Sunnudagskvöld...

Maður einn hitti álfagyðju sem gaf honum þrjár óskir. 

"Hvers óskarðu þér" spurði dísin?

"Ég óska mér þess að verða gáfaðri, miklu gáfaðri en ég er í dag."

Og hann fékk ósk sína uppfyllta.

Eftir nokkra hríð vildi hann fá aðra ósk sína uppfyllta. "Hvers óskarðu þér?" spurði draumadísin.

"Mig langar til að verða enn gáfaðri, já miklu gáfaðri en ég er jafnvel orðinn í dag" sagði maðurinn.

Og hann fékk ósk sína uppfyllta.

Að ári liðnu langaði hann að láta þriðju ósk sína rætast. "Hvers óskarðu þér?" spurði óskadísin.

"Ég vil að þú bætir enn á gáfur mínar, þótt erfitt sé."

"Hmmm" sagði draumadísin. "Allt í lagi, það er vandasamt en ég skal gera það fyrir þig. En þá verðurðu að gera þér grein fyrir því að þú munt fara reglulega á blæðingar í kjölfarið."

Heyrði þennan um helgina...

Ég var annars að enda við að skrifa heillanga athugasemd við röð athugasemda um síðustu færslu mína... ætlaði að skrifa bara stutt en það er svo margt sem okkur liggur á hjarta þegar álið er málið...

Átti að öðru leyti ýmsar eftirminnilegar stundir um helgina sem lofa góðu fyrir vikuna framundan.

Í gær var ég hjá Ungum vinstrigrænum á einkar fallegri minningarstund sem þið getið m.a. lesið um hér.

Í dag var ég svo viðstödd þegar langþráð lyfta var tekin í gagnið í Skákhöllinni Faxafeni - félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur, og samliggjandi höfuðstöðvum Skáksambands Íslands og Skákskóla Íslands. Slæmt aðgengi hreyfihamlaðra hefur verið svartur blettur á húsnæðinu um árabil, enda á aðgengi fyrir alla að vera sjálfsagður hlutur - hvert sem komið er. Borgarstjóri vígði lyftuna ásamt formanni Taflfélags Reykjavíkur og öðrum góðum gestum. Um leið og lyftan var tekin í gagnið var Skeljungsmótið - Skákþing Reykjavíkur sett.

Eftir þetta fór ég í afmæli til Kristjáns Hreinssonar Skerjafjarðarskálds. Þar var margt góðra manna og kvenna (ég fékk þá réttu ábendingu hér á síðunni um daginn að orðið "maður" fæli líka í sér konu, en mér finnst samt gaman að tiltaka konur sérstaklega...), þar á meðal tónlistarkonan Ingibjörg Þorbergs sem ég held mikið upp á. Diskurinn Í sólgulu húsi hefur verið mikið spilaður á mínu heimili, en þar er til dæmis að finna þessar fallegu línur: 

Og ekkert fær stöðvað hið ólgandi haf

þótt öldurnar ljóðunum gleymi,

því bragfræði lífsins í bjargið er skráð,

sem bergmál frá ókunnum heimi.

  

Til hamingju með daginn Kristján!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

innlitskvitt og kveðja

Ólafur fannberg, 8.1.2007 kl. 00:06

2 identicon

 í sambandi við síðasta blogg:

langar að benda þér á að það er ekki nóg að lesa fyrirsagnir, ef þú hefðir lesið fréttina hefðir þú séð að fyrirsögnin á forsíðu Fréttablaðsins var röng og ekki í samræmi við fréttina sjálfa. 

Jóhanna (IP-tala skráð) 8.1.2007 kl. 13:38

3 identicon

Sæl Jóhanna,

Ég las auðvitað fréttina alla og ekki bara fyrirsögnina. Ég fæ ekki betur séð en að það komi skýrt fram í fréttum að álverið fari ef ekki verður af stækkun og að talsmenn fyrirtækisins taki það skýrt fram bæði nú sem fyrr (þetta var í hádegisfréttum í dag líka). Hér er því varla mikið að véfengja og fyrirsögnin í samræmi við þau skilaboð sem talsmenn álversins eru að koma á framfæri hvað þetta varðar. Sumir upplifa þetta sem óbeina hótun, aðrir bara sem gagnlegar upplýsingar um stöðu mála - á hvorn hátt sem fólk upplifir þetta er ágætt að þetta sé komið fram svo það skýri frekar kostina sem eru uppi á borðinu og um hvað málin snúast. 

Lilja

Guðfríður Lilja (IP-tala skráð) 8.1.2007 kl. 14:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband