Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 16. apríl 2007
Einkavæðing orkufyrirtækjanna?
NEI!
Ætlum við endanlega að gefa allt frá okkur?
Þetta má ekki gerast!
Íslenska þjóð! Látum skynsemina ráða og höfnum trúarofstæki einkavæðingarinnar! Stöndum vörð um almannahagsmuni gegn sérhagsmunum. Kjósum VG 12. maí nk!
Skoðað verði að færa eignarhald á ríkis á orkufyrirtækjum til einkaaðila | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Sunnudagur, 15. apríl 2007
Sungið í rokinu
Ég ætla að fara í langan göngutúr meðfram sjónum í dag. Ég ætla að fara í barnaafmæli kl. 14, á Söngsmiðju VG á Kosningamiðstöðvinni Grensásvegi kl. 15 og í fermingarveislu kl. 16. Á öllum stöðum ætla ég að borða fullt af kökum. Ég er ólæknandi sælkeri og súkkulaðifíkill (það er líka næstum því nammidagur í dag) þótt ég vildi óska að ég væri það ekki. Ég er enn að reyna að taka mig á (en ég ætla ekki að gera það akkúrat einmitt í dag).
Mér finnst líka rosalega gaman að syngja.
Í göngutúrnum ætla ég að láta vindinn taka burtu léttan pirring yfir áróðursmaskínum íslenskra fjölmiðla og blekkingarmætti stjórnmálanna. Almennilegt íslenskt rok verður nú ekki lengi að þessu smáræði.
Í öllu ætla ég að fagna því að mér sýnast hin ýmsustu stefnumál VG, sem hafa setið í stefnu flokksins um langa hríð, vera að smeygja sér hressilega á hið pólitíska litróf sem forgangsverkefni annarra afla í þessum kosningum. Það er einn stærsti sigur sem nokkur pólitísk hreyfing getur óskað sér. Ég var á fundum í vikunni með fulltrúum annarra flokka og á stundum bókstaflega kipptist ég við að heyra málflutninginn - nýju kosningaáherslurnar voru svo skemmtilega kunnuglegar úr gamalgrónum stefnumálum VG, en þær kynntar eins og alveg ný og fersk hugmynd hjá hinum. Mér fannst það skemmtilegt. Allir að leita í smiðju hins alræmda afturhalds, bannflokks og forræðishyggjueiganda sem engu eirir?!
Allir með, það er flott. Mér leiðist alveg rosalega þegar pólitík er breytt í einhvers konar íþróttakappleik þar sem hver ætlar að skora mark hjá öðrum og allir halda með sínu liði (sama hvaða bölvuðu vitleysu það gerir) og enginn getur hrósað neinum í hinu liðinu. Blind hópsálar-íþróttakappleikja-stemmning skemmir fyrir alvöru pólitík og umbótum og er alveg ótrúlega þreytandi fyrir utan það að vera leiðinleg.
Ég var annars næstum því búin að fá óstöðvandi hláturskast á flatneskjulegum fundi nýlega. Hélt niðri í mér með því að reyna að hugsa um eitthvað verulega hræðilegt en tárin láku samt. Kannski er logn í dag við sjóinn og engin þörf á hressandi vindhviðum til að leysa góða skapið úr læðingi. Nóg að syngja og hlæja og þá er dagurinn fínn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 14. apríl 2007
Kasparov handtekinn
Garrí Kasparov fyrrum heimsmeistari í skák hefur verið handtekinn í Moskvu.
Það hefur lengi verið ljóst að Pútín er lítið annað en KGB-einræðisherra í Rússlandi og að lýðræði er þar fótum troðið. Handtaka Kasparovs út af boðuðum mótmælafundi stjórnarandstæðinga var því ef til vill bara tímaspursmál en þetta skýtur manni samt skelk í bringu. Kasparov er einn af okkar góðu "Íslandsvinum"...
Vinir Kasparovs hafa lengi varað hann við og þrábeðið hann um að láta af athugasemdum um stjórnarhætti Pútín og helst flytja frá Rússlandi. En það er ekki í anda Kasparovs að flýja af hólmi. Ástríðuhiti Kasparovs, orka og þrek er með hreinum ólíkindum og afstaða hans í þessu máli kemur því ekki á óvart. Í stað þess að lifa í vellystingum í Bandaríkjunum eða Evrópu ætlar hann að reyna að gera Rússland aðeins betra - og treysta því að lífverðir geti verndað fjölskylduna heimafyrir.
Vesturlönd virðast flest láta sér KGB-einræðið í Rússlandi í léttu rúmi liggja og faðma Pútín í bak og fyrir. Fáleysi hinna frjálsu Vesturvelda um fótum troðið frelsið í austri hefur valdið rússneskum stjórnarandstæðingum gríðarlegum vonbrigðum. Hvers vegna fögnuðu allir svo mjög við hrun kommúnismans ef þeir ætla svo að umfaðma KGB-einræði og botnlausa spillingu? er spurt og lítið um svör.
Fátt gefur von um betri tíð með blóm í haga í þessum efnum, en handjárnaðir mótmælendur í Moskvu berjast fyrir góðum málstað...
Garrí Kasparov handtekinn í Moskvu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Fimmtudagur, 12. apríl 2007
Kurt
Raunveruleg martröð er sú að vakna upp einn daginn og uppgötva að fólkið sem þú útskrifaðist með úr menntaskóla er að stjórna landinu.
Hvorum er meiri vorkunn? Rithöfundinum sem er múlbundinn og reyrður af lögregluyfirvöldum, eða hinn sem lifir við fullkomið frelsi en hefur ekkert meira að segja?
Árið var 2081 og loksins voru allir jafnir.
Hvað ætti ungt fólk að gera við líf sitt nú á dögum? Augljóslega fjölmargt. En það hugrakkasta væri að reyna að búa til samfélag þar sem hinn hryllilegi sjúkdómur einmakaleikans er læknaður.
Eins og svo margir af okkar kynslóð þá var hún að reyna að finna tilgang í tilverunni með hlutum sem hún fann í búðum.
Hlutverk mannlegs lífs, sama hver er við stjórnvölinn, er að láta sér þykja vænt um hvern þann sem er í kring.
Til þess er málið varðar: Það er vor. Síðdegis.
Nokkrir lauslegir sprettir frá bandaríska höfundinum Kurt Vonnegut sem lést í gær.
Bloggar | Breytt 13.4.2007 kl. 07:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 11. apríl 2007
Græn framtíð
Í dag kynntu þær Kolbrún Halldórsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Álfheiður Ingadóttir nýtt og viðamikið rit Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um sjálfbæra þróun - Græn framtíð.
Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þetta frábæra rit, en það var sannkallað grasrótarverkefni fjölda félaga í VG um allt land. Ritið er þarft framlag til dýpkunar á allri pólitískri umræðu og heildstæðri stefnumótun um umhverfismál á Íslandi. Ég er himinlifandi að sjá það koma út í dag.
Græn framtíð tekur á fjölmörgum þáttum er varða sjálfbæra þróun, s.s. loftlagsmálum, orkustefnu og orkunýtinu, vatnsauðlindinni, líffræðilegri fjölbreytni, náttúru og landslagi, hafsbotni, jarðvegsvernd, landnýtingu, víðernum, ferðaþjónustu, umhverfismennt, samgöngum, mengun, neyslu, framleiðslu, náttúrusiðfræði og stjórnsýslu umhverfismála.
Í skýrslu Brundtlandnefndarinnar frá árinu 1987 var "sjálfbær þróun" skilgreind á einfaldan hátt:
Sjálfbær er sú þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum.
Þessi skilgreining hefur síðan verið útvíkkuð og dýpkuð í alþjóðlegri umhverfis- og heimspekiumræðu og byggir á samspili vistfræðilegra, efnahagslegra og samfélagslegra þátta. Nú er sjálfbær þróun einnig talin ná yfir rétt náttúrunnar og lífríkisins til að þróast á eigin forsendum.
Eins og við lifum í dag erum við hins vegar ekki að lifa á sjálfbæran hátt - við erum raunverulega að draga úr möguleikum komandi kynslóða og lífríkis alls jarðar. Við kunnum okkur ekki hóf og við hugsum bara einn leik fram í tímann. Loftlagsbreytingar af manna völdum eru nærtækt dæmi um slíkt.
Ef allir jarðarbúar tækju upp neysluvenjur Bandaríkjamanna þyrftum við 3-4 plánetur til að lifa af. En við eigum bara eina jörð og hún er kraftaverk.
Ef allir jarðarbúar tækju upp neysluvenjur okkar Íslendinga hversu margar plánetur þyrftum við þá?!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 11. apríl 2007
Ekki orð um Írak
Ég horfði á meintar stjórnmálaumræður um meint utanríkismál í RÚV í gærkvöldi.
Þar var ekki minnst einu orði á Írak. Það var þagað þunnu hljóði um sum stærstu utanríkismálin í þætti um utanríkismál. Farsi.
Nýlega voru fjögur ár liðin frá innrásinni í Írak. Ástandið þar hefur aldrei verið jafn slæmt. Blóðbaðið og ringulreiðin á sér engin takmörk.
Við Íslendingar hneykslumst gjarnan á því að Bandaríkjamenn hafi kosið yfir sig George Bush sem forseta. Gerum grín að þeim fyrir fáfræði og vílum ekki fyrir okkur að úthúða Bush og þjóðinni sem kaus hann.
En hvað gerum við sjálf?
Hvern nákvæmlega vorum við að styðja með stuðningi okkar við innrásina í Írak? Jú, einmitt téðan Bush. Hann og engan annan. Eins og leppar lögðumst við á skottið á honum og gáfum George Bush óskoraðan stuðning okkar í blóðbaði sem veldur ólýsanlegum mannlegum þjáningum.
Ef slíkt kallar ekki á rauða spjaldið til sitjandi stjórnarflokka, hvað gerir það þá? Hvað þarf til svo að við Íslendingar segjum hingað og ekki lengra? Má allt? Eða líður okkur bara svona vel í skottinu á Bush og erum sátt við okkur sjálf?
Rauði krossinn segir þjáningar Íraka aukast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Bætum kjörin - burt með fátækt
Í dag kl. 16.00 opnum við Vinstrigræn kosningamiðstöð okkar í Suðvesturkjördæmi, Kragakaffið í Hamraborg, Kópavogi. Allir eru hjartanlega velkomnir.
Við boðum um leið til fréttamannafundar undir yfirskriftinni Bætum kjörin - burt með fátækt þar sem heiðursmaðurinn Ögmundur Jónasson, Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Gestur Svavarsson, Þuríður Backmann, Benedikt Davíðsson og fleira gott fólk mun leggja á ráðin í atlögunni gegn fátækt á Íslandi.
Fátækt og neyð í okkar auðuga landi er smánarblettur sem verður að afmá hið fyrsta. Við getum það vel ef við setjum það sem forgangsverkefni númer eitt og gefum allt okkar í það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 7. apríl 2007
Fótbolti í dag kl. 15 í Egilshöll
Ég er að fara að spila fótbolta kl. 15 í Egilshöll í dag. Ég hef ekki spilað fótbolta í svo mörg ár að ég man ekki hvenær síðasti leikurinn minn var. En baráttuandinn og leikgleðin hlýtur að vinna það allt upp... Mér finnst fótbolti frábær leikur enda var bróðir minn litli forfallinn fótboltastrákur frá unga aldri og smitaði okkur systkinin... í anda.
Ég verð í "stjórnmálaliðinu" á móti fjölmiðlafólki og verð m.a. í liði með Jónínu Bjartmarz, Kristrúnu Heimisdóttur, Sigurði Kára Kristjánssyni, Samúel Erni Erlingssyni, Paul Nikolov, Sólveigu Arnarsdóttur, Ölmu Lísu Jóhannsdóttur og fleiri góðum. Þetta verður fjör. Lísa Kristjánsdóttir ætlar að vera vinstrigrænn varamaður minn ef halla fer undan fæti... og bæta upp allt það sem ég kann að gera af mér. Ég er annars spæld að Ómar Ragnarsson leikur ekki með okkur heldur með Hemma Gunn, Loga Bergmann og hinu fjölmiðlafólkinu! Við kannski náum að hrifsa hann yfir til okkar í hálfleik - það munar um skallana inn.
Allur ágóði af leiknum rennur óskiptur til Umhyggju - félags til stuðnings langveikum börnum, Blátt áfram og CP samtakanna. Fyrir leik og í hléi troða skemmtikraftar upp (og jafnvel á meðan leik stendur...)
Allir velkomnir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 6. apríl 2007
Á föstudaginn langa
Þótt ég talaði tungum manna og engla en hefði ekki kærleika væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hafði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.
Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi...
En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur. (Kor. 1.1-13)
Í dag eru föstudagurinn langi, einn helgasti dagur kristni. Sól skín í heiði hérna megin á landinu - og vonandi sem víðast. Tilvitnunin í Biblíuna hér að ofan var rifjuð upp fyrir mér í gær, daginn sem Jesú þvoði í auðmýkt fætur lærisveina sinna. Hverra er það að þvo fætur okkar minnstu bræðra og systra, ef ekki okkar allra? - spurðu ýmsir sem á eftir komu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Fimmtudagur, 5. apríl 2007
Vinnukonur frelsisins
Mig langar til að benda ykkur á góða grein eftir Berglindi Rós Magnúsdóttur. Þið getið lesið hana hér.
Berglind er þar að fjalla um hugmyndir Margrétar Pálu og Sjálfstæðiskvenna (og ýmissa annarra) um að ef aukinn einkarekstur ryður sér til rúms í skólakerfinu okkar þá vænkist hagur kvenna.
Málið er langt frá því að vera svo einfalt - og í mörgum tilvikum þvert á móti.
Ég ber mikla virðingu fyrir Margréti Pálu og því frábæra starfi sem hún hefur unnið. En ég get ekki fallist á að við eigum svo auðveldlega að feta þá leið sem hún leggur til varðandi rekstrarform. Ég bjó sjálf í Bandaríkjunum um nokkurt skeið og mig óar við því að við förum að endurtaka þau hrikalegu mistök sem þar hafa verið gerð. Þar hefur hrópleg misskipting rutt sér til rúms á öllum þeim sviðum þar sem jafnræði ætti að vera í fyrirrúmi. Það er einmitt í þá átt sem við stefnum hraðbyri - að lepja upp allt það versta frá Ameríku en láta það besta í friði. Ég vil ekki sjá það.
Það er brýnt að við byggjum upp gott, fjölbreytt, metnaðarfullt, skapandi og mannbætandi menntakerfi á Íslandi! Það sem hins vegar stendur umræðu hér fyrir þrifum er m.a. þráhyggjan um rekstrarform - það er alltaf einblínt á rekstur. Hvað með innihaldið?
Við eigum að setja okkur markmið og haga lausnunum eftir því - ekki gera slæma lausn (einkavæðingu menntakerfisins) að markmiði í sjálfu sér.
Meir um þetta síðar. Ég er þessa stundina að hafa mig til fyrir lítið ferðalag svo ég kveð að sinni.
Gleðilega páska.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)