Mánudagur, 8. janúar 2007
Að deyja einn
Nýverið fannst kona á tíræðisaldri látin í Reykjavík. Hún hafði verið dáin í rúman mánuð, ein á heimili sínu, þegar lát hennar uppgötvaðist.
Það kemur reglulega fyrir á Íslandi að aldraðir einstæðingar deyi einir - og liggi dögum eða vikum saman á heimili sínu áður en komið er að þeim, rotnandi. Nályktin kemur oftar en ekki upp um dauða þeirra.
Mér finnst þessi staðreynd þyngri en tárum taki.
Mér verður hugsað til góðs manns sem ég fékk að örlítið að kynnast í New York á sínum tíma. Hann var á níræðisaldri, bjó í lítilli íbúð á Manhattan, og ég heimsótti hann tvisvar með vini mínum sem þekkti betur til hans.
Þótt heimsóknirnar yrðu aðeins tvær var ég ekki lengi að átta mig á að þarna fór magnaður karakter. Lifandi, fyndinn, skemmtilegur og umhyggjusamur maður, sem bjó um leið að dýpri þjáningu en flestir þurfa nokkru sinni að kynnast. Hann var þýskur gyðingur að uppruna, hafði misst alla fjölskyldu sína og ætt í helförinni, en sjálfur lifað hana af á átakanlegan hátt.
Hann hafði á yngri árum stúderað heimspeki með Heidegger og viðraði hinar ýmsustu hugmyndir við mig, talaði jafnvel við mig á reiprennandi sænsku og sagði mér frá sagnfræðiverki sem hann væri að reyna að leggja lokahönd á - þótt hrakandi heilsa gerði honum aðeins erfiðara fyrir að skrifa sem skyldi. Eftir hann höfðu áður komið út rit og honum var í mun að ná að ljúka þessari síðustu bók sinni. Í henni var hann að fjalla um stöðu flóttamanna og gagnrýna með margþættum hætti þá litlu umfjöllun sem honum fannst flóttamenn við hinar ömurlegustu aðstæður fá í raunum heimsins. Það á ekki bara að tala um miljónirnar sem eru myrtar í þjóðarmorðum, sagði hann, heldur líka miljónirnar sem um leið eru gerðar fjölskyldulausar, heimilislausar, landlausar, kærleikslausar - allslausar. Við sem eftir lifum, hvaða líf bíður okkar?
Nokkru eftir síðari heimsókn mína til hans, þar sem ég var stödd í annarri borg í öðru landi, fékk ég þær fréttir að hann hefði fundist látinn aleinn á heimili sínu. Hann hefði verið búinn að liggja þar í einhverja daga áður en nágranni uppgötvaði líkið. Síðar kom í ljós að handritinu að hans síðasta verki, ásamt ýmsu öðru á heimili hans, hefði fyrir gáleysi verið hent á haugana þegar íbúðin var hreinsuð - og aðeins því "markverðasta" og "verðmætasta" haldið til haga.
Sá sem gekk í gegnum einar mestu hörmungar og grimmdarverk mannkynssögunnar, og komst lífs af við illan leik, dó að lokum einn og yfirgefinn í stórborginni, sögu hans og sýn hent á haugana.
Mér finnst þessi saga hryllilega sorgleg og átakanleg og í raun varpa nokkru ljósi á þá grimmd sem býr í okkar nútíma, beint fyrir framan nefið á okkur. Ekki bara í fjarlægum álfum eða á hrjáðum stríðssvæðum, heldur hér mitt á meðal okkar. Sá nútími lýsir sér á stundum ekki bara í beinu ofbeldi, heldur í grófu afskipta- og umhyggjuleysi okkar sem eigum allt til alls.
Kunningi minn einn bandarískur sagði mér nýverið ýmsar sögur af því hvernig hann upplifði almenna samfélagsþróun í Ameríku - og neikvæð áhrif af valdatíð Bush. Þegar ég spurði hann að því hvað gæfi honum von þá svaraði hann á athyglisverðan hátt:
"Innflytjendur okkar frá Mið- og Suður-Ameríku. Þeir gefa mér von. Gefa mér von um að við eigum eftir að breytast. José nágranni minn þekkir bókstaflega alla í byggingunni - bankar upp á, kemur með kökur og hressingu og skiptir sér glaðlega af manni þegar honum dettur í hug. Þekkir alla nágranna sína með nafni. Ég á þetta ekki til í sjálfum mér, en ég finn að það gerir veröld mína hlýlegri - og Ameríku betri. Þetta er önnur arfleifð sem með tímanum verður að okkar eigin."
Mér fannst þetta fallegt svar hjá honum. Kannski ef við öll breytumst pínulítið og reynum að þekkja fleiri nágranna með nafni deyja færri einir í framtíðinni. Ef við verðum öll pínulítið meira eins og José...
Í góðum heimi deyr enginn einn.
Athugasemdir
Já þetta er mjög sorglegt að svona lagað gerist að þessi gamla kona deyr ein og engin vitjaði hennar, þetta er víst ekkert nýtt.
katla (IP-tala skráð) 8.1.2007 kl. 15:57
Þetta var falleg færsla og vekur mann til umhugsunar.
Ingvar Þór Jóhannesson, 8.1.2007 kl. 15:59
Ef þú átt ekki afkomendur, börn og barnabörn og nærð þetta háum aldri níutíu og eitthvað þá áttu í vændum,ef þú býrð einn og ert ekki vistaður á sjúkra eða ellistofnun að deyja einn og sér frá öllum mönnum.
Guðrún Magnea Helgadóttir, 8.1.2007 kl. 19:19
Fín, velskrifuð og vekjandi grein.
Því miður sitjum við öll meir eða minna föst í þeim straumi sem samanstendur af tiltölulega óbundnum marknadsekonomi.
Hann hefur m a þau áhrif að mótsvarandi gildismat förtingligar manneskjuna meira og meira.Kristján Tjörvason (IP-tala skráð) 8.1.2007 kl. 20:29
Heyr, heyr! Þetta var mjög fallega skrifað. Takk fyrir.
Lilja Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 13.1.2007 kl. 19:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.