Mánudagur, 6. október 2008
Ennþá vaxa rófurnar í garðinum
Á Grænlandi er veturinn langur og dimmur og stundum ófært dögum saman. Ávaxtaúrvalið í nýlendubúðunum dönsku samanstendur þá einvörðungu af krumpuðum grænum eplum og ávöxtum í dós. Framkvæmdastjóri Bónus hvetur fólk nú til að birgja sig upp fyrir kreppuna, kaupa niðursuðudósir og íslenskt. Og fólk fer af stað, þyrstir í öryggi, eðlilega, og öll held ég líka að okkur þyrsti í anda í brjóst.
Steingrímur J. Sigfússon hélt ræðu í þingsölum í vikunni sem blés mér í brjóst. Ræðan kom frá hjartanu og byggði á væntumþykju til lands og þjóðar þar sem hann bauð fram sátt og tafarlausa aðgerðaáætlun. Slíkan neista og slíka forystu vantar því miður í ríkisstjórn Íslands, en vonandi nær hún vopnum sínum og það sem allra fyrst og þótt fyrir hefði verið - löngu fyrr. Ástandinu í efnahagsmálum er líkt við hamfarir. Peningakerfið riðar til falls. Sparnaður brennur upp, heimili og fyrirtæki sjá fram á þrengingar og jafnvel gjaldþrot. Bankar eru ófærir um að stunda venjuleg viðskipti við venjulegt fólk, slíkt er orðið fargið af glæfrafjárfestingum innan lands og utan.
Eitt af því góða við Ísland er að almennt vill fólk hjálpast að þegar gefur á bátinn fólk vill róa, jafnvel þótt ekki sé sjófært. En líklega er það sammerkt með okkur flestum að við viljum ekki láta nota okkur. Ég held þess vegna að sjúkraliðinn á Landspítalanum hafi engan sérstakan áhuga á því að gangast í ábyrgð fyrir Chelsea eða Westham, jafnvel þótt krakkarnir á heimilinu hafi gaman að fótbolta. Ég held líka að venjulegt fólk hafi engan sérstakan áhuga á að hjálpa bankastjórum að koma undir sig fótunum að nýju til þess eins að þeir geti snúið sér að því af alvöru að bryðja í sig samfélagsþjónustuna og orkugeirann. Fólk vill hjálpast að til þess að þjóðfélagið hverfi frá villu síns vegar og taki til hendinni við uppbyggingarstarf í anda jöfnuðar og réttlætis.
Góð vísa er aldrei of oft kveðin. Það ríður á að við setjum niður fyrir okkur nákvæmlega hvað það er sem við viljum aldrei fórna sama hvað á dynur. Viljum við endurheimta eða endanlega fórna íslensku velferðarsamfélagi jöfnuðar? Dettifoss, Skjálfandafljót, handritin ef þau gætu reddað okkur nú um stundarsakir eru þau þá föl? Eða ætlum við að bíta á jaxlinn og ala með okkur nægjusemi og sanngirni og geyma þannig dýrustu fjársjóðina fyrir næstu kynslóðir? Þegar heilu samfélagi er breytt í spilavíti hlýtur að endingu að koma að skuldadögum. Þá rignir jafnt yfir saklausa sem seka.
En úr öskustó græðginnar getur risið betra samfélag en áður og við skulum ekki fara á taugum þrátt fyrir allt og þótt syrti í álinn. Fiskurinn er enn í sjónum og ennþá vaxa rófurnar í garðinum.
Birtist í Morgunblaðinu 4. október 2008
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.