Miðvikudagur, 4. apríl 2007
Vændi, heimilisleysi og okkar svar
Nú er svo komið í okkar góða landi að hvorki kaup né sala á vændi er refsiverð.
Þessi fáránlega staða gengur þvert gegn vilja þjóðarinnar, en könnun Capacent Gallup í lok mars leiddi í ljós að yfir 80% kvenna og tæp 60% karla vilja gera kaup á vændi refsiverð. Íslendingar vilja þar með setja ábyrgðina þar sem ábyrgðin á heima og tryggja konum sem neyðast út í vændi betri réttarstöðu og vernd.
Eins og málum er nú háttað er hins vegar allt "frjálst" í þessum efnum. Allir eru frjálsir nema fórnarlömbin. Þau eru í ánauð, í nútímalegum "þrældómi án hlekkja", eins og Rúna á Stígamótum komst svo vel að orði í gærkvöldi.
Ég var á áhrifamiklu "Hitti" hjá Femínistafélagi Íslands í gærkvöldi þar sem var fjallað um þessi mál.
Rúna á Stígamótum fór í gegnum bæði bitur vonbrigði og sæta sigra á leiðinni fyrir betra samfélagi fyrir alla - konur sem karla. Hún fjallaði um hin nánu tengsl klámiðnaðarins, vændis og mansals og aðkallandi aðgerðir í þeim efnum. Það var ótrúlega gott og hvetjandi að hlusta á Rúnu.
Það var einnig mjög áhrifamikið að hlusta Evu. Eva er aðeins 28 ára gömul en var heimilislaus og stundaði vændi um árabil í Reykjavík. Hún sagði okkur frá fjölda heimilislausra kvenna og þeim ömurlega veruleika sem þær búa við.
"Þetta eru sterkar og flottar konur" sagði Eva, "en þær þurfa bráðnauðsynlega á hjálp að halda. Þessar konur eru ekki úti í heimi, þær eru hér mitt á meðal okkar, hérna kannski bara í næsta húsi inni í geymslu. Hvers vegna er þeim ekki sinnt?"
Það fyrsta sem þarf að gerast núna í þessum málum er að Konukot sé opið allan sólarhringinn. Heimilisleysi og vændi hættir ekki á milli kl. 10 og 19. Það þarf að tryggja sáluhjálp og aðgengi að sálfræðiþjónustu, meðferð og styrkingarheimili fyrir heimilislausar konur og vændiskonur á Íslandi - og hjálpa þeim við að byggja upp það líf sem þær vilja.
Og það þarf að byrgja brunninn, byggja upp forvarnir, breyta hugarfari, vitund og áherslum.
Við Íslendingar erum stundum í afneitun á veruleikanum. Okkur líður betur þegar við getum afneitað fátækt, afneitað áfengissýki og fíkn, og afneitað heimilisleysi, kynbundnu ofbeldi og vændi.
En veruleiki nútímans verður ekki flúinn. Við megum ekki bíða boðanna heldur byrja strax að taka til. Við erum lítið, samrýmt og sveigjanlegt samfélag og erum meðal ríkustu þjóða heims. Ef einhverjum getur tekist að útrýma fátækt og heimilisleysi þá erum það við. Við getum verið fyrirmynd annarra í þessum efnum. Við eigum um leið að setja allt okkar í forvarnir gegn áfengissýki, fíkniefnaneyslu og depurð. Það verður að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í - og það þarf að bregðast sterkt við þegar einhver hrasar.
Eins og Eva sagði í gærkvöldi: "Ég ætlaði mér að verða flugfreyja. Þetta átti aldrei að geta gerst."
Sterkt og öflugt velferðarsamfélag, forvarnir og félagsþjónusta er okkar besta svar. Svörum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Þriðjudagur, 3. apríl 2007
Punktur, ekki komma
Settu ekki kommu þar sem samviskan segir þér að eigi að vera punktur.
Þetta kom upp úr litlu páskaeggi sem fjölskyldumeðlimir heimilisins stálust til að kíkja í til upphitunar fyrir næstu daga.
Við Íslendingar erum víst eina þjóðin sem hefur haldið þeim sið að setja málshætti inn í páskaegg. Gott hjá okkur!
Oft kemur málsháttur úr páskaeggi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 2. apríl 2007
Bréf af bökkum Þjórsár
Það er haft eftir Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni stjórnarformanni Landsvirkjunar að niðurstaða kosninganna í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík hafi "engin áhrif á virkjunaráform til lengri tíma" í neðri hluta Þjórsár.
Hvað ætli hafi að lokum áhrif "til lengri tíma" á virkjunaráform í Þjórsá? Hvað ef meirihluti Íslendinga ákveður að hlífa Þjórsá, nægir það? Hverju mun Landsvirkjun að lokum hlíta, þetta fyrirtæki sem á að heita í okkar eign?
Við skulum rifja upp bréf sem skrifað var til Hafnfirðinga af bændum og landeigendum við Þjórsá. Það gæti rétt eins verið til allra Íslendinga, ekki bara til Hafnfirðinga:
Bréf af bökkum Þjórsár:
Kæri Hafnfirðingur.
Nú stendur fyrir dyrum atkvæðagreiðsla meðal Hafnfirðinga um stækkun álvers í Straumsvík. Með þessu bréfi viljum við vekja athygli á því, að þau áform eru mjög alvarleg fyrir fleiri en Hafnfirðinga. Við sem skrifum þér nú, búum í sveitinni sem mun leggja til rafmagnið í stækkunina, ef af verður.
Þær virkjanir sem þegar hafa verið reistar í Þjórsá eru ofan byggðar, en nú er áformað að virkja Þjórsá sísvona í túnfætinum hjá okkur. Landslagi í og við Þjórsá yrði umturnað frá Gaukshöfða og langleiðina til sjávar. Fimm stór uppistöðulón yrðu þá í einu sveitarfélagi. Urriðafoss, Hestfoss og Búðafoss hyrfu, eyjar sykkju og árfarvegurinn myndi nánast þorna upp á löngum köflum. Aðkoman að Þjórsárdal, eins þekktastsa ferðamannasvæðis Íslendinga, myndi sökkva í Hagalón. Margar bújarðir myndu skemmast og lífríki Þjórsár skaðast.
Okkur líður verulega illa við þá tilhugsun að ráðist verði að þessu fagra svæði. Engin rök hníga í þá átt að almennur stuðningur sé hér í sveitinni við þessa framkvæmd, og undrumst við þann málflutning, enda fremur ólíklegt að nokkur kæri sig um jökullón nánast gutlandi upp á tröppur hjá sér ótilneyddur.
Þess vegna biðjum við þig, kæri Hafnfirðingur, að hugsa til okkar austur í sveitum, og hjálpa okkur við að vernda stolt okkar, hana Þjórsá, skraut hennar, fossa, flúðir, hólma, eyjar og bújarðir þannig að komandi kynslóðir fái notið hennar eins og hinar fyrri.
Sælir eru hógværir því að þeir munu landið erfa.
Undir bréfið skrifa ýmsir landeigendur og bændur við Þjórsá. Nú hafa þau og við hin sem stöndum með þeim fengið dálítið andrúm fyrir von - von um að geta bjargað náttúrugersemum við Þjórsá af því að meirihluti Hafnfirðinga neitaði að stækka álverið í Straumsvík.
Ber Landsvirkjun tilhlýðilega virðingu fyrir vilja þessa fólks? Hvað ef Íslendingar vilja leyfa Þjórsá að vera í friði?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 2. apríl 2007
Hvað merkir stóriðjuhlé?
Kristján Möller, oddviti lista Samfylkingar í Norðausturkjördæmi, er í athyglisverðu viðtali við Skarp, bæjarblaðið á Húsavík, undir fyrirsögninni:
"Stóriðjuhlé þarf ekki að stöðva eða fresta álversframkvæmdum á Bakka."
Þar segir Kristján m.a.:
"Ég hef ekki falið Hafnfirðingum löggjafarvald mitt, þeir geta greitt atkvæði um sínar lóðir og sín tún, en ég áskil mér áfram minn rétt sem alþingismaður til að taka ákvarðanir um efnahagsmál, gróðurhúsaáhrif og fleira. Og ég hef t.d. sagt á Alþingi að þessum gróðurhúsalofttegundapakka eigi að skipta jafnt milli landshluta og tel að það sé komið að Norðlendingum að fá síðasta partinn af þeim pakka. Og stóriðjuhlé kemur heldur ekki sjálfkrafa í veg fyrir eða frestar álveri á Bakka."
Kristján fær plús í kladdann fyrir að koma til dyranna eins og hann er klæddur og segja heiðarlega frá skoðun sinni. Það er ekkert jafn mikilvægt lýðræðinu í landinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 1. apríl 2007
Ég er Hafnfirðingur
Við erum að hugsa um að búa til ný barmmerki. Á þeim stendur einfaldlega "Ég er Hafnfirðingur".
Þetta er sterkasta hrósyrði dagsins - að vera Hafnfirðingur. Að vera Hafnfirðingur og valda vatnaskilum.
Höfnun Hafnfirðinga á stækkun álversins var sigur náttúruverndar-baráttunnar gegn stóriðjustefnunni, sigur almannahagsmuna gegn sérhagsmunum, sigur fólksins gegn ofurvaldi fjármagns.
Þetta eru tímamót.
Nú hafa Hafnfirðingar sagt "nei takk" við stækkun í Straumsvík og þar með þorað að vilja "eitthvað annað" - eitthvað annað og betra en áframhaldandi stóriðju, virkjanir, þenslu og eyðileggingu náttúrunnar (og alla hina óteljandi fylgifiska aðra).
Fólkið í landinu veit betur heldur en stjórnarherrarnir. Það eru venjulegir Íslendingar sem munu bjarga Íslandi - það eru venjulegir Íslendingar sem þora að veðja á framtíðina, þora að taka skýra afstöðu og þora að segja hvað í þeim býr, þora að hugsa stórt og breyta til.
Þessi afstaða fólksins, sem kemur þrátt fyrir gríðarlegan þrýsting í hina áttina, blæs öllum sólum á Íslandi anda og eldmóð í brjóst. Þetta er upptakturinn að enn stærri vatnaskilum 12. maí.
Teningunum er kastað! "Ég er Hafnfirðingur".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Föstudagur, 30. mars 2007
Skrumskæling lýðræðisins... en við sigrum samt
Ég er heit stuðningskona íbúalýðræðis. Megi það lifa og dafna sem lengst og sem víðast um allt Ísland. Megi lýðræði á Íslandi þróast á þann veg að við fólkið í landinu fáum virka aðkomu, þátttöku, áhrif og völd á sem flestum stigum samfélagsgerðarinnar.
En þvílíka skrumskælingu og niðurlægingu á lýðræði eins og nú blasir við í Hafnarfirði hef ég sjaldan séð hérlendis.
Ég hef setið alla kynningarfundina sem haldnir hafa verið af hálfu Hafnarfjarðarbæjar um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík. Þessir fundir hafa að ég held tekið nokkuð á alla viðstadda. Það er skiljanlega mikill hiti og ólga í andstæðum fylkingum og það finnst og sést hvert sem komið er.
Á þessum fundum er ýmislegt sem hefur vakið furðu mína.
Eins og til dæmis þetta:
Hverjum er alltaf boðið að vera þar með hverja framsöguna á fætur annarri um framtíð Hafnarfjarðar? Álrisanum Alcan.
Hverjum leyfist að vera í tuga milljóna króna kosningabaráttu og líkja sér við heilt stjórnmálaafl í Hafnarfirði? Álrisanum Alcan.
Í skjóli þagnar og ábyrgðarleysis annarra, í skjóli fáheyrðs aðstöðumunar, yfirburða valda og fjárausturs, fær erlendur álrisi og hagsmunaafl að vaða hér uppi með botnlausar fégjafir, gagnagrunna, auglýsingar, bæklinga, framsögur og sölumennsku í nafni lýðræðisins upp á tugi ef ekki hundruð milljóna króna. Margfalt það fé sem heilu stjórnmálaflokkarnir eyða í kosningabaráttu til Alþingis Íslendinga.
Hvað fá hin lýðræðislegu og þverpólitísku grasrótarsamtök íbúanna sjálfra, þeirra sem raunverulega láta sig framtíð Hafnarfjarðar varða?
Ég spyr: Hver vogar sér að bjóða álrisanum Alcan að eigna sér Hafnarfjörð með slíkum hætti? Hver býður lýðræði til kaups á silfurfati?
Þeir eru margir sem treysta á það í þögninni að skrumskæling lýðræðisins muni tryggja stækkun álvers. Þeir munu verða fyrri djúpum vonbrigðum á morgun af því að þá held ég að Hafnfiðingar hafni stækkun álbræðslunnar í Straumsvík, þrátt fyrir aðstöðumuninn. Af útsjónarsemi, krafti og dugnaði eru nefnilega íbúar Hafnarfjarðar að heyja afdráttarlausa baráttu við ofríkið. Ofríkið sem landeigendur við Þjórsá og víðar hafa búið við árum saman. Fólk víða um lönd í grennd við Þjórsá á ómældan heiður skilið fyrir hetjulega baráttu þeirra til varnar Þjórsárverum, einni af ómetanlegum perlum þessarar þjóðar - perlum sem aldrei, aldrei verða metnar til fjár. Já, viti menn, það er nefnilega sumt í lífinu sem aldrei verður metið til fjár.
Hafnfirðingar eru nú að fá smjörþefinn af því ofríki sem við er að eiga í þessum efnum.
Velmegun og kraftur einkennir fjölmörg lönd í kringum okkur sem ekki búa yfir einu einasta álveri. Sóum ekki okkar stórkostlegu endurnýjanlegu orkugjöfum á altari mengandi stóriðju. Finnum kraft og trú og bjartsýni hið innra á leiðir sem ekki krefjast slíkra óbætanlegra fórna á náttúru okkar og umhverfi - með viðhangandi efnahagslegum og félagslegum afleiðingum sem allir landsmenn þekkja nú þegar.
Veljum bjartsýni og hugdirfsku og sátt við landið. Við erum það sem við þorum, ekki það sem við óttumst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Þriðjudagur, 27. mars 2007
Upp með hnefann, Helgi!
Ég var í strætó. Ég var á hlaupum að verða of sein og þaut upp í strætó sem ég hélt að væri sá rétti og tæki mig beinustu leið. Í ljós kom að svo var ekki. Í stað þess að fara greiða leið frá Lækjartorgi að Grensás endaði ég í ótrúlegustu útúrsnúningum um allt Vogahverfið og víðar áður en ég komst á leiðarenda.
Maður á alltaf að flýta sér hægt.
En eins og svo oft vill verða þá varð það mér til happs að villast af leið. Þegar á Langholtsveginn kom sá ég nefnilega gamalkunnugt andlit sitja inni í strætóskýli, skeggjaðan eldri mann með heimatilbúið mótmælaskilti. Þarna sat hann í kuldanum að mótmæla, hann sem dettur aldrei af baki og gefst aldrei upp.
Helgi Hóseasson.
Hin eina sanna frumgerð af Mótmælanda Íslands sem gerir okkar litla samfélag litríkara og auðugra - burtséð frá því hvort við erum sammála eða ekki. Maður fær nefnilega stundum á tilfinnninguna að við séum öll farin að steypast í sama mót - að það sé að verða færra og færra um afgerandi og frumlega karaktera sem skera sig raunverulega úr og þora að vera öðruvísi, sérvitrir og þeir sjálfir. Komið út, sýnið ykkur, við þurfum á ykkur að halda!
Ég tók kipp af kæti þegar ég sá Helga sitja þarna í biðskýlinu og veifaði um hæl. Hann tók að sjálfsögðu strax á móti, veifaði skiltinu og setti hnefann beint upp í loft - við sigrum að lokum!
Farþegi kom upp í vagninn og þarna sátum við, Helgi með hnefann á lofti í gegnum rúðuna á strætóskýlinu, og ég brosandi með hnefann á lofti í gegnum rúðuna á strætó.
Þetta var skemmtilegur fundur. Stuttur og snaggaralegur, eins og þeir eiga að vera, með skýr skilaboð. Eigum við að kalla það "þverpólitísk" skilaboð?
Svona getur nú verið gaman í strætó.
Ekki varð ferðin síðri þegar á endastöðina kom því að þar vatt sér að mér kona í biðskýlinu sem spurði mig hvort ég ætti merki. Barmmerki VG. Ég hélt nú aldeilis og veiddi eitt upp úr töskunni minni og smellti á hana. Þá sagði þessi ágæta kona mér að hún hefði ekki kosið í þrjátíu ár en nú ætlaði hún að breyta til og fara á kjörstað. Hún ætlaði að kjósa okkur. Hún sagði að sér ofbyði ójöfnuðurinn og óréttlætið og milljarðarnir sem enginn fengi að sjá, að minnsta kosti ekki fólk eins og hún. Og hún bætti við að nóg væri komið af því að ráðast gegn landinu okkar, þetta gengi ekki lengur.
Mæltu kvenna heilust kona góð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Laugardagur, 24. mars 2007
Baráttutónleikar í kvöld gegn stækkun álbræðslu
Hressandi baráttutónleikar í Hafnarfirði í kvöld!
Í kvöld verður "vakningarviðburður" gegn stækkun álbræðslunnar í Straumsvík -
og með blómstrandi Hafnarfirði. Hér er tilkynning um málið:
Í kvöld mun hljómsveitin Úlpa standa fyrir vakningarviðburði í Íþróttahúsinu Strandgötu í Hafnarfirði varðandi fyrirhugaða stækkun álversins í Straumsvík eður ei, undir yfirskriftinni EN HVAÐ MEÐ KJARNORKUVER?
Úlpa tilheyrir þeim hópi sem af margvíslegum og ólíkum ástæðum er mótfallið stækkun álversins og með þessu framtaki vill hljómsveitin leggja sitt á vogaskálarnar, ná athygli og vekja vitund Hafnfirðinga og allra landsmanna varðandi örlög og framtíð bæjarins og landsins í heild sinni. Fær hún til liðs við sig hina ýmsu listamenn og stórskörunga úr þjóðfélaginu til að koma fram þetta kvöld og vekja athygli á málstaðnum með skemmtilegri og fjölbreyttri dagskrá. Vonum að allir sem láta þetta mál sig varða mæti á laugardagskvöldið og sýni þannig stuðning sinn í verki.
Athugið að tónleikarnir eru ekki á Thorsplani eins og upphaflega var áætlað heldur hafa verið færðir undir þak!
Berjumst öll fyrir betri Hafnarfirði og betra Íslandi! Út af með stærstu álbræðslu Evrópu! Út af með virkjanaæðið! Inn á með heilsteypta og bjarta framtíðarsýn í sátt við náttúruna...
Tíminn til að breyta og bæta okkur er núna.
Sjáumst í Íþróttahúsinu Strandgötu í Hafnarfirði í kvöld. Á slaginu 19.30!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 22. mars 2007
Dagur vatnsins!
Í gær var dagur gegn kynþáttamisrétti og dagur ljóðsins og í dag er dagur vatnsins!
Yfir milljarður jarðarbúa hefur lítinn sem engan aðgang að hreinu vatni. Gríðarleg mengun ferskvatns og vatnsskortur er daglegt brauð. Deilur yfir ferskvatni færast í aukana og viti menn - einkavæðing vatnsins er enn ein rimman. Á sumum stöðum var jafnvel regnvatnið einkavætt (!) alþýðu fólks til mikilla miska (fólk mátti ekki einu sinni safna sér regnvatni í fötur, það "átti" ekki vatnið af himnum ofan). Það er sem sagt ekki bara á Íslandi sem ákveðin einkavæðingarmanía á sér stað á ólíkum sviðum... Hin nýju trúarbrögð?
Sumt af því sem telst algjörlega sjálfsagt hérlendis er langt frá því að vera sjálfsagt annars staðar. Eitt af því er hreint vatn.
Það sem við Íslendingar verðum hins vegar að passa okkur á er að allt það góða sem okkur finnst sjálfsagt í dag verður ekki endilega hér eftir einhver ár ef við pössum ekki upp á það. Eins og til dæmis ómengað loft, stórbrotin náttúra, hreint vatn, gott velferðarsamfélag...
Það er vonandi að við Íslendingar berum gæfu til að festa það í sessi til framtíðar að ferskvatn, rétt eins og aðrar náttúruauðlindir, séu sameign landsmanna. Það er full þörf á skýrum lagaákvæðum um vernd og nýtingu vatns og vatnasvæða og vonandi að við drögum ekki lappirnar í þeim efnum frekar en öðrum.
Íslandsvinurinn W.H. Auden sagði "þúsundir hafa lifað án ástar, en ekki einn einasti án vatns".
Við skulum stefna að því að lifa með hvoru tveggja í einhverju formi... hvaða dagur er á morgun?
Bloggar | Breytt 23.3.2007 kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 21. mars 2007
21. mars og hitt og þetta
Það virðast allar vígvélar allra flokka núna hafa verið kallaðar út SOS til að búa til daglegar árásarhrinur á VG. Það opna ýmsir ekki svo munninn og setja ekki svo staf á blað að þeir hnýti ekki í VG, velti upp einhverri froðu, neikvæðni og grófum rangindum í okkar garð.
Langar okkur til að kjósa fólk sem fer fram með slíkum hætti?
Ég held að flestir sjái í gegnum þetta og kjósi eftir málefnum, styrk og karakter flokka og fólks undanfarinna ára, breyttri samfélagsgerð, heimsmynd og lífssýn, ekki eftir upphrópunum og rangfærslum allt í kring rétt fyrir kosningar. Við skulum því láta okkur þetta í léttu rúmi liggja og snúa okkur að öðru...
21. mars er dálítið merkilegur dagur. Fyrir utan allt annað er dagurinn í dag dagur gegn kynþáttamisrétti og hann er líka dagur ljóðsins.
Ég rakst um daginn á þennan stúf úr ræðu sem Martin Luther King hélt til að mótmæla stríðinu í Víetnam, en fáir gerðu jafn mikið til að umbylta hug okkar til kynþáttamisréttis. Hér segir hann:
"Hin sanna bylting gildismatsins mun fljótlega horfast í augu við misréttið milli hinna ríku og fátæku. Með réttlátri reiði mun hún líta yfir heimshöfin og sjá hvernig vestrænir auðjöfrar fjárfesta í löndum Asíu, Afríku og Suður-Ameríku til þess eins að hlaupa með allan gróðann úr landi. Ekki vottur stendur eftir af betra lífi til handa heimafólkinu og sagt verður: þetta er ranglátt."
Afrísk kunningjakona mín hélt einmitt yfir mér ástríðufulla ræðu nýverið um arðránið sem átt hefur sér stað í heimalandi hennar - og hvernig fólkið sjálft fær ekki að sjá krónu af öllum demöntunum sem hafa verið numdir á brott. Henni líður illa á Íslandi enn sem komið er, finnst veðrið hræðilegt, fólk kuldalegt og hana langar til að vinna við eitthvað annað, en vonandi bætist úr með tímanum þegar vorar...
Orð Martins Luther King á sínum tíma féllu ekki beinlínis í kramið hjá öllum þótt nú sé hann viðurkenndur sem ein af þjóðhetjum Bandaríkjanna. Fjölmiðlar og fleiri hökkuðu t.d. King í sig fyrir ræðuna gegn stríðinu í Víetnam, þar sem hann kallaði á byltingu í siðferðisvitund þjóðanna.
FBI hleraði King í mörg ár (m.a. hrædd um að hann væri með tengsl við kommúnista) og notaði svo upptökurnar til að reyna að svæla hann frá leiðtogahlutverki sínu í frelsisbaráttu svartra Bandaríkjamanna.
En sem betur fer varð þeim ekki kápan úr því klæðinu...
Það er hins vegar hárrétt sem sagt hefur verið hér í athugasemdum á síðunni, að viðskipta"frelsi" og frelsi manneskjunnar er ekki alltaf eitt og hið sama, og stundum eru þeir sem berjast hvað ötulast fyrir hagsmunum auðhringja undir formerkjum frelsisins sömu mennirnir og standa hvað harðvígast gegn frelsisbaráttu venjulegs fólks og ólíkra hópa samfélagsins.
Frelsi og frelsi er ekki það sama.
Útrýming kynþáttamisréttis og andúðar er mikilvægt skref í átt til frelsis... og vonandi auðnast okkur að vinna sameiginlega að slíku jafnt og þétt næstu árin. Það voru hér góðir viðburðir í tilefni dagsins sem minntu okkur á nauðsyn þess.
Að lokum er hér lítið ljóð í tilefni þess að í dag er alþjóðlegur dagur ljóðsins. Það er eftir Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum (1857-1933) og snertir á frelsi og ánauð...
Vont er að láta leiða sig,
leiða og neyða.
Verra að láta veiða sig,
veiða og meiða.
Vont að vera háð,
verst að lifa af náð.
Gott að vera fleyg og fær
frjáls í hverju spori.
Sinnið verður sumarblær,
sálin full af vori.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)