Sagan kvödd

 

Ég verð að viðurkenna að ég klökknaði þegar ég labbaði Austurstrætið í gærkvöldi.

Ólíkt flestum höfuðborgum Evrópu er höfuðborg okkar Íslendinga ekki svo ýkja auðug af gömlum og merkum byggingum. Þótt hverjum þyki sinn fugl fagur þá er það staðreynd að hörmuleg skipulagsmistök hafa verið gerð í höfuðborginni í gegnum árin - sem og í nágrannabæjarfélögum - og þau mistök hafa orðið ásýnd höfuðborgarsvæðisins alls afar dýrkeypt. 

Við höfum ekki alveg kunnað gott að meta, fleygt ómetanlegum dýrgripum á öskuhaugana, hreinsað út upprunalegar innréttingar og eyðilagt merkar byggingar. Enn þann dag í dag byggjum við risavaxnar bensínstöðvar á besta stað bæjarins - og plönum margra hæða háhýsi eða nýtískuleg ferlíki þar sem þau eiga engan veginn heima. Við erum dálitlir vandalar og gróðafíklar í okkur og uppbygging stórhöfuðborgarsvæðisins er að ýmsu leyti skólabækurdæmi um hvað beri að varast í skipulagsmálum.

Það versta er að sumir virðast alls ekki sjá voðann í verki. Þeir virðast ekki hafa neina eftirsjá eftir gömlum og merkum stöðum - og sjá ekki fegurðina í notalegri, lágreistri byggð. Þeir vilja frekar byggja margra hæða verslunarmiðstöðvar og bensínstöðvar í amerískum stíl. Ég fæ sjaldan jafn miklan bjánahroll og þegar talað er stórkarlalega um að Reykjavík geti líkst New York. Það er hin fullkomna ranghugmynd.

Í takt við þennan vandalisma okkar verður það að segjast alveg eins og er að við höfðum ekki ljáð hinum sögufrægu og merku húsum sem brunnu í gær þá reisn, virðingu og líf sem þau áttu skilið. En þau fengu í það minnsta að standa, fögur ásýndum, og gáfu þannig miðbænum sína fallegu og notalegu stemmningu. Þau voru órjúfanlegur hluti af ásýnd miðbæjarins.

Nú eru húsin horfin og ég er væntanlega ekki ein um það að bera dálítinn ugg í brjósti um hvað muni koma í staðinn. Reynslan sýnir að við höfum hingað til ekki verið því verkefni vaxin að byggja í sátt við umhverfið, söguna og stemmninguna.

En í dag er sumardagurinn fyrsti og þá verðum við að vera bjartsýn. Við höfum jákvæð dæmi um að endurbygging húsa hafi tekist vel í Aðalstræti Reykjavíkurborgar og víðar og vonandi munum við byggja á þeim styrkleika og sýn áfram. Andrúm hins gamla verður að fá að lifa með okkur sjálfum og þeim sem á eftir koma - hvort heldur er í Reykjavík eða Hafnarfirði, Ísafirði eða Selfossi.

Það er engum ofsögum sagt að slökkviðliðsmenn hafi unnið þrekvirki við að ráða niðurlögum eldsins og var aðdáunarvert að fylgjast með störfum þeirra. Einn lítill félagi minn 6 ára sem kann að máta heimaskítsmát ætlar sér einmitt að verða slökkviðliðsmaður þegar hann verður stór.

Gleðilegt sumar.


mbl.is Slökkvilið og lögregla á vakt í alla nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Það verður að endurbyggja þessi hús og nota tækifærið og koma þeim algerlega í upphaflegt form!

GLEÐILEGT SUMAR

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 19.4.2007 kl. 10:21

2 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Innilega sammála þessum hugleiðingum.

Gleðilegt sumar :-)

Kristján Kristjánsson, 19.4.2007 kl. 10:27

3 Smámynd: Ólafur fannberg

gleðilegt sumar

Ólafur fannberg, 19.4.2007 kl. 10:29

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir pistil og gleðilegt sumar!

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.4.2007 kl. 11:51

5 identicon

Nú er um að gera að nota tækifærið og byggja stórt þarna.Þessir kofar sem brunnu voru einfaldlega of litlir og ekki pláss fyrir mikin rekstur þarna 

Sigurbjörn (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 15:39

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ha Sigurbjörn????

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 19.4.2007 kl. 20:01

7 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Gleðilegt sumar Lilja og takk fyrir þennan pistil. Já lítil og lágreist hús hafa sannarlega sinn sjarma. Gekk einmitt um Grjótaþorpið í dag og það var eins og maður væri horfin aftur í tímann við að fara þar um. Vonandi verða stofnsett önnur 'Torfusamtök' til þess að bjarga öllum gömlum húsum með sál frá tortímingu en fyrst og fremst ætti að endurbyggja húsin sem brunnu í sinni allra upprunalegustu mynd.

Svava frá Strandbergi , 20.4.2007 kl. 00:20

8 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Gleðilegt sumar Lilja og takk fyrir þennan pistil. Já lítil og lágreist hús hafa sannarlega sinn sjarma. Gekk einmitt um Grjótaþorpið í dag og það var eins og maður væri horfin aftur í tímann við að fara þar um. Vonandi verða stofnsett önnur 'Torfusamtök' til þess að bjarga öllum gömlum húsum með sál frá tortímingu en fyrst og fremst ætti að endurbyggja húsin sem brunnu í sinni allra upprunalegustu mynd.

Svava frá Strandbergi , 20.4.2007 kl. 00:26

9 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Borgaryfirvöld í Reykjavík eiga þakkir skildar fyrir að hafa stöðvað niðurrif húsa í dag. En ég öfunda engan af því að þurfa að taka ákvarðanir um hvernig eig að standa að uppbyggingunni, þótt ég taki helst undir það sem síðasta ræðukonar sagði kl. 00.26 í nótt. Þetta horn hefur hins vegar ekki verið neitt sérlega aðlaðandi allra síðustu misserin - bílaumferð um Austurstræti er nú alger óþarfi.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 20.4.2007 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband