Pennann af Árna

Í bókinni „The Shock Doctrine“ lýsir Naomi Klein hvernig heimskapítalismi nýfrjálshyggjunnar hefur þurrkað upp hvert landið á fætur öðru í þágu fjölþjóðlegra auðjöfra og risasamsteypa. Innviðir samfélags, auðlindir, heilbrigðisþjónusta, menntun – öllu er þessu fórnað á altari gróðans, holað að innan og allt annað samfélag búið til heldur en fólk hélt það hefði kosið.

Ein aðalkenning Klein er sú að þegar samfélag hrynur vegna styrjalda, náttúruhamfara eða – mikið rétt – efnahagshruns þá skapist slík ringulreið, taugaveiklun og andleg lömun að alls kyns pólitík sem almenningur vill ekki er keyrð í gegn.

Þessi bók hefur endurtekið komið upp í huga mér síðustu daga. Að íslensku samfélagi stafar hætta, ekki bara vegna þess að æra landsins bíður hnekki og heimilunum blæðir, heldur vegna þess að nú getur svo margt gerst á bakvið tjöldin í skugga hrunsins. Treystum við ráðamönnum við þessar aðstæður?

„Nú verðum við að treysta hvert öðru“ segja valdhafar ábyrgir á svip „þjóðin er öll á sama báti.“ Voru allir á sama báti í „góðærinu“ eða er það bara í hruninu sem báturinn leki verður einn og hinn sami?

Það er rétt að ekkert samfélag lifir án trausts. En það verður þá að vera traust sem til er unnið. Ég ber lítið traust til þeirra stjórnvalda sem nú sitja og það breytist ekki þótt mér sé sagt að treysta.

Ice-Save reikningarnir í London fóru á sitt hæsta flug í tíð þessarar ríkisstjórnar, þessa viðskiptaráðherra, þessa fjármálaráðherra, þessa Fjármálaeftirlits, þessa Seðlabanka. Á bara að hlusta á ylmjúka röddina á blaðamannafundi, loka augunum og treysta? Er það þannig sem lýðræðið eflist?

Þar sem skýrslum var áður skotið undir stól sést fjármálaráðherra nú ferðast sem eldibrandur um heiminn og munda pennann. Án umboðs Alþingis virðist hann þess umkominn að skrifa upp á mörg hundruð milljarða skuldbindingar sem hneppt gætu næstu kynslóðir Íslendinga í botnlausa skuldafjötra. Þetta er sama ríkisstjórn og ætlaði aldrei að geta dregið fram pennann fyrir íslenskar ljósmæður. Voru það þær sem knésettu Ísland?

Fólk fær ærin högg nú þegar án þess að úttaugaðir ráðamenn gefi Árna Matt óútfylltan víxil til að skrifa upp á Versalasamninga í útlöndum. Í þágu hverra skrifar hann undir þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lítur yfir öxl – í þágu alþjóðaauðvaldsins eða almennings?

Hljómfagrar, yfirvegaðar, innihaldslitlar, innistæðulausar yfirlýsingar á blaðamannafundum, í fjölmiðlum, á Alþingi, á starfsmannafundum, breyta engu um þá elda sem loga í óstarfhæfri stjórn. En þótt þú sért smá og uppburðarlítil, Ríkisstjórn Íslands, gerðu þó í guðanna bænum eitt og það strax: Taktu pennann af Árna Matt.

Eða hvað finnst ykkur: Hið nýja, lýðræðislega Ísland sem skal rísa og skal dafna, þarf það sama gamla tóbakið eða þarf það kannski nýja hugsun og nýja penna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Mikið rétt að hafa áhyggjur af því ef við fáum hjálp frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og þeir sem segja annað eru ekki að líta söguna um slíkt réttum augum. Hann hefur alltaf gert kröfur um að draga úr fjárútlátum ríkisins á sama hátt, með því að draga úr og skerða velferðarkerfið og að einkavæða.

Einmitt núna eru "kjörnar aðstæður" fyrir hann til að koma hér inn og fara fram á þessa hluti þar sem við erum í raun varnarlaus og eigum fárra kosta völ. Mikið er þó undarlegt að ekki sé fyrst athugað almennilega með lán frá grannalöndum okkar áður en þessi kostur er skoðaður.

Það er ekki nóg að við þurfum gamla tóbakið í burtu frá stjórnvölum, heldur þurfum við líka að koma konum að við enduruppbyggingu landsins.

Andrea J. Ólafsdóttir, 18.10.2008 kl. 19:05

2 identicon

Gott að lesa pistil með skýrri hugsun þessa dagana.
En hvað á að gera - þeysast út á götu með heykvíslina?

Berglind (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 23:14

3 Smámynd: Magnús Vignir Árnason

Berglind á eiginlega kollgátuna. Þó við færum ekki út á götu með heykvíslina í bókstaflegri merkingu þá vantar samstöðu landans, kenna stjórnmálamönnum að bera virðingu fyrir fólkinu og að boða strax til kosninga.

Magnús Vignir Árnason, 18.10.2008 kl. 23:36

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Skil þig vel....við erum 300.000 manns með ein verðmætustu náttúruauðæfi í heimi!!! Þetta ástand nú er absúrd! 

FJÖREGGIÐ ER FARIÐ!..og "engin" ber ábyrgð?  Við treystum greinilega röngu fólki fyrir egginu!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 19.10.2008 kl. 01:19

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Góð grein og við þurfum svo sannarlega að vera á verði. En höfum við aðra möguleika í stöðunni eins og er?

Verðum við ekki að leita eftir ráðleggingum eða einhvers konar stýringu amk á gjaldeyrismálum hjá alþjóðastofnun sem hefur það hlutverk að aðstoða þjóðir?

Eru aðrir kostir í boði fyrir Ísland? Annar er að biðja Noreg að taka við okkur sem einu héraði eða leita ásjár hjá Rússum og lofa þeim aðstöðu sem myndi henta þeim til að verja hagsmuni á Norðurslóðum?

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.10.2008 kl. 04:43

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

það er meira segja ekki í boði sá möguleiki að ganga í EBE til að leysa þau aðkallandi vandamál sem við stöndum frammi fyrir núna. það þarf meiri aðdraganda.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.10.2008 kl. 04:45

7 Smámynd: Þórhallur

Nún

nú ríður mest á að koma þessum gæpamönnum (að mínu mati) frá, það þolir enga bið. Þá er ég að tala um sjálfstæðisflokkinn. En við megum ekki gleyma því að framsóknarflokkurin ber jafn mikla ábyrgð. Enda vill hann nú ólmur komast í stjórn með sjálfstæðisflokki, til að sjá til þess að ekki verði sópað undan teppum.Það verður að koma öllum þingmönnum þessara flokka út út þinghúsi, og banna þeim að koma nálægt því framar. Þú verður líka að átta þig á því Guðfríður, að stjórnarandstaðan ber líka ábyrgð. Þið brugðust algerlega ásamt öðrum í stjórnarandstöðu. Þið hafið valdið mér miklum vonbrigðum, sem veldur því að ég treysti engum íslenskum stjórnmálamanni núna. Eftir að flokkurinn breyttist og VG var tekið, upp hef ég kosið ykkur með semingi. Það er nú ljóst að ég mun ekki kjósa ykkur oftar, þar sem þið vinnið engan veginn ykkar vinnu í stjórnarandstöðu. þið takið ekki einu sinni sjánlegan þá í að koma seðlabankastjórum frá. Þið takið lítinn þátt í að upplýsa spillingu í þingi og þjóðfélagi. Þið eruð semsagt ekki lifandi. Ég hef hugleitt undanfarið hvort ástæðan er að þið viljið komast á sömu spena ef þið komist í ríkisstjórn. Það hefur verið rætt að þið takið ekki þátt nú, vegna þess að þið viljið komast í stjórn með sjálfstæðisflokki. Ef það er rétt verðið þið samsek með því að vinna með þessum glæpamönnum (að mínu mati)

Þórhallur, 19.10.2008 kl. 12:22

8 Smámynd: Þórður Runólfsson

Nei takk ekki sama tópakið.

Enn hvað á til bragðs að taka?

Okkur virðist alla bjargir bannaðar nema í gegnum Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn.

Þau skilaboð hafa komið frá Norðurlöndunum.

Ekki Rússa- lán takk. 

Þórður Runólfsson, 19.10.2008 kl. 14:52

9 identicon

Eiginlega er politik og politikusar gjaldþrota i theirri mynd sem við thekkjum. Vona að tími nýhyggju komi sem allra fyrst, án thess að eg hafi hugmynd um hvernig nyhyggja litur ut.

The outlaw (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 16:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband