Sunnudagur, 31. desember 2006
Ómissandi fólk
"Í kirkjugörðum heimsins hvílir ómissandi fólk" söng Ellen Kristjánsdóttir á Vetrarsólstöðum Náttúruvaktarinnar um daginn. Það er mikill sannleikur í þessari setningu og ég hef hugsað dálítið um það nú um hátíðirnar. Í kirkjugörðum heimsins hvílir ómissandi fólk.
Líf okkar flestra hafa með margvíslegum hætti verið snert af ólíku fólki sem á einn eða annan hátt er horfið úr lífi okkar. Sumir hafa misst ómissandi ástvini á árinu á meðan öðrum hefur verið fengið nýtt líf í hendur. Við tímamót er það áskorun að taka allt það besta frá hinum ómissandi sem hvílast og fara með það áfram, geyma það og varðveita, rækta og miðla, en skilja það slæma eftir og leyfa því að tilheyra fortíðinni. Tengja framtíð við fortíð með því besta en ekki því versta.
Sumir fá aldrei annað tækifæri, en við hin sem enn stöndum getum búið þau til á hverjum degi. Í lífinu glötum við einhvern tímann einmitt því sem er ómissandi, óyfirstíganlegt, en við fáum áfram óvænt tækifæri til aukins þroska og vaxtar, kærleika og hlýju. Á hverjum degi sem rís getum við tekið á okkur örlítinn rögg og breytt einhverju litlu - þó ekki sé nema einhverju pínulitlu í okkur sjálfum. Það er erfitt og stundum ómögulegt, en góðar hugsanir um ómissandi fólk eru meðal þeirra afla sem geta hjálpað okkur til þess.
Ég vona að nýja árið færi okkur öllum tækifæri til að vera örlítið gjafmildari, umhyggjusamari og sannari í dag en í gær - og að við komum sem oftast auga á óvænta gleði. Við erum yfirfull af göllum og vanmætti, en Davíð getur samt alltaf unnið Golíat, ekki síst ef þeir á endanum búa báðir innra með okkur.
Til lesenda þessarar bloggsíðu vil ég segja þetta: Takk fyrir að lesa á árinu sem er að líða! Ef ég hefði verið spurð að því fyrr í haust hvort ég ætti nokkurn tímann eftir að "blogga" þá hefði svarið verið eitt stórt spurningamerki fjarstæðunnar "Ég?! Blogga?!". Var það ekki James sjálfur Bond 007 sem sagði "Never say never"? Takk líka fyrir athugasemdirnar ykkar, það er gaman og gagnlegt að fá viðbrögð við skrifum.
Í stuttu máli sagt: Gleðilegt nýtt ár 2007!
Athugasemdir
Falleg hugleiðing og þörf. Takk.
Gleðilegt ár.
Þórdís Guðmundsdóttir, 31.12.2006 kl. 22:16
gleðilegt nýtt ár
Ólafur fannberg, 1.1.2007 kl. 09:47
Gleðilegt ár Lilja. Takk fyrir það gamla. Kv. Snorri
P.s. Bond myndin hét held ég "Never Say Never Again". En það breytir engu.
Snorri Bergz, 1.1.2007 kl. 12:08
Óska ég þér gleðilegt ár! Gerum 2007 enn betra og njótum sem aldrei fyrr!
kv. Bjarni Jens
Bjarni Jens Kristinsson (IP-tala skráð) 1.1.2007 kl. 14:13
Gleðilegt nýtt ár!
Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 1.1.2007 kl. 14:32
Gleðilegt nýtt ár sömuleiðis :) Alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt...
kata (IP-tala skráð) 2.1.2007 kl. 14:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.