Færsluflokkur: Bloggar
Þriðjudagur, 27. febrúar 2007
Gleði, gagn og gaman, spurt og svarað.
Ég var á skemmtilegum fundi um helgina.
Ég vil allajafna hafa fundi stutta og snarpa og get verið ansi hörð á klukkunni þegar mér finnst fundir dragast um of. Um helgina langaði mig hins vegar helst að fundurinn héldi bara áfram og áfram. Þetta var minn fyrsti landsfundur en ef stemmningin er alltaf svona þá hvet ég ykkur öll til að koma með mér á næsta landsfund Vinstrigrænna - þó ekki sé nema bara til að finna fyrir kraftinum.
Ég hitti frábært og hvetjandi fólk alls staðar að af landinu og í öllum sem ég talaði við virtist baráttuneistinn loga. Nú er kominn tími til að breyta.
Það er margt sem stendur upp úr en ég held að einna mikilvægast sé að spyrja þeirra grundvallarspurninga sem við öll sem Íslendingur verðum að spyrja okkur að 12. maí nk.
Viltu samábyrgt, norrænt velferðarsamfélag á Íslandi eða viltu að mismunun halda áfram að aukast í samfélaginu?
Viltu láta náttúruna njóta vafans og stöðva stóriðjuframkvæmdir eða halda áfram landdrekkingar- og eyðileggingarstefnunni sem hér hefur ríkt?
Viltu róttækar kvenfrelsisáherslur eða viltu áframhaldandi kyrrstöðu í jafnréttismálum?
Viltu kröftuga og framsækna skóla fyrir alla og efla rannsóknir?
Viltu nota tækifærin sem gefast nú þegar herinn er farinn eða viltu fleiri styrjaldir í þínu nafni?
Viltu fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf eða uppgjafarstefnu í atvinnu- og byggðamálum?
Viltu endurheimta efnahagslegan stöðugleika og hverfa af braut viðskiptahalla og erlendrar skuldasöfnunar eða viltu enn meiri stóriðjuþenslu?
Viltu tryggja lýðræði og menningarlegt sjálfstæði með öflugri menningarstefnu eða halda áfram að einkavæða menninguna og veikja lýðræðið?
Hver verður að svara fyrir sig. Ég er persónulega þakklát fyrir að finna að mín eigin svör slá í takt við þann góða og fjölbreytta hóp fólks sem fyllti hjá mér helgina - á skemmtilegasta fundi sem ég hef setið
Pólitískir andstæðingar geta af mætti reynt að gera allt sem sagt er tortryggilegt, snúið út úr og þyrlað upp ryki, blekkingum og villandi fyrirsögnum í allar áttir. Verði þeim að því.
Við tökum bara eitt Dalai-Lama-Svar á það allt saman.
Eftir stendur að skilaboð helgarinnar eru einföld og skýr: Saman til betra lífs - í samfélagi fyrir alla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 10. febrúar 2007
Viltu finna hamingjuna?
Í mínum augum er einstaklingur sem býr yfir samhygð, hlýju og gæsku heilbrigður. Ef hann temur sér samhygð, ástúð og alúð opnar það sjálfkrafa dyrnar að hans innra manni... Ég tel að með því að rækta jákvætt hugarástand eins og gæsku og samhygð stuðli menn tvímælalaust að andlegu heilbrigði og hamingju... Ef við viljum höndla sanna hamingju verðum við oft að breyta viðhorfum okkar og hugsunarhætti og það er ekkert einfalt mál... Við verðum líka að beita ýmsum aðferðum til að fást við og sigrast á neikvæðu hugarástandi sem er bæði margvíslegt og flókið... Það er ekki auðvelt. Það krefst margvíslegra aðferða sem við verðum sífellt að endurtaka og það tekur tíma að venjast slíkri þjálfun. Þetta er námsferli. Með tímanum ætti okkur að takast að breyta okkur til hins betra. Þegar við förum á fætur á morgnana getum við tileinkað okkur jákvæðari atferlisvaka með því að hugsa: "Ég ætla að nota daginn á jákvæðari hátt."... Við þörfnumst ekki meiri peninga, meiri velgengni eða frægðar, við þörfnumst ekki fullkomins sköpulags eða fullkomins maka - á þessari stundu, á þessu andartaki þörfnumst við einskis annars en hugans til að verða fullkomlega hamingjusöm.
Þetta segir Dalai Lama.
Ég var minnt á hann um daginn af minni góðu stöllu og samherja Andreu Ólafs sem vakti athygli á þessu pólitíska stöðumati hér.
Sem sagt. Nú þegar við erum að fara fram úr rúmunum eigum við í anda Dalai Lama að hugsa eina fallega og góða jákvæða hugsun og láta hana fylgja okkur í gegnum daginn, sama hvað á reynir. Sem hluta af námsferlinu á leið til hamingju. Laugardagur til lukku. Á fætur!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 9. febrúar 2007
Laugardagur til lukku
Á morgun verður kosinn nýr formaður Knattspyrnusambands Íslands. Ég er spennt að sjá hvað kemur út úr því. Ég hef óbilandi trú á Höllu Gunnarsdóttur og held að hún væri frábær í starfið. Ég efast ekki um að Geir og Jafet séu báðir mjög öflugir og góðir kandídatar en Halla fær mitt atkvæði. Sorry guys.
Eins og skrifað stendur einhvers staðar: Halla er kraftmikil, dugleg, skipulögð og bjartsýn og hún er með hjartað á nákvæmlega réttum stað. Og hún er veik fyrir fótbolta.
Það er sagt að indíánar Norður-Ameríku hafi spilað eins konar fótbolta í upphafi 16. aldar. Þeir eiga að hafa spilað á söndunum við sjóinn með um einn og hálfan kílómetra á milli marka. Þetta var í þá daga þegar fólk þjáðist ekki af hreyfingarleysi. Allt að 1000 manns tóku þátt í leiknum hverju sinni, dulbúnir með grímum, málningu og skrauti. Stundum tók leikurinn tvo daga en að leik loknum var slegið upp gríðarlegum hátíðahöldum. Það fylgir ekki sögunni hvort konur máttu vera með.
Þetta var útúrdúr til gamans á föstudegi.
Laugardagur er til lukku og þá er hægt að fagna. Áfram Halla!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 8. febrúar 2007
Byrgismaður og Byrgisskapur
Mágur minn og vinur var að ráða krossgátur um helgina og kíkti í Íslenska Orðsifjabók sem er gefin út af Orðabók Háskólans.
Þar rakst hann á þessar skilgreiningar, tilvitnun hefst:
"byrgismaður = friðill, hórkarl"
"byrgisskapur = saurlifnaður"
"Orðin sýnast leidd af byrgi og eru sennilega sniðin eftir erlendri fyrirmynd, sbr. portkona og portlífi, lat. fornix og fornicatio."
Tilvitnun lýkur.
Orðsifjabók er ætlað að skýra út fyrir okkur uppruna og tengsl íslenskra orða og orðmyndana. Bókin kom út árið 1989.
Pínulítið óhuggulegt.
Tek undir með Össuri. Þetta er allt eitt óforsvaranlegt hörmungarmál frá upphafi til enda.
Össur spyr um ábyrgð stjórnvalda gagnvart stúlkum í Byrginu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Þriðjudagur, 6. febrúar 2007
Elvis og Didda Presley
Ég fór í sund í morgun þar sem sól skein í heiði í köldum andblæ og ég hugsaði með mér: mikið er dásamlegt að búa á Íslandi. Mig langar bara að tala um eitthvað skemmtilegt í dag.
Aðdáendur Elvisar og Diddu skáldkonu Presley geta glaðst. Þau eru nefnilega að fara að sýna sig í vikunni. Ábreiðuhljómsveitin Mina Rakastan Sinua Elvis heldur tónleika á Domo, Þingholtsstræti, fimmtudagskvöldið 8. febrúar klukkan 21:00. Þar verður Elvis og arfleifð hans í forgrunni.
Mina Rakastan Sinua (ég elska þig, á finnsku) skipa Þór Eldon, Kormákur Geirharðsson, Ari Eldon, Riina Finnsdóttir og Didda. Elvis Presley er með í bandinu í anda.
Elvis var steingeit. Fæddist 8. janúar 1935 Í Mississippi. Flutti svo til Memphis, Tennessee, eins og frægt er orðið. Hann ólst meðal annars upp við gospel tónlist og sveitasöngva. Ég veit ekki alveg hvaða lag mér finnst flottast með honum en talaði hlutinn í Are You Lonesome Tonight kemur manni alltaf til að brosa. Það er víst andagift frá Shakespeare. Elvis fékk einu sinni algjört hláturkast í þessu lagi á sviði í Vegas. Breytti textanum og hló sig máttlausan út í gegn. Ég hef alltaf verið veik fyrir fólki sem getur fengið óstöðvandi hláturskast.
Ég hitti einu sinni blökkukonu á áttræðisaldri frá Memphis sem söng gospel í kirkjunni sinni á hverjum sunnudegi. Hún var fátæk þvottakona sem sparaði nær allt sem hún átti til að styrkja börn í kirkjunni til náms. Hún var verulega flott og með fallegur hrukkur. Við eigum að halda meira upp á fólk með hrukkur.
Það verður gaman á fimmtudag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 6. febrúar 2007
Uppbyggð malbikuð hraðbraut yfir Kjöl?
Bensínstöðva- og hraðbrautarvæðing hálendisins?
Nei takk. Sama og þegið.
Við erum búin að læra af mistökum okkar.
Næsta mál á dagskrá?
Heildarsýn um vegagerð á hálendinu er ágætis byrjun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 5. febrúar 2007
Hinir nýju gúrúar Íslands?
Steve Forbes er að koma til landsins. Nýlega var slegið upp viðtali við hann og væntanlega fáum við að heyra meira af honum og sjá áður en hann hverfur á braut. Hann á að halda fyrirlestur á Hótel Nordica annað kvöld.
Ég efast ekki um að það geti verið áhugavert að hlusta á fyrirlestur Steve Forbes. En það væri notalegt að vera hlíft við að þurfa að hlusta á öfga-hægri-nýfrjálshyggju-Repúblíkana sem hefur nákvæmlega enga innsýn í íslenskt þjóðlíf (og líklega enn minni áhuga, þar af minni þekkingu) og heyra hann kveða upp Salómónsdóm um hitt og þetta er varðar Ísland og Íslendinga, Evru og stöðugleika. Sjá því slegið upp eins og hér sé spámaðurinn mættur. Svona á meðan hann hlær og er upplýstur lauslega um íslenska hagkerfið er hann búinn að afgreiða vandamálið: takið upp evru. Farísei hinna nýríku mælir.
Við ættum kannski að byrja á því að taka upp almennilega hagstjórn áður en við hlustum á Steve Forbes hinum megin á línunni. Evra, króna, dollari, rand, rupee: nefndu gjaldmiðilinn hvaða nafni sem þú vilt. Ef góð hagstjórn er ekki fyrir hendi þá er tóm tjara að líta á einn eða annan gjaldmiðil sem allsherjarlausn. En þar stendur hnífurinn kannski fastur í kúnni: við Íslendingar erum svo veik fyrir töfralausnum.
Steve Forbes er íhaldssamari og öfgafyllri en sjálfur George Bush. Hann vill sjá hina ríku verða ríkari og hann lítur á heilbrigðiskerfi fyrir alla sem argasta sósíalisma. Hann hefur verið á meðal þeirra sem afneita loftlagshlýnun (og er því í miklu uppáhaldi hjá arðránsfyrirtækjum og mengunarsóðum), hann lýsir því yfir að ef Hilary Clinton komist til valda þá þýði það hrun fyrir bandarískt hagkerfi (einmitt), hann er fylgjandi stríði við Íran (til að lækka olíuverðið) - og svo mætti lengi telja.
Og hvað hefur hann um Írak að segja? Jú, stríðið hefur vissulega dregið nokkuð úr vextinum í Bandaríkjunum og verið skaðlegt hagkerfinu í heild sinni. En blessunarlega er stríðið "samt afar lítill hluti hagkerfisins."
Það að vera öfga-hægri-Repúblikani er ekkert grín. Þá er t.d. hægt að líta á styrjöld sem mínus eða plús fyrir hagkerfið og ljúka svo máli sínu. Eru þessir gaurar hinir nýju gúrúar Íslands?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 5. febrúar 2007
Hugsanir frá Lincoln
Í Norður-Karólinu voru þau lagaákvæði í gildi, að það væri refsivert að selja eða gefa þræli bók, Biblían meðtalin, og ef frjáls svertingi reyndist sekur um slíkt, skyldi hann hljóta 39 svipuhögg, en hvítur maður 200 dollara sekt. Í lögum þessum var það tekið fram, að ef þrælum yrði kennt að lesa og skrifa, myndi það sá óánægju í huga þeirra og jafnvel hvetja til uppreisnar. Í Suður-Karólínu var svo fyrir mælt í lögum, að svertingjum, sem kæmu saman til guðsþjónustuhalds fyri sólarupprás eða eftir sólsetur, skyldi refsað með 20 svipuhöggum, "vel úti látnum", eins og þar stóð. Ef þrælar söfnuðust saman til skólagöngu eða fræðslu í Virginíu, var um lögbrot að ræða, sem refsað var með 20 svipuhöggum. Í Louisiana varðaði það eins árs fangelsi að kenna þræli að lesa og skrifa.
Á heimili mínu er nú verið að lesa Ævisögu Abraham Lincoln og þetta er tekið upp úr henni. Abraham Lincoln var flottur.
Gagnrýnin hugsun er byltingarkenndasta afl heimsins. Hún getur kallað fram í fólki kröfu um breytingar og bættan heim. Þess vegna litu þrælahaldarar á sínum tíma á það sem stórhættulegan hlut ef þrælar lærðu að lesa og skrifa og þroska hugmyndir sínar í ólíkar áttir.
Þrældómi hefur ekki verið útrýmt, hann heitir bara öðrum nöfnum í dag.
Ef lögum samkvæmt allir mega lesa og skrifa, en í reynd er þeim gert það ókleift að geta það, og ef lögum samkvæmt þrælahald er bannað, en í reynd lifir það góðu lífi, hverju þarf þá að breyta?
Þegar stórt er spurt...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. febrúar 2007
Hvað eiga börn að læra í skólum?
Það er undarlegt hversu lítið er talað um það hvað börn eiga að læra í skólum landsins. Hvernig skiljum við hugtakið "menntun" og hvað kemur börnum best í undirbúningi sínum fyrir lífið?
Jóhann Björnsson skrifar um þetta ágæta hugleiðingu í bloggi dagsins sem hægt er að lesa hér.
Þótt ég vilji eindregið að börn læri að leggja saman tvo og tvo, þekkja nafnorð og sagnorð og segja "my name is" þá mundi ég setja annars konar lærdóm einu þrepi ofar heldur en allt þetta - eða í það minnsta á jafn háan stall.
Það er nefnilega þannig í lífinu eins og við öll vitum að gleði okkar og hamingja og eiginleg "menntun" okkar sem manneskju er einungis að litlum hluta byggð á því hvort við lærðum almennilega að tegra og skilgreina atviksorð.
Hversu mörg ár í lífi fólks fara í kvíða og sjálfsefa, samviskubit, blekkingar, fíkn eða tilgangsleysi? Getum við ekki gert meira til að blása börnum frá unga aldri hugrekki í brjóst til að takast á við lífsins ólgusjó með innri karakter og styrk að leiðarljósi?
Mér datt í hug að við ættum að útbúa eins konar stikkorðalista yfir það sem okkur finnst mikilvægt að börn og unglingar séu hvött til að læra - til jafns á við lestur og dönsku. Styrking á sjálfstrausti, gleði, tjáningu og eðlislægri fróðleiksfýsn allra barna gerir þeim svo margfalt auðveldara fyrir sem unglingum að læra hvað sem er - og líða betur.
Hér eru nokkur stikkorð til að byrja með: Sjálfstraust Gleði Kærleikur Hlýja Tjáning Að leika sér Að segja satt Hugrekki Hugmyndaauðgi Frumkvæði Sanngirni Hógværð Virðing Tillitssemi Örlæti...
Með öðrum orðum, það mundi varla skaða menntun barna og unglinga ef þau fengju meiri tíma í siðfræði og leikjum og hlutverkum því tengdu. Með því að styrkja sjálfstraust og innri áttavita barna og unglinga gerum við þeim betur kleift að takast á við lífið og hamingjuna á eigin forsendum.
Er það ekki einmitt það sem flesta dreymir um að geta gert þegar þau eru orðin stór?
Eins og Jóhann Björnsson bendir á þá var það fyrir meira en 4.500 árum síðan að Aristóteles byrjaði að tala um þessa hluti. Og löngu á undan honum voru aðrir sem fannst þetta vera kjarni menntunar. Hvers vegna? Vegna þess að það væri kjarni þess að vera manneskja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Laugardagur, 3. febrúar 2007
Hvers virði er hreint loft?
Okkar kynslóðar bíður það skemmtilega verkefni að svara þessari spurningu afdráttarlaust. Hvers virði er okkur hreina loftið? Er hægt að kaupa það af okkur? Fyrir hve mikið?
Við þurfum helst að svara þessu núna strax. Það er nefnilega allt morandi í kaupendum og seljendum - sem tala fyrir okkur öll. Í peningagræðginni sem við öndum að okkur frá morgni til kvölds gleymist stundum að það er til annars konar andríki. Andrúmsloft jarðar er eitt þeirra. Andrúmsloftið sem allt lífríki jarðar er fætt til að anda að sér er að verða fégræðgi okkar að bráð. Hvað ætlum við að gera?
Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Hárfínn þráður er á milli lífs og dauða - og alls hins. Það á við um svo ótal margt: allt það dýrmætasta í lífinu er brothætt og það þarf að berjast fyrir því.
Allt það dýrmætasta í lífinu er heldur ekki til sölu. Eða ætti að minnsta kosti ekki að vera það.
Hverju erum við tilbúin til að fórna fyrir 400 milljónir eða 800? Milljarð eða 1,4?
Einhvern veginn höfum við Íslendingar vanist þeirri hugsun að hreint loft og stórbrotin náttúra sé einhvers konar náttúrulögmál sem muni fylgja okkur um ókomna tíð, sama hvernig við hegðum okkur. Það er langt í frá. Í þeirri flóðbylgju mengunar, hlýnandi andrúmslofts og eyðileggingar sem herjar á lífríki og náttúru jarðar höfum við Íslendingar nú gullið tækifæri til að breyta til og vera öðruvísi. Við getum orðið öðrum í heiminum fyrirmynd.
Í öllum okkar vellystingum búum við að þeim lúxus að geta valið. Okkar kynslóð getur markað brautina til góðs.
En til að svo megi verða þurfum við auðvitað að leita inn á við. Leita í ríkidæmi andans - og treysta á það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)