Föstudagur, 10. október 2008
Má biðja griða?
Stundum skiptir pólitík ekki öllu máli í pólitík. Þegar raunsönn krísa kemur upp hjá heilli þjóð og hver klukkutími telur þá skiptir ekki bara máli hvaðan fólk kemur, frá hægri eða vinstri á skala stjórnmálanna.
Þá skiptir mestu máli að fólk hugsi skýrt, sé vel að sér, kunni að bregðast við, hratt og vel, skilji á milli aðalatriða og aukaatriða og umfram allt, þori að taka ákvarðanir og framfylgja þeim af festu. Og þá skiptir sannarlega máli að fólk hafi til að bera visku til að skynja hætturnar í stöðunni og forðast þær eins og heitan eld um leið og unnið er hratt. Til þess þarf samstilltan hóp.
Á þeim örlagaríku dögum sem við nú lifum hafa íslensk stjórnvöld klúðrað málum svo svakalega með flumbrugangi, fávisku og forystuleysi að mann setur bæði hljóðan og hryggan. Í viðkvæmri stöðu létu bæði ráðherrar ríkisstjórnarinnar og Seðlabankastjóri stórhættuleg orð falla á einn veg, og á annan veg gáfu stjórnvöld um leið óljós, óskýr og misvísandi skilaboð sem ýtt hafa undir glundroða. Einn daginn þarf engan aðgerðapakka og þann næsta þarf neyðarlög. Stjórnleysið er algjört. Það er hrópað að allir séu á sama báti en nei, það eru ekki allir á sama báti. Sumir bera ábyrgð og hana skulu þeir axla.
Hvers vegna var ekki endanlega gengið frá Glitnismálum á mánudagsnótt? Hvers vegna voru Bretar látnir halda að Íslendingar ætluðu ekki að standa við skuldbindingar sínar í Ice-Save? Hvað sagði Árni Matt við fjármálaráðherra Breta sem lét hann halda að sparifjáreigendur yrðu sviknir, og hvað sagði Geir við erlenda blaðamenn? Hvaða þrugl var þetta um gömlu vinina og nýju vinina og finnst Össuri Skarphéðinssyni við hæfi að gefa erlendum ríkjum fingurinn við svona aðstæður? Og hvernig kórónaði Seðlabankastjóri svo málið í Kastljósi?
Það hlaut að liggja kristaltært fyrir í huga ráðamanna að ef ekki væri dregin víglína og strax gefin út skýr skilaboð þá mundi Kaupþing falla með Landsbankanum. Í stað ábyrgðar var æru Íslendinga velt upp úr svaðinu og Bretar látnir halda að í engu yrði staðið við skuldbindingar. Ljóst var að slíkt hlyti að gera út af við Kaupþing, og það varð úr.
Nú skal enginn misskilja mig. Ólíkt öðrum í múgsefjunar- og hópsálarmennsku íslenskra stjórnmála tækifærismennskunnar höfum við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði alltaf gagnrýnt harðlega hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna. Við höfum mótmælt af festu því reglugerðarleysi og tómarúmi sem fjármálastofnanir fengu að svamla í og borið upp ítrekaðar og vandaðar tillögur um úrbætur um endurreisn efnahagsmála. Forystufólk VG fékk á sig óheyrilegar ákúrur fyrir að voga sér að ráðast gegn ofurlaunum og sjálftöku. Þotuliðið og nýfrjálshyggjan hefur skilið eftir sig svo sviðna jörð að þar mun ekkert heilt gróa um langa hríð.
En keðjuverkanir blindni og klúðurs af hálfu stjórnvalda eru gríðarlega afdrifaríkar og þyngri en tárum taki. Þær munu nú gróflega skerða lífskjör Íslendinga næstu árin og jafnvel áratugina. Sumir hafa misst ævisparnaðinn, aðrir kvíða því að missa vinnuna, vel rekin fyrirtæki stefna í þrot.
Nú reynir ríkisstjórnin sem mest hún má að hvítþvo sig af gjörningunum öllum. Þetta er víst allt bara Davíð Oddssyni að kenna. Áhættufíklarnir sem aðrir eru jafnvel farnir að stilla sér upp sem fórnarlömbum gagnvart hinum illa Davíð. Samfylkingin fer hér mikinn í orði en minna í verki. Ég spyr: Í umboði hverra er Sjálfstæðisflokkurinn við völd? Nákvæmlega hver er vinnuveitandi Davíðs Oddssonar? Og hver setur honum starfsreglurnar? Er það kannski Samfylkingin, einmitt sú Samfylking sem enn heldur Sjálfstæðisflokknum við völd logandi stafna á milli og sótsvörtum á samviskunni? Í fleiri mánuði hafa blikur verið á lofti í fjármálalífi þjóðarinnar enda erum við að upplifa heimssögulega viðburði í sögu kapítalismans. Hver voru viðbrögð ríkisstjórnarinnar? Hún sagðist fylgjast með, hér væri engin kreppa, hér þyrfti engar aðgerðir. Á ögurstundu sýndi hún svo fullkomið getuleysi til að skynja hætturnar og bregðast rétt við. Enginn aðgerðapakki eftir sleitulausa kaffifundi alla helgina, þetta rúllar bara á meðan heimilum í landinu blæðir.
Það sem kórónar alvarleikann er auðvitað sú staðreynd að sama hugmyndafræðin, sömu mennirnir og sömu öflin og kom okkur í þessi stórkostlegu vandræði sitja nú enn við völd og þykjast vera að bjarga því sem bjargað verður. Ætli bláa einkavinavæðingin sé langt undan? Orðræða brennuvarga og slökkviliðs er við hæfi: Þetta er eins og að biðja brennuvargana að slökkva eldana með olíunni sem þeir enn halda á í höndunum og eldspýtunum sem eftir eru eldana sem þeir sjálfir kveiktu.Má biðja griða?
Athugasemdir
nákvæmlega Lilja mín,...ég var með "kreppulaust kvöld" í kvöld fyrir son minn og vini hans. Verðum að taka tillit til návist barna og hafa í huga "aðgát skal höfð í návist sálar!"
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.10.2008 kl. 22:52
Af hverju vill VG aldrei vinna með öðrum flokkum? Eru aldrei nógu góðir kostir í boði? Er alltaf verið að bíða? Og þá eftir hverju? Það er nú einfaldlega þannig að tíminn bíður ekki eftir neinum. Steingrímur hélt ég að væri að ná sér, en svo tók sig upp hjá honum gamalt far á ný!
Björn Finnbogason, 11.10.2008 kl. 00:15
Sæl G. Lilja. "Má biðja griða" rosalega, rosalega flott grein hjá þér! Þetta er svo svakalegt og svo ömurlega sorglegt, en samt svo algerlega hárrétt hjá þér Lilja !
Fyrir mér búandi í útlöndum og horfandi á þessi ósköp þá er þetta verra en verstu náttúruhamfarir ! Guð hjálpi þjóðinni minni.
Sannir og gegnheilir stjórnmálamenn eins og þú geta haft mjög mikil áhrif við að byggja upp nýtt og betra Ísland. - Kær kveðja - GULLI ESPANA
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 00:16
Orð í tíma töluð. Góð grein.
Þorvaldur Guðmundsson, 11.10.2008 kl. 09:41
Þetta er sannleikurinn í hnotskurn. Yndisleg lesning í morgunsárið. Bestu kveðjur.
Sigurður Sveinsson, 11.10.2008 kl. 10:35
Flott grein. Áfram Guðfríður og áfram VG. VG gerði sitt besta til að vara við og mæla gegn peningarugli síðustu 5 ára, en það var eins árangurslaust og að reyna að stöðva hraðlest á fullri ferð að hengiflugi.
Munum að það voru flokksmenn Davíðs, Geirs, Halldórs og Valgerðar sem hrundu þessari atburðarrás af stað.
Bestu kveðjur!
Valgeir Bjarnason, 13.10.2008 kl. 10:58
Góð grein Lilja.
Ég er í Samfylkingunni en mín grunnlífsskoðun er runnin undan rifjum þeirra einstaklinga sem voru samvinnufólk (sem nota bene er ekki það sama og Sambandið var orðið síðustu ár þess). Ég hef getað tekið undir flest sem t.d. kom frá Kvennalistanum sáluga, ég færði lögheimilið mitt frá Vestfjörðum til Reykjavíkur (sem þá var eitt kjördæmi) þegar Jóhanna Sig. fór fram með Þjóðvaka því ég vildi styðja við þau lífsgildi sem hún hefur alla tíð haft að leiðarljósi (og verðfelldi þar með mitt atkvæði töluvert, en ég vildi ekki kjósa það fólk sem fór fram fyrir Þjóðvaka á Vestfjörðum, já ég viðurkenni það, ég var opinberlega Reykvíkingur um nk. mánaða skeið). Og: þegar fólk til vinstri við miðjumoð framsóknar var að reyna að koma saman nógu stórri vinstri blokk til að geta ýtt við xD og xB, þá batt ég vonir við (eins og flest það fólk sem taldi og telur að þau gildi samvinnuhreyfingarinnar sálugu væru þess verð að standa með þeim) það tækist. Því það var ljóst þegar á fyrra kjörtímabili xD og xB hvert "svartnættis íhaldið" eins og mín amma kallaði það, stefndi með máttarstoðir þjóðarinnar. En hvað gerðist? Stórar stoðir úr þáverandi allaböllum, fremstur í flokki þar Steingrímur J, hafði ekki lært þá og hefur ekki lært enn (amk. sbr. síðustu stjórnarmyndunartilraunir til vinstri) að til að hafa raunveruleg áhrif í stjórnmálum þurfa þeir flokkar sem EKKI eru nógu stórir, að viðhafa málamiðlanir. Málamilanir eru ekki það sama og undirlægjuháttur eins og t.d xB sýndi af sér: allur sá flokkur nema einna helst Jón heilbrigðisráðherra þegar xd reyndi þá að ýja að einkavæðingu (ekki einkarekstri; nei ég er ekki að rugla þessu tvennu saman, raunverulegt markmið var og er einkavæðing).
Þegar Samfylkingin var í burðarliðnum, þá sum sé hlupust sumir undan merkjum. Það tók því samfyllkinguna miklu lengri tíma en líklega hefði orðið, að komast til valda heldur en hefði orðið ef þið hefðuð getað skilið að til að hafa áhrif, þarf að hafa völd! Hvað liggur eftir ykkur núna, ekkert, rétt eins og með kvennalistann (það eina sem liggur eftir kvennalistann er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, en hún þurfti að skipta um skip til að sigla). Fjandinn fjarri mér ef fólk eins og Jóhanna hefði nokkurn tímann tekið í mál að leyfa svona óhefta frjálshyggju í bankamálum eða í öðrum þáttum þjóðlífsins. Vegna þessa liðhlaups núverandi VG gat framsókn haldið uppi íhaldinu í eitt kjörtímabil enn. ÞIÐ ERUÐ SUM SÉ EKKI ALVEG ÁN ÁBYRGÐAR HELDUR.
Eygló Aradóttir (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 15:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.