Þolendur eða þátttakendur?

1. maí árið 2007 gekk íslenskur bankastjóri frá 800 milljóna króna starfslokum. Þann sama dag bárust fréttir af hörmulegum aðstæðum verkamanna við Kárahnjúka sem flúðu fárveikir aftur til heimkynna sinna. Sjaldan hefur alþjóðlegur dagur verkalýðsins verið jafn niðurlægður á Íslandi eins og þennan fallega vordag. Tólf dögum síðar gekk íslenska þjóðin til kosninga. Sama ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks hélt velli. Hún hélt velli þrátt fyrir aðförina að íslenska velferðarsamfélaginu, Íraksstríðið, gjörspillta einkavinavæðingu bankanna, kvótann, sívaxandi misrétti, eyðileggingu náttúrunnar, kynbundinn launamun, 1. maí, þrátt fyrir allt.

Hverjir eru sökudólgarnir? Við kjósendur, kannski? Áður en fjármálakerfið hrundi var grundvallarstoð lýðræðisins búin að veikjast inn að kviku, hægt og hljótt og örugglega. Flestum virtist standa á sama. Hrun lýðræðisins fæddi á endanum hrun fjármálakerfisins. Tökum bara eitt dæmi, Alþingi Íslendinga. Alþingi, sem á að heita vagga lýðræðisins, er í eðli sínu, starfsháttum og vinnulagi ólýðræðisleg stofnun.Vagga lýðræðisins hefur um nokkra hríð verið lítið meira en stimpilstofnun ráðherravaldsins. Álitum og sjónarmiðum minnihluta, sem oft hafa ýmislegt vandað til málanna að leggja, er hent út á hafsauga. Landslög á Íslandi fæðast á skrifborði einhvers embættismannsins í umboði ráðherra og rúlla svo í gegn. Þannig verða til meingölluð lög í landinu. Þau sem mótmæla eru einatt lituð sem þreytandi kjaftaskar. Þá verður til klisja um fólk sem er „á móti öllu“. Henni er stungið í samband hvenær sem færi gefst og hagsmunaöflum þóknast. Og hvað með aðrar stoðir lýðræðisins? Aðhalds- og eftirlitsstofnanir brugðust alfarið og nú sitjum við uppi með þrjár ríkisstjórnir í landinu, eina í hvíta húsinu, eina í svörtu loftum og eina á Suðurlandsbraut. Von er svo á alþjóðlegri yfirstjórn heimskapítalismans, IMF, fyrir ofan þessar þrjár.

Annað liggur líka fyrir: Klappstýrurnar voru margar og íslenska þjóðin hélt áfram að kjósa sama tóbakið þrátt fyrir allt. Það er ekki nóg að kjósa flokka rétt eins og að halda með KR eða Val, og það er heldur ekki nóg að bergmála málpípur valdsins. Lýðræði byggir á því að hver og einn sé ábyrgur þátttakandi og rýni í staðreyndir.

Niðurlæging íslenska lýðræðisins er innsiglað og við þurfum á einn eða annan hátt öll að bera á því ábyrgð af því að við sitjum öll í súpunni og þurfum að vinna okkur upp úr því. Hvað er þá að gera? Það er ekkert annað að gera en að byggja upp á nýtt og byggja öðruvísi og vera bjartsýn þrátt fyrir allt. Ég legg til að við byrjum á því í sameiningu að endurreisa íslenskt lýðræði. En til þess þurfum við líka öll að vera þegnar sem neita að láta blekkjast af innistæðulausum yfirlýsingum, þegnar sem þora að endurskoða hug sinn, ögra valdi og stokka upp á nýtt. Erum við tilbúin í þann slag?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég held að vandinn í dag eigi rætur sínar að þjóðin býr ekki við lýðræði. Almenningur er manipúleraður með simbolisma utanbókarlærdómsmanna sem skortir alla dómgreind. Enda tala verkin.

Stór hluti almennings hefur sterka þörf fyrir að treysta. Fólk situr fast í hefðinni og skilur ekki að breytingar eru til góðs. Þessi eiginleiki er svo sterkur hjá stórum hluta almennings að það er ekki hægt að kalla þetta annað en hjátrú og sjálfstæðisflokkur og samfylking nú spila á þetta.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 26.10.2008 kl. 15:37

2 Smámynd: Heidi Strand

Íslendingar eru húsbónahollir og fylgir sitt fólk alveg sama hvað gerist.
Við endurkjörs Halldórs og Davíðs  eftir gjörðir þeirra  tengslum við Íraksstríðið, hætti ég alveg að treysta á íslenskir kjósendur.

Ég man lætin í kringum Kárahnjúkavirkjun þegar framkvæmdir hófst, og mikil uppbyggingin var  fyrir austan. Lánsfé straumaði til landsins og dansað var eins og aldrei áður kringum Gullkálfinn. Það var eins fólki heldu að framkvæmdirnar pumpaði peninga upp úr jörðinni. Nú er komið að skuldadögum.

Heidi Strand, 26.10.2008 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband