Færsluflokkur: Bloggar
Föstudagur, 11. maí 2007
Hvern skal kæra?
Nú er okkar ástsæli Ómar Ragnarsson búinn að fá á sig kæru fyrir austan.
Fyrir hvað? Jú, fyrir að hafa lent flugvélinni sinni á sethjöllum í friðlandi Kringilsárrana sem er að sökkva í aur Hálslóns. Ómar lenti flugvélinni sinni þarna til að geta sýnt fleirum hvaða dýrgripir voru þarna að hverfa - og eru að fara á kaf með hraði á hverjum degi.
Ómar hefur í fjölda ára sýnt okkur Íslendingum mismunandi hliðar á okkar stórkostlega landi. Ef einhverja á að kæra fyrir náttúruspjöll á þessum slóðum þá er það sannarlega ekki Ómar Ragnarsson. Hann á heiður og þakkir skildar fyrir allt sem hann hefur gert.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 10. maí 2007
Ný græn velferðarstjórn í sjónmáli?
Stöð 2 var með skemmtilegan kosningaþátt í gær þar sem allir formenn flokkanna sátu fyrir svörum. Horfið á þáttinn hér!
Nú eru spennandi tímar framundan. Tekst okkur að mynda hér framsækna græna velferðarstjórn?!
Bara 2 dagar í kosningar! Þú átt svarið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Miðvikudagur, 9. maí 2007
Ótrúlegt en satt
Ég nefndi það aðeins í gær hversu mikilvægt mér fyndist það að stjórnmálaöfl tali einum rómi hvar sem þau eru á landinu. Við vinstrigræn höfum meðvitað kappkostað að standa fyrir einmitt því: Ísland er eitt og málstaður okkar er sá sami hvar sem við erum. Það á að vera mér jafn mikið kappsmál að sjá öflugan íslenskan landbúnað og matvæli í hæsta gæðaflokki eins og þeim sem búa úti á landi. Ég er jafn mikið á móti álveri þegar ég er stödd á Húsavík eins og þegar ég er stödd í Kópavogi.
Mér virðist hins vegar hin pólitíska menning vera þannig að sumir leyfa sér að tala einu máli á einum stað og svo allt öðru á öðrum, allt eftir því hvaða hópur það er sem hlustar. Þeir segja bara nákvæmlega það sem hver hópur fyrir sig vill heyra. Þeir komast alveg óskaplega létt upp með þetta og loforðalistarnir bólgna stöðugt.
Mér hugnast þetta alveg sérstaklega illa.
Mótsagnirnar í málflutningi eru óendanlegar en alltaf virðumst við kjósendur vera jafn ginkeypt. Tökum nú á okkur rögg! Kynnum okkur raunverulega málin og tökum upplýsta afstöðu byggða jafnt á verkum liðins kjörtímabils sem og sýn til framtíðar. Reynum að láta ekki klisjurnar, upphrópanirnar, auglýsingarnar og endalausa loforðalistana sem verða sviknir hafa áhrif á okkur. Það er erfitt en allt er hægt með góðum vilja!
Framsókn var annars að rjúka upp í skoðanakönnun dagsins. Ætlar þeim að takast að leika sama leik og síðast?!
Framsókn hefur verið við völd í 32 ár af undanförnum 36 árum. Sjálfstæðisflokkur verður við völd í 20 ár samfleytt ef ríkisstjórnin heldur velli.
Ótrúlegt en satt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 8. maí 2007
Skemmtilegt að horfa á!
Stöð 2 hefur undanfarnar vikur gengist fyrir vönduðum og skemmtilegum þáttum um formenn stjórnmálaflokkanna. Mikið vildi ég sjá meira af svona líflegri innlendri þáttagerð um menn og málefni yfirleitt! Það hefur verið mjög gaman að þessu og allir formenn sýnt á sér mannlegar og góðar hliðar um leið og ferill þeirra hefur verið rifjaður upp.
Í gær var uppáhalds formaðurinn minn, Steingrímur J. í þættinum - þið getið horft á hann hér.
Svo var kynningarmyndband VG sýnt í sjónvarpinu í gærkvöldi. Horfið endilega á það hér!
Sumir flokkar hafa í gegnum tíðina treyst á gullfiskaminni okkar kjósenda í kosningum. Með snjöllum auglýsingum og herferðum höfum við verið fengin til að gleyma öllu því sem á undan er farið og keypt loforð á loforð ofan.
Látum það ekki gerast núna!
Kjósum hreyfingu sem hefur staðið vaktina viku eftir viku og ár eftir ár í ótal aðkallandi málum þar sem allir aðrir brugðust.
Þau voru bara 5 á þingi fyrir VG. Voru þau kraftminni heldur en langtum stærri þingflokkar? Þvert á móti.Gleymum loforðaflaumi og loforðalistum og auglýsingagerð og nýrri ímynd flokka rétt fyrir kosningar. Kjósum fólk með góðan málstað sem ekki bregst í aðkallandi málum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 6. maí 2007
Ákall
Ég má ekki til þess hugsa að umhverfismálin týnist í hinni pólitísku umræðu fyrir þessar kosningar. Það hreinlega má ekki gerast.
Það er auðvitað deginum ljósara að það þjónar hinum ýmsustu valda- og hagsmunaöflum óskaplega vel að einmitt það gerist. Að umhverfismálin séu þögguð. Og það þjónar svo sannarlega ríkjandi stjórnvöldum vel.
En hvenær ætlum við að kjósa um framtíð landsins okkar og ábyrgð í umhverfismálum ef ekki nú? Nú er tækifærið, nú og bara nú.
Ábyrgð í umhverfismálum snýr ekki bara að stóriðju. Stóriðjustefnan er sannarlega tákngervingur alls þess sem við brjótum af okkur í umhverfismálum og náttúruvernd, en ábyrgð okkar snýr einnig að svo ótal mörgu öðru.
Hún snýr að orkustefnu og orkunýtingu til framtíðar, loftlagsmálum, vatnsauðlindinni, líffræðilegri fjölbreytni, landslagi og víðernum, vistvænum veiðum og lífríki hafsins, gróðri og jarðvegsvernd, landnýtingu, dýraríki, ferðaþjónustu og útivist, samgöngum, mengun, efnum og efnavörum, matvælum og matvælaöryggi, sjálfbærri neyslu og framleiðsu, náttúrusiðfræði og góðri meðferð dýra, umhverfismennt, stjórnsýslu umhverfismála - og fleiru sem snertir hjarta þess í hvernig samfélagi við viljum búa og hverju við skilum til komandi kynslóða.
Það er þyngra en tárum taki ef við Íslendingar kjósum ekki um náttúruvernd og umhverfismál í þessum kosningum. Við verðum að standa vaktina núna, við megum ekki bregðast. Ekki einu sinni Þjórsárver virðast raunverulega hólpin - hvað er að okkur? Er græðgin búin að éta okkur inn að beini? Hvar eru lífsgildin, virðingin?
Ég hélt að raunveruleg vakning hefði loks átt sér stað hérlendis í þessum efnum. Er það ekki svo?
Fólk við Þjórsá hefur í fleiri ár barist hetjulegri baráttu til verndar Þjórsárverum og til verndar náttúrugersemum öðrum við Þjórsá. Svo ótal mörg ómetanleg svæði önnur verða undir ef við kjósum ekki græna framtíð núna eftir 6 daga. Við megum ekki klúðra þessu. Við megum það ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 4. maí 2007
Ást eða hjónaband?
"Ástin er afl sem brýtur öll lögmál og allar hefðir: ástin er frjálsasti og kraftmesti áhrifavaldur mannlegrar tilveru. Hvernig getur svo stórkostlegt afl verið sammerkt hinu veiklulega fyrirbæri ríkis og kirkju sem kallast hjónaband?"
Þetta sagði Emma Goldman fyrir liðlega öld síðan. Hún var róttæk.
Við hin erum öll hálfgerðar liðleskjur í samanburði.
Datt þetta sisvona í hug á þessum síðustu og verstu tímum þegar samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og annað frjálslynt fólk virðist ógna hinu heilaga hjónabandi með ást sinni. Börn Guðs eru uppátækjasöm.
Ég er að lesa Emmu vegna þess að ég er gjörsamlega að kafna í kosningaloforðabunum og brellum sem standa upp úr öllum á öllum vígstöðvum og allir hljóma eins. Nú er allt í einu allt að gerast. Kosningavíxlar upp á milljarða eru undirritaðir. Öllum þykir hrikalega ferlega rosalega vænt um öryrkja og aldraða og vilja allt fyrir þá gera. Núna.
Hvar var allur þessi velvilji, eldmóður og áhugi fyrir nokkrum mánuðum síðan?
Mig vantar ferskt loft: gott að lesa Emmu. Skemmtileg, róttæk, hugrökk og beitt. Alvöru. Ekki loforð, brellur eða kosningavíxlar heldur sýn. Hugmyndir um frelsi. Hreinskilni.
Megi ríkisstjórnin falla! Upprætum þreytt og löngu kulnað hjónaband við stjórnvölinn, veitum náðarhöggið! Ek vil út! Út vil ek!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 2. maí 2007
900 milljónir á 1. maí. Eða voru það bara 800?
Það var frábær stemmning á 1. maí hátíðahöldum VG í Kragakaffi í Kópavoginum í gær. Félagar mínir í Reykjavík sem og annars staðar á landinu höfðu sömu sögu að segja - mikið fjölmenni, gríðarleg stemmning og baráttuandi í loftinu.
Oddviti okkar VG í Kraganum, Ögmundur Jónasson, hélt barátturæðu í troðfullum sal Sjallans á Akureyri. Þið getið lesið ræðuna hér. Ég held óskaplega mikið upp á Ögmund, eins og held ég allir sem honum kynnast. Í ræðu sinni í gær vitnaði Ögmundur m.a. í frænda sinn Stefán Ögmundsson prentara sem gaf honum eftirfarandi heilræði:
Við eigum auðveldara með að ná markmiðum okkar um réttlátt samfélag jafnaðar ef við hlúum vel að menntun og menningarlegum verðmætum. Gleymdu þessu aldrei og ekki heldur hinu, að kjör þeirra sem erfiðast eiga í samfélaginu eiga ævinlega að vera forgangsverkefni verkalýðshreyfingarinnar. Hinum efnameiri þurfum við ekki að hafa áhyggjur af. Svo er það hitt, að baráttan fyrir réttlæti lyftir öllum, barátta fyrir réttlæti göfgar samfélagið og gerir það betra.
Það var undarlegt að koma heim eftir baráttugleðina og hátíðahöldin í Kragakaffi og víðar og sjá stærstu frétt dagsins: skrifað upp á 8-900 milljóna króna starfslokasamning við bankaforstjóra á degi verkalýðsins.
Svo er þrumandi ásökunum hent að Vinstrigrænum fyrir að vilja hækka fjármagnstekjuskatt á milljarðamærðinga úr litlum 10% í 14% og létta frekar skattbyrði af hinum efnaminni. Er eitthvað vit í þessu?
14% er mun lægri fjármagnstekjuskattur en þekkist alls staðar í kringum okkur og samt er látið eins og allir munu hér flýja land eða allt fara úr böndunum ef við vogum okkur að hrófla við nokkru misrétti og mismunun. Slíkt er auðvitað fjarstæða.
Við höfum líka talað fyrir því að þeir sem lifa eingöngu á fjármagnstekjum reikni sér endurgjald eins og annað fólk, enda njóta þeir góðs af þjónustu síns sveitafélags eins og allir aðrir. Hvort er það réttlátt eða ranglátt?
Hræðsluáróður um að við ætlum að öðru leyti að hækka skatta er vísvitandi rangur og úr lausu lofti gripinn: við ætlum ekki að hækka skatta að öðru leyti en því sem að ofan greinir.
Til lengri tíma litið er öllum til góðs að sanngirni sé ein af grundvallar-stoðum samfélagsins. Sanngjarnari dreifing skattbyrðarinnar í þágu hinna efnaminni og hækkun skattleysismarka er mikilvægur liður í þeim efnum. Ég hef minni áhyggjur af þeim sem fá 900 milljóna króna (eða voru það bara 800 milljónir?) starfslokasamninga á 1. maí, jafnvel þótt ég efist ekki um að þeir séu afbragðs starfsmenn og úrvalsfólk. Skúringafólkið hjá Glitni borgar hversu margar prósentur af sínum launum? Það er engum sem þénar milljónir og milljarða of stór biti að borga 14.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Þriðjudagur, 1. maí 2007
Baráttudagskrá um allt land hjá VG í dag
BÆTUM KJÖRIN - BURT MEÐ FÁTÆKT VG stendur fyrir fjölbreyttri dagskrá um land allt í dag. Baráttusöngvar, ræður og gleði og heitt á könnunni og með því á öllum vígstöðvum. |
Hér á höfuðborgarsvæðinu er m.a. þetta... VG í Kraganum - Kragakaffi, Hamraborg 1 - 3, Kópavogi kl. 15.00 VG í Reykjavík - NASA við Austurvöll, kl: 15:00 BARÁTTUTÓNLEIKAR Á NASA - kl: 21:00 í kvöld Allir velkomnir |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 1. maí 2007
1. maí
"Ég vann einu sinni í kolanámu heima, á sex klukkustunda vöktum, en vaktin í göngunum er 13 klukkustundir án þess að fá nokkurt hreint loft. Það er viðbjóður."
Þetta segir Feknek Jaroslaw. Kolanámur Póllands eru hátíð miðað við Kárahnjúka Íslands. Jaroslaw þráir að komast heim.
"Ég er búinn að vera veikur í heilan mánuð núna og hóstandi og með andþrengsli allan þann tíma. Ég hef ekki getað unnið eftir að ég veiktist fyrir alvöru, m.a. í höfðinu vegna eiturefna, að því er læknirinn sagði mér. Ég fer vonandi eftir nokkra daga heim til Póllands" segir Szepytiak.
Szepytiak er ótryggður í Póllandi og hefur enga vísa atvinnu, samt þráir hann að komast heim. Hvenær ætli honum batni eftir ferðina til Íslands?
En úps. Það er ástæða til að fagna. Það voru víst bara "fáir tugir" manna sem veiktust en ekki 180. Líklega bara tugur sem veikst hefur "að ráði". Aðstæður eru víst "hráslagalegar", því verður ekki neitað, en úr verður bætt. Líklega er enginn "í hættu eins og er". Og sjúklingalistanum sem var stolið? Hver er að gera veður út af því? Þetta var ekkert viðkvæmt. Bara sjúklingaupplýsingar læknis, tölur. Þeir hefðu svo sem alveg mátt sleppa því að taka listann í leyfisleysi en hva, búið og gert.
Um þetta las ég í blaðinu í morgun 1. maí.
Alveg óþolandi þetta nöldur í okkur öllum og móðursýki, ýkjur og upphlaup.
Vonandi ná Szepytiak og Jaroslaw sér að fullu þegar fram líða stundir (sem og hinir fáu tugirnir sem veiktust, eða voru þeir bara nokkrir, örfáar hræður? Fimm eru farnir og ekkert hefur til þeirra spurst, enda spyr enginn. Allir fegnir að vandamálin hverfi sisvona.). Ætli þeir nái sér? Hverjar eru horfurnar? Kolanámurnar í Póllandi koma betur fram við þessa menn en við.
Þetta er svívirðilegt frá upphafi til enda. Fólk vissi hvað var að gerast en aðhafðist ekki neitt. Það átti að níðast á verkamönnum vegna þess að verkið allt er komið í tímaþröng. Skítt með það þótt heilsan fari hjá Pólverjum.
En ég er víst í liði með öfgafólkinu svo þetta er bara upphlaup. Pólitískt upphlaup. Óþolandi röfl.
Szepytiak, Jaroslaw og hinir sem ná ekki andanum í hóstanum eru hvort eð er á leið úr landi og þá getum við bara gleymt þessu. Látið eins og það hafi í raun aldrei gerst og verið glöð með okkur í góðærinu.
Það er jú einu sinni 1. maí. Frídagur.
Krafan 1. maí að fátækt verði útrýmt á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 28. apríl 2007
Fer sannleikurinn í frí?
Það er frískandi að heyra fólk segja sannleikann. Það gerist kannski ekkert alltof oft. Það gerist alveg sérstaklega sjaldan þegar voldug hagsmunaöfl eru allt um kring og fólk gerir sér grein fyrir að það er þægilegra að þegja heldur en að tala.
Mér hefur fundist gott að heyra Þorstein Njálsson yfirlækni á Kárahnjúkum tala þegar hann hefur komið í fréttum. Maður finnur svo sterkt hvað honum er gjörsamlega misboðið.
Það eru ekki allir sem þora að segja frá hlutunum eins og þeir eru. Svo eru enn aðrir sem vilja það ekki. Og enn aðrir sem reyna að villa um fyrir fólki.
Í sjónvarpsfréttum á fimmtudagskvöld sagði Þorsteinn frá ósvífni fyrirtækisins Impregilo og vonaði að þetta segði kannski landsmönnum hvað við væri að etja. Hafa landsmenn vaknað?
Þorsteinn var spurður hvort hann íhugaði að hætta við Kárahnjúka og svaraði "Og skilja þessa verkamenn eftir eina í höndunum á þessum mönnum? Nei."
Þegar upphaflega var gerður samningur við Impregilo var ítrekað varað við því. Saga Impregilo um allan heim sýndi einfaldlega svo ekki varð um villst að svo ósvífna og harðsvíraða starfshætti og framgöngu vildum við ekki hingað til lands. Þingmenn Vinstrigrænna bentu ítrekað á þetta í ræðu og riti.
Ég las það svo í framhjáhlaupi í Mogganum í viðtali við landlækni í morgun að Þorsteinn Njálsson sé "farinn í frí frá Kárahnjúkum."
Það stakk mig. Vonandi hefur hann ekki farið í of langt frí. Verkamennirnir fyrir austan þurfa á manni að halda sem segir sannleikann þrátt fyrir þrýsting og stendur með þeim.
Sannleikurinn má ekki fara í frí í þessu máli þótt voldug hagsmunaöfl vilji einmitt það. "PR-Cover-Up" hefur það iðulega að markmiði að verja volduga hagsmuni og reyna að láta hlutina líta betur út en þeir gera í raun. Þá reynir nú einmitt á alvöru frjálsa fjölmiðla sem rannsaka málin í kjölinn.
Hér er Baggalútur með sinn PR-spuna á málinu. Ætli þeir verði ráðnir?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)