Góður Gestur

Góður gestur hefur barið að dyrum. Virkilega fínn. Hann er gesturinn sem neitar að láta konu standa upp fyrir sér. Hann er femínisti og hann stendur við meiningar sínar. Það er ekki öllum gefið. 

Hvaða gestur? Nú, þessi hér. 

Eins og allir vita hlutu konur í VG núna um helgina einhverja glæsilegustu kosningu sem sést hefur í stjórnmálaflokki í seinni tíð. Ég rakst einmitt á konu í búð í gær sem faðmaði mig í bak og fyrir og óskaði mér til hamingju. Sagðist vera glöð að nú þyrfti ekki að stofna nýjan Kvennalista. Hún hefði haldið að það eitt væri eftir í ljósi hörmunganna hjá hinum flokkunum. Nú væri hins vegar lifandi kominn hinn flottasti nýi kvennalisti hjá Vinstrigrænum – listi sem hún hlakkaði til að kjósa. Ég hafði aldrei hitt hana áður og þetta var uppörvandi og skemmtilegt.  

Hér leikur Gestur Svavarsson einmitt ákveðið hlutverk. Það eru ekki bara konur sem eru femínistar – karlar eru það líka. í anda kvenfrelsis hefur Gestur neitað að láta konu standa upp fyrir sér.  

Nú er það augljóslega þannig að kjörnefnd mun ákveða hvernig raðað verður á lista. Kjörnefnd hefur unnið frábært starf eins og svo glögglega kom fram í vel heppnuðu forvali núna um helgina. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þau munu leggja til farsælasta framhaldið í stöðunni. 

En í millitíðinni verð ég að fá að taka ofan fyrir Gesti og hans yfirlýsingu. Það eru ekki nærri því allir sem væru tilbúnir til að gefa frá sér nær öruggt þingsæti sísvona. Og fyrir hvað? Fyrir eigin sannfæringu. Til að standa við orð sín.  

Það er einmitt þannig fólk sem á að komast á þing í vor - sama í hvaða sætum það situr. Fólk sem hefur sannfæringu og stendur við hana.

Guðmundur Magnússon leikari sagði svo skemmtilega á kosningavökunni okkar á laugardagskvöld að nú væri komið í ljós hverjum raunverulegt lýðræði hampaði. Lýðræði sem væri laust við auglýsingamennsku, sölumennsku og botnlaust fjáraustur. Það hampar konum og öryrkjum. Já, upplýst lýðræði hampar konum og öryrkjum, innflytjendum og lesbíum – svo fáeinir góðir séu nefndir.

Í öllu því niðurrifstali sem umlykur okkur dag frá degi ætla ég að leyfa mér – a.m.k. í dag og í einhverja daga áfram – að vera bara glöð. Ekki bara glöð með góða gesti og aðra meðframbjóðendur (sem margir hverjir áttu alveg jafn ríkt erindi á blað eins og við hin – þau koma næst). Ég ætla líka þessa dagana að fá að vera bara glöð með uppáhaldsflokkinn minn og fólkið sem hann fyllir. Sama hvað hver segir í síbyljunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband