manneskjur og berum ábyrgð hvert á öðru. Ísland á stolt að vera eitt og gegnheilt samfélag fyrir alla þar sem sanngirni skiptir máli.
Óstjórn og óstöðugleiki hefur ríkt í efnahagsmálum þjóðarinnar en reynt er að breiða yfir allt saman með því að lofa áframhaldandi fylleríi: það er treyst á meðvirknina.
Hversu lengi ætlum við að kjósa gróðafíkn, skuldasöfnun og sukk á kostnað komandi kynslóða, náttúrunnar og þeirra sem höllum standa fæti í samfélaginu?
Við sem viljum breytta stefnu höfum lagt okkur í líma við að koma með ábyrgar tillögur til úrbóta. Við vitum að til að snúa á rétta braut aftur þarf að vanda mjög til verka og ganga fram af varfærni og ábyrgð - en með heilbrigt verðmætamat og breytta forgangsröðun að leiðarljósi. Í vor verður kosið um forgangsröðun en ekki byltingu - við skulum hafna hræðsluáróðri hagsmunaaflanna þar að lútandi.
Hættum að sukka og höfnum óstjórn!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Föstudagur, 20. apríl 2007
Jón Viktor náði stórmeistaraáfanga!
Stefán Kristjánsson til vinstri og Jón Viktor Gunnarsson til hægri. Stefán vantar bara fleiri stig til að ná stórmeistaratitli og nú er fyrsti stórmeistaraáfangi Jón Viktors í höfn. Ungir menn á uppleið!
Alþjóðlegu Minningarmóti um Þráin Guðmundsson lauk í gær og ég veit að Þráinn heitinn hefði verið bæði ánægður og stoltur með útkomuna: alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson náði sínum fyrsta stórmeistaraáfanga í skák á mótinu.
Þetta er frábært hjá Jóni Viktori - til hamingju!
Mótið heppnaðist einstaklega vel og allir voru ánægðir, en erlendu keppendurnir eru að tínast til síns heima í dag. Það er líka eftirtektarvert hversu yngstu keppendurnir okkar á mótinu stóðu sig vel, Sverrir Þorgeirsson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Ingvar Ásbjörnsson sem allir eru enn í grunnskóla stóðu sig með miklum sóma gegn eldri meisturum.
Til gamans má svo geta þess að Jón Viktor skipar 19. sæti Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmi suður! Þar eru þrjár konur í efstu þremur sætunum og einkar gaman að sjá Jón Viktor á listanum líka.
Jón Viktor náði fyrsta áfanga að stórmeistaratitli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 19. apríl 2007
Sagan kvödd
Ég verð að viðurkenna að ég klökknaði þegar ég labbaði Austurstrætið í gærkvöldi.
Ólíkt flestum höfuðborgum Evrópu er höfuðborg okkar Íslendinga ekki svo ýkja auðug af gömlum og merkum byggingum. Þótt hverjum þyki sinn fugl fagur þá er það staðreynd að hörmuleg skipulagsmistök hafa verið gerð í höfuðborginni í gegnum árin - sem og í nágrannabæjarfélögum - og þau mistök hafa orðið ásýnd höfuðborgarsvæðisins alls afar dýrkeypt.
Við höfum ekki alveg kunnað gott að meta, fleygt ómetanlegum dýrgripum á öskuhaugana, hreinsað út upprunalegar innréttingar og eyðilagt merkar byggingar. Enn þann dag í dag byggjum við risavaxnar bensínstöðvar á besta stað bæjarins - og plönum margra hæða háhýsi eða nýtískuleg ferlíki þar sem þau eiga engan veginn heima. Við erum dálitlir vandalar og gróðafíklar í okkur og uppbygging stórhöfuðborgarsvæðisins er að ýmsu leyti skólabækurdæmi um hvað beri að varast í skipulagsmálum.
Það versta er að sumir virðast alls ekki sjá voðann í verki. Þeir virðast ekki hafa neina eftirsjá eftir gömlum og merkum stöðum - og sjá ekki fegurðina í notalegri, lágreistri byggð. Þeir vilja frekar byggja margra hæða verslunarmiðstöðvar og bensínstöðvar í amerískum stíl. Ég fæ sjaldan jafn miklan bjánahroll og þegar talað er stórkarlalega um að Reykjavík geti líkst New York. Það er hin fullkomna ranghugmynd.
Í takt við þennan vandalisma okkar verður það að segjast alveg eins og er að við höfðum ekki ljáð hinum sögufrægu og merku húsum sem brunnu í gær þá reisn, virðingu og líf sem þau áttu skilið. En þau fengu í það minnsta að standa, fögur ásýndum, og gáfu þannig miðbænum sína fallegu og notalegu stemmningu. Þau voru órjúfanlegur hluti af ásýnd miðbæjarins.
Nú eru húsin horfin og ég er væntanlega ekki ein um það að bera dálítinn ugg í brjósti um hvað muni koma í staðinn. Reynslan sýnir að við höfum hingað til ekki verið því verkefni vaxin að byggja í sátt við umhverfið, söguna og stemmninguna.
En í dag er sumardagurinn fyrsti og þá verðum við að vera bjartsýn. Við höfum jákvæð dæmi um að endurbygging húsa hafi tekist vel í Aðalstræti Reykjavíkurborgar og víðar og vonandi munum við byggja á þeim styrkleika og sýn áfram. Andrúm hins gamla verður að fá að lifa með okkur sjálfum og þeim sem á eftir koma - hvort heldur er í Reykjavík eða Hafnarfirði, Ísafirði eða Selfossi.
Það er engum ofsögum sagt að slökkviðliðsmenn hafi unnið þrekvirki við að ráða niðurlögum eldsins og var aðdáunarvert að fylgjast með störfum þeirra. Einn lítill félagi minn 6 ára sem kann að máta heimaskítsmát ætlar sér einmitt að verða slökkviðliðsmaður þegar hann verður stór.
Gleðilegt sumar.
Slökkvilið og lögregla á vakt í alla nótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Miðvikudagur, 18. apríl 2007
Morð á Harvard
Fréttirnar af fjöldamorðunum í háskólanum í Virginíu rifjaði upp fyrir mér hörmulegt atvik sem átti sér stað þegar ég var í háskólanámi í Bandaríkjunum. Þetta var árið 1995 ef ég man rétt fyrir 12 árum síðan.
Samnemandi okkar frá Eþíópíu, Sinedu Tadesse, réðst einn góðan veðurdag og að því er virtist gjörsamlega upp úr þurru að herbergisfélaga sínum, hinni víetnömsku Trang Ho, og stakk hana til dauða 45 sinnum með veiðihníf. Eftir morðið fór Sinedu inn á baðherbergi og hengdi sig.
Hin myrta, Trang Ho, var ótrúleg manneskja - og án efa var morðinginn það líka. Trang var um 13 ára gömul þegar hún kom til Ameríku og var ásamt föður sínum og systur ein af ólöglega "flekaflóttafólkinu" - ein þeirra sem komst lífs af eftir hættufarir á sjónum á leiðinni til betra lífs. Á undraskömmum tíma tileinkaði Trang sér ensku og skaraði fram úr í námi og öðru því sem hún tók sér fyrir hendur - breyttist úr ólöglegum víetnömskum innflytjanda í bandaríska námsstúlku við Harvard. Hún sinnti alls kyns sjálfboðaliðsstörfum fyrir annað flóttafólk og allir báru henni vel söguna. Draumur fjölskyldunnar var að verða að veruleika.
Trang var ekki myrt með byssu, en ef Sinedu hefði haft byssu í því andlega ástandi sem hún var í þegar þessi harmleikur átti sér stað, þá má vel vera að fleiri hefðu fallið í valinn.
En hvað segja Bandaríkjamenn sem eru fylgjandi frelsi í byssueignum þegar maður gagnrýnir skotvopnaeignina? Jú, að þeir líði ekki slíka forræðishyggju. Fólk drepi, ekki byssur.
Raunin er auðvitað sú að byssueign Bandaríkjamanna er klassískt dæmi um sérhagsmuni sem vaða uppi á kostnað almannahagsmuna. Hagsmunasamtök byssueigeinda eru gríðarlega valdamikil og byssulöggjöfin hvílir ekki á neinu lengur nema skýrum sérhagsmunum sem öll þjóðin fær reglulega að kenna á. Með liðsinni fjármagns og fjölmiðla eiga sérhagsmunirnir hins vegar ótrúlega auðvelt með að telja fólki trú um að það sé brot á mannréttindum og frelsi að fá ekki auðveldlega að kaupa sér byssu. Dæmi hver fyrir sig.
Fjölskylda morðingjans bjó við þröngan kost í Suður-Kóreu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Hvorugkyn eintölu: vorboðinn ljúfi
"Það er einvörðungu mikil fylgisaukning Vinstri græns sem ógnað hefur meirihluta ríkisstjórnarflokkanna."
Þetta er hárrétt hjá ritstjóra Fréttablaðsins í morgun. Stórsókn VG ræður úrslitum um það hvort ríkisstjórnin standi eða falli.
Þessi stórsókn hefur valdið ýmsum valda- og fjölmiðlaöflum, fræðingum og fleirum botnlausum vonbrigðum sem þeir hafa ekki alveg kunnað að fela (eða ekki séð neina ástæðu til, hlutdrægni virðist ekkert vandamál), en þarna hefur hún nú samt verið, sóknin grænu kvennanna til vinstri. Og er enn.
Ég hef nefnilega fulla trú á því að VG sé enn í sókn, þrátt fyrir áróður þeirra sem vilja bókstaflega leggja allt í sölurnar til að lækka fylgi VG. Sumum virðist jafnvel vera meira umhugað um að lækka fylgi VG heldur en að hækka sitt eigið fylgi. Enn öðrum er umhugað um að blása til skyndikannana til að geta sagt það sem mörgum langar svo mikið til að geta sagt: "VG fatast flugið".
En veruleikinn talar sínu máli. Hljómurinn er tómur í vísunum í hið gagnstæða.
Mér finnst annars skemmtilegt að Þorsteinn Pálsson talar um stórsókn "Vinstri græns". Flestir hefðu sagt stórsókn "Vinstri grænna" en Þorsteinn virðist tala um það "vinstri grænt", hvorugkyn eintölu. Hef ekki séð þetta áður. Kannski Þorsteinn sé ómeðvitað að vísa til vorsins. Hið vinstri græna vor árið 2007, hvorugkyn eintölu.
Vorið sem vonandi verður lengi í minnum haft og gæti markað tímamót í íslenskri stjórnmálasögu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)