Innflytjandi kveður sér hljóðs

 Til hamingju Toshiki! 

Ég fékk fallega bók í hendur í gær. Hún er eftirtektarverð fyrir ýmissa hluta sakir, en ekki síst það að hún er fyrsta bók innflytjanda á Íslandi sem frumort er á íslenska tungu.

Þetta er fyrsta ljóðabók Toshiki Toma, Fimmta árstíðin.

Titill bókarinnar er skrautskrifaður á japönsku af móður Toshiki, Michiko Toma, en ljóðin finna sér stað í nýju heimalandi skáldsins... við Tjörnina, við Austurvöll, við Heklu eða á ólíkum stöðum íslenskrar náttúru með kríur yfir höfði og þrá í hjarta, næm og innblásin.

Að sinni ætla ég að vitna í ljóð sem sker sig mjög frá hinum í bókinni en fékk mig til að brosa:

Sannleikurinn er

eins og bolti í ruðningsleik

Þeim er hrósað

sem láta boltann ganga á milli sín

 

Þeim sem vilja halda fast í hann

troðið í svaðið


Ríkisendurskoðun staðfestir gagnrýni VG

Þá kom að því.

Hinn 9. maí sl. samþykktu þáverandi ráðherrar fyrir hönd ríkisins samkomulag um yfirtöku Landsvirkjunar á vatnsréttindum ríkisins í neðri hluta Þjórsár. Nokkrum dögum fyrir kosningar!

Þingflokkur VG andmælti þessu á þeirri forsendu að þetta væri gert án heimildar í lögum og fór fram á að Ríkisendurskoðun kannaði hvort þetta stæðist lög.

Í gær birti Ríkisendurskoðun niðurstöður sínar þar sem fram kemur að umrætt samkomulag sé ekki bindandi fyrir ríkið enda skorti nauðsynlegar lagaheimildir. 

Þetta er áfellisdómur yfir vinnubrögðum stjórnvalda. Við hljótum nú að fara fram á að þegar í stað verði fallið frá fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum.

Ríkisstjórnin hefur málið í hendi sér. Samfylking góð, bjargaðu Þjórsá! Þér verður þakkað um langa hríð!


Er byrjað að virkja í Þjórsá? Hver ber ábyrgð?

Ég var að sjá ansi ljótar myndir frá uppgreftri og byrjun framkvæmda við Þjórsá. Væntanlega eru þetta kallaðar "rannsóknir" - eða í það minnsta kæmi það ekki á óvart.

Sól á Suðurlandi hefur útbúið plakat með myndum af framkvæmdunum og segja:

Við viljum skýringar! Hvar eru leyfin?

Virkjanir í Þjórsá eru ekki umsamið mál.

Ekki liggur fyrir aðalskipulag alls staðar.

Ósamið er við landeigendur.

Hvað á þetta að þýða?

Já, hvað á þetta að þýða? Hver ber ábyrgð? Enginn?


Lögun hjartans

Bandarískur vinur minn af indverskum uppruna kom í heimsókn í sumar. Hann var hálfgert undrabarn og skrifaði virtar alþjóðlegar vísindagreinar 18 ára gamall - svona um það leyti sem ég var fyrst að kynnast honum og hafði ekki hugmynd um hvað ég ætlaði mér að verða þegar ég yrði stór (og ég er enn ekki alveg viss).

Ég var að spyrja þennan ágæta félaga minn út í háskólana á Indlandi sem hann sagði mjög góða.

Eru þetta einkaháskólar? spurði ég.

Nei, bestu skólarnir á Indlandi eru allir ríkisskólar, sagði hann.

Nú? sagði ég. Ég hélt að trúarbrögðin í dag væru þau að það væru engar almennilegar menntastofnanir til nema þær væru einkavæddar - eða í það allra minnsta "einkareknar"?

Já, einmitt, það eru trúarbrögð, sagði hann og brosti. 

Ég veit annars ósköp lítið um skóla á Indlandi, nánast ekki neitt.

Eitt veit ég þó og það er að mér finnst almenn umræða um menntamál hér á landi snúast óheyrilega mikið um rekstrarform og óheyrilega lítið um innihald, óheyrilega mikið um einkavæðingu og óheyrilega lítið um samfélagslegan metnað.

Einn annar vinur minn stærðfræðingur frá Indlandi reiknaði einu sinni út fyrir mig stærðfræðiformúlu sem lýsti lögun hjartans og gaf mér. Mér þótti það falleg gjöf.


mbl.is Ísland undir meðaltali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Omdúrman og sjúkleg Esja

Heimurinn er flókinn og margslunginn og okkar beittasta leið fram á við er sjálfsgagnrýni og efi - kannski pakkaður inn í einhvers konar bjartsýni og framtak.

Ég var minnt á Súdan í gær þegar ég sá kennslukonuna bresku losna úr prísund og heyrði hana tala um örlæti og fegurð fólksins í Súdan. Konan mín var einu sinni að vinna í Súdan og nú er ég einmitt að lesa bók sem er gefin út af bókaforlaginu Omdúrman.

Bókin heitir "Nýr penni í nýju lýðveldi" og fjallar um Reykjavíkurskáldið Elías Mar. Ég var bara að byrja og mér líst vel á, en ég er heldur ekki hlutlaus... Elías var mér kær og ég var heppin að fá örlítið að kynnast honum og ég vildi óska að ég hefði heimsótt hann oftar hin síðari ár. En allt hefur sínar ástæður og nú get ég í það minnsta hlakkað til að lesa meira.

Mikið er Esjan sjúkleg í kyrrðinni í dag. Ég ætla í sund.


Ertu femínisti eða öfgamaður?

Er orðið "femínisti" að verða að hálfgerðu blótsyrði í íslensku samfélagi? Hvers vegna dynur á femínistum sá óhróður sem raun ber vitni?

"Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því."

Þetta er skilgreiningin á femínista á heimasíðu Femínistafélagsins. Öfgafullt?

Þjóð sem getur stært sig af því að hafa fyrst allra kosið konu og einstæða móður í forsetaembætti og þjóð sem á að baki merka arfleifð jafnréttisbaráttu ætti að vera stolt af sínum ungu femínistum. Sumt af því sem skrifað hefur verið og sagt um konur í jafnréttisbaráttu í dag er svo viðurstyggilegt og öfgafullt að mig setur hljóða.

Fyrir einhverjum árum síðan hefði það þótt öfgafullt á Íslandi að einkavæða heilbrigðiskerfið. Þær öfgar eru að verða að viðteknum hugmyndaheimi.

Fyrir einhverjum árum síðan hefði gróf stéttaskipting á Íslandi misboðið jafnvel gömlum íhaldsmönnum. Nú er öfgafull misskipting normalíseruð.

Kannski ættum við að fara að setja stimpilinn "öfgar" á þær hliðar mannlífsins þar sem það er raunverulega áríðandi í okkar litla landi, þar sem völdin raunverulega liggja og eru á fullri ferð við að gjörbreyta samfélaginu og almennum viðmiðum.

Öfgastimpillinn á best heima þar sem hann er normalíseraður, viðtekinn, óséður.

Á meðan væri kannski hægt að hvíla öfgastimpilinn á þeim sem velta við bleikum og bláum steinum, halda vikur gegn kynbundnu ofbeldi, spyrja um mótun kynjahlutverka og krefjast launaréttlætis og og og... Femínistar feta í fótspor sterkra íslenskra kvenna, kvenna og karla sem spurðu spurninga og lögðu fram hugmyndir sem þóttu óheyrilega hneykslanlegar á sínum tíma, en eru nú viðtekin viðmið og liður í betra samfélagi.

Erum við ekki öll femínistar - viljum við ekki öll jafnrétti?


Femínistafréttir

Um helgina komu í loftið fleiri Femínistafréttir – sjá hér!


Andartakið rétt áður

en bangsi gæðir sér á hunanginu er langbest.

Lofaðu mér að muna þetta: þú ert hugrakkari en þú trúir, sterkari en þú virðist og klárari en þú heldur.

Sagði Christopher Robin við Bangsímon einn daginn. Alvöru vinur alvöru bangsa.

Ég ætla að lesa Bangsímon alla helgina! Kem reyndar við á skákmóti á Ólafsvík á morgun, en tek hana með mér milli umferða...


Alvöru bangsi og þingsköp

"Það sem er allra, allra best", sagði Bangsímon,

en svo þagnaði hann snögglega. Af því að hann fattaði um leið og hann byrjaði að segja þetta að jafnvel þótt að það að borða hunang væri það allra besta í heimi, þá væri eitt sem væri enn betra: andartakið áður en hann byrjaði að fá sér. En hann vissi ekki hvað það hét svo hann kláraði ekki setninguna.

"Árnar vita þetta: við getum andað róleg, við komumst á leiðarenda að lokum."

Bangsímon er snillingur, eins og ég hef sagt áður. Huggar harma og hreinsar pirring.

Ég er einmitt mjög pirruð yfir fádæma vinnubrögðum og yfirgangi við boðaðar breytingar á þingskaparlögum. Hvílík verslun sem hér hefur verið viðhöfð - og VG oftar sem áður þau einu sem standa í lappirnar.

Meirihlutinn traðkar á öllum tillögum (eða réttara sagt lítur ekki á þær, hefur ekki áhuga) þess flokks sem ég staðhæfi að hafa unnið heimavinnuna sína langtum betur en aðrir í þessum efnum - og hefur það að einbeittu markmiði sínu að vilja styrkja þingræðið í landinu.

Við viljum breyta Alþingi úr stimplana- og færibandaverksmiðju ríkisstjórnarinnar yfir í vandaða, sjálfstæða, alvöru löggjafarsamkundu. Hvort haldið þið að meirihluti landslaga komi frá þingi eða embættismanna- og valdakerfi ráðuneyta? Duglegir stjórnarandstöðuþingmenn leggja nótt við dag en hafa ekki undan við að taka á móti flóðbylgju frumvarpa sem eru keyrð í gegnum þingið á engum tíma.

Meirihlutinn stóri sem ann lýðræðinu svo mjög má ekki vera að því að hlusta - hann er of upptekinn við að keyra í gegn heftingu á málfrelsi lítillar stjórnarandstöu og stinga snuðum upp í þá sem það þiggja. Þetta er víst allt gert í nafni lýðræðisins.

Cut the crap hefði Bangsímon kannski sagt á móðurmálinu. Alvöru bangsi.

Úps!

Það gleymdist víst að spyrja einhverja í lífskjarakönnuninni.

Hvort skrifar maður Úps eða Úbs?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband