Fimmtudagur, 2. október 2008
Hækjan og hagstjórnin
"Mikill og góður árangur hefur náðst í efnahagsmálum undanfarin ár. Efnahagslíf þjóðarinnar hefur aldrei hvílt á jafn mörgum stoðum og nú, kaupmáttur almennings hefur vaxið meira en nokkru sinni og innviðir samfélagsins hafa styrkst til mikilla muna. Umtalsverðar skattalækkanir hafa eflt kaupmátt og fært almenningi aukið vald til að ráðstafa sjálfsaflafé sínu í samræmi við eigin vilja og þarfir...
...Sú mikla aukning í atvinnutekjum hefur dreifst nokkuð jafnt meðal almennings..."
Þetta var að finna í Áherslum Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum fyrir síðustu kosningar. Mitt uppáhaldsatriði er þetta síðasta, um hvernig tekjurnar hafi dreifst nokkuð jafnt.
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er svo að finna þetta:
Traust og ábyrg efnahagsstjórn
Kraftmikið efnahagslíf er forsenda þess að hægt sé að halda áfram uppbyggingu í menntamálum, samgöngumálum og í heilbrigðis- og félagsmálum. Eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu í þágu heimila og atvinnulífs. Markmið hagstjórnarinnar er að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs.
Brandari?
Er ekki löngu kominn tími til að forða þjóðinni frá frekari afrekum Sjálfstæðisflokksins á sviði efnahagsmála? 17 ár eru miklu meira en nóg eins og margítrekað hefur verið bent á.
Það er vissulega bæði hæðnislegt og grátlegt að "höfuðandstæðingurinn" skuli nú vera helsta hækjan sem hefur ekkert fram að færa í ástandinu nema það eitt að halda Sjálfstæðisflokknum við völd.
Ég kalla eftir raunsönnum Jafnaðarmannaflokki Íslands og raunsannri jafnaðarstefnu, ekki innantómum frösum sem í reynd halda gjaldþrota einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins á fullri ferð, nú í heilbrigðisþjónustu landsmanna, velferðarsamfélaginu og orkunni í iðrum jarðar. Spilavítið er komið í þrot og nú er verkið að byggja upp á nýtt. Til þess þarf sterk bein og kjark en ekki meðvirkni og dugleysi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.