Héðinn með stórmeistaraáfanga

Héðinn Steingrímsson sigraði nýverið glæsilega á Capo D'Orso mótinu á Ítalíu og náði sínum fyrsta áfanga að stórmeistaratitli.

Frá unga aldri vakti Héðinn athygli fyrir mikla hæfileika sína í skák. Tólf ára gamall varð hann heimsmeistari í sínum aldursflokki og hann varð yngsti Íslandsmeistari sögunnar aðeins 15 ára gamall. Með árunum lagði Héðinn skákina nokkurn veginn á hilluna um langa hríð á meðan hann sinnti námi og störfum erlendis, en er nú kominn aftur tvíefldur til leiks. Héðinn er afar skipulagður í vinnubrögðum og sigur hans nú á Ítalíu er hreint frábær.

Ég óska Héðni hjartanlega til hamingju og hlakka til að sjá næsta stórmeistaraáfanga í höfn. Ég spái því að það verði fyrr en seinna!


Alvöru kona

Hvítasunnuhelginni að ljúka og komið að síðasta Laxness-molanum í bili:

Af öðrum frægðarverkum frá þessum tímum vil ég ekki láta undir höfuð leggjast að minnast þess að daginn sem ég fæddist sprændi ég beint uppí andlitið á ljósu minni Þorbjörgu Sveinsdóttur sem þá var mestur kvenskörúngur á Íslandi. Konunni varð þó ekki meira um en svo að hún sagði brosandi: Hann verður sómamaður í sinni sveit. Þessi kona var slíkur stjórnmálaskörúngur að hún sagði svo um andstæðíng sinn í alþíngiskosníngum: Ég vildi heldur sjá fleytifullan hlandkopp færðan inná alþíngi en helvítið hann Jónassen. 


Viðurstyggilegt pláss

"Ættjarðarljóð" fara íslendíngum illa, því eingin þjóð hefur svo kunnugt sé spilt Íslandi viljandi af annarri eins hörku heimsku og heiftúð og vér sjálfir, ekki einusinni danakonúngar.

Alt frammá nítjándu öld þóttu íslendíngum fjöllin ljót. Ekki var látið við sitja að Búlandstindur færi "furðu ljótur", heldur þótti Mývatnssveitin með fjallahríng sínum og vatni viðurstyggilegt pláss.

Fleiri molar frá Laxness í hvítasunnusólinni.

Hvað finnst Íslendingum 21. aldar um Þjórsá og Þjórsárver?


Áhyggjur kveðja

 

Þegar koma tveir góðviðrismornar í röð á Íslandi, þá er einsog allar áhyggjur lífsins hafi kvatt fyrir fult og alt.

Halldór Laxness


Höfuðandstæðingurinn horfinn, hamingjan tekin við

einn a munninn 

Völdin kæta.

Ég hef ekki séð forystusveit Samfylkingarinnar jafn brosmilda, hlæjandi, glaða og hamingjusama í fleiri, fleiri ár. Það er gott að sjá glatt fólk þar sem innileikinn og hlýjan er við völd.

Ef völdin kæta svona ógurlega, sama hvað þau hafa í för með sér, og fá okkur til að kyssast, brosa, hlæja, faðmast, gleðjast og gleyma, gleyma oft á dag -

ætli sé þá ráð að dreifa þeim sem allra víðast út í samfélagið?

Það væri gaman að labba niður Laugaveginn og sjá okkur öll faðmast og kyssast og hlæja af gleði yfir meiri völdum. Okkur litla fólkið.


Bónóbó, Kant og Biblían

Ég ætla að bíða með það í nokkra daga, eða í það minnsta 1-2, að tala um pólitík á Íslandi. Er of hugsi yfir hinni löngu umsömdu "frjálslyndu umbótastjórn" svo sit á mér eitt augnablik. Leiklistargagnrýnendur eru hvort eð er best til þess fallnir að fjalla um pólitíkina undanfarna daga og viku. Það er ekki ofsögum sagt að veröldin sé leiksvið.

Ég ætla frekar að tala um sjiimpansa. Nánar tiltekið bónóba. Eða bónóbó-a.

Ýmsir vísindamenn halda því fram (og réttilega að mínu viti!) að siðferði og siðferðiskennd sé langt frá því að vera bara mennskt fyrirbæri og fyrirfinnist í ríkum mæli í dýraheiminum. Við mennirnir ímyndum okkur að við tökum ákvörðun um rétt og rangt út frá fyrirfram ákveðnum reglum eða prinsipum, tilbúinni hugmyndafræði, trúarbrögðum eða meðvituðum ákvörðunum og röksemdafærslu. Þetta er ekki endilega rétt - eða gefur altént bara hluta af stóru myndinni. Stundum, og jafnvel oft, tökum við ákvarðanir sem byggja á ómeðvituðu innra ferli, oftar en ekki tilfinningalegu, en búum svo til vitsmunaleg rök fyrir ákvörðunum okkar eftir á. Oftast blandast þetta líklega allt einhvern veginn saman í einum graut.

Flest gott fólk og gæskumikið í heiminum hefur líklega aldrei velt siðfræði mikið fyrir sér, það bara gerir gott, er gott, réttsýnt, fæst ekki keypt - ólíkt svo mörgum öðrum sem þykjast eitthvað merkilegri.

En nú að bónóbóum. Bónóbóar eru mögnuð dýr sem sýna kærleika, sanngirni og góðvild ekki bara til eigin tegundar heldur jafnvel til annarra dýrategunda. Þau gera það ekki endilega alltaf en altént stundum, jafnvel oft. Í mýmörgum sögnum vísindamannsins Frans de Waal má t.d. finna sögu af bónóbó sem finnur stara illa meiddan og gerir allt sem hún getur til að koma honum til heilsu. Hún reynir ítrekað að opna vængi hans og hjálpa honum að fljúga aftur til himins úr hæsta tré, en allt kemur fyrir ekki, fuglinn er of illa meiddur. Í framhaldinu bregður bónóbó sérstöku skjólshúsi yfir starann, verndar hann og ver frá áreiti.

Bónóbóum finnst gaman að leika sér og þau lifa villtu og litríku kynlífi með öllum kynjum, stærðum og gerðum. Þau eru frjálslynd og opin fyrir öllu svo ekki sé meira sagt. Þau eru tiltölulega sanngjörn í skiptum sínum í samfélaginu, deila nokkuð jafnt og eru nokkuð laus við valdapýramída miðað við allt og allt. Þau eru ekki kristin og eru heldur ekki búin að lesa Kant. Bónóbóar kunna kannski ekki að tala um góðvild en þau kunna að praktísera hana upp að vissu marki. Eða þannig. Þau eru hluti af lífríki náttúrunnar eins og við mennirnir.

Ef ekkert er að gert verða bónóbóar hins vegar fljótlega dýr í útrýmingarhættu.

Það er aðeins í einni dýrategund sem pyntingar og fjöldamorð fyrirfinnast í reynd. Það er í dýrategundinni sem kann að skrifa ljóð um kærleika og gæsku og kann að lesa Biblíuna og Kant.

Verndum bónóbóa! Verjum górillur!

Og fylgjumst svo spennt áfram með ókeypis leiksýningum. Í boði...


mbl.is Uppreisnarmenn í Kongó hóta að drepa sjaldgæfar górillur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lömbin jarma

 

Ég er að reyna að bisa við að samþykkja bloggvini en það tekst ekki. Hefur ekki tekist í margar vikur. Eitthvað að tölvunni sem ég verð að láta laga nú þegar stundir losna. Nefni þetta bara til að láta vita.

Var að koma úr sauðburði fyrir austan fjall. Dáðist að skínandi tindum Heklu, heyrði niðinn í Þjórsá og sá lömb koma í heiminn. Hvílíkur munaður. Þurfti ekki að hlusta á neina síbylju aðra en beljandi fljótið og jarmið í fjárhúsunum. Einhver gæti kallað þetta dæmalausa hamingju.


Stjórnin lafir

 

Ef kosningar breyttu einhverju væri löngu búið að gera þær ólöglegar.

Sagði Emma Goldman árið 1897.

Ég er nú samt að vona að Emma hafi ekki alveg haft rétt fyrir sér og að jafnvel þótt ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks tóri enn þá séu úrslit kosninganna skýr skilaboð frá kjósendum um breytingar.

Ég er óskaplega ánægð með sigur Vinstrigrænna, það er mikið og gott stökk að fara úr 5 upp í 9 þingmenn - og satt best að segja dálítið sögulegt. Þar eru engir aukvisar á ferð heldur frábær og samstillt sveit sem bíður spennt eftir að láta hendur standa fram úr ermum (áfram!). Ég hefði auðvitað viljað vera sú tíunda inn en svona er lífið - vogun vinnur og vogun tapar og við vissum alltaf að þar sem enginn þingmaður var fyrir í Suðvesturkjördæmi yrði leiðin afar brött. Hún var brött en hún var góð og gefandi.

Ég er ósátt við hlut kvenna í þessum kosningum, eins og reyndar mátti gera ráð fyrir miðað við framboðslista flestra flokka. Einungis enn stærri sigur vinstrigrænna hefði getað rétt þetta af því að allir aðrir flokkar hrúguðu inn körlum (reyndar með undantekningu Framsóknar - þau pössuðu einnig upp á frambærilegt kynjahlutfall á sínum listum). Ég er hins vegar búin að hafa mjög gaman að kosningabaráttunni og hef aldrei verið sannfærðari um hversu brýnn okkar málstaður er - alvöru umhverfisvernd, félagslegt réttlæti, kvenfrelsi...

Hjartans þakkir til allra sem hafa lagt baráttunni lið - og til þeirra sem kusu okkur! Ég veit að þingmannahópurinn góði mun ekki bregðast traustinu.

P.S. Þegar ég upphaflega skrifaði þessa færslu fyrst sagði ég í svefnrofunum og þreytunni eftir ósköpin öll að bara VG og Framsókn hefðu passað upp á kynjahlutfall á sínum listum. Það var auðvitað rangt því að Íslandshreyfingin stóð sig líka í þessum efnum og var þar til fyrirmyndar.


Súlnasalur Hótel Sögu í kvöld

vg_logoweb

Gleðilega hátíð! Njótið dagsins hvar í flokki sem þið standið...

Fyrir þau ykkar sem langar til að fagna með vinstrigrænum hér sunnan heiða í kvöld þá er kosningavaka í Súlnasal Hótel Sögu. Húsið opnar kl. 18 - allir velkomnir!


Áminning frá unnendum Þjórsár

Kjósum með Þjórsá á morgun!

Ef við gerum það ekki núna þá verður það of seint. Látum það ekki henda!

Veljum græna framtíð fyrir Ísland... Við munum ekki sjá eftir því þegar fram í sækir.

verndum_verjum[1]


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband