Mánudagur, 4. desember 2006
Sætu berin súru
Álitsgjafar fara mikinn í umfjöllun sinni um forval VG um helgina. Hjá ýmsum er það hins vegar gert í ískyggilega yfirborðskenndu máli.
Tökum dæmi.
Í stað þess að gleðjast yfir þeim tímamótum sem gott gengi Paul Nikolovs í prófkjöri VG markar, virðist sumum aðallega umhugað um íslenskukunnáttu Pauls. Þeir velta fyrir sér hvernig maður sem tali bara ensku geti tekið sæti á Alþingi.
Þetta hefur Steingrímur Sævarr (hér eftir nefndur Ólafsson) um málið að segja á sinni bloggsíðu:
"Maðurinn hefur unnið það sér til frægðar að skrifa illa um Íslendinga í Grapevine. Nikolov talar að auki ekki íslensku, sem er athyglisverð staða fyrir mann sem gæti orðið þingmaður, en í þingsal ber að tala íslensku. Þegir þá Nikolov?"
Ég ætla að láta það vera í bili að svara þessari furðulegu athugasemd um að Paul hafi skrifað illa um Íslendinga. Um hverja skrifar Ólafsson illa? Útlendinga? Íslendinga?
Látum það liggja á milli hluta. Spurt er hvort Nikolov muni þegja í þingsal.
Nú kann að vera að Ólafsson, Skarphéðinsson og aðrir félagar sem um málið skrifa þekki annan Nikolov en þann sem ég hef kynnst. Skarphéðinsson talar um Nicolov með "c" sem ku hafa lent í 3. sæti hjá VG.
Sá Paul Nikolov sem ég þekki hjá VG hefur hins vegar aldrei talað við mig annað en íslensku. Hann hefur líka skrifað ýmsar góðar greinar á íslensku.
Það er auðvitað skiljanlegt að pólitískir andstæðingar vilji gera lítið úr vel heppnuðu forvali VG um helgina. Glæsilegar niðurstöður þar sem öflugar konur raðast í efstu sæti og fjölbreyttir þjóðfélagshópar eiga sterka fulltrúa eru sannarlega öfundsverðar. Berin sætu verða súr þegar ekki næst í þau.
Hvað varðar hlut Paul Nikolovs er hins vegar við hæfi að óska honum til hamingju. Honum Nikolov með k, öðru nafni Paul. Mikið er það annars ágæt íslensk venja að ávarpa samferðarfólk okkar með skírnarnafni. Óþarfi að hætta því.
Paul er innflytjandi sem á raunhæfan möguleika á að taka sæti á Alþingi Íslendinga. Hann er innflytjandi sem kjósendur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs ákváðu í sameiningu að bjóða velkominn í hópinn.
VG hefur sýnt afstöðu sína í innflytjendamálum í verki. Vel gert.
Athugasemdir
Heyr Heyr Lilja,
Paul er íslendingur og ég er stolt af vali hans (og af þér)
Anna Benkovic (IP-tala skráð) 4.12.2006 kl. 09:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.