Af neti, löggu og lýðskrumi

Forræðishyggja er eitur í mínum beinum. Mínar helstu fyrirmyndir hafa einna helst verið stjórnleysingjar sem hafna öllu yfirvaldi. Aðrar eru sósíalistar og enn aðrar einhvers konar frjálslyndir íhaldsmenn - og satt best að segja allt þar á milli. Hetjur sögunnar sem berjast fyrir frelsi, mannréttindum og jafnrétti spanna allt hið flokkspólitíska litróf.

Mér dettur þetta í hug af því að nú þegar kosningar nálgast sýna ýmsir þeir sem láta sig stjórnmál varða sínar verstu hliðar. Lýðskrumið nær flugi sem aldrei fyrr og innantómar upphrópanir og klisjur fylla sviðið.

Það er einlægur ásetningur sumra að villa um fyrir fólki. 

Það virðist í senn hlægilega og grátlega einfalt að stýra þjóðfélagsumræðu á Íslandi. Það er nánast brandarakennt hvernig fjölmiðlar hoppa og skoppa um víðan völl eftir nýjustu bólunni, ýta undir storm í vatnsglasi og hjálpa þannig ósjálfrátt til við að slæva alla málefnalega umræðu.

Pólitísku reykvélarnar fyrir kosningar eru þegar farnar af stað út um allt og þær virka vel. Svínvirka. Allir apa allt eftir öllum og tilgangurinn helgar meðalið. Það á að skora mörk.

Í þágu hvaða flokka?

Ein reykvélin er gamalkunn og nú spýtir hún því út úr sér sem mest hún má þeirri klisju að ég sé í flokki "forræðishyggjunnar". 

Hvers vegna?

Jú, vegna þess að formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, leyfði sér í mjög svo skemmtilegu viðtali við Egil Helgason (sjá hér) að taka sér orðið "netlögregla" í munn.

Vá.

Ekki stóð á viðbrögðunum. Orðalöggan fór á fullt og pólitíska löggan henti sér í að slá upp fyrirsögnum. Strategíska lögga kosninganna sá um rest: "Forræðishyggja!" var galað.

Mark! 

En hvað á Steingrímur við, svona í raun og veru, ef einhver hefur áhuga á því?

Jú, Steingrímur á við einmitt það sem yfirvöld um allan heim eru að glíma við með margvíslegum hætti: stóraukin glæpatengsl á netinu. Netið verður æ sterkari farvegur barnaklámhringja, fíkniefnaviðskipta og mansals. Netið er nýr og öflugur vettvangur alþjóðlegrar glæpastarfsemi sem herjar ekki síst á börn og unglinga.

Alls staðar í kringum okkur eru stjórnvöld komin lengra en við hér við að byggja upp færni, þekkingu og samstarf á þessu sviði. 

Í stað þess að ræða þetta á málefnalegum grunni hafa pólitískir andstæðingar VG hins vegar tekið upp gamalkunnan söng: "forræðishyggja", "á móti öllu".

Á þessi gamla ryðgaða plata að spilast enn eina ferðina? Er gripið til gömlu klisjuðu fyrirsagnanna enn á ný þegar rökin þrýtur og trúverðugleikinn lætur á sér standa?

Í nútímasamfélagi er vegið að frelsi okkar á ótal marga vegu - ólíðandi og óþolandi vegu. Hvar eru fyrirsagnirnar þá?

Það að Steingrímur J. Sigfússon leyfi sér að reifa hugmyndir sem nágrannalönd okkar eru komin langtum lengra á veg með til að sporna við alþjóðlegri glæpastarfsemi - það er hins vegar hvorki ógn við frelsi okkar né borgaraleg réttindi. Nema síður sé.

Til fróðleiks má lesa hér um "internet police" í Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu - og barnaklámhring sem þau upprættu í síðustu viku. Hvílík og önnur eins forræðishyggja, að þau skuli voga sér. Ætli þau séu öll í VG?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Frábær pistill Lilja, takk fyrir þetta og bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 1.3.2007 kl. 08:01

2 Smámynd: Ólafur fannberg

innlitsknús

Ólafur fannberg, 1.3.2007 kl. 08:56

3 Smámynd: Gúrúinn

pólitískir andstæðingar VG hins vegar tekið upp gamalkunnan söng: "forræðishyggja", "á móti öllu"

Ekki bara pólitískir andstæðingar. Mér leist ekkert á þetta. Það á ekki að vera nein sérstök netlögga sem fylgist með nettraffík eða -notkun fólks. Það er það sem fólk óttast og er í raun ekkert annað en ritstkoðun.

Ef lögreglan athafnar sig á netinu og leggur gildrur fyrir glæpamenn þá er það í lagi. Þeir mega þá kallast netlöggur (sem er væntanlega það sem Steingrímur átti við með orðinu) rétt eins og löggur á mótorhjóli kallast mótorhjólalöggur. Það sem Steingrímur sagði hins vegar er að netlöggan á að beita sér gegn klámi! Klám er ekki ólöglegt.

Ef það á að sía það út úr netumferð til landsins (eða vill hann kannski líka mónitora netumferð innanlands?) þá er komin ritskoðun. Og hana vilja netverjar ekki. Einfalt mál. Ekki frekar en aðra ritskoðun. Á þá að banna líka klámfengnar lýsingar í skáldsögum? Einmitt þarna hrukku menn. Það hefur enginn á móti "venjulegum" netlöggum en ritskoðun í hvers konar mynd: NEI TAKK!

Ég vísa á þessa frétt -> Ástralskir skólar loka á Youtube. Hverju verður lokað næst? MySpace? Þá hefði LayLow ekki verið uppgötvuð, eða hvað? Þetta leysir ekki vandamálið sem er einelti og ofbeldi. Það þarf að beita öðrum aðferðum.

Svona að lokum: þótt ég sé á móti klámi þá vil ég frekar berjast á móti ofbeldi í kvikmyndum og sjónvarpi (jafnvel fréttum) heldur en klámi. Það er ekki eðlilegt að krakkar alist upp við blóðslettur, hrottalegar barsmíðar og morð. Ég vil frekar að börnin mín sjái nakið fólk en dáið!

Gúrúinn, 1.3.2007 kl. 09:14

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Fæstir sem hrópa "forræðishyggja"! hafa nokkurn áhuga á að vita hvað Steingrímur átti við. 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 1.3.2007 kl. 09:25

5 identicon

Hmm.... VG þarf þá greinilega að skipta út öllum þingflokki sínum ef ekki á að vera ára mikillar forræðishyggju yfir honum. Þingmenn eins og Kolbrún, Ögmundur, Steingrímur hafa í raun haft lítið fram að færa á þingi annað en einhverjar hugmyndir um alls kyns boð og bönn (ef við undanskiljum Íraks- og virkjunarumræðuna)... VG eru svo sem ekki þeir einu sem hafa verið staðnir að því að reka áróður fyrir forræðishyggju það eru einnig nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokk sem hafa staðið fyrir þess háttar málflutningi...

Það er svona álíka ranghugmynd hjá vinstri grænum að halda að þeir séu ekki forræðishyggju-flokkur og hjá þeim Sjálfstæðismönnum sem halda að þeir séu í frjálshyggjuflokk...

IG (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 10:34

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mikið er bloggið þitt alltaf málefnalegt og drengilegt.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.3.2007 kl. 11:29

7 identicon

Tek undir með síðasta ræðumanni.  Nú hef ég ákveðið mig.  X við VG í vor og ekkert annað.   

Fyrrverandi óákveðinn (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 11:58

8 Smámynd: halkatla

gott

halkatla, 1.3.2007 kl. 12:03

9 identicon

Já, fólki finnst allt í lagi þegar Kristján í Kompás tekur að sér að vera netlögga, en Steingrímur má ekki stinga uppá að fengið verði fólk markvisst í þessa vinnu án þess að allt ætli um koll að keyra.

Sigrún (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 15:09

10 identicon

Lögreglan hefur verið að kjást við þessi mál síðan netið kom fram og það þarf ekki sérstaka "netlöggu" til þess.

Ég var í VG en yfirgaf flokkin vegna gífurlegra fordóma og forræðishyggju sem blundar í honum. Það kom ekki upp á yfirborðið fyrr en klámmálið kom fram og þá var það augljóst hverskonar fólk var þarna á ferðinni. Og síðan beit Steingrímur J. hausinn af skömminni með því fara að tala um netlöggu sem fyrst og fremst hefði það hlutverk að stoppa klám á netinu.

VG hefur stórskaðað sjálfan sig með fasistalegum látum og bjánaskap. Yfirgangur og frekja hefur hingað til ekki skilað neinu í þjóðfélaginu og yfirgangur og frekja er það sem VG hefur gert sig sekt um síðustu daga og vikur.

Ég er vinstri maður, en læt ekki kenna mig við þessa vitleysu. 

Jón Frímann (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 15:26

11 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Eitt þarf nú líka að skoða í þessu samhengi..hvaða ímynd "netlögga" kallar fram hjá fólki eftir fréttir undanfarið af framkomu sumra lögreglumanna.  Spurning um traust og hvernig farið verður með mál..og því miður hefur fólk ekki mikið traust á því að menn og löggur muni ekki misnota aðstöðu sína og fara í enn einn stórabróðurs leikinn. Hins vegar er það rétt að neteftirlit hefur komið upp um barnaníðinga, mannsal og vændishringi. Það er ekkert allt annað hvort eða í öllum málum. Maður getur verið bæði með og á móti sumum málaflokkum.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 1.3.2007 kl. 17:17

12 identicon

held að þessar svokölluðu netlögreglur erlendis séu ekki að fylgjast með almennri netumferð til að finna barnaklám, held þeir fái ábendingar um þesskonar óþverra og leiða þá í gildru sem standa að þessum viðbjóði, en eins og SJS vill er að stöðva líka almennt klám sem er löglegt í flest öllum ríkjum heims svo það yrði að ráða góðan slatta af fólki til að fylgjast með netumferð fólks til að geta nappað þá sem fara inn á klámsíður og handtaka það

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 17:54

13 identicon

Við hvaða viðbrögðum bjuggust samt VG við þessum orðum? Að allir myndu bara hrópa hallelújah og amen? Nei, ef þetta væru ekki viðbrögðin þá hefði ég nú orðið hissa. Við þurfum enga netlöggu. Hins vegar þurfa foreldrar (enda bendir Guðfríður réttilega á að misyndismenn beita sér gegn börnum á netinu) að fara að vakna. Foreldrar þurfa að taka ábyrgð og fylgjast með börnunum sínum, ekki benda í sífellu á hið opinbera. Með áframhaldi á þeirri leið sem við erum núna, þá mun hið opinbera taka algjörlega yfir uppeldið á börnunum okkar áður en langt um líður. Rétta leiðin til að vernda börnin okkar er að kenna þeim og fylgjast með þeim.

Stóri bróðir er nógu ágengur og stór til að við þurfum þetta. Og það er margt þarfara að gera en að fara að reyna að stjórna því hvað fólk skoðar á netinu eða að fylgjast með því. Ég veit nú reyndar líka ekki betur en að það sé byrjað nú þegar, sbr. þegar að verið er að uppræta barnaklám og slíkt (og nei, ég er ekki á móti því).

Karl Jón Gunnarsson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 18:01

14 identicon

Það er spurning hvort verðandi háttvirtur þingmaður ætti ekki að velta því fyrir sér hvernig fjölmiðlar og spunamenn hefðu brugðist við ef Björn nokkur Bjarnason hefði talað um netlögreglu. Í ranni stjórnarandstöðunnar hefðu gífuryrðin líklega ekki verið spöruð.

Kristján (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 20:23

15 identicon

Ég bjó nkkur ár í því ágæta landi Bandaríkjunum og líkaði vel. Skemmtilegt fólk, fallegt land o.fl. Eitt gat ég þó aldrei sætt mig við það voru fordómafullir Repúblikanar sem töldu sig hafa höndlað heilagan sannleika og um það þyrfti ekki að deila. Moral Majority var eitt fyrirbrigðið. Demókratar voru og eru allt öðru vísi samsuða og upp til hópa fordómalaust fólk.  Auðvitað eru margir Repúblikanar líka ágætis fólk - tek það fram. 

Síðan ég kom heim hef ég alltaf fundið hve VG eru líkir Repúblikunum í allri sinni nálgun.  Þykjast siðlegastir allra og við hin bara ósiðleg. Þetta er sama grunnhugsunin þó pólitíkin kunni að vera eitthvað mismunandi á milli þeirra - a.m.k. að einhverju leit en ekki öllu.  Þetta er einhverskonar óværa sem maður skilur ekki hvernig verður til í okkar góða samfélagi.  Báðir eru þessir flokkar hættulegir lýðræðinu.

VG og Repúblikanar af öllu! Moral Majority  - Just give it a thought.

 kv Sveinn

Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 01:17

16 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Sveinn V Ólafsson...nú er ég verulega hissa! En ég hef aðeins búið og ferðast um Evrópu...og þar er þetta svo SANNARLEGA EKKI SVONA!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 2.3.2007 kl. 22:47

17 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mikið óskapleg er ég fegin að sjá þig segja nákvæmlega allt sem ég get tekið undir og bæta talsverðu við mínar hugleiðingar um málið, sem ég setti á netið þegar ég allt í einu fékk nóg og ákvað að blanda mér í það. Þögn er sama og samþykki og ég er svo fegin að sjá svona yfirvegaða og fróðlega umræðu um þetta eldfima mál. 

Vil bara bæta við úr þeim vangaveltum einu enn, okkur væri nær að huga að raunverulegri ritskoðun sem viðgengst á netinu og beinist gegn skoðanafrelsi saklausra borgara. Eitt sinn voru það símahleranir, núna eru það alls konar miðlar, og hverjir skyldu verða fyrir barðinu á slíku: ,,Hættulegt fólk" eins og vinstri menn, umhverfissinnar og frelsisöfl af ýmsu tagi um allan heim. Af hverju í ósköpunum er frelsi glæpamanna til að stunda glæpi óáreittir svona dýrmætt en umræðan um það sem er að gerast í raunveruleikanum svo máttlaus? Eiga kannski sagnfræðingar eftir að afhjúpa eftir 40 ár hvað er að gerast hér og nú í skjóli leyndar? 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 3.3.2007 kl. 14:10

18 Smámynd: Ómar Örn Hauksson

Málið er að það er nú þegar netlögga sem fylgist með ólöglegu athæfi á netinu og er gífurlega öflug. Hún er reyndar staðsett erlendis en er í samstarfi við hérlend yfirvöld og lætur vita ef einstaklingar hér á landi hafa tekið þátt í dreifingu barnakláms. Eftirlitið jókst eftir ellefta september og mun sennilega aukast margfalt með árunum. 

Það sem flestir voru að fetta fingur út í var það að Steingrímur virtist tala um að hafa eftirlit með notkun almennings á venjulegum, löglegum, klámsíðum.  

Ómar Örn Hauksson, 4.3.2007 kl. 16:15

19 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Góður pistill, fróðlegar athugasemdir! Er þetta kannski spurning um að hafa eitthvað óhreint í pokahorninu? Voðalega er fólk eitthvað taugastrekkt yfir þessu! "Gaman" hvað margir taka hlutina alltaf í marga hringi eftir undarlegustu krókaleiðum.

Án gríns þá finnast mér engar aðgerðir of harðar til að sporna gegn barnaklámi. Hneyksli hversu illa íslenskt dómskerfi meðhöndlar þessi mál og hversu lítil virðing fórnarlömbum er sýnd þar. 

Laufey Ólafsdóttir, 10.3.2007 kl. 02:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband