Stuð á pöllunum

Ég hef alltaf verið stolt af Svandísi Svavarsdóttur. Hún er virkilega flott kona og mögnuð. En ég held að ég hafi sjaldan verið jafn stolt af henni eins og undanfarna daga og viku. Hvar værum við án hennar aðkomu í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur?

Væntanlega værum við sofandi værum blundi eins og vanalega. Sofandi af okkur umbyltingu samfélagsins, uppkaup og spillingarþræði. Deplandi syfjulegu auga eða að býsnast yfir Britney Spears - eða hvað hét hún aftur, þessi sem kom á forsíðurnar dag eftir dag um tíma, Ann Nicole Smith?

Svandís er að berjast skörulega fyrir almannahagsmunum gegn gegndarlausri ásælni og yfirgangi einkahagsmuna. Hún er vinstrigræn.

Í dag kl. 16 verður borgarstjórnarfundur í Ráðhúsinu um málefni Orkuveitunnar. Íslenskt samfélag hefur sofið af sér ótrúlegustu hluti á undanförnum árum (og þó, við höfum vaknað öðru hvoru í hneykslan yfir því að einhver leyfi sér að mótmæla - burt með slíkan lýð!). Það er tími til að mæta á pallana.


Að láta sér bregða

Langamma mín giftist nauðug. Tvennt var það sem henni brá verst við um ævidagana:

þegar hún sá auga sitt, sem hún hafði óvart stungið úr sér með skærum, koma ofan í kjöltu sína,

og þegar Jón langafi minn bað hennar.

Málfríður Einarsdóttir í "Samastaður í tilverunni".


Einkaþota grunngilda

Ég bloggaði í fyrradag um mál Miriam Rose

Ætti maður ekki bara að segja sig úr Íslendingaklúbbnum, klifra upp í mastur og neita að koma niður ef við gerum okkur það til skammar að vísa Miriam Rose úr landi? Ég var flínkur klifurköttur þegar ég var lítil, ég ætti vel að geta rifjað upp gamla takta. Ég er spennt að sjá hvert mér verður vísað. 

Ef Miriam er vísað í burt og má aldrei koma til baka, verandi þessi ógnun við grunngildin, ætli hún fái þá far með Ólafi Ragnari í einkaþotunni?

Það er jú skylda æðstu embættismanna að reyna pínu að spara fyrir ríkið - þetta væri ákveðin hagræðing. Hagræðing er gullkorn dagsins hér þar og alls staðar - allavega þegar hún lendir á venjulega fólkinu.

Það mætti eiginlega segja að þetta væri tvöföld hagræðing.

Grunngildaógninni yrði bægt frá en um leið væri brottrekstrinum breytt í eins konar endurhæfingu - einkakennslustund í einkaþotunni um grunngildi íslensks samfélags.

Sem eru aftur hver?


Hver er gulrótin?

Ég hef aldrei hitt súkkulaðistykki sem ég kunni ekki vel við -

Það er til gott kynlíf og það er til misheppnað kynlíf, en súkkulaði er alltaf súkkulaði -

Styrkur er að geta brotið súkkulaði upp í fjóra bita með berum höndum og fá sér svo bara einn af þessum bitum -

Ég er sem sagt enn að reyna að útfæra þessa hugmynd um gulrætur í stað súkkulaðis. Er að reyna að finna út úr því hver gulrótin raunverulega er. Held áfram að vinna í málinu eða set það í nefnd. Þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir er etv. vissara að hreyfa ekki við fyrra líferni. Og þó.

Á móti einstaklingsfrelsi? Var einhver að spyrja um það? Nei, ég er fylgjandi. Mjög fylgjandi. Staðföst í því. Merkilegt hvernig þessi spurning kemur alltaf upp ("þið í VG..."), meira að segja í súkkulaðiátaki.

En bara svo það sé á hreinu þá lít ég t.d. ekki á það sem spurningu um einstaklingsfrelsi að auðhringurinn McDonalds fái að fegra ruslfæði niður í börn rétt fyrir barnatímann - svona svo hluthafarnir fái að græða meira á offituvá vestrænna barna.

Og já. Mér finnst erfitt að neita mér um súkkulaði og sætindi - og ýmislegt annað. Fáránlega erfitt. Einhver gæti sagt að freistingarnar allar væru að skerða frelsi mitt.


Vænst í heimi

Umhverfissinnar þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af álbræðslunni sem Norsk Hydro langar til að byggja hérna. Það verður að sögn forstjórans (og án efa að mati velviljaðra íslenskra velunnarra) umhverfisvænsta álbræðsla í heimi.

Mikið er ég fegin. Þá er sá slagur búinn. Hægt að einbeita sér frekar að öllu hinu.

Merkilegt hvað við Íslendingar erum einhvern alltaf svolítið vænst í heimi.


Ertu ekki að grínast?

Miriam Rose er ógnun "við grunngildi" íslenska samfélagsins. Hún vogaði sér að mótmæla í sumar og fyrrasumar og hlekkjaði sig við hlið.

Hún meiddi engan, stóð ekki fyrir ofbeldi eða óeirðum með neinum hætti. En þessi unga stúlka sem hafði hug á að stunda framhaldsnám í jarðfræði og á hér íslenska tengdafjölskyldu á það nú á hættu að vera vísað úr landi.

Þetta kemur fram í Blaðinu í morgun. Er glæpur Miriam að vera félagi í samtökunum Saving Iceland?

Er þetta umburðarlyndi okkar Íslendinga?

Ég fæ óbragð í munninn af sjálfumgleði okkar og hræsni á svona stundum. Ógnun við grunngildi - þvílíkur brandari.

Vertu þæg Miriam útlendingur, öllum stundum alla daga, og þá færðu kannski að vera hér hjá okkur áfram. Hjá okkur góða fólkinu sem gerum ekki svona, okkur sem kunnum að virða grunngildin. Hunskastu annars burt úr okkar garði.

Þeir sem lemja og nauðga - eru þeir ógnun við grunngildi? Til hvaða landa er þeim vísað á leiðinni til alíslenskra vægari dóma?


Í hópi hinna staðföstu

Snemma í morgun ákvað ég að hér eftir ætlaði ég bara að drekka einn kaffibolla á dag. Svo ætla ég í stað súkkulaðis að borða gulrætur. Eða þurrkað mangó eða peru eða epli. Hollustan í fyrirrúmi, heilsuátak.

Nú er klukkan 13.15 og ég er búin að breyta þessu þannig að kaffibollarnir eru orðnir tveir á dag. Allavega næstu 3 daga - aðlögunartími. Súkkulaðiátakið er um það bil það þúsundasta í röðinni á liðnum árum svo ég ætla ekki að veita undantekningu frá því fyrr en í fyrsta lagi um kl. 16.00.

Í svona málum dugar ekkert annað en að vera staðföst.  Hélduð þið virkilega að ég ætlaði að brjóta súkkulaðibindindið fyrir klukkan 4 í dag?


Allir í útrás

Er ekki málið að blása til alíslenskrar útrásar í þessum efnum?

Það er nú ekki hægt að láta heilt land vera án homma og lesbía - lítið fútt í því. Komum til bjargar og breiðum út gay-hæfileikann um allar trissur: ást ást ást konur karlar karlar konur konur konur karlar karlar litlir mjóir stórir feitir svartir hvítir íranir kanar. Hver veit nema Ahmadinejad (Mahmoud) og Bush (George) gætu jafnvel... og við þyrftum ekkert að hafa áhyggjur af sprengjuregni þar að sinni. Vegir ástarinnar eru órannsakanlegir.

Ekki fyrir viðkvæma.


mbl.is Ahmadinejad segir samkynhneigð ekki þekkjast í Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann á afmæli í dag, þ.e. í gær, ha?

Þessi mánudagur fer illa í mig svo ég ætla að láta eins og það sé sunnudagur. Er alltaf með nýjustu fréttir:

Skemmtilegt viðtal við Katrínu Jakobsdóttur í Mogganum í dag. Kata er eins og allir vita varaformaður  VG, frábær manneskja og glæsilegur nýr þingmaður. Óheyrilega dugleg, klár, skemmtileg, réttsýn og...

Nóg um það, lesið viðtalið.

Við Kata eigum greinilega sameiginlega dulda þrá sem ég vissi ekki af fyrr en nú: okkur langar báðum til að skrifa glæpasögu. Athyglisverð hugmynd að myrða fólk á leiðinlegum fundum og finna morðingjann - ætla að prófa. Fléttumeistarar láta til sín taka.

Svo verð ég að fá að óska formannil Taflfélagsins Hellis, Gunnari Björnssyni, hjartanlega til hamingju með afmælið. Hann er fertugur í dag (þ.e.a.s. í gær) og hélt upp á það í gær (þ.e.a.s. í fyrradag - er þetta ruglingslegt?) í flottri veislu.

Gunni er líka frábær náungi og hefur afrekað ótal margt í skákheimum sem víðar... leitt Helli til Íslandsmeistaraitilsins oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, staðið fyrir feikiöflugu uppbyggingastarfi, bryddað upp á alls kyns nýjungum og alþjólegum keppnum, verið eftirsóttur liðsstjóri landsliðsins, og áfram mætti lengi telja... svona félagsmálatröll eru vandfundin enda fékk hann Afmælisbikar úr gulli. Gunni er annars þekktur fyrir að vera maðurinn með hláturinn.

Gunnar ætti hins vegar eindregið að benda vinum sínum á að halda sér við skákborðið og láta gott heita á sviði sönglistarinnar. Skákkappar tóku sig til í afmælinu og upphófu einhvern þann hlægilegasta söng sem ég hef heyrt. Stundum bara stundum er vilji ekki allt sem þarf.

Þetta var sem sagt stór hópur manna að syngja saman hver með sínu nefi til heiðurs Gunnari - að skákmanna sið (sem eins og allir vita eru óforbetranlegir einstaklingshyggjumenn og halda allir með tölu að þeir hafi rétt fyrir sér og aðrir rangt skv. skilgreiningu = hver með sitt háværa nef í söng). En þótt vilji sé stundum ekki allt sem þarf er kannski óhætt að taka viljann fyrir verkið - þetta var óborganlegt atriði.

Hér er mynd af okkur Gunna á nýliðinni góðri stund fyrir vestan. Eins og sést á myndinni er maðurinn með afburðum gæðalegur, en hann tekur sig líka vel út með meðlimum hljómsveitarinnar Queen. Til hamingju með afmælið Gamli Garmur! Ætla að gefa þér í afmælisgjöf þriðjudag sem kemur beint á eftir sunnudegi, ekkert mánudagur- til-mæðu-rugl.

IMG_1188


Þar sem er þrjóska þar er von

Fólkið er þarna ennþá, en þjóðin er horfin. Það gerðist á síðustu 15 árum. Hún var keypt. Bara neysla.

Þetta segir finnski kvikmyndaleikstjórinni Aki Kaurismaki þegar hann er spurður af Lárusi Ými Óskarssyni í Lesbók Morgunblaðsins í dag hvað honum finnist um Finnland.

Ef Íslendingar væru nógu hreinskilnir og ekki jafn uppteknir af því að sýna fram á góða ímynd útávið (og græða á henni) þá mundu þeir kannski svara einhverju þessu líkt um Ísland í erlendu dagblaði. Þjóð sem getur ekki einu sinni druslast til að standa vörð um eigin náttúruperlur, hún er horfin - gæti til dæmis einhver sagt í erlendu dagblaði. Íslensk nútímamenning kristallast í skrílslátum allar helgar og trylltri áfengissýki sem fer harðnandi og snertir hverja fjölskyldu - gæti einhver annar sagt.

En þetta segir enginn Íslendingur í erlendu dagblaði. Best að láta alla halda áfram að við séum miklu betri en við erum. Þjórsá er falleg í túristabæklingi en í raun er henni best komið undir lón. Handritin eru fín í túristabæklingi en í raun eru þau ólesin. 

Einn daginn verður litið til baka og kynslóðir líta á eyðileggingu náttúrunnar með svipuðum hætti og við í dag mundum líta fólk sem færi brennandi eldi um Stofnun Árna Magnússonar og handritin.

Við höfum ekkert í Finnlandi nema þrjósku,

segir Kaurismaki á öðrum stað í viðtalinu.

Oft hefur verið sagt að Íslendingar og Finnar séu um margt líkir. Og þá eygjum við von.

Af því að þar sem er þrjóska, þar er von.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband