Óæskileg samkynhneigð?

Það var einu sinni hringt heim til okkar frá Byrginu. Kærastan mín varð fyrir svörum. Það var verið að biðja um fjárstuðning. Þeim sem hringja í okkur í þessum erindagjörðum er jafnan vel tekið en í þetta sinn var aðeins staldrað við.

Steina fékk einhverja ónotatilfinningu og spurði heilmikið út í ólíka þætti starfseminnar, m.a. hversu stórt hlutverk trúboð gegndi í meðhöndlun. Svo kom spurningin...

"Tekur Byrgið afstöðu til samkynhneigðar?"

Það kom fát á svarandann. Afstaðan til samkynhneigðar var ekki alveg á hreinu. Samkynhneigð væri ekkert sérstaklega vel séð. Eiginlega bara kannski alls ekki svo vel séð, óæskileg. Svarandinn var ekki alveg viss.

Hvernig ætli það fari með þá sjúklinga sem eru samkynhneigðir?

Við afþökkuðum boðið til að styrkja og sögðum sama og þegið. Við gætum því miður ekki styrkt Byrgið...

...jafnvel þótt við vonuðumst til að allir áfengissjúklingar, eiturlyfjaneytendur og geðsjúkir næðu fullum bata með öruggri meðhjálp fagaðila á Íslandi. Og að bati þeirra væri settur í forgang, fordómalaust.

Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi VG velti því upp fyrr í vikunni hvort það væri eðlilegt að trúfélögum væri af hálfu hins opinbera falin yfirumsjón með veiku fólki í svo miklum mæli sem raun er orðin.

Nú eru ýmsir að velta þessum sömu spurningum upp og er það vel. Við þurfum að velta þessu rækilega fyrir okkur.

Í því samhengi er það ekki bara fjárhagsleg ábyrgð meðferðaraðila sem skiptir máli. Það er margt annað sem knýr á um svör við spurningum - eins og til dæmis hvort sértrúarsöfnuðir séu okkar bestu fagaðilar í þessum efnum og hvort eðlilegt sé að slíkum söfnuðum sé falin ábyrgð á veiku fólki af hálfu hins opinbera.

Í þessu samhengi þykist ég vita að Samhjálp hafi unnið afar þarft og gott starf á ýmsum vígstöðvum. Ég tek ofan fyrir trúfélögum sem reyna raunverulega að láta eitthvað gott af sér leiða - ekki bara í hempum í ræðustól, heldur í  samfélagsmálum með áþreifanlegum hætti. Eins og til dæmis að gefa hungruðum mat. Góðgerðastarfsemi.

Ég er auk þess viss um að trú geti hjálpað fólki til bata þegar það þarf að kljást við margvísleg mein - líkamleg jafnt sem andleg. Ekki bara kristin trú heldur ýmis mismunandi trúarbrögð - og ekki bara hefðbundin trú heldur líka óskilgreind og persónuleg trú, hvort heldur er á æðri máttarvöld eða líkn manneskjunnar, trú á hið góða, eigið sjálf, bæn, kærleika eða breyttan lífsstíl. Trú skiptir oft máli á leið fólks til bata - margvísleg trú og sú von og styrkur sem henni fylgir. 

En það breytir ekki því að það orkar mjög tvímælis að tilteknum trúfélögum sé í auknum mæli falin umsjón veiks fólks af hálfu hins opinbera. Að eitt trúfélag taki við af öðru - og svo koll af kolli.

Hvaða spurninga er spurt?

Ímyndum okkur eitt augnablik að Félag múslima á Íslandi hafi mikla reynslu í að meðhöndla þá félagsmenn sína sem eiga um sárt að binda. Og að lagt hefði verið til af hálfu yfirvalda að Félag múslima á Íslandi ætti að sjá um endurbata allra þeirra sem þurftu að hrökklast frá Byrginu. Og fleiri til.

Ég efast ekki um að flestum fyndist þetta fjarstæðukennd tillaga - og vita að enginn mundi leggja slíkt til. Hvers vegna? Og ef það væri samt gert, hvaða spurningar væru ósjálfrátt spurðar út um allt? Hvers vegna?

Ég held að okkur sé öllum hollt að hugsa rækilega um það hvers vegna þetta slær okkur sem fjarstæðukennt - og  hvers vegna sumir fá erfiðar spurningar á sig en aðrir ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Held að það sé í flestum ef ekki öllum trúfélögum boðað að það skuli ekki dæma náungann. Ef fólk treysti sér að fara eftir því boði þá væri kannski ekkert að því að styrkja söfnuði við að hjálpa öðrum. En því miður á margur maðurinn erfitt með að sleppa dómarahempunni.

Ágúst Dalkvist, 19.1.2007 kl. 15:47

2 Smámynd: arnar valgeirsson

Jamm, Lilja. manni finnst ríkið sleppa ansi billega í að veita nauðsynlega aðstoð þeim hópum sem þú tilgreindir. Félagasamtök hafa veitt þá aðstoð sem í boði hefur verið. svona að mestu, en þiggja auðvitað peninga frá ríki og borg til að halda starfseminni gangandi. Samhjálp hefur staðið mjög vel að málum um allnokkurt skeið, gefið fátækum og húsnæðislausum mat og komið upp stoðbýlum, nefni Milklubraut 18 og 20. Hinsvegar er ekki í lagi að kristileg félagasamtök sem starfa innan Hvítasunnusafnaðarins séu orðnir verktakar í allri starfsemi sem kemur að heimilislausum, sem sumir kalla útigangsfólk og eru auðvitað flestir í neyslu. Treysti því að vinna verði sett í gang í þessum málaflokkum strax í vor!!!!!

kveðja.

arnar valgeirsson, 19.1.2007 kl. 16:53

3 identicon

Þetta er nú einum of langt gengið. Þetta hlítur nú að fara eftir því hvernig starfið er upp byggt. Samhjálp hefur á að skipa fagmenntuðu fólki og starfsmenn eru þar úr röðum hvítasunnumann, þjóðkirkjunnar og þar vinnur fólk sem er utan trúfélaga. Samhjálp hefur alla tíð lagt á það áherslu að öllum er sinnt, konum, mönnum trúuðum, ótrúuðum osfrv. Það þíðir ekki að með öfgahætti ættla að dæma alla út frá einu dæmi. Þá segir það sig náttúrulega sjálft að ríkið ætti ekkert að vera að sinna þessum málum! Út frá þínum rökum allavegana. Þú velltir fyrir þér hvernig viðbrögðin hefðu verið ef félag múslima myndi taka yfir. Ég get spurt á móti, eru ekki um 90% þjóðarinnar kristinnar trúar? Ef félag múslima gæti sínt fram á að þeir tækju á móti öllum, óháð trúarskoðunum væri það örugglega bara alltí lagi. Það er endalaust talað um öfgatrúarfólk en hvað eru þið í VG...ykkar skoðanir eru nú nokkuð öfgakendar. Virðist ekki vera tilbúin að skoða hvert dæmi heldur dæmið alla út frá einum. Hvernig væri að skoða og dæma eftir verkum...t.d. Samhjálp?

Daníel (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 21:29

4 identicon

Heil og sæl, Guðfríður Lilja; og þökk fyrir greinina um gömlu konuna, á dögunum !

Vil láta dómstólana úttala sig, um Byrgis mál. En......... Guðfríður, gleymum ekki þætti hins sæla Þorláks byskups Þórhallssonar (1133 - 1193), frænda míns og góðar jarteinir hans, gagnvart þeim sem minna máttu, sem og ýmsu góðu, sem og Guðmundur góði Arason Hólabyskup (d.1237) lét af sér leiða, í þágu þeirra, sem lakar stóðu, á kaþólska tímanum, talandi um trúfélög. Þótt við höfum kastað frá okkur gömlu kirkjunni, á 16. öld, má samt ekki gleymast, að við ákváðum, að ráði Þorgeirs Ljósvetningagoða, um árið 1000, að hafa einn sið í landi hér, og hefir vel gefizt, unz hið mjög umdeilanlega trúfrelsi komst hér á, á 19. öldinni.

Þú nefnir félag þeirra múhameðsku, hér á Íslandi. Því miður, Guðfríður; verður að segjast eins og er, að veröldinni stafar einna mestur háskinn, í nútíð og í framtíð af þeirri háskalegu dauðahyggju, hver hefir að meginmarkmiði, að leggja heim okkar allann undir þeirra makt. Eins og ég rakti, í pistli mínum, til jafnöldru minnar, Margrétar Sverrisdóttur; frambjóðanda til varaformanns Frjálslynda flokksins, undir '' Nornaveiðar'' á síðu hennar, lagði ég fram nokkur rök, til grundvallar máli mínu, um þá Serknesku. Les þar nánar...... þér til miklu nánari glöggvunar.

Verðum örugglega í sambandi !

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum -  p. s. Hefir þú lesið Nýala Dr. Helga Pjeturss ?   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 22:48

5 identicon

Takk fyrir þettaLilja, samkynhneigðir eru oftar en aðrir á skjön við samfélagið og þurfa extrastuðning (i know! verandi Lesbía) en þetta Birgismál er að verða öllum viðkomandi til eilífðar skammar!

Anna Bankovic (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 22:57

6 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Einhvernveginn hef ég á tilfinningunni að kynvillingar séu dómharðari en aðrir.

Þeir sem hringja fyrir Byrgið og aðra að leita áheita eru á launum hjá úthringifyrirtækjum og taka hlutfalla framlaga sem laun, svo það má ekki byggja á áliti þeirra.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 19.1.2007 kl. 23:31

7 identicon

Það að fordæma þa, sem fordæma aðra er rótin að óeiningu og ofbeldi þees heims. Reynum að hugleiða oftar hvað felst í hugtakinu umburðarlyndi og þá liði okkur betur.

Víst eru fordómar óþolandi en þeir byggja á brenglaðri lífskoðun einstaklinga, sem oftar en ekki hefur engan hljómgrunn né flea í sér raunverulega hættu.  Það að stökkva upp til handa og fóta í hnútukasti við slíka aðila gefur ófriðarbálinu aðeins eldsneyti.  

Ekki skildi dæma einstaklinga fyrir óvandaðar skoðanir því þær spretta oftar en ekki úr ótta eða þa´að einstaklingurinn hefur ekki sama smekk og lífskoðun. T.d. einblínir fólk mikið á kynlíf samkynhneigðra, þótt því yriði um og ó ef kynlíf þeirra væri sett undir sama ljós. Í fáfræði og jafnvel vegna innrætingar á þetta fólk afar erfitt með að sjá og skilja að væntumþykja, vinátta og djúpur kærleikur getur verið með fólki af sama kyni og að kynlíf þess er eingöngu æðsta byrtingarmynd þess kærleika.  

Samkynhneigðir eiga margir þó oft sök á slíkri mistúlkun vegna opinskás tals um kynlíf sitt og atlot, sem ég tel oft gert sé til að storka andstreyminu. Slík hegðun á sér vafalaust líka grunn í sama ótta. Þannig að umburðarlyndið skortir á báða bóga. 

Það að draga fólk í dilka samkvæmt kynhegðun er einnig óeðlilegt því kynhegðun er svo óendanlega margbreytileg og gefur lífinu oft lit ef í hófi er.  Mér finnst oft sem þessir flokkadrættir líkist kítingum stjórnmálaflokkanna um með og á móti, rangt eða rétt.  Samkynhneigðir gerast einnig sekir um slíka vörumerkingu á sjálfum sér.  Ef við bara gætum lifað í umburðarlyndi og elskað án þess að bindast hreyfingum um það, þá væri margt betra. Þetta snýst jú allt um samvistir og kærleik tveggja einstaklinga óháð því hvað öðrum finnst.

Jón Steinar Ragnarsson (IP-tala skráð) 20.1.2007 kl. 11:10

8 Smámynd: Birna M

Ekki svo fjarstæðukennt en múslimar myndur enn frekar útiloka homma og lesbíur, hjá þeim er þetta bannað og dauðasök. Samkynhneygðum hefur ekki verið úthýst úr kristilegu meðferðarstarfi en ég reikna þó með að þeir myndu frekar vilja fara á Vog. Guðmundur hefur alltaf verið uppá kant við allt heilbrigðiskerfi og úthúðað öllum trúfélögum öðrum en sjálfum sér, og hann hefur líka úthúðað Þórarni Tyrfingssyn, afþakkað alla hjálp, (hef heyrt upptökur frá samkomunum hans).

Birna M, 20.1.2007 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband