Færsluflokkur: Bloggar

Flagð er undir

Hagspá Landsbanka Íslands fyrir 2008 - 2010 var gefin út í vikunni.

Hafið þið kíkt á hana?!

"Við reiknum með að á næstu átta árum verði lokið við stóriðjuframkvæmdir sem samsvari byggingu þriggja nýrra álvera ásamt tilheyrandi fjárfestingu í orkuframleiðslu. Líklegt er að þarna verði um að ræða byggingu álvers í Helguvík og stækkun eða nýtt álver Alcan, auk stóriðju á Norð-Austurlandi. Um tímasetningar og umfang framkvæmda er fjallað nánar í rammagrein á næstu síðu. Samkvæmt áætlunum hins opinbera verður aukið verulega við fjárfestingu á næstu árum."

Þetta er á bls. 11.

Er það þetta sem kallað er stóriðjuhlé, umhverfisvitund, á fögru máli valdapólitíkurinnar? Nákvæmlega hvaða áætlanir hins opinbera er verið að vísa í?


Do not panic, go shopping

img_WALL MART.jpg

Ég hef verið að lesa ýmsar greinar um hitt og þetta..

Ein þeirra fjallar um tvær bækur - The Omnivore´s Dilemma: A Natural History of Four Meals eftir Michael Pollan og Deep Economy: The Wealth of Communities and the Durable Future eftir Bill McKibben. Hvernig við borðum, hvaða matvæli við kaupum og hvers vegna það skiptir máli - þetta eru meginviðfangsefnin.

Einn af þeim hlutum sem komið er inn á er mikilvægi þess að borða lókalt, kaupa afurðir sem verða til í nágrenninu á góðum býlum sem hafna verksmiðjubúskap, leita ekki langt yfir skammt... allt þetta sem við ættum að þekkja svo vel. Mýmörgum hliðum málsins er velt upp, þar á meðal samfélagslegum afleiðingum stórverslanakeðja, súpermarkaða.

Wal-Mart er fræg súpermarkaðakeðja sem skreytir Ameríku í kringum litla bæi þvers og kurs um hið stórbrotna land. 

Risastóri súpermarkaðurinn við hraðbrautina sýgur lífið úr miðbænum, rakar inn eyðileggingu lítilla lókal fyrirtækja allt í kring, skrifar Bill McKibben. Á þeim fáu árum sem Wal-Mart óx hvað hraðast í Iowa þá tapaði fylkið 555 matvörubúðum, 298 rafeindavörubúðum, 293 byggingavörubúðum, 161 gjafabúðum, 158 kvenfatabúðum og 116 apótekum. 

McKibben heldur því fram að þótt einstaklingar græði augljóslega til skemmri tíma á lægra vöruverði risasúpermarkaðanna þá hafi það eyðandi áhrif á bæjarsamfélögin til lengri tíma litið, sem með tímanum skapi verri kjör og versnandi lífsgæði fyrir alla. Þetta segir McKibben ekki síst komið til vegna þess að risasúpermarkaðarnir taki svo stóran hluta gróðans burt frá viðkomandi svæðum, peningarnir haldist ekki innan bæjarsamfélagsins, býlanna eða sveitanna.

Ef maður eyði dollara hjá kaupmanninum á horninu haldist sá dollari í lókal samfélaginu - dollarinn hjá Wal-Mart fari að stærri hluta burt. 

Þetta er sem sagt niðurstaða McKibben ef hann talar bara út frá peningahliðinni. Aðrar mikilvægar hliðar lífsgæða og innihaldsríks lífs, heilbrigðs og sjálfstæðs samfélags til frambúðar, sem etv. verða ekki metnar til fjár, eru þá eftir.

Rannsóknir í Bretlandi styðja þessi sjónarmið en þar hefur m.a. verið sýnt fram á að ef 10 pundum er eytt í lókal matvörubúð þá sé það u.þ.b. 25 punda virði fyrir hið nærliggjandi samfélag. 10 pundin sem fara í nærliggjandi súpermarkað eru hins vegar u.þ.b. 14 punda virði fyrir svæðið.

Do not panic my fellow Americans. Go shopping. Hver ætli hafi hvatt sitt fólk til dáða með slíkum orðum stuttu eftir árásina á Tvíburaturnana 11. september?

Búðaráp, það að versla allt mögulegt og ómögulegt, kaupa sér eitthvað nýtt, er í ýmsum löndum orðið áhugamál númer eitt hjá ungum sem öldnum, það sem fólk gerir til að hafa það huggulegt í frítíma sínum. Don´t panic go shopping, don´t think go shopping, don´t converse go shopping, don´t read go shopping, don´t care go shopping, don´t be bored go shopping, never mind go shopping. Við erum neytendur. 

Hvar eigum við nútímafólk að versla okkur til huggunar? Í Wal-Mart eða kannski hjá honum Eymundi í Vallanesi?

Eða er lífrænt fæði, hollt fæði, að verða að forréttindum hinna vel stæðu - eins og svo margt annað? Gætum við etv. hætt að niðurgreiða raforkuverð til alþjóðlegra risa sem hlaupa með mestan hluta gróðans beint úr landi - og í staðinn t.d. hugað að betra umhverfi fyrir lífræna framleiðslu í grenndinni?

Annars er ég að bíða eftir sólskini dagsins til að fara út í hádegismat. Ég er hrikalega fljót að vélrita og ætla að stoppa nákvæmlega

hér.


Flott hjá Árna

Mikið var ég ánægð að sjá að tillaga samherja míns Árna Þórs Sigurðssonar um hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavíkurborg náði einróma fram að ganga í borgarstjórn í dag. Þetta var síðasti fundur Árna sem borgarfulltrúi og flott að kveðja með þessum hætti... betri aðbúnaður fyrir hjólreiðar getur sannarlega gert höfuðborginni gott.

Nú sýnast mér bílaborgarbörn hins vegar líka geta glaðst því að byrjað er að flytja inn rafmagnsbílinn REVA - sem mengar ekkert og eyðir minnstri orku. Algjört krútt svo ekki sé meira sagt og hlýtur að teljast vænlegur kostur fyrir þau sem vilja vera umhverfisvæn og fara svo etv. eitt af öðru að hjóla meira...

Ef fólk vill hins vegar fá kennslu í því hvernig það á að láta stela af sér hjólum þá er ég besti ráðgjafinn. Þar tekst mér afar vel upp. En svo er ég líka snillingur að finna þau aftur. Var til dæmis að finna hjólið mitt aftur bara í síðustu viku en því var stolið fyrir 3 vikum (ég fékk þetta hjól sem sagt að gjöf í sumar frá konunni minni, eftir að hafa látið stela af mér æðislegu hjóli öðru, og þar á undan enn öðru... og já, bíl líka).

Konan mín heldur því reyndar fram að ég hafi bara gleymt hjólinu þarna á þessum stað og ekki fyrir mitt litla líf munað hvar ég skildi við það fyrr en ég rambaði á það, en ég neita öllu slíku rugli harðlega...

Ég vil meina að meinið sé þetta fallega element í mér að treysta fólki... og skilja eftir ólæst.


Skálmholtshraun á fimmtudag

 

Hjónin Daniela og Walter Schmitz hafa stundað hrossarækt að bænum Skálmholtshrauni í Flóa um nokkurt skeið. Þau hafa frá ýmsu að segja varðandi fyrirhugaðar virkjanir í neðri Þjórsá og ætla því að vera með opið hús hjá sér núna á fimmtudaginn 20. sept. kl. 17.00 - 19.00. Þá munu þau segja frá reynslu sinni af undirbúningi fyrirhugaðra Þjórsárvikjana, samskiptum sínum við Landsvirkjun og fleiru...

Allir áhugasamir eru velkomnir.

Fyrir þau sem ekki hafa farið um svæðið sem á að sökkva er tilvalið að skella sér núna áður en dimman tekur völd. Það er fallegt og nærandi að labba meðfram bökkum Þjórsár - og ef þrótt þrýtur að næla sér bara í góðan reiðskjóta í staðinn...

Við ÞjórsáÚr sumargöngu VG á bökkum Þjórsár...

Magga Pé, Guðfríður Lilja og ÖgmundurÍ reiðtúr á bökkum Þjórsár...


Bolungarvíkin

Rétt náði að skrá hér inn eina færslu og boða bloggara-endurkomu áður en ég svo flaug til Bolungarvíkur á Hraðskákmót Íslands. Þetta var frábær ferð - ótrúlega skemmtilegt mót, höfðinglegar móttökur og alls kyns uppákomur... rúsínan í pylsuendanum var svo að sjá Grím Atlason bæjarstjóra og fleiri góða brillera með hljómsveitinni Grjóthruni í Kjallaranum í gærkvöldi.

Í dag var svo dásamlegt veður og á meðan aðrir spiluðu golf fór ég í langan göngutúr, borðaði ber og dáðist að haustlitunum. Mikið er óheyrilega fallegt á Vestfjörðum.

Ég er svo þreytt eftir helgina að ég læt þetta nægja í bili. Hér fylgir ein mynd frá mótinu - krakkar úr grunnskólanum sýna listir sínar. Ég hef sagt það áður og endurtek það óspart - það er alltaf jafn gaman að fylgjast með krökkum tefla, þau eru snillingar. Ein sjö ára kom með tárin í augunum í upphafi móts af því að hún var svo hrædd um að fá ekki að vera með - hafði gleymt að skrá sig til leiks fyrirfram. Svo stóð hún sig þetta líka vel...

pict0434.jpg  


koman endur gjöfin álits

Það er kominn tími á endurkomu í bloggheima. Láta hendur standa fram úr.

Ég var að sjá nýjasta Mannlíf þar sem ég er ein af "álitsgjöfum" um bestu og verstu bloggarana. Ég er greinilega langt á eftir í þessum efnum því að blaðið er löngu komið út og ég hef ekki verið að fylgjast með, hef haft öðrum litríkum hnöppum að hneppa... 

Ég verð að viðurkenna að það fór dálítið um mig þegar ég sá listann. Fólk sem ég valdi sem bestu bloggarana er á lista sem verstu bloggarar - skil þetta ekki! Er ég alltaf dæmd til að vera í róttækum minnihluta?!

Ég hugga mig við það að þau síðustu verða fyrst... á dómdagsegi, eða þar um kring. Annars hlýtur mitt álit að hafa verið dæmt úr leik þar eð ég tók ekki þátt í vali á verstu bloggurum og skilaði auðu þar. Kann ekki við svoleiðis lista (já, er á  móti, ævinlega). Í stuttu máli sagt: fullkomlega gagnslaus, ósammála og vanhæfur bloggaraálitsgjafi á allan hátt! En byrjuð að blogga aftur... og mun vera stolt ef ég verð sett í hóp þeirra allraverstu.

Ég ætla að blogga um Þjórsá. Freista þess að meirihluti mikill meirihluti sjái hversu rangt það er að halda áfram gamaldags virkjanaþráhyggju. 

Ef svo ömurlega vill til að lokum að það verður ekki meirihluti heldur minnihluti sem er sammála því að þyrma Þjórsá þá er það samt góður minnihluti sem kann gott að meta - og hefur á réttu að standa.

Ég fer ekki ofan af því. Þau síðustu verða fyrst... þegar upp er staðið, einn dag.

Einn sólskinsdag.


Fyrsti kvenbæjarstjóri landsins

 

Nú eru liðin rétt 50 ár frá því að kona gegndi fyrst stöðu bæjarstjóra á Íslandi. Árið 1957 varð Hulda Dóra Jakobsdóttir fyrst íslenskra kvenna bæjarstjóri í Kópavogi, en á sinni tíð vann Hulda að stórmerkum og víðtækum framfaramálum fyrir bæinn sinn - og landið.

Í tilefni af þessu verður opnuð sýning í Bókasafni Kópavogs, Hamraborg 6a, í dag kl. 17 undir yfirskriftinni 4. júlí 1957 - 4. júlí 2007. Afhending jafnréttisviðurkenningar jafnréttisnefndar Kópavogs fer fram á sama tíma.  

