Jæja.
Ég er mætt aftur á bloggið eftir alltof langt frí. Ætla mér nú aftur að taka upp á þeim sóma að skrifa daglega.
Undanfarnir dagar og vikur hafa verið viðburðaríkir. Svo eitt lítið dæmi sé nefnt þá var bílnum okkar stolið í vikunni.
Ég labbaði út á stæði fyrir framan húsið okkar snemma morguns og bíllinn sem ég hafði lagt þar kvöldinu áður var horfinn. Ég hélt fyrst að það hlyti að vera ég sem væri að kalka - man ég ekki hvar ég lagði bílnum? - en á endanum töluðu staðreyndirnar sínu máli. Bíllinn var horfinn.
Síðar um daginn var hringt frá lögreglunni og sagt að bíllinn hefði fundist. Það hefði verið keyrt út af á honum, það hefði kviknað í honum og hann væri ónýtur. Það hefði verið kallaður til dráttarbíll og farið með hann í geymslu, við gætum hugsanlega kíkt á hann þar. Eftir nokkra daga.
Spennandi.
Þegar ég kom á staðinn var ég voða glöð - mér var tjáð að ég gæti keyrt bílinn, það þyrfti bara að setja hann í skoðun. Reyndar hefði líka verið kveikt í einhverju INNI í bílnum, og þess vegna væri þessi megna og stæka lykt, en annars virtist hann vera í þokkalegu lagi. Ég ætti bara að borga fyrir flutning og geymslu...
Þetta var allt dálítið athyglisvert og skrítið...
Þótt ég sé mikil hjólakona og nokkur göngugarpur og mér þyki miklu betra að fara í strætó heldur en í bíl (í alvöru, mæli með því, miklu meira afslappandi og gott að vera í strætó, frjáls tími!), þá útheimtir stundataflan mín stundum að ég sé í Grafarvogi kl. 10, Hafnarfirði kl. 11.00, í Skeifunni kl. 12.30... osfrv. Og þá verður þetta pínu snúið bara á hjólinu... Forræðishyggja einkabílsins er algjör á Íslandi og ég ætla ekki einu sinni að byrja að tala um hversu nauðsynlegt það er að byggja hér upp miklu betri almenningssamgöngur og hjólabrautir í takt við hin Norðurlöndin, nóg um það í bili...
Þetta er fyrsti og eini bíllinn minn (reyndar eigum við hann eiginlega fjórar saman, hann er sem sagt eiginleg sameign og ég er ekki skráð fyrir honum, en mér skilst að "sameign" sé orðið óskiljanlegt og marklaust hugtak nú til dags svo við sleppum þeim kapítula). Eftir tveggja ára samleið þykir manni pínu leiðinlegt ef einhver fer illa með hann. Hann er "gömul drusla" en búinn að vera voða duglegur þessi tvö ár og meira að segja búinn að keyra okkur hringinn í kringum landið með miklum sóma. Flottur.
Sem sagt. Ég bruna af stað úr stæðinu, ánægð með minn gamla, en við fyrstu beygju kemur í ljós að bíllinn er gjörsamlega bremsulaus. Ekki nokkur einasta tenging við bremsurnar.
Í eitt augnablik stoppaði í mér hjartað og ég sá okkur þeysast inn í næsta húsvegg en svo reif ég í handbremsuna og kastaði í hlutlausan og einhvern veginn tókst okkur gömlu góðu bíldruslunni sem var kveikt í að forða okkur. Það er merkilegt hvað hugurinn nær að hugsa ótrúlega mikið á einu sekúndubroti - svona þegar á hann er kallað.
Þetta er sem sagt eitt af því litla sem hefur hent síðustu daga og vikur. Það er af ótal mörgu öðru að taka!
Ég verð annars að fá að nefna að mitt frábæra skákfélag, Taflfélagið Hellir, varð Íslandsmeistari skákfélaga um síðustu helgi. Ég hef verið í Helli nánast frá stofnun félagsins og var agalega montin af þeim, til hamingju! Gunni vinur minn formaður Hellis minnti mig af þessu tilefni á að ég hefði unnið fyrstu skák Hellis á Íslandsmóti skákfélaga þegar félagið tók fyrst þátt í mótinu (fyrir þó nokkrum árum síðan). Þá var félagið "smátt, sterkt og skemmtilegt" en nú er það bara "sterkt og skemmtilegt" af því að það stækkaði svo hratt - og verðskuldað. Gunni móðgaði mig hins vegar stórlega um leið og hann minnti mig á þetta: "Bílnum þínum stolið? Hverjum dettur í hug að stela svona druslu?" Nei, þetta var ekki grín hjá honum, kom alveg sjálfkrafa - hann var einlæglega hissa.
Ég ligg í flensu núna og vorkenni sjálfri mér en fögnuðurinn hið innra lætur ekki segjast:
Það stefnir allt í nýja græna velferðarstjórn í vor!!!
Við vinstrigræn mælumst nú með 25,7-27,5% fylgi og það er einfaldlega stórkostlegt! Fólk vill breytingar - og tími breytinganna er sannarlega kominn. Við erum hér! Ekki lengur smá, sterk og skemmtileg - heldur sterk og skemmtileg!