Neysluvaran ég

Ég las í viðskiptatímariti um daginn haft eftir sérfræðingum í ímyndarhönnun og almannatengslum að í raun væri það "glettilega líkt að markaðssetja stjórnmálamenn og almenna neysluvöru." Þá er talað um stjórnmálamenn sem "vöru" og stjórnmálaflokka sem "vörumerki". Stjórnmálamenn megi til dæmis bera saman við flatskjái sem vöru.

Svona er talið allt í kringum okkur einhvern veginn orðið. Gegnsýrt af markaðssetningu. "Heimili okkar er orðið að sviði þar sem við sýnum afrekin okkar" segir í forsíðufrétt á föstudag. Heimili sem sýndarmennska, ekki skjól. Og þetta telst eðlilegt?!

Í greininni í viðskiptatímaritinu er einnig sagt að kjósendur "kaupa ekki ef frambjóðandi úr 101 Reykjavík talar um landbúnað og byggðamál."

Svo kemur þessi skemmtilega klausa: "Þannig má segja að Sjálfstæðisflokkurinn selji kjósendum sínum að aukin lífsgæði felist í meiri kaupgetu meðan lausn vinstri grænna sé sú að við getum prjónað fleiri lopavettlinga til að selja hvort öðru."

Það var nefnilega það! Hvar í flokki ætli þessir ímyndafræðingar standi? Hlutlausir, væntanlega?

Þótt kjósendur "kaupi" ekki að ég hafi skoðun á landbúnaðar- og byggðamálum þá ætla ég nú samt að tjá mig um það, burtséð frá allri ímyndarráðgjöf eða spám um "hvað selur". Ég er Íslendingur - og ég hef skoðun á íslenskum landbúnaði og blómlegri byggð í sveitum landsins. Ef enginn "kaupandi" finnst á skoðunum mínum þá verður bara að hafa það. Þær eru þarna samt.  

Að stjórnmálaflokkar séu vörumerki, stjórnmálamenn flatskjáir og að framtíðarsýn okkar sé sú að prjóna fleiri lopavettlinga - úff! Hvað fær maður borgað á tímann fyrir ímyndarráðgjöf? Væntanlega meira en fyrir klukkutímann í pólitík. Nema ef maður er... úps ekki orð um það meir.

Stjórnmálaöfl og fleiri til hafa nú aldeilis gert annað eins í gegnum tíðina - að redda sér á innihaldslausri ímynd, loforðum, fjármagni og auglýsingaherferðum í aðdraganda kosninga. Með PR-ráðgjafa á hverju snæri. En vonandi komast þau ekki fullkomlega upp með það í þetta sinn. Jafnvel þótt flatskjáir selji eins og heitar lummar - eins og gullin kosningaloforð, ný hárgreiðsla og breitt bros.

Hver er annars að útdeila peningum hvar þessa stundina? Hverjir eru að græða á kosningunum 2007? Hvaða verðmiði hangir á atkvæðum okkar Íslendinga?

Hver veit.

Leikurinn er að hefjast og hvort eð er enginn tími fyrir leiðindi í dag - spáum í það seinna.

En eftir stendur að það er grundvallarmunur á sannfæringu og sölutrikki. Grundvallarmunur á því að mynda sér skoðun sem breytist eins og lauf í vindi í takt við skoðanakannanir eða tjá innri sýn hreinskilnislega, burtséð frá viðtökum, kaupendum, könnunum eða ímyndarráðgjöf. Endurskoða hug sinn svo ef eitthvað raunverulega sannfærir mann um það.

Þau sem hafa sannfæringu tala vegna þess að þau finna sig knúna til þess á einhvern hátt, ekki vegna þess að þau bíða ólm eftir kaupendum.

Og ég er persónulega sannfærð um að stjórnmálaöfl sem vörumerki sé ekki beinlínis það sem íslenskt samfélag þarf á að halda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Veit ekki hvort ég á að nenna að skrifa athugasemd við þetta blogg þar sem ég er sammála þér í flestu (þar sem ég legg mikið upp úr því að vera ósammála síðasta ræðumanni )

Eitt get ég þó fundið. Það er þetta að það sé slæmt að VG hafi það sem stefnu að prjóna fleiri lopavettlinga til að selja hvort öðru. Á því þurfum við að halda til að halda góðri kaupgetu. Ef við ætlum að búa við það, eins og mér finnst margir vilji, að kaupa allt erlendis frá og skapa bara atvinnu þar en ekki hér á landi þá er ekki að vænta þess að kaupgeta verði mikil í nánustu framtíð.

Ágúst Dalkvist, 28.1.2007 kl. 16:49

2 Smámynd: arnar valgeirsson

Þú ert allavega með frábærri upplausn og fallegum víðóma hljóm, kæra Lilja!Annars vinnst þetta á að koma vel frá sér eigin sannfæringu, ekki vafamál, þó það taki einhvern tíma. Kjósendur virðast aðeins vera farnir að fatta það núna, enda virðist fylgið vera að aukast, jafnt og þétt. Við leggjumst ekki eins og strá eftir úr hvaða átt vindurinn blæs og lofum ekki fagurgala sem ekki á að standa við. Fjórðungi þjóðarinnar virðist ætla að líka það vel og á meðan þú heldur áfram á þessari braut er framtíðin þín. Og björt fyrir okkur hin.

Baráttukveðjur,

arnar valgeirsson, 28.1.2007 kl. 17:05

3 Smámynd: Karl Pétur Jónsson

Sæl Lilja,

Þar sem ég var annar frummælenda á þessum fundi finnst mér rétt að leiðrétta þig aðeins. Raunar var það ég sem bar saman dæmigerða neysluvöru (flatskjái) og stjórnmálamenn, en niðurstaða mín var einmitt að þetta tvennt væri (eða ætti í það minnsta að vera) ósambærilegt.

Einmitt vegna þess að stjórnmálamenn eru manneskjur af holdi og blóði, hafa sannfæringu og lífanda. Þá er ekki síður mikilvægt að stjórnmálamenn hafa stjórnarskrárbundna skyldu til að hlýða ekki "kaupendum sínum" beint en fylgja eigin sannfæringu, en flatskjáir koma flestir með fjarstýringu og eru undir fullkominni stjórn eigenda sinna.

Ekki hef ég lesið greinina í Frjálsri verslun, en vona að þar komi ekki fram að niðurstaða mín sé  sú að stjórnmálamenn séu eins og hverjir aðrir flatskjáir.

Þá er rétt að geta þess að ég er nú fyrrum PR ráðgjafi og hef starfað fyrir pólitíkusa og flokka, en get sannfært þig um að maður efnast seint af því. 

Með kærri kveðju og ósk um að þér gangi allt í haginn í nýju hlutverki.

KPJ

Karl Pétur Jónsson, 29.1.2007 kl. 01:01

4 Smámynd: Guðfríður Lilja

Heill og sæll Karl Pétur.

Bestu þakkir fyrir athugasemdina! Er glöð að heyra frá þér og fá hið rétta fram í málinu!

Gangi þér allt í haginn - Áfram Ísland!

Guðfríður Lilja, 29.1.2007 kl. 01:16

5 Smámynd: Guðfríður Lilja

Og takk til ykkar hinna líka fyrir athugasemdirnar ykkar! Og Ágúst ég hef ekkert á móti því að við prjónum fleiri lopavettlinga! Hver veit nema ég rifji upp fitið góða þegar tími vinnst til... Over and Out

Guðfríður Lilja, 29.1.2007 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband