Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 2. júlí 2007
Tónleikar í kvöld
Saving Iceland stendur fyrir tónleikum á Nasa í kvöld kl. 20 til verndar náttúru Íslands, gegn stóriðju.
Hljómsveitir og tónlistamenn sem fram koma eru meðal annarra:
Múm, Ólöf Arnalds, Bogomil Font og félagar, Magga Stína, Rúnar Júl, Ellen Eyþórs, Mr. Silla og Mongoose, Bloodgroup, Evil Madness, Skátar, Ljótu Hálfvitarnir, Retro Stefsson, Strakovsky Horo, Dj Árni Sveins...
Miðaverð er 2500 kr. og rennur allur ágóði til náttúruverndar. Miðar verða seldir við innganginn. Frjáls framlög eru einnig vel þegin.
Allir listamennirnir gefa vinnu sína til stuðnings málstaðnum...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 29. júní 2007
Sól við Urriðafoss og kaffi í Þjórsárdal. Mætum!
Baráttufundur til verndar Þjórsá verður við Urriðafoss núna á sunnudaginn 1. júlí kl. 15:00.
Það er mikilvægt að við mætum - góðkunningjar svæðisins sem aðrir! Þau sem ekki þekkja fossinn nú þegar ættu endilega að kynnast honum og sjá með eigin augum svæðið sem á hugsanlega að sökkva. Það ríður á að sýna baráttu Flóamanna stuðning, en þau búa nú við þungan þrýsting stórfyrirtækja og stjórnvalda um að fórna náttúru landsins (fyrir gsm-samband og malbik).
Opið hús verður í mynni Þjórsárdals á sunnudaginn frá kl. 13 - 17 í Fagralandi, sumarbústað í landi Haga, þar sem ýmsum náttúruperlum verður sökkt ef virkjanaáform ná fram að ganga - flúðum, eyjum, klettum, og grónu landi. Hjónin Guðbjörg Friðriksdóttir og Sigurður L. Einarsson, ásamt öðrum sumarbústaðaeigendum í landi Haga taka á móti öllum þeim sem vilja sjá hvað í húfi er.
Þetta er upplagður sunnudagsbíltúr fyrir alla fjölskylduna!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 28. júní 2007
Einmitt svona
Eigum við skilið alla þessa sól? Guðs útvalda þjóð þetta sumarið (eða er hún bara að gera grín að okkur fyrir kolefnisjöfnunina?).
Mikið ferlega er þetta gott og gaman. Svona á sumar að vera, einmitt svona.
Ég sit á þakinu og er að horfa á nágranna minn í næsta húsi ryksuga. Hann tekur sig vel út, fagmaður á ferð. Hæ. Nú er hann byrjaður að spila á gítar, ferlega flínkur. Sumir geta allt. Grilllyktina leggur yfir nágrennið og hundur geltir. Er að hlusta á Antony Hegarty með svaladrykk við hönd. Þetta er víst hamingjan, hún er fundin. Maður á aldrei að leita langt yfir skammt.
Please hurt me syngur hann núna, come on hurt me, I'll grow back like a starfish.
Svona á góður íslenskur sumardagur að vera. Einmitt svona.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 28. júní 2007
Auglýsing - Tapað/Fundið
Lýst er eftir stefnu Samfylkingarinnar Fagra Íslandi og boðuðu 5 ára stóriðjuhléi.
Stefnan virðist hafa glatast í gleymskukasti eða í heljarstökki til valda með Sjálfstæðisflokki. Í ringulreiðinni treystir Samfylkingin sér nú ekki til að segja til um hversu mörg álver séu á döfinni, tvö þrjú eða fjögur (en í það allraminnsta eitt strax og fleiri fljótlega) - eða hvort henni komi það yfirleitt við. Það ríður því á að stefnan finnist sem fyrst.
Þeir sem upplýsingar geta veitt um málið eða hjálpað til við leitina vinsamlegast hafi samband við Stjórnarráðið strax, áður en þjóðin fer í endanlegt sumarfrí.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 27. júní 2007
Fahrenheit 451.
Bloggsíða ein fjallar um tilgangsleysi allra hluta. Mér finnst hún skemmtileg.
Síðasta bloggfærsla tilgangsleysishöfundar kemur inn á tískuorð sumarsins, kolefnisjöfnun.
Hér einu sinni keypti maður syndaaflausnir hjá páfanum í Róm og kardinálum hans. Fékk kvittun upp á að syndir væru hreinsaðar og maður gæti hafist handa aftur á núllpunkti - hrein og saklaus búið til nýjar syndir sem svo gætu þurrkast út á næsta pappír, koll af kolli.
Mikið væri ég til í svoleiðis, af hverju var þetta lagt af þarna einu sinni?
Syndaaflausn sumarsins heitir sem sagt kolefnisjöfnun. Við getum haldið áfram að syndga og syndga og subbað og sóðað og svo jafnað allt út á stimplaða græna pappírnum. Töfrapillan QuickFixKolviður hentar okkur nútímafólki vel.
Mér finnst hugmynd tilgangsleysishöfundar um kjaftæðisjöfnun internetsins fín viðbót í syndaaflausnatilboðspakkann. Hópar af unglingum streymandi úr unglingavinnunni að lesa Moby Dick og jafnvel Glæp og refsingu - að bæta hlutina upp fyrir okkur öll hin sem erum að drekkja okkur sjálfum og öðrum í einhvers konar bla. Breytum blaðri í bókmenntir, kjaftæðisjöfnum.
Fahrenheit 451 er það sem hægt væri að kalla kröftuga nýsköpunarhugmynd nútímamenningar nútímafólks.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Þriðjudagur, 26. júní 2007
Landfylling lýðræðisins
Hetjur hversdagsins.
Ég var á nokkuð mögnuðum fundi í gærkvöldi. Þá var haldinn
kynningarfundur í Þjórsárveri þar sem kynntar voru tvær tillögur að
aðalskipulagi Flóahrepps.
Annars vegar var kynnt tillaga sem hreppsnefnd Flóahrepps samþykkti
13. júní sl. þar sem vatnsmesti foss landsins, Urriðafoss, rennur
vígur og reifur eins og hann hefur gert í aldanna rás.
Hins vegar var kynnt tillaga sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti
eftir að Landsvirkjun hafði tekið hreppsnefnd tali um daginn, lofað
vegi og bættu gsm-símasambandi á svæðinu, og viti menn, Urriðafoss
bara virkjaður sisvona skv. skipulagi nr. 2.
Lýðræðið er eins og hver önnur landfylling í augum sumra.
Ég var snortin að heyra hvern Flóamann á fætur öðrum tala af hugrekki,
skynsemi og einurð í gærkvöldi um þá svívirðilegu aðför að
náttúruperlum svæðisins sem með þessu er gerð. Það er ekki auðvelt að
standa upprétt gegn slíku ofríki en þarna er fólk að verja sveitina
sína.
Ætlar einhver að voga sér að kalla þau öfga-umhverfissinna? Reyna að
gera málflutning heimafólks ótrúverðugan, ótraustvekjandi, ómarktækan
með því að kasta í þau nokkrum vel völdum stimplum? Eru þau kannski
alltaf á móti öllu nema framförum?
Þetta eru venjulegir Íslendingar sem hafa nóg annað á sinni könnu, eru
í fullu starfi við að sjá fyrir heimilum sínum og börnum og sinna
störfum sínum. En í stað þess að geta gert það í friði eru þau á
fullri ferð við að verja landið sitt og hafa lengi þurft að standa í
stappi gegn yfirgangi. - Eitthvað sem við kjósum lýðræðislega kjörna
fulltrúa okkar til að gera í okkar umboði, en þeir bregðast trekk í
trekk og halda áfram á fullri ferð í stóriðjubrjálæðinu.
Er það ekki á könnu ríkisvaldsins að sjá til þess að vegir séu byggðir
fyrir fólkið í landinu? Til hvers eru skattpeningar? Eru þeir kannski
aðallega til að flottræflar geti farið í flottar ferðir erlendis á
kostnað venjulegs launafólks, ekki til að venjulegir Íslendingar geti
búið við sjálfsögð fjarskipti og samgöngur? Er jafnræði til búsetu
ekki ein af grundvallarstoðum samfélagsins - á að þurfa að borga fyrir
símasamband og samgöngur með fossum og flúðum, jörðum og sálu?
Mér var gróflega misboðið að hlusta á þær aðferðir sem notaðar hafa
verið í þessum málum - enn og aftur.
En leikur stjórnvalda er kunnuglegur: sveltum sveitafélögin, mismunum
fólki landsbyggðarinnar, neyðum þau á hnén þar til álver og
einkavæðing virðist eina lausnin, tryggjum að Landsvirkjun fái sínu fram ef hún reddar nokkrum hlutum sem ættu að vera sjálfsagðar almannaframkvæmdir ríkisvaldsins. Þvoum svo hendur okkar af öllu saman - "þetta hefur ekkert með okkur að gera, þetta er ekki á okkar könnu, þetta eru bara orkufyrirtækin, þetta er sveitastjórnarmál, landsbyggðin þarf á þessu að halda, það er kallað eftir þessu, þetta er ekki á okkar verksviði."
Ég bara vinn hérna. Ég fer bara með völd.
Þegar alls ekki er kallað eftir virkjunum, þegar heimamenn mótmæla og
vilja að landið þeirra sé látið í friði, þá er samt haldið linnulaust
áfram. Það skal virkjað.
Stórmennskan, sýnin og heiðarleikinn ríða ekki við einteyming. Ný
ríkisstjórn er verulega stórhuga, hreinlega allt öðruvísi en sú fyrri ekki satt. Einmitt.
Er það rétt reiknað hjá mér að 570 milljónir Bandaríkjadollara séu um
það bil 35-40 milljarðar íslenskra króna? Eða eru það bara 3,5-4 milljarðar?
Hver er flínkur í að telja núll og vita hvað rétt gengi er, kaup- og
söluverð?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 24. júní 2007
Bumbult af sátt
Það hefur margt á daga drifið síðan ég skrifaði hér síðast.
Það væri gaman að telja það allt upp, en það tæki margar blaðsíður svo best að byrja bara á einhverju litlu einhvers staðar af tilviljun. Tilviljun er magnað eðlisfræðilegt alheimsafl.
Rétt fyrir kosningar var ég í kokteilboði og heyrði á tal tveggja manna. Það er nú gott að þessi umhverfisbóla er að líða hjá sagði annar. Já heldur betur sagði hinn. Og þetta með Írak er ekkert sem bítur sagði þá aftur sami annar. Nei það verða engin vandræði út af því sagði hinn.
Getraun sumarsins er létt, hvaða flokkum þessir ágætu menn tilheyri.
Fór til gamallar heimaborgar Berlínar í dásamlegt frí en samt alltaf gott að koma aftur Heim með stóru H. Verst hvað mér er eitthvað bumbult þessa dagana þótt sól skíni í heiði á okkar fagra landi. Fagra Íslandi sem er áfram til sölu.
Eins og sumir forframaðir sem hafa setið í framtíðarhópum hef ég alltaf verið dálítið spennt fyrir því að festast ekki í fortíðinni. Horfa fram á veginn. Er líka ein af þessum týpum sem er voða veik fyrir sátt. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Það sagði Lilli Klifurmús.
Það vilja engir menn með mönnum vera óþægir á Íslandi í dag (nema kannski vinstrigræn enda fá þau að heyra það - beint í skammarkrókinn með ykkur). Þegjandi samkomulag og ylmjúk Sátt á fullri ferð út um allt alls staðar. Hún horfir fram á veginn en ekki í baksýnisspegilinn, Sáttin bljúga og blíða, og hún kemur við á ólíklegustu stöðum.
Útlit fyrir að Alþingi verði meiri stimpilstofnun en nokkurn tímann fyrr (a.m.k. ef marka má vinnubrögð nýs meirihluta á sumarþingi, en gefum þeim annan séns og svo aftur annan, fall er fararheill. Segið svo að innfæddir Íslendingar vinni ekki lengur við færibandavinnu), meirihlutavaldið valtar skínandi fagurt á bak við enn fegurri orð um lýðræði (afsakið, hvar má æla?), Samfylkingin rennur inn í Sjálfstæðisflokkinn eins mjúklega og áreynslulaust og orkufyrirtækin inn í auðlindirnar, álbræðslur spretta upp hér þar og alls staðar og stóriðjustefnan eflist undir nýju yfirskini, fjölmiðlar eru eyrnamerktir stjórnarflokkunum í bak og fyrir, og peningaöflin eru himinlifandi af því að þau fengu nákvæmlega það sem þau vildu.
Á nútímamáli nútúmalegra jafnaðarmanna heitir þetta Sögulegar Sættir.
Ætli hægt sé að fá svo rosalega mikla overdoze af Sátt inn að beini og upp í öll vit að af því myndist vottur af flökurleika?
Er eitthvað raunverulega nýtt að frétta á Íslandi í dag, einhverjar raunverulegar breytingar?
Já það er eitt, eitt einasta eitt. Ísland er orðið alvöru land í fótbolta. Í fyrsta sinn. Man einhver eftir því þegar varla var minnst einu orði á stelpur sem voru að keppa í fótbolta eða handbolta eða...? Mikið er ég stolt af stúlkunum.
Sólin skín og fuglar syngja. Hver nennir að vera annað en glaður þegar sumar ríkir á Íslandi og við vinnum í fótbolta?
Njótum Þjórsár í sumar á meðan hún rennur enn. Á meðan ekki er enn búið að svíkja hana opinberlega þótt loftið sé mettað af reyk Sáttarinnar á bakvið tjöldin og við bíðum eftir næsta spinni.
Við trúum á kraftaverk þrátt fyrir allt. Trúum að eitthvað breytist raunverulega einhvern tímann. Ekki bara í sýndarveruleika innihaldslausra yfirlýsinga og hamingjukossum valdastólanna heldur í raun. Trúum því að annars konar sýn hafi á endanum eitthvað að segja, að peningaöflin vinni ekki allar orrustur þótt þau vinni flestar, langsamlega flestar, og fái langoftast þau stjórnmálaöfl sem þeim þóknast, biðja um, krefjast, hygla, styrkja, tryggja, innsigla, fagna. Stjórna?
Það er altént eins gott að vera ekkert að ögra þeim alltof mikið ef þú vilt vera maður með mönnum, það vita nútímalegir jafnaðarmenn sem lifa með sátt. Öll dýrin í skóginum eru vinir en sumir eru betri vinir en aðrir. Sumir eru jafnari en aðrir og um það skal ríkja sátt - eða viltu kannski lenda í skammarkróknum?
Kraftaverk er magnað eðlisfræðilegt alheimsafl. Rétt eins og tilviljun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 30. maí 2007
Blindni
Ég held við séum blind. Blint fólk sem sér, en sér samt ekki.
Portúgalski rithöfundurinn José Saramago
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Miðvikudagur, 30. maí 2007
Er einhver hissa?
Nöturlegar fréttir berast nú af vinnuaðstæðum og umhverfi portúgalskra verkamanna við Kárahnjúka. Ekki í fyrsta sinn, og ekki eru það bara portúgalskir sem líða. Skemmst er að minnast 1. maí sl., baráttudags verkalýðsins árið 2007 á Íslandi - þegar pólskir námaverkamenn sögðust aldrei hafa kynnst jafn hörmulegum aðstæðum eins og að Kárahnjúkum og flúðu fárveikir til heimkynna sinna.
Að svo ömurlega sé komið fram hérlendis er ófyrirgefanlegt. Ég efast um að við fáum að sjá svo mikið sem toppinn á ísjakanum í þessum málum og nógu slæmt er það samt sem sést. Verkalýðsbaráttan er alþjóðleg barátta -hvað ætlum við að gera? Ætlum við að sofa þessar nöturlegu staðreyndir af okkur eins og svo margt annað?
Hverjir ætli hafi nú á sínum tíma ítrekað varað við samningum við Impregilo? Væri kannski ráð að hlusta öðru hvoru, eða er þetta bara allt í lagi?
Segir Portúgala hafa sætt slæmri meðferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 29. maí 2007
Jæja þá. Önnur alvöru kona.
Duglegir menn að prjóna
Jæja þá. Vegna fjölda áskorana hefur umsjónarmaður bloggsíðu vorrar ákveðið að bregðast við og birta einn Laxnessmola í viðbót - en þessi verður sá allra síðasti í bili. Hingað og ekki lengra.
"Fjöldi áskorana" er nánar tiltekið bloggari að nafni Sóley Tómasdóttir, sem í athugasemdum hér við síðuna gaf til kynna að ef til vill væri einhvers staðar til einhvers konar áhugi fyrir frekari molum. Sóley er tíu kvenna maki svo við fjöldanum verður brugðist.
Hér kemur sem sagt moli um eina alvöru konu í viðbót. Hún heitir Vilborg og er úr sveit:
"Halldór var kátastur maður í sveit, en Vilborg hans talin vitur kona. Hún var slík kona að þó hún geingi prjónandi lángar bæarleiðir yfir holt og hæðir og jafnvel vatnsföll stórgrýti og þýfi þá varð aldrei hjá henni lykkjufall."
Ekta alvöru. Mig langar til að verða eins og Vilborg. Eða eins og Þorbjörg Sveinsdóttir. Eða báðar.
Þegar ég var yngri fannst mér óskaplega notalegt að sjá á sjónvarpsmyndum frá fundum Kvennalistans stjórnmálakonur að prjóna. Traustvekjandi. Á landsfundi Vinstrigrænna í vor sat fyrir aftan mig skínandi ungur femínisti að nafni Kristín Tómasdóttir. Hún var að prjóna um leið og hún tók fullan þátt í landsfundarstörfum.
Við þá sjón varð ég kát. Kát eins og Halldór sem var kátastur í sveit.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)