Föstudagur, 12. september 2008
Guðlaugur Þór hávaxnari en Gaddafi
Mér er illa við að vera fótóshoppuð. Ég meina, mér finnst bara allt í lagi að hrukkurnar mínar sjáist og sigið í hálsinum og bólurnar og baugarnir og allt þetta hitt sem ekki er í tísku. Hvers vegna að vera að falsa sig í mynd?
Þess vegna skil ég Guðlaug Þór mjög vel. Hvaða leyfi hefur Ögmundar Jónasson til að fótoshoppa Guðlaug Þór að honum forspurðum? Ég er bit og stend heils hugar með Guðlaugi og vinum hans í baráttunni.
Ég tók mig til og skammaði Félaga Ögmund fyrir ósmekklegheitin. Því miður hefur hann ekki enn látið segjast. Hann ypptir öxlum og segir að þetta sé nú bara góðlátlegur leikur og ekkert persónulegt frekar en allar hinar myndirnar á síðunni, svona til að skreyta þessa beittu og alvarlegu og ástríðufullu pistla. Ef Guðlaugur Þór er móðgaður hvað þá með alla hina sem hafa verið fótóshopperaðir á www.ogmundur.is? spyr Ögmundur óskammfeilinn þegar ég reyni að gera honum grein fyrir alvöru málsins.
Grín! Grín! hvæsi ég á hann af kratískri röggsemi. Finnst þér þetta virkilega fyndið! Hverjum finnst svona barnaskapur fyndinn! Engum! Engum!
En allt kemur fyrir ekki.
Þótt Nicolas Sarkozy og Condoleeza Rice og George Bush og Tony Blair og allir hinir heilsi og faðmi og knúsi Gaddafi sem óðast þegar hann selur opinberar eigur Líbýu, þá er það náttúrulega hneyksli að ímynda sér að Guðlaugur Þór mundi nokkurn tímann gera slíkt hið sama í opinberri heimsókn. Við Íslendingar þekkjum okkar mörk.
Svo er það auðvitað ekki bara hugmyndin sem slík sem er hneykslanleg þetta með að láta þá heilsast. Það er líka útfærslan.
Ég er til dæmis viss um að Guðlaugur Þór er í raunveruleikanum miklu hærri í loftinu en Gaddafi. Á myndinni er hann sýndur pínulítill eins og Sarkozy. Ég held líka að Guðlaugur sé miklu myndarlegri en Gaddafi í raunveruleikanum. Þetta kemur ekki nógu skýrt fram á myndinni. Gaddafi lítur út fyrir að vera kúl gæi með dökk sólgleraugu og biksvart hár á meðan Guðlaugur Þór er einhvern veginn eins og nýklipptur út úr greiningardeild, í gráum jakkafötum og rjóður í kinnum og eiginlega bara hálf sveitalegur við hliðina á Hollywoodlegum Gaddafi. Er ekki Gaddafi að nálgast sjötugt?
Félagi Ögmundur segist hafa meiri áhyggjur af því hvort meirihluti þingheims hafi yfirleitt lesið sjúkratryggingafrumvarpið (sem þau samþykktu í fyrradag sem landslög) heldur en hvort Guðlaugur sjáist á mynd með Gaddafi rétt eins og Sarkozy og allir hinir.
Í ljósi iðrunarleysis hef ég lagt til að hinn óforbetranlegi Ögmundur Jónasson skrái sig í Siðaskóla Sjálfstæðisflokksins og komi ekki þaðan út fyrr en hann er farinn að þekkja sín mörk. Hann spurði mig kvíðinn hverjir yrðu helstu kennarar í mannasiðum en ég sagði bara að slíkt mundi koma í ljós. Þeir væru án efa allir þaulreyndir.
Eitt verð ég þó að viðurkenna. Ég á eftir að sakna Ögmundar. Mér skilst að námið sé strangt með heimavist og öllu og fólk geti engu öðru sinnt á meðan. Þetta er synd fyrir okkur nánasta samstarfsfólk hans því hann gerir dagana okkar iðulega skemmtilegri og innihaldsríkari. Svo eru líka þó nokkuð margir í samfélaginu yfirleitt sem mega helst ekki við því að týna Ögmundi Jónassyni inn í völundarhús Siðareglna Sjálfstæðisflokksins. Fólk kemur iðulega aldrei aftur þaðan út.
Og þótt hann hafi ef til vill takmarkaðan fótóshopp-smekk að sumra mati þá verður þó að viðurkennast að hann hefur nokkuð áríðandi og mikilvægan málstað að verja. Ég veit að það er ekki í tísku frekar en hrukkur á mynd, en Ögmundur vill helst ekki að við séum seld. Allra síst vill hann að við séum ofurseld bókstafstrú Condoleezu og Bush um að allt, bókstaflega allt, sé til sölu í samfélaginu og eigi fyrst af öllu að rata beint í vasa einkavina. Hann stendur með hinum veikari, og það er hreint ekki í tísku.
En af því að hann er nú eins og hann er þá ætla ég að fyrirgefa Ögmundi fyrir Trípólí-tenginguna. Ég ætla meira að segja að fyrirgefa honum án þess að láta fúkyrðaflaum fylgja með, svona eins fylgir þegar Árni fyrirgefur Agnesi. Eins og dæmin sanna kann Sjálfstæðisflokkurinn öðrum fremur mannasiði, iðrun og fyrirgefningu, en við hin erum enn að læra og gengur hægt alltof hægt. Viðkvæmir eru því hvattir til þolinmæði.
Birtist í Viðskiptablaðinu 12. september 2008.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.