Þessi orð eru höfð eftir Huldu í frásögn Gylfa Gröndal, Við byggðum nýjan bæ:

"Það er að vísu rétt að konur taka ekki mikinn þátt í opinberum málum og veldur þar auðvitað mestu, að mikill hluti kvenþjóðarinnar er bókstaflega bundinn í báða skó við heimilisannir og barnauppeldi. Á hinn bóginn er ég alveg viss um, að konur fylgjast ekki síður með því sem gerist á opinberum vettvangi heldur en karlmenn, þótt þær geri lítið af því að taka til máls á fundum, séu kannski ekki mikið fyrir að láta draga sig í pólitíska dilka. Og það er þó áreiðanlega víst, að í bæjar- og sveitastjórnarmálum fylgjast konur vel með og alveg sérstaklega hér í Kópavogshreppi. Það er áreiðanlega víst, að þær konur sem hafa búið hér svo lengi, að þær muna eftir því, þegar hér var sama sem veglaust, ekkert rafmagn, ekkert vatn, ekkert frárennsli, enginn skóli og yfirleitt ekkert það, sem talið er nokkurn veginn mannsæmandi skilyrði í nútímaþjóðfélagi, þær konur hafa sannarlega fylgst með því sem hér hefur gerst í hagsmunamálum íbúanna."

Það var skrítið að þegar ég var að leita að mynd af Huldu til að láta hér fylgja með þá kom ekki ein einasta mynd upp á veraldarvefnum - sem þarf nú að ráða bót á hið snarasta...? Hér er þó hægt að finna mynd af Huldu úr tímatali um ártöl og áfanga í sögu íslenskra kvenna...


Einkavæðing orkugeirans?

Það hefur verið reyfarakennt að fylgjast með orrahríðinni og kapphlaupinu í kringum Hitaveitu Suðurnesja undanfarna daga.

Atburðarásin sem þarna á sér stað er væntanlega smjörþefurinn að því sem kom skal - a.m.k. stefna sumir að því leynt og ljóst, illu heilli: einkavæðing (einkavinavæðing?) orkugeirans á Íslandi.

Það er hálf rosalegt að þetta og fleira til eigi sér stað (svo sem nýtt álæði) þegar þjóðin er í fríi (ef ekki í eiginlegu fríi þá hugarfarslegu - okkur þyrstir í sumar og langar til að vera glöð, áhyggjulaus). 

Stórtíðindin að undanförnu á mismunandi sviðum snúast í grunninn um eitt: hver á Ísland, hver fær að eigna sér Ísland, bút fyrir bút. 

Reynslan sýnir víða um heim að markaðsvæðing raforkugeirans komi fyrst og fremst niður á borgurunum, venjulegu fólki, alþýðunni, innviðum samfélagsins, á meðan auðjöfrarnir græða. Nema hvað? 

Er ekki löngu kominn tími til að læra rækilega af reynslu annarra og hafna alfarið nýfrjálshyggju-hugmyndafræði og einkavæðingu auðlinda sem koma alþýðu fólks og samfélaginu í koll? Jafnvel þótt væðingunni sé pakkað inn í orð eins og frelsi og hagkvæmni?

Þróun þessara mála skiptir gríðarlega miklu og við megum ekki sofna á verðinum. Þá vöknum við einfaldlega einn daginn við allt annað samfélag en við raunverulega viljum. Og þá er ekki svo auðvelt að snúa við.

Eða eru trúarbrögðin svo sterk að ekkert má helst vera í samfélagslegri eign lengur, nema ef vera skyldi skólp?


mbl.is Þrjú sveitarfélög hafa ákveðið að nýta forkaupsrétt í HS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegasta líf

Einhver verstu mistök sem ég hef gert tengjast klippingu sagði Jim Morrison söngvari Doors sem dó þennan dag fyrir 36 árum, þetta er undarlegasta líf sem ég hef nokkurn tímann komist í kynni við sagði hann líka.

Hvar er sólin í dag?


Þorskur

Nú bíða ýmsir á milli vonar og ótta vegna ákvörðunar um þorskaflann næsta ár. Þrátt fyrir augljósan sársauka og grafalvarlegar afleiðingar - afleiðingum sem verður að svara með róttækum og víðfeðmum mótvægisaðgerðum til hjálpar byggðunum í landinu - þá er ekki hægt annað en að fara að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, það er mín skoðun, ekki hægt að taka sénsinn.

Þetta er stór ákvörðun og þung, en henni fylgir væntanlega gagnmerk framkvæmdaáætlun um hvernig byggðum landsins verði búnar lífvænlegri og réttlátari aðstæður til framtíðar (nægar eru nefndirnar búnar að vera í gegnum árin, skýrslum skilmerkilega raðað inn í bókaskápinn), hvernig eigi að endurskoða kvótakerfið og hvernig eigi að stórefla (stórstórstórefla vonandi) rannsóknir á lífríki sjávar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband