Allar skemmdar í skjóli frelsisins

Það er magnað hvernig ákveðin hagsmunaöfl samfélagsins komast upp með að tala um "frelsi" þegar þau eru í raun að tala um eigin hag - og þá oftast eigin græðgisvæðingu og völd.

Það er t.d. agalega klókt af markaðsöflunum og talsmönnum þeirra að nota orðið "frelsi" þegar fjallað er um skefjalausa markaðshyggju. Markaðsöflin reyna ekki að ná völdum, þau reyna ekki að "stýra" okkur, þau reyna ekki að hafa "áhrif" eða "afskipti" af börnunum okkar, sei sei nei. Þau eru bara "frjáls".

Hver getur verið á móti frelsi?

Í þessu orðfæri verða allar hugmyndir um samfélagslega ábyrgð, samkennd og sterkt velferðarkerfi að "ríkisafskiptum" og "forræðishyggju".

Auglýsingar kóka kóla í hverju horni ("kynlíf með zero-forleik" stendur á nýju zero-kókflöskunni, sykurlaust fyrir börn) standa bara fyrir frelsi en ekki "áreiti", "áhrif" eða "afskipti". Skólatannlækningar standa hins vegar fyrir óþolandi "ríkisafskipti" (enda er búið að leggja þær af í nafni frelsisins). Gjaldfrjáls tannlæknakostnaður fyrir börn og unglinga stendur fyrir úrelta félagshyggju, enda er búið að henda því öllu út á hafsauga (í nafni frelsisins). 

Það að reyna að koma í veg fyrir að gosdrykkjum sé bókstaflega verðstýrt ofan í börn og unglinga stendur fyrir óþolandi "forræðishyggju" og er skerðing á frelsinu. Lýðheilsustöð, hvað? Hinn frjálsi markaður ræður!

Einhvern veginn segir mér svo hugur um að þriggja ára börn með allar skemmdar og foreldrar þeirra sem hafa ekki efni á að fara reglulega til tannlæknis upplifi sig ekkert sérstaklega mikið sem handhafa frelsisins.

Sum öfl hafa nefnilega miklu meiri áhuga á "frelsi markaðarins" heldur en frelsi okkar mannanna, og það sést út um allt.

Hvernig ætla óheftu markaðsöflin og allir þeir sem standa svo fallega fyrir frelsinu (og hripleku velferðarkerfi) að taka á hruni í tannheilsu íslenskra barna? Er það meira zero-kók, eða hvert er svarið?


Mótmælum innrásinni í Írak í Austurbæ í kvöld kl. 20

   okkar h  ndum

Nú eru liðin fjögur ár frá því að innrás Bandaríkjamanna og bandalagsríkja þeirra í Írak hófst, með formlegum stuðningi íslenskra stjórnvalda.

Ég hvet ykkur til að fjölmenna í Austurbæ í kvöld þar sem hinir staðföstu stríðsandstæðingar mótmæla hörmungunum og hernáminu í Írak og stuðningi Íslands við stríðið.

Þið getið lesið meira um samkomuna í kvöld á fridur.is

Fjölmennum!


Rósir á Akureyri

Íslandsmót_059

Ég er búin að vera í fríi frá allri pólitík um helgina. Skákin tók völdin og ég hef ekkert gert annað en að stússast í skák norður á Akureyri.  

Ég hef ekki komist í tölvu hér fyrir norðan fyrr en nú - er búin að vera að frá morgni til kvölds og það er búið að vera virkilega gaman. Ég fór í nokkra grunnskóla á föstudag og um kvöldið hélt Skákfélag Akureyrar sérstakt Kvennakvöld. Þangað komu konur sem hafa ekki teflt í fleiri ár - jafnvel áratugi! - en við rifjuðum saman upp mannganginnn og nokkrar klassískar fléttur. Mér fannst sérstaklega skemmtilegt að í hópnum mættust m.a. sauðfjárbóndi, kúabóndi og "blandaður bóndi" og tefldu eins og herforingjar, höfðu engu gleymt.

Í gær fór svo allur dagurinn í Íslandsmót stúlkna. Ég var með kennslustund um morguninn en strax eftir hádegi hófst mótið og við höfum nú eignast glæsilega nýja Íslandsmeistara grunnskólastúlkna. Í flokki 12-16 ára sigraði Sigríður Björg Helgadóttir nemandi í Rimaskóla í Reykjavík, í öðru sæti varð Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir og í þriðja sæti Tinna Kristín Finnbogadóttir. Efst úr heimabyggð var Ulker Gasanova, Lundaskóla, sem er upprunalega frá landi Kasparovs, Azerbajan. Í flokki 11 ára og yngri sigraði Sólrún Haraldsdóttir frá Glerárskóla á Akureyri, í öðru sæti varð Hulda Rún Finnbogadóttir og í þriðja sæti varð Hildur Jóhannsdóttir (sem er bara 8 ára gömul!). Skákfélag Akureyrar tók höfðinglega á móti öllum keppendum og á heiður skilið fyrir frábært mót.

Nú bíð ég bara eftir að komast heim eftir nærandi helgi fyrir norðan... til í slaginn.

P.S. Rétt svar við getrauninni var Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður... Ég hafði ætlað mér að gefa frían skáktíma í verðlaun en sé að sá sem var fyrstur til að svara getrauninni var eðalkratinn og skákmeistarinn Benedikt Jónasson svo ég verð að upphugsa einhver önnur verðlaun... Benni Jónasar þarf ekki á kennslustund í skák að halda!


Getraun dagsins

 

Hver lét þessi ágætu orð falla nýverið?

Ef björt framtíð á að blasa við börnunum okkar þá verður það í gegnum sjálfbæra þróun...

Það er tímabært að við opnum augu okkar fyrir því sem raunverulega skiptir máli í lífinu...

Við erum vongóð þegar við horfum til vorsins, með sól í sinni og með sól í hjarta, sannfærð um að það verður ekki bara sól í straumi í vor og ekki bara sól á Suðurlandi. Það verður sól um allt Ísland.

Heyr, heyr!

Hver veit nema mér fljúgi í hug eilítill vinningur fyrir rétt svar. Wizard


Ég vil bara vera eins og Gunnar Kvaran

"Ég vil bara vera eins og Gunnar Kvaran."

Þetta segir 9 ára hnáta í viðtali við Morgunblaðið í gær. Ég ætla að halda áfram að hafa þennan Mogga á skrifborðinu hjá mér af því myndin af litla sellóleikaranum fær mig stöðugt til að brosa. Mér finnst einfaldlega dásamlegt að til séu 9 ára stúlkur á Íslandi sem eiga sér þá ósk heitasta að vera eins og Gunnar Kvaran þegar þær eru orðnar stórar.

Eins og öll börn kann unga tónlistarkonan að meta það fallega og skemmtilega í lífinu. Hún veit fátt fegurra en sellóið sitt og hljóminn djúpa sem úr því berst. Mikið er nú hægt að læra listina að lifa af yngstu kynslóðinni...

Annars sagði forsætisráðherrann okkar í kvöld að raunveruleg hætta væri á vinstristjórn í vor. Þetta segir líka Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Þetta munu allir hægrimenn endurtaka næstu vikur.

Hin raunverulega hætta í mínum augum felst í möguleikanum á sömu stjórn og nú situr. Megum við bera gæfu til að forða sjálfum okkur frá því.

Það er eins og einn ágætis félagi minn (gamall Framsóknarmaður) sagði við mig í dag þegar ég rakst á hann úti á götu: Ríkisstjórnarflokkarnir báðir eru orðnir svo innilega þreyttir á sjálfum sér og hvor öðrum - þeir eru meira segja orðnir enn þreyttari á ríkisstjórninni en við hin!

Þá er mikið sagt. 


Vanhelgi og upphlaup

Mér er misboðið að horfa upp á skrípaleikinn í kringum stjórnarskrá lýðveldisins.

Stjórnarskráin er æðstu lög landsins. Það er í stjórnarskránni sem stjórnskipan landsins er ákveðin og grundvallarréttindi borgaranna vernduð. Stjórnarskráin er okkar helgasta plagg - og hún er okkar, okkar þjóðarinnar, fólksins í landinu, en ekki tiltekinna stjórnamálamanna, fræðinga, spekúlanta eða hagsmunahópa.

Það liggur því í augum uppi að þegar gera á breytingar á stjórnarskrá þurfa þær að vera vel ígrundaðar, vandaðar og skýrar - og um þær þarf að ríkja nokkuð breið samstaða. Þær þurfa líka að vera skiljanlegar okkur venjulega fólkinu - og í anda þess sem við viljum.

Hvað er að gerast núna?

Jú, til að redda sér á bakvið pólitískt horn í sýndarmennskuupphlaupi á síðustu stundu, og til að halda líftórunni í ríkisstjórninni fram að kosningum, þá er stjórnarskrá lýðveldisins vanhelguð með forkastanlegum vinnubrögðum. Soðið er saman í hvelli útvötnuðu ákvæði og undarlegustu greinargerð. Ríkisstjórnin skal halda hvað sem það kostar. Framsókn skal fá sína andlitslyftingu og vanabundna sprikl fyrir kosningar hvað sem það kostar, Sjálfstæðisflokkur skal fá sitt fram hvað sem það kostar og kvótakerfið skal lifa hvað sem það kostar. 

Það er ýmist gefið í eða dregið úr og út kemur nákvæmlega ekki neitt því að allar yfirlýsingar með einhverja merkingu dragast frá í þeirri næstu.

Yfirlýsing Sambands ungra sjálfstæðismanna í þessu máli sendir manni enn frekari hroll beint í æð - á þeim bæ virðist eiga að gefa hagsmunaaðilum auðlindina endurgjaldslaust.

Hvenær og hvernig varð það viðtekið viðhorf að þjóðin öll geti ekki átt sameiginlega eign? Hvaða endemis þráhyggja fær að vaða hér uppi um að einungis sé til séreignarréttur einstaklinga (já og auðvitað vel valinna fyrirtækja, vina og hagsmunahópa... sumir hafa meiri eignarétt en aðrir).

Er ekki nóg að búið sé að lögbinda einkavinavæðinguna, á að stjórnarskrárbinda hana líka?

Það er ýmislegt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna sem er merkingarlaust. Til dæmis loforð um að rétta af hlut fjársveltra sjávarbyggða. 

Við hljótum hins vegar að geta gert þá kröfu að jafnvel þótt hinn ýmsasti fagurgali stjórnarsáttmálans hafi í raunveruleikanum reynst innihaldslaus þá hlaupi stjórnarherrar okkar ekki til og setji sýndarmennskuákvæði merkingarleysisins inn í sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins - á harðaspretti.

Þingmenn stjórnarflokkanna og ráðherrar eru meiri menn en svo. Þeir eru meiri menn en svo jafnvel þótt fylgi í skoðanakönnunum valdi þeim ugg - og vekji jafnvel Framsókn af værum blundi og margra ára meðvirkni. Þingmenn allir, sem sverja drengskaparheit við stjórnarskrá okkar, hljóta að vilja virða stjórnarskrárbundna skyldu sína.

Sem er? Til dæmis þetta:

Alþingismenn eru einungis bundnir við sannfæringu sína...

Eða er þetta ákvæði kannski bara galli í stjórnarskránni? Þarf kannski að taka sérstaklega fram að til þess að geta verið bundinn af sannfæringu sinni þá þarf einlæg sannfæring fyrst að vera til staðar?


Mega sjónskertir sjá?

Ég hugsa stundum um það hversu mikill tími fer í baráttu sem ætti ekki að þurfa að heyja.

Þannig er til dæmis áhugavert að velta því fyrir sér hversu mikill tími, orka og fjármunir hafa farið í það hjá starfsmönnum sjávarútvegsráðuneytisins (og reyndar víðar) að verja hvalveiðar Íslendinga út á við (þegar ekki eru einu sinni til kaupendur að kjötinu). Einnig er áhugavert að velta því fyrir sér hversu mikill tími, orka og fjármunir hafa farið í það hjá starfsmönnum utanríkisráðuneytisins (og víðar) að litla Ísland sé að brölta með fokdýra (fok, fok!) umsókn til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Svona þegar við gætum verið að gera svo margt uppbyggilegt og skapandi.

Áfram mætti telja í þessa veru. Lengi. 

Sá tími, orka og fjármunir eru þó hjóm eitt miðað við það sem sumir einstaklingar og fjölskyldur okkar samfélags þurfa að leggja á sig til að knýja á um sjálfsögð mannréttindi í eigin lífi. Grundvallargildi jafnræðis allra samfélagsþegna á með réttu að vera óskorað - og við öll eigum með réttu að geta einbeitt okkur að öðru en að þurfa að berjast jafnvel heila mannsævi fyrir sjálfsögðum hlut.

En Ísland er ekki eins réttlátt og það ætti að vera.

Dæmi um þetta er hin fádæma tregða í gegnum árin við að viðurkenna táknmál sem móðurmál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra, og viðlíkjandi tregða við að tryggja réttindi þeirra til fullrar þátttöku í samfélaginu með víðtækri táknmálsþjónustu og textun.

Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna þetta er ekki sjálfsagt mál, og hvers vegna fólk sem ætti einfaldlega að vera að njóta sín þarf að eyða svo mikilli orku við að berjast fyrir grundvallarréttindum og jafnræði. 

Svipaða sögu má segja um íslenska menntakerfið með tilliti til blindra og sjónskertra nemenda. Öll, já öll, eigum við jafnan rétt til náms. Hvers vegna er það ekki sjálfsagt forgangsverkefni að þessum rétti sé framfylgt til hins ítrasta af hálfu stjórnvalda?

Í Morgunblaðinu í dag skrifar ritari stjórnar Blindrafélagsins þarfa og góða grein um þessi mál. Þar segir hún m.a.

"Í vor verða 24 ár síðan ég útskrifaðist úr grunnskóla. Ég leyfi mér að fullyrða, og get stutt það mörgum rökum, að á þeim tíma voru námsaðstæður blindra og sjónskertra mun betri en þær eru í dag..."

Þetta er sláandi staðhæfing sem hún rökstyður með ýmsum hætti og af eigin raun. Eins og Ágústa Gunnarsdóttir bendir á þá ætti það alfarið að heyra sögunni til að blindir nemendur fái ekki lesið námsefni sitt og að sjónskert börn fái ekki að sjá á töfluna. Við erum jú á Íslandi árið 2007.

Fyrir liggja góðar og gagngerar tillögur til úrbóta í þessum málaflokkum sem stuðla að raunverulegu jafnræði til náms og sjálfstæðs lífs - fjölmörgum einstaklingum og fjölskyldum þeirra til hagsbóta. Það er bókstaflega ekkert sem ætti að þurfa að koma í veg fyrir að hrinda þessum úrbótum í framkvæmd og gera samfélagið okkar þar með örlítið betra og réttlátara.

Vilji og rétt forgangsröðun er það sem þarf. Eftir hverju er alltaf verið að bíða?


Bílnum stolið, Íslandsmeistaratitill í höfn, flensan á fullu og græn velferðarstjórn í sjónmáli!

 

Jæja.

Ég er mætt aftur á bloggið eftir alltof langt frí. Ætla mér nú aftur að taka upp á þeim sóma að skrifa daglega.

Undanfarnir dagar og vikur hafa verið viðburðaríkir. Svo eitt lítið dæmi sé nefnt þá var bílnum okkar stolið í vikunni.

Ég labbaði út á stæði fyrir framan húsið okkar snemma morguns og bíllinn sem ég hafði lagt þar kvöldinu áður var horfinn. Ég hélt fyrst að það hlyti að vera ég sem væri að kalka - man ég ekki hvar ég lagði bílnum? - en á endanum töluðu staðreyndirnar sínu máli. Bíllinn var horfinn.

Síðar um daginn var hringt frá lögreglunni og sagt að bíllinn hefði fundist. Það hefði verið keyrt út af á honum, það hefði kviknað í honum og hann væri ónýtur. Það hefði verið kallaður til dráttarbíll og farið með hann í geymslu, við gætum hugsanlega kíkt á hann þar. Eftir nokkra daga. 

Spennandi.

Þegar ég kom á staðinn var ég voða glöð - mér var tjáð að ég gæti keyrt bílinn, það þyrfti bara að setja hann í skoðun. Reyndar hefði líka verið kveikt í einhverju INNI í bílnum, og þess vegna væri þessi megna og stæka lykt, en annars virtist hann vera í þokkalegu lagi. Ég ætti bara að borga fyrir flutning og geymslu...

Þetta var allt dálítið athyglisvert og skrítið...

Þótt ég sé mikil hjólakona og nokkur göngugarpur og mér þyki miklu betra að fara í strætó heldur en í bíl (í alvöru, mæli með því, miklu meira afslappandi og gott að vera í strætó, frjáls tími!), þá útheimtir stundataflan mín stundum að ég sé í Grafarvogi kl. 10, Hafnarfirði kl. 11.00, í Skeifunni kl. 12.30... osfrv. Og þá verður þetta pínu snúið bara á hjólinu... Forræðishyggja einkabílsins er algjör á Íslandi og ég ætla ekki einu sinni að byrja að tala um hversu nauðsynlegt það er að byggja hér upp miklu betri almenningssamgöngur og hjólabrautir í takt við hin Norðurlöndin, nóg um það í bili...

Þetta er fyrsti og eini bíllinn minn (reyndar eigum við hann eiginlega fjórar saman, hann er sem sagt eiginleg sameign og ég er ekki skráð fyrir honum, en mér skilst að "sameign" sé orðið óskiljanlegt og marklaust hugtak nú til dags svo við sleppum þeim kapítula). Eftir tveggja ára samleið þykir manni pínu leiðinlegt ef einhver fer illa með hann. Hann er "gömul drusla" en búinn að vera voða duglegur þessi tvö ár og meira að segja búinn að keyra okkur hringinn í kringum landið með miklum sóma. Flottur. 

Sem sagt. Ég bruna af stað úr stæðinu, ánægð með minn gamla, en við fyrstu beygju kemur í ljós að bíllinn er gjörsamlega bremsulaus. Ekki nokkur einasta tenging við bremsurnar.

Í eitt augnablik stoppaði í mér hjartað og ég sá okkur þeysast inn í næsta húsvegg en svo reif ég í handbremsuna og kastaði í hlutlausan og einhvern veginn tókst okkur gömlu góðu bíldruslunni sem var kveikt í að forða okkur. Það er merkilegt hvað hugurinn nær að hugsa ótrúlega mikið á einu sekúndubroti - svona þegar á hann er kallað.

Þetta er sem sagt eitt af því litla sem hefur hent síðustu daga og vikur. Það er af ótal mörgu öðru að taka! 

Ég verð annars að fá að nefna að mitt frábæra skákfélag, Taflfélagið Hellir, varð Íslandsmeistari skákfélaga um síðustu helgi. Ég hef verið í Helli nánast frá stofnun félagsins og var agalega montin af þeim, til hamingju! Gunni vinur minn formaður Hellis minnti mig af þessu tilefni á að ég hefði unnið fyrstu skák Hellis á Íslandsmóti skákfélaga þegar félagið tók fyrst þátt í mótinu (fyrir þó nokkrum árum síðan). Þá var félagið "smátt, sterkt og skemmtilegt" en nú er það bara "sterkt og skemmtilegt" af því að það stækkaði svo hratt - og verðskuldað. Gunni móðgaði mig hins vegar stórlega um leið og hann minnti mig á þetta: "Bílnum þínum stolið? Hverjum dettur í hug að stela svona druslu?" Nei, þetta var ekki grín hjá honum, kom alveg sjálfkrafa - hann var einlæglega hissa.

Ég ligg í flensu núna og vorkenni sjálfri mér en fögnuðurinn hið innra lætur ekki segjast:

Það stefnir allt í nýja græna velferðarstjórn í vor!!!

Við vinstrigræn mælumst nú með 25,7-27,5% fylgi og það er einfaldlega stórkostlegt! Fólk vill breytingar - og tími breytinganna er sannarlega kominn. Við erum hér! Ekki lengur smá, sterk og skemmtileg - heldur sterk og skemmtileg!


Af neti, löggu og lýðskrumi

Forræðishyggja er eitur í mínum beinum. Mínar helstu fyrirmyndir hafa einna helst verið stjórnleysingjar sem hafna öllu yfirvaldi. Aðrar eru sósíalistar og enn aðrar einhvers konar frjálslyndir íhaldsmenn - og satt best að segja allt þar á milli. Hetjur sögunnar sem berjast fyrir frelsi, mannréttindum og jafnrétti spanna allt hið flokkspólitíska litróf.

Mér dettur þetta í hug af því að nú þegar kosningar nálgast sýna ýmsir þeir sem láta sig stjórnmál varða sínar verstu hliðar. Lýðskrumið nær flugi sem aldrei fyrr og innantómar upphrópanir og klisjur fylla sviðið.

Það er einlægur ásetningur sumra að villa um fyrir fólki. 

Það virðist í senn hlægilega og grátlega einfalt að stýra þjóðfélagsumræðu á Íslandi. Það er nánast brandarakennt hvernig fjölmiðlar hoppa og skoppa um víðan völl eftir nýjustu bólunni, ýta undir storm í vatnsglasi og hjálpa þannig ósjálfrátt til við að slæva alla málefnalega umræðu.

Pólitísku reykvélarnar fyrir kosningar eru þegar farnar af stað út um allt og þær virka vel. Svínvirka. Allir apa allt eftir öllum og tilgangurinn helgar meðalið. Það á að skora mörk.

Í þágu hvaða flokka?

Ein reykvélin er gamalkunn og nú spýtir hún því út úr sér sem mest hún má þeirri klisju að ég sé í flokki "forræðishyggjunnar". 

Hvers vegna?

Jú, vegna þess að formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, leyfði sér í mjög svo skemmtilegu viðtali við Egil Helgason (sjá hér) að taka sér orðið "netlögregla" í munn.

Vá.

Ekki stóð á viðbrögðunum. Orðalöggan fór á fullt og pólitíska löggan henti sér í að slá upp fyrirsögnum. Strategíska lögga kosninganna sá um rest: "Forræðishyggja!" var galað.

Mark! 

En hvað á Steingrímur við, svona í raun og veru, ef einhver hefur áhuga á því?

Jú, Steingrímur á við einmitt það sem yfirvöld um allan heim eru að glíma við með margvíslegum hætti: stóraukin glæpatengsl á netinu. Netið verður æ sterkari farvegur barnaklámhringja, fíkniefnaviðskipta og mansals. Netið er nýr og öflugur vettvangur alþjóðlegrar glæpastarfsemi sem herjar ekki síst á börn og unglinga.

Alls staðar í kringum okkur eru stjórnvöld komin lengra en við hér við að byggja upp færni, þekkingu og samstarf á þessu sviði. 

Í stað þess að ræða þetta á málefnalegum grunni hafa pólitískir andstæðingar VG hins vegar tekið upp gamalkunnan söng: "forræðishyggja", "á móti öllu".

Á þessi gamla ryðgaða plata að spilast enn eina ferðina? Er gripið til gömlu klisjuðu fyrirsagnanna enn á ný þegar rökin þrýtur og trúverðugleikinn lætur á sér standa?

Í nútímasamfélagi er vegið að frelsi okkar á ótal marga vegu - ólíðandi og óþolandi vegu. Hvar eru fyrirsagnirnar þá?

Það að Steingrímur J. Sigfússon leyfi sér að reifa hugmyndir sem nágrannalönd okkar eru komin langtum lengra á veg með til að sporna við alþjóðlegri glæpastarfsemi - það er hins vegar hvorki ógn við frelsi okkar né borgaraleg réttindi. Nema síður sé.

Til fróðleiks má lesa hér um "internet police" í Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu - og barnaklámhring sem þau upprættu í síðustu viku. Hvílík og önnur eins forræðishyggja, að þau skuli voga sér. Ætli þau séu öll í VG?


Thelma í framboði

Myndin af pabba - Saga Thelmu hreyfir við öllum er lesa. Það þarf mikið hugrekki til að ganga fram fyrir skjöldu og segja sögu sína eins og Thelma gerði. Ég vona að væntanleg kvikmynd verði unnin af jafn mikilli næmni og innsæi og bókin - og hvet alla til að lesa bókina sem ekki hafa þegar látið verða af því. 

Thelma Ásdísardóttir er í framboði. Ég er stolt af því að hún skipar 8. sætið hjá okkur í Kraganum - Suðvesturkjördæmi - og það væri vel við hæfi að rödd hennar hljómaði í þingsölum Alþingis. Það verður að teljast ólíklegt að Thelma komist inn að þessu sinni, en vonandi geta aðrir í fremstu röð látið bergmálið af rödd hennar hljóma og tryggt enn frekari úrbætur, réttaröryggi og aðstoð við fórnarlömb kynferðisofbeldis og misnotkunar. Þar er enn víða pottur brotinn og brýn þörf á nýjum lausnum.

Thelma er Stígamótakona en Stígamót hafa unnið þrekvirki í þessum málum. Mig langar til að ljúka bloggi dagsins með tilvitnun af heimasíðu Stígamóta. Saga Thelmu sannar einmitt að það er hægt að lifa allt af og koma út með reisn og styrk - en hjálp, skilningur, þekking og úrbætur verða að vera til staðar.

Kvennapólitísk viðhorf fela í sér þau megin gildi að líta ekki á þá sem beittir eru kynferðisofbeldi sem varnarlaus fórnarlömb eða sjúka einstaklinga, heldur einstaklinga sem hafa lifað af ógnandi ofbeldi og búa þess vegna yfir miklum styrk. Jafnframt lítum við svo á að viðbrögð einstaklinga við kynferðisofbeldi og afleiðingar þess á líf þeirra séu eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Vinnan á Stígamótum felst því í því að gera einstaklinga meðvitaða um eigin styrk og aðstoða þá við að nota hann til að breyta eigin lífi og að sjá ofbeldið í félagslegu samhengi en ekki sem persónulega vankanta. Jafnframt lítum við svo á að þeir sem hingað leita séu "sérfræðingarnir" það er að segja enginn þekkir betur afleiðingar kynferðisofbeldis en sá sem hefur verið beittur því. Við leitumst því við í starfi okkar að skapa jafnræðistengsl og nánd milli starfskvenna og þeirra sem aðstoðar leita.


mbl.is Samið um sögu Thelmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband