Færsluflokkur: Bloggar
Þriðjudagur, 28. október 2008
Bókstafstrúin á Íslandi
"Þeir munu hins vegar aldrei viðurkenna það" sagði hann og brosti, "þeir munu aldrei viðurkenna það, trúboðarnir allir. Þótt kapítalisminn hrynji munu þeir aldrei viðurkenna að grunnurinn er rotinn. Markaðshyggjan er öfgatrú okkar tíma. Sú trú nær út yfir allan veruleika þótt hann stari okkur í andlitið á hverjum degi."
Minn allra besti hagfræðiprófessor Stephen Marglin kemur þráfaldlega upp í hugann þessa dagana. Það er m.a. hægt að sjá hann hér og lesa um hann hér. Frábær maður og einstakur kennari, vitur og hlýr.
Spurður hvort og hvernig hann sæi fram á að kapítalisminn færi að molna, nýfrjálshyggjufaraldurinn að gefa eftir, sagði hann á þessa leið fyrir mörgum árum síðan: Fáir hefðu séð fyrir fall kommúnismans, í það minnsta hefði fæstum ef nokkrum dottið í hug hið fullkomna hrun sem varð. Hið sama ætti við um heimskapítalismann. Allir tryðu því að hann hefði "sigrað" og enginn vissi hvenær hann færi að gefa eftir en merki veikleikanna væri að sjá allt í kring...
Það er einkennilegt þetta með bókstafstrúna. Sama dag og neyðarlögin voru sett á Alþingi þegar bankarnir voru að hrynja þá var öðru þingmáli markaðsaflanna dreift sem gengur út að finna hvar ríki og sveitarfélög búa yfir verkefnum sem heppilegra væri að einkavæða.
Í greinargerð þingmálsins eru rakin fjölmörg dæmi um rekstur sem færa má út á markað auk þess sem bent er á mikilvæga sigra frá liðnum árum: Fjölmörg fyrirtæki á vegum ríkisins hafa verið einkavædd og má þar m.a. nefna bankastarfsemi ....".
Fyrir utan þetta litla þingmál bókstafstrúarinnar, þar sem írónían er helsti ferðafélaginn, þá er það náttúrulega grátlegt að Íslandi skuli nýbúið að samþykkja mýmörg önnur lög í anda einkavæðingar.
Þar kemur einna fyrst í hugann sjúkratryggingarfrumvarpið frá því í haust. Það er byggt á 17 ára gamalli löggjöf Margrétar Thatcher (jafn gamalt og valdatíð Sjálfstæðisflokksins), en skopteiknarar heimsins myndast einmitt við að henda hugmyndafræði Thatcher á ruslahauga sögunnar í myndum og máli.
En ekki "við Íslendingar" - þ.e. ekki þeir sem ráða.
Þótt reynslan í Bretlandi sýni að þetta hafi verið mikið óheillaspor þá erum við staðráðin í að læra ekki af reynslunni. Trúnni skal fylgt, enda alltaf í tísku að nota bara orð eins og "hagræðing" og "hagkvæmni" (að ekki sé minnst á frelsi og allt hitt) fyrir grundvallarbreytingar samfélags.
Svipaða sögu má segja um orkuauðlindirnar þar sem fallið er í ýmsar gryfjur leyndrar einkavæðingar, sams konar og að ofan, þegar almannafé borgar gróða einkaaðila.
Þetta er vissulega skondið þegar okkar nútími þykist vera tími vísinda en ekki trúarbragða. Trikkið er þetta: Trúin er sögð vera vísindi, og þá mega allir trúa. Lögmál markaðarins er sagt vera náttúrulögmál, og þá er ekkert annað að gera en að breiða út fagnaðarerindið og leiðrétta þau sem farið hafa villu vegar.
Það er bara verst að veruleikinn stangast á við trúarbrögðin og þá stendur fólk frammi fyrir vali: Að velja veruleikann og reynslu hans fram yfir trúna, og læra af reynslunni, eða halda áfram að trúa á bókstafinn burtséð frá veruleikanum.
Margir, já eiginlega ótrúlega margir, velja síðari kostinn.
Plís Pretty Please with Sugar on Top eins og Harvey Keitel sagði einu sinni í bíóymynd: Byltingu strax.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Mánudagur, 27. október 2008
Opinn borgarafundur í Iðnó kl. 20. í kvöld
Í kvöld klukkan 20 verður opinn borgarafundur í Iðnó í Reykjavík um þjóðmálin....
Örstutt ávörp verða flutt en ræðumenn eru Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, Björg Eva Erlendsdóttir, blaðamaður, Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur og Vilhjálmur Bjarnason, hagfræðingur. Eftir ávörpin gefst fólki úr sal tækifæri og rúmur tími til að tjá skoðanir sínar og spyrja spurninga.
Eftrifarandi er fundarboðið:
"Mánudaginn 27. október verða þrjár vikur liðnar frá sjónvarpsávarpi Geirs H. Haarde forsætisráðherra þar sem upptakturinn að óvissuástandi síðustu vikna var sleginn. Þessar vikur hefur óvissan um framtíð Íslands stigmagnast og enginn virðist vita í hvað stefnir. Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, ráðherra og stjórnar Seðlabankans hafa stangast á, misvísandi skilaboð berast í gegnum fjölmiðla og allar tölur um framtíðarskuldsetningar eru á reiki. Margir Íslendingar óttast framtíðina og atvinnuleysi og eignamissir vofir yfir stórum hópi Íslendinga.
Fólkið vill bein svör frá þeim sem völdin hafa, einkum við spurningunni: Hvernig gat þetta gerst?" Allan þennan tíma hefur þjóðin verið ávörpuð í gegnum fjölmiðla og enginn ráðamanna þjóðarinnar hefur séð sóma sinn í því að efna til umræðna með almenningi. Með bréfi þessu er skorað á ráðherra, alþingismenn, Seðlabankastjóra, stjórn Seðlabanka og fyrrverandi bankastjóra einkabankanna að mæta á opinn borgarafund sem haldinn verður í Iðnó, mánudaginn 27. október kl. 20:00. Mætið til umræðna við hinn almenna þegn þessa lands!
Virðingarfyllst, f.h. undirbúningshóps,
Gunnar Sigurðsson, leikstjóri - gus@mmedia.is - 897 7694
Davíð A. Stefánsson, bókmenntafræðingur - david@ljod.is - 864 7200"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 27. október 2008
Að blekkja og halda svo áfram
Nú situr Darling fjármálaráðherra Breta undir ámæli fyrir að hafa grunað lengi að ekki væri allt með felldu með íslensku bankana.
Íslensk stjórnvöld gerðu einmitt allt sitt til að róa Darling sem og alla aðra og láta alla halda að allt væri í fína lagi, þvert á ítrekuð varnaðarorð.
Afneitunin og ábyrgðarleysið var algjört. Eða í réttara orði sagt: Blekkingin var algjör.
Eiga íslensk stjórnvöld virkilega að sitja áfram eins og ekkert sé? Nákvæmlega hvað þarf meira til svo fólk og flokkar og öflin margvíslegu "axli ábyrgð" á Íslandi?
Eða fáum við bara enn eina lotuna af ímyndarherferðum, drottningarviðtölum og innistæðulausum blaðamannafundum, í skjóli hvers hagsmunaöflin herða enn tökin á samfélaginu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 26. október 2008
Þolendur eða þátttakendur?
1. maí árið 2007 gekk íslenskur bankastjóri frá 800 milljóna króna starfslokum. Þann sama dag bárust fréttir af hörmulegum aðstæðum verkamanna við Kárahnjúka sem flúðu fárveikir aftur til heimkynna sinna. Sjaldan hefur alþjóðlegur dagur verkalýðsins verið jafn niðurlægður á Íslandi eins og þennan fallega vordag. Tólf dögum síðar gekk íslenska þjóðin til kosninga. Sama ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks hélt velli. Hún hélt velli þrátt fyrir aðförina að íslenska velferðarsamfélaginu, Íraksstríðið, gjörspillta einkavinavæðingu bankanna, kvótann, sívaxandi misrétti, eyðileggingu náttúrunnar, kynbundinn launamun, 1. maí, þrátt fyrir allt.
Hverjir eru sökudólgarnir? Við kjósendur, kannski? Áður en fjármálakerfið hrundi var grundvallarstoð lýðræðisins búin að veikjast inn að kviku, hægt og hljótt og örugglega. Flestum virtist standa á sama. Hrun lýðræðisins fæddi á endanum hrun fjármálakerfisins. Tökum bara eitt dæmi, Alþingi Íslendinga. Alþingi, sem á að heita vagga lýðræðisins, er í eðli sínu, starfsháttum og vinnulagi ólýðræðisleg stofnun.Vagga lýðræðisins hefur um nokkra hríð verið lítið meira en stimpilstofnun ráðherravaldsins. Álitum og sjónarmiðum minnihluta, sem oft hafa ýmislegt vandað til málanna að leggja, er hent út á hafsauga. Landslög á Íslandi fæðast á skrifborði einhvers embættismannsins í umboði ráðherra og rúlla svo í gegn. Þannig verða til meingölluð lög í landinu. Þau sem mótmæla eru einatt lituð sem þreytandi kjaftaskar. Þá verður til klisja um fólk sem er á móti öllu. Henni er stungið í samband hvenær sem færi gefst og hagsmunaöflum þóknast. Og hvað með aðrar stoðir lýðræðisins? Aðhalds- og eftirlitsstofnanir brugðust alfarið og nú sitjum við uppi með þrjár ríkisstjórnir í landinu, eina í hvíta húsinu, eina í svörtu loftum og eina á Suðurlandsbraut. Von er svo á alþjóðlegri yfirstjórn heimskapítalismans, IMF, fyrir ofan þessar þrjár.
Annað liggur líka fyrir: Klappstýrurnar voru margar og íslenska þjóðin hélt áfram að kjósa sama tóbakið þrátt fyrir allt. Það er ekki nóg að kjósa flokka rétt eins og að halda með KR eða Val, og það er heldur ekki nóg að bergmála málpípur valdsins. Lýðræði byggir á því að hver og einn sé ábyrgur þátttakandi og rýni í staðreyndir.
Niðurlæging íslenska lýðræðisins er innsiglað og við þurfum á einn eða annan hátt öll að bera á því ábyrgð af því að við sitjum öll í súpunni og þurfum að vinna okkur upp úr því. Hvað er þá að gera? Það er ekkert annað að gera en að byggja upp á nýtt og byggja öðruvísi og vera bjartsýn þrátt fyrir allt. Ég legg til að við byrjum á því í sameiningu að endurreisa íslenskt lýðræði. En til þess þurfum við líka öll að vera þegnar sem neita að láta blekkjast af innistæðulausum yfirlýsingum, þegnar sem þora að endurskoða hug sinn, ögra valdi og stokka upp á nýtt. Erum við tilbúin í þann slag?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 25. október 2008
Þeir borgi
Við verðum að gera þá afdráttarlausu kröfu til þeirra sem semja fyrir okkar hönd að þeir skrifi ekki upp á nauðung sem skuldsetur og veðsetur börnin okkar og barnabörn um ókomna tíð samkvæmt fyrirmælum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Íslendingar eiga vissulega að standa við lögbundnar og þjóðréttarlegar skuldbindingar - en þá verða stjórnvöldin í landinu að leggja það niður fyrir sér hverjar þær eru og lýsa því afdráttarlaust yfir að frekar viljum við þola þrengingar en sæta afarkostum sem kæmu til með að fylgja okkur inn í ókominn tíma með verri afleiðingum en flestir gera sér grein fyrir.
Þá er það hin megin krafan og hún er þessi: Þeir sem komu okkur út í þetta fen eiga að axla ábyrgðina, þeir eiga að borga.
Þá fyrst opni almenningur pyngjur sínar að,
allar hallirnar,
allar snekkjurnar,
öll fótboltaliðin,
og allar þoturnar hafa verið seldar og allir felureikningarnir á Cayman eyjum, Kýpur og á Ermasundi hafa verið tæmdir
og að S-hópar einkavinavæðingarinnar hafa skilað ránsfeng sínum tilbaka.
Þetta hlýtur að verða krafa verkalýðshreyfingar og forsenda þess að gengið verði til einhvers sem kalla megi þjóðarsátt.
Og er ég þá ekki byrjaður að ræða hina pólitíska ábyrgð. Einnig hún kallar á uppgjör. Uppgjör á milli stjórnmálaflokka og innan stjórnmálaflokka.
Úr ávarpi Ögmundar Jónassonar á ársfundi ASÍ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 25. október 2008
Málþing kl. 12 og kyndilganga kl. 16 í dag...
Guðni Th. Jóhannesson: Saga hrunsins
Mætum öll á Austurvöll, til að hittast, til að sýna fram á að við höfum rödd, að við erum til. Sýnum hvert öðru samhygð, að við stöndum saman, og ef ekki einfaldlega til að finna að við erum ekki ein og að við finnum til...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 18. október 2008
Pennann af Árna
Í bókinni The Shock Doctrine lýsir Naomi Klein hvernig heimskapítalismi nýfrjálshyggjunnar hefur þurrkað upp hvert landið á fætur öðru í þágu fjölþjóðlegra auðjöfra og risasamsteypa. Innviðir samfélags, auðlindir, heilbrigðisþjónusta, menntun öllu er þessu fórnað á altari gróðans, holað að innan og allt annað samfélag búið til heldur en fólk hélt það hefði kosið.
Ein aðalkenning Klein er sú að þegar samfélag hrynur vegna styrjalda, náttúruhamfara eða mikið rétt efnahagshruns þá skapist slík ringulreið, taugaveiklun og andleg lömun að alls kyns pólitík sem almenningur vill ekki er keyrð í gegn.
Þessi bók hefur endurtekið komið upp í huga mér síðustu daga. Að íslensku samfélagi stafar hætta, ekki bara vegna þess að æra landsins bíður hnekki og heimilunum blæðir, heldur vegna þess að nú getur svo margt gerst á bakvið tjöldin í skugga hrunsins. Treystum við ráðamönnum við þessar aðstæður?
Nú verðum við að treysta hvert öðru segja valdhafar ábyrgir á svip þjóðin er öll á sama báti. Voru allir á sama báti í góðærinu eða er það bara í hruninu sem báturinn leki verður einn og hinn sami?
Það er rétt að ekkert samfélag lifir án trausts. En það verður þá að vera traust sem til er unnið. Ég ber lítið traust til þeirra stjórnvalda sem nú sitja og það breytist ekki þótt mér sé sagt að treysta.
Ice-Save reikningarnir í London fóru á sitt hæsta flug í tíð þessarar ríkisstjórnar, þessa viðskiptaráðherra, þessa fjármálaráðherra, þessa Fjármálaeftirlits, þessa Seðlabanka. Á bara að hlusta á ylmjúka röddina á blaðamannafundi, loka augunum og treysta? Er það þannig sem lýðræðið eflist?
Þar sem skýrslum var áður skotið undir stól sést fjármálaráðherra nú ferðast sem eldibrandur um heiminn og munda pennann. Án umboðs Alþingis virðist hann þess umkominn að skrifa upp á mörg hundruð milljarða skuldbindingar sem hneppt gætu næstu kynslóðir Íslendinga í botnlausa skuldafjötra. Þetta er sama ríkisstjórn og ætlaði aldrei að geta dregið fram pennann fyrir íslenskar ljósmæður. Voru það þær sem knésettu Ísland?
Fólk fær ærin högg nú þegar án þess að úttaugaðir ráðamenn gefi Árna Matt óútfylltan víxil til að skrifa upp á Versalasamninga í útlöndum. Í þágu hverra skrifar hann undir þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lítur yfir öxl í þágu alþjóðaauðvaldsins eða almennings?
Hljómfagrar, yfirvegaðar, innihaldslitlar, innistæðulausar yfirlýsingar á blaðamannafundum, í fjölmiðlum, á Alþingi, á starfsmannafundum, breyta engu um þá elda sem loga í óstarfhæfri stjórn. En þótt þú sért smá og uppburðarlítil, Ríkisstjórn Íslands, gerðu þó í guðanna bænum eitt og það strax: Taktu pennann af Árna Matt.
Eða hvað finnst ykkur: Hið nýja, lýðræðislega Ísland sem skal rísa og skal dafna, þarf það sama gamla tóbakið eða þarf það kannski nýja hugsun og nýja penna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Föstudagur, 17. október 2008
Ekki ræna okkur landinu líka
Það er hughreystandi að sjá að Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra stendur keik gegn þeirri fáheyrðu kröfu sem sumir setja nú fram um að sleppa skuli heildstæðu umhverfismati á Bakka.
Þórunn skrifar grein í Morgunblaðið í morgun þar sem hún segir m.a.:
"Það er því með hreinum ólíkindum að málsmetandi einstaklingar skuli nú stíga fram á sjónarsviðið og leggja það til - að því er virðist í fullri alvöru - að við afnemum í skyndi leikreglurnar sem gilda þegar kemur að afdrifaríkum ákvörðunum um auðlindir þjóðarinnar. Nú á í flumbrugangi að kasta fyrir róða rammaáætlunarferlinu, virkja meira og virkja hraðar án nokkurrar fyrirhyggju til framtíðar..."
Ég tek ofan fyrir umhverfisráðherra að ganga fram af reisn í þessu máli. Það væri þá hin fullkomna niðurlæging Íslands ef við ætluðum í ofanálag við allt annað að ráðast nú að umhverfinu með enn svívirðilegri hætti en við höfum þó þegar gert.
Haltu áfram á þessari braut Þórunn!
Vonandi sjá aðrir flokksfélagar Þórunnar, samráðherrar og þingmenn Samfylkingar, nú einnig sóma sinn í að styðja nú eindregið umhverfisráðherra í þessum efnum í stað þess leynt og ljóst að tala og vinna gegn ákvörðunum hennar og þá um leið Fagra Íslandi. Það hefur verið nöturlegt að horfa upp á slíkt.
Lokaorðin í þessum bloggpistli á Steinunn Rögnvaldsdóttir, nýkjörinn formaður Ungra Vinstri Grænna, en Kolbrún Halldórsdóttir vitnaði einmitt í hana líka í góðri grein sinni um náttúruvernd í Mogganum í gær:
"Þeir eru búnir að ræna nóg. Ekki ræna okkur landinu líka."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Miðvikudagur, 15. október 2008
Rannsóknarblaðamennsku, takk
Það er með hreinum ólíkindum að skýrslu bresku hagfræðinganna Buiter og Sibert um íslenska bankakerfið hafi verið stungið undir stól. Hún þótti "of viðkvæm" fyrir markaðinn.
Buiter sagði í sjónvarpsfréttum í gær að þau hefðu átt fund með "fulltrúum ríkisstjórnarinnar" þar sem skýrslan var kynnt."Uppfærð" útgáfa skýrslunnar var að sögn kynnt á fundi í Reykjavík 11. júlí síðastliðinn þar sem í hópi áheyrenda voru "hagfræðingar úr Seðlabankanum, fjármálaráðuneytinu, einkageiranum og háskólasamfélaginu."
Á virkilega ekki að fylgja þessu betur eftir? Ég sá engan ráðamann spurðan um þetta af alvöru.
Fréttin er horfin af öllum fréttasíðum netsins núna. Þetta er víst ekki stórfrétt. Ekki það, það voru auðvitað svo margir búnir að vara við þessu. En ekki allir hafa sagt að staðreyndum hafi beinlínis verið stungið undir stól. Þetta var einmitt á þeim tíma þegar VG krafðist þess að Alþingi kæmi fyrr saman vegna alvarlegs ástands í efnahagsmálum. Það þótti engin ástæða til þess, né heldur nokkurra aðgerða.
Og vel að merkja, Ice-Save-lánin fóru á flug í tíð núverandi ríkisstjórnar, núverandi bankamálastjóra, núverandi fjármálaráðherra, núverandi forsætisráðherra.
Hvar er íslenska rannsóknarblaðamennskan?
Er það kannski "of viðkvæmt" fyrir markaðinn að veita stjórnvöldum aðhald? Er búið að ákveða fyrirfram hverjir eigi að axla ábyrgð, á hverja eigi að koma sök, hvaða hagsmunir eigi að "endurreisa" samfélagið?
Það er ekki skrítið að okkur sé öllum sagt að vera bara þæg, ekki finna sökudólga heldur bara faðma hvert annað.
Ef enginn getur nokkurn tímann axlað ábyrgð í þessu samfélagi og ef aðhald kallast leiðindi og ábyrgð fjas þá lifum við einfaldlega í bananalýðveldi sem þykist vera stórt en er agnar-agnarsmár klíkuklúbbur.Burt með klíkuna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 13. október 2008
Karakter ærunnar
Hvort væru Íslendingar líklegri til að selja frá sér handritin nú eða fyrir hálfri öld? Eru dýrgripir menningar og náttúru betur varðveittir hjá okkur í samtímanum en þeir voru árið 1955? Þjóðin var fátækari þá. Freistingin hefði átt að vera meiri. En samt af vanefnum sínum voru Íslendingar af kappsemi og metnaði að byggja upp kröftugt menningarsamfélag. Í fátæktinni var prjónað öryggisnet sem miklu ríkari samtími þarf nú á að halda, samfélag samhjálpar og velferðar.
Sjaldan ef nokkru sinni í mannkynssögunni hefur græðgin verið hafin til jafn mikils vegs og virðingar og á undanförnum árum. Græðgin hefur verið lofsungin, sögð aflvaki framfara, því gráðugri sem manneskjan verði þeim mun meiri sköpunarkraftur, meiri afköst, meira framlag. Utan um þetta hefur verið smíðuð pólitík sem hefur farið eins og eldur í sinu enda græðgin bráðsmitandi. Sú pólitík hefur rænt fjölda fólks aleigunni og fjölda þjóða innviðunum, við erum langt í frá fyrstu fórnarlömbin.
Fátæk þjóð varðveitti menninguna og byggði upp velferð, komst yfir hörmuleg áföll. Ef okkur lánast að taka frekar skellinn á okkur hér og nú, vera snauð um hríð og nægjusöm en einbeitt í að skýla komandi kynslóðum sem mest, þá höfum við í það minnsta reynt að vera ærlegar manneskjur. Þá mun æra Íslands einnig rísa á ný.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)