Þriðjudagur, 28. október 2008
Bókstafstrúin á Íslandi
"Þeir munu hins vegar aldrei viðurkenna það" sagði hann og brosti, "þeir munu aldrei viðurkenna það, trúboðarnir allir. Þótt kapítalisminn hrynji munu þeir aldrei viðurkenna að grunnurinn er rotinn. Markaðshyggjan er öfgatrú okkar tíma. Sú trú nær út yfir allan veruleika þótt hann stari okkur í andlitið á hverjum degi."
Minn allra besti hagfræðiprófessor Stephen Marglin kemur þráfaldlega upp í hugann þessa dagana. Það er m.a. hægt að sjá hann hér og lesa um hann hér. Frábær maður og einstakur kennari, vitur og hlýr.
Spurður hvort og hvernig hann sæi fram á að kapítalisminn færi að molna, nýfrjálshyggjufaraldurinn að gefa eftir, sagði hann á þessa leið fyrir mörgum árum síðan: Fáir hefðu séð fyrir fall kommúnismans, í það minnsta hefði fæstum ef nokkrum dottið í hug hið fullkomna hrun sem varð. Hið sama ætti við um heimskapítalismann. Allir tryðu því að hann hefði "sigrað" og enginn vissi hvenær hann færi að gefa eftir en merki veikleikanna væri að sjá allt í kring...
Það er einkennilegt þetta með bókstafstrúna. Sama dag og neyðarlögin voru sett á Alþingi þegar bankarnir voru að hrynja þá var öðru þingmáli markaðsaflanna dreift sem gengur út að finna hvar ríki og sveitarfélög búa yfir verkefnum sem heppilegra væri að einkavæða.
Í greinargerð þingmálsins eru rakin fjölmörg dæmi um rekstur sem færa má út á markað auk þess sem bent er á mikilvæga sigra frá liðnum árum: Fjölmörg fyrirtæki á vegum ríkisins hafa verið einkavædd og má þar m.a. nefna bankastarfsemi ....".
Fyrir utan þetta litla þingmál bókstafstrúarinnar, þar sem írónían er helsti ferðafélaginn, þá er það náttúrulega grátlegt að Íslandi skuli nýbúið að samþykkja mýmörg önnur lög í anda einkavæðingar.
Þar kemur einna fyrst í hugann sjúkratryggingarfrumvarpið frá því í haust. Það er byggt á 17 ára gamalli löggjöf Margrétar Thatcher (jafn gamalt og valdatíð Sjálfstæðisflokksins), en skopteiknarar heimsins myndast einmitt við að henda hugmyndafræði Thatcher á ruslahauga sögunnar í myndum og máli.
En ekki "við Íslendingar" - þ.e. ekki þeir sem ráða.
Þótt reynslan í Bretlandi sýni að þetta hafi verið mikið óheillaspor þá erum við staðráðin í að læra ekki af reynslunni. Trúnni skal fylgt, enda alltaf í tísku að nota bara orð eins og "hagræðing" og "hagkvæmni" (að ekki sé minnst á frelsi og allt hitt) fyrir grundvallarbreytingar samfélags.
Svipaða sögu má segja um orkuauðlindirnar þar sem fallið er í ýmsar gryfjur leyndrar einkavæðingar, sams konar og að ofan, þegar almannafé borgar gróða einkaaðila.
Þetta er vissulega skondið þegar okkar nútími þykist vera tími vísinda en ekki trúarbragða. Trikkið er þetta: Trúin er sögð vera vísindi, og þá mega allir trúa. Lögmál markaðarins er sagt vera náttúrulögmál, og þá er ekkert annað að gera en að breiða út fagnaðarerindið og leiðrétta þau sem farið hafa villu vegar.
Það er bara verst að veruleikinn stangast á við trúarbrögðin og þá stendur fólk frammi fyrir vali: Að velja veruleikann og reynslu hans fram yfir trúna, og læra af reynslunni, eða halda áfram að trúa á bókstafinn burtséð frá veruleikanum.
Margir, já eiginlega ótrúlega margir, velja síðari kostinn.
Plís Pretty Please with Sugar on Top eins og Harvey Keitel sagði einu sinni í bíóymynd: Byltingu strax.
Athugasemdir
Já byltingu strax!!!
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 28.10.2008 kl. 14:58
Og hvað leggur þú til? Þú vilt ekki virkjanir (og þar af leiðandi iðnaðinn sem þeim fylgir), þú vilt ekki fjármálastarfsemi (vegna þess að slíkt er holdgervingur kapítalismans), þú vilt ekki auðmenn.
Hvað viltu þá? Hvernig viltu að Ísland þróist? Ég er ekki að tala um gömlu tugguna um "jafnrétti, félagslegan jöfnuð" og slíkt, heldur meira konkret hluti. Hvers konar atvinnuvegi viltu sjá hérna? Við vitum ósköp vel að nýsköpun og annað slíkt verður aldrei undirstaða hagkerfis, heldur getur blómstrað þegar stoði hagkerfis eru sterkar (þess vegna getur þú ekki sagt að nýsköpun og "eitthvað annað" verði undirstaða hins nýja Íslands).
Hvernig væri nú að þið í vinstrigrænum leggðuð fram tillögur um hvað sé hægt að GERA. Þið viljið efla "almannaþjónustuna" sem er diplómatísk leið til að segja að þið viljið að ríkið sjái um allt og alla og einkaframtakinu verði úthýst. Gott og vel. Hvaðan kemur þá verðmætasköpunin? Það er engin verðmætasköpun falin í almannaþjónustu (ef við tölum um verðmæti sem efla hagvöxt), en hins vegar krefst góð almannaþjónusta verðmætasköpunar annars staðar.
Hvernig viljið þið efla almannaþjónustuna þegar það ber allt að sama brunni hjá ykkur um það að þið viljið banna allt sem flokkast gæti undir alvöru verðmætasköpun?
Vil svo taka fram að það geta ekki allir orðið frægir tónlistarmenn eða hannað tölvuleiki sem ná heimsathygli, þannig að það að benda á Björk og CCP sem dæmi um komandi undirstöður íslensks atvinnulífs nægir ekki.
Svör óskast
Liberal, 28.10.2008 kl. 15:58
LF, gefum henni nú aðeins tækifæri til að svara. Sjáum hvort stereotýpan um VGistan reynist mýta.
1) Á hvaða stólpum vill Guðfríður Lilja byggja hagkerfi nýja Íslands?
2) Hvernig næst verðmætasköpun út úr þeim stólpum (t.d. með útflutningi)?
3) Hvernig hyggst Guðfríður endurreisa bankakerfið og með hvaða skipulagi?
4) Miðað við stórkostlega aukin útgjöld hins opinbera samhliða boðuðum ríkisumsvifum VG, hvernig hyggst Guðfríður Lilja fjármagna þau útgjöld? a) með greiðsluþátttöku notenda ríkisþjónustunnar, eða b) með hækkun skatta og ef svo, hvaða skatta og á hvaða aðila?
5) Hvernig vill Guðfríður Lilja nýta náttúruauðlindir landsins, þ.e.a.s. fiskistofna, fallvötn og jarðhita? Það dylst engum að gríðarleg verðmæti felast í þessum auðlindum, en þau verðmæti eru verðlaus ef þau eru ekki nýtt. Og það að bíða og sjá og skoða málin og bíða eftir hærra verði skapar engin verðmæti, nýtingin skapar verðmætin.
Nú gæti maður haldið, svona fyrirfram, að maður fengi langan pistil frá Guðfríði um "nýja hugsun" og "kynjajafnrétti" og "dauða nýfrjálshyggjunnar" og "gefa upp á nýtt". Rosalega mörg orð um nákvæmlega ekki neitt. Engar hugmyndir, bara froðu. En ég er samt 100% viss um að Guðfríður getur svarað spurningunum hér að ofan á skilmerkilegan og nákvæman hátt og gefið mér konkret dæmi um hvað hún vill að sé gert, hver gerir það, hver borgar fyrir það, og hverju það skilar til þjóðarbúsins.
Bíð enn eftir svörum.
Liberal, 28.10.2008 kl. 19:41
Ég er svo illa stödd í "lýðræðinu" á Íslandi að ég mun hiklaust kjósa VG næst, þótt ég sé 120% með inngöngu í ESB!!!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.10.2008 kl. 23:33
Bylting er löngu þörf. Hefur verið þörf á byltingu í heiminum í mörg ár.
En sú bylting felst ekki í því að kjósa Vinstri Græna á stjórn.
Já sjálfstæðismenn eru búnir að drulla upp á bak með sjálfsmorðsherferð sinni. En af tvennu illu, froða eða sjálsmorðsplan þá mega þeir allavegana eiga það Sjálfstæðismenn að þeir hafa þó allavegna haft eitthvað plan og stefnu (þó ömurleg sé) sem er þó meira en hinir svokölluðu flokkar á Íslandi geta sagt. Þeir snúast meira um örfáa froðusnakksbullukolla og rómantíkusa ásamt tækifærissinnum sem sleikja rassa alla sína háskólagöngu til að komast á spenan.
Meining orðsins Bylting er mun mun dúpri. Hér þurfa allir helstu hugsuðir samtímans að leggjast á eitt og koma með hugmyndir að nýju kerfi. Og þá nýju kerfi í grunninn. Út með spenasugurnar, hreinsa skal allt draslið út og inn með fólk með hugmyndir, plön og kraft.
Flokkspólitík er fyrir löngu dauð, og í raun hlægileg hugmynd í ekki stærra samfélagi en Ísland er.
Það sem er að drepa landið núna er ömurleg dreifing á upplýsingum. Það er ekki þverfótað fyrir lygum og röngum upplýsingum.
Beyta á "public dialogoue" til þess að upplýsa fjöldan. Fólk verður að geta tekið afstöðu útfrá staðreyndum og réttum upplýsingum. Ekki keyptum fréttafuttningi né lygum í flokkspólitíkusum.
Kjósa skal einstaklinga!
Þó að það sé margt rétt í þessum texta hjá þér þá skaltu ekki segja mér það að þú trúir því virkilega að framtíðin sé í þessu dauða kerfi ??? Þú og aðrar spenasugur verða að fara taka afstöðu eins og aðrir. Framtíð okkar og barna okkar er í húfi og persónulega held ég að það sé hreinlega ekki tími til að standa í þessum barnaleik lengur...
Garðar Ey (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 00:18
Guðfríður Lilja.
Kapítalismi er einfaldlega annað orð yfir drifkraft einstaklingsins, frelsi hans til athafna. Það má kalla hann hvað sem er en hann verður ekki bældur niður til lengri tíma. Það hefur verið reynt og heitir sósíalismi og stundum kommúnismi og þaðan af verra.
Aftur á móti er mikilvægt að þessum drifkrafti einstaklingsins sé settur einhver rammi þannig að hann skaði ekki frelsi næsta manns til athafna eins og dæmin sýna með IceSave. Þar brugðust stjórnvöld, fjölmiðlar og viðeigandi eftirlitsstofnanir.
Anna:
Viltu lesa sáttatillögu mína um ESB og evru á blogginu mínu því eins og þú segir þá ert þú 120% með inngöngu í ESB. Vil fá álit þitt.
Egill Jóhannsson, 29.10.2008 kl. 01:14
Liberal. Þú fullyrðir að Guðfríður Lilja vilji ekki virkjanir. Hvaðan hefur þú það? Það er hellingur af virkjunum í landinu og það hefur enginn, ekki einu sinni vinstri grænir minnst á að leggja þær niður. Það hefur hins vegar verið talað um að það sé komið nóg af slíku. Svona einfeldningslegar fullyrðingar um það hvað aðrir eru að hugsa eru ekkert annað en útúrsnúningar og ágætt dæmi um trúarofstæki. Fleira má tína til í þínum málflutningi en finnst nóg að benda á þetta.
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 08:04
Er ekki vandi margra, sem telja sig til vinstri við miðju, að þeir veðjuðu pólitískt á útrásina. Studdu Baug í átökum við Davíð og Björn Bjarna og allt Íhaldið. Óvinur óvinar míns er vinur minn. Ólafur Ragnar varð að aftanítossa hjá Baugi í þessum deilum og beitti meðal annars neitunarvaldinu ranglega Baugi til aðstoðar í átökum við Davíð. Andstæðingar Davíðs-klíkunnar fjárfestu pólitískt í útrásinni - samanber Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar. Nú er komið í ljós að óvinir óvinarins voru bara ófyrirleitnir skúrkar sem nú skilja þjóðina eftir á vonarvöl. Mörgun þótti vænt um þegar Ólafur Ragnar kom höggi á Davíð í fjölmiðlamálinu en var það þjóðinni til góðs?
Högni Högnason (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 08:33
VG hefur verið á móti öllum virkjunum sem reistar hafa verið, eða fyrirhugað er að reisa, undanfarna áratugi. Nei, VG hefur ekki rætt um að rífa niður virkjanir sem þegar eru uppi, en hins vegar hefur VG lýst því yfir, á einn eða annan máta, að ekki skuli virkjað meira. Gott og vel, það er sjónarmið út af fyrir sig, þá liggjum við með náttúruauðlind sem verður ónýtt og eitthvað hlýtur þá að þurfa að koma í staðinn.
Þetta hefur ekkert með trúarofstæki að gera, ekki fara í svona mikla vörn elsku kallinn minn. Ég er bara einfaldlega að spyrja, EF ekki skal virkjað meira HVAÐ vill þá Guðfríður Lilja að komi í staðinn sem verðmætasköpun í landinu.
Annars finnst mér þú vera ansi mikið bitur og sár út í spurningar mínar, getur verið að þér hugnist ekki að ég spyrji um hin praktísku smáatriði sem gera má kröfu um að hvíli á bak við litríka orðræðu ykkar um útópíuna?
Svara er enn beðið
Liberal, 29.10.2008 kl. 08:34
Einn versti gallinn við heimskuna er að þegar hún öskrar leggur allur heimurinn hlustirnar við. Þegar þjóðin stendur frammi fyrir þeim verkefnum sem allar þjóðir standa frammi fyrir á öllum tímum hafa íslensk stjórnvöld eina allsherjar lausn. Allir vita í dag að þessi einalausn er fleiri virkjanir og sala á orkunni fyrir það verð sem álrisarnir bjóða. Sem betur fer þá fjölgar þeim sem hafna þessari niðurlægingu sem einalausn felur í sér. Okkar kynslóð hefur engan rétt til að ganga á allar auðlindir landsins til að halda uppi hagvextinum svonefndum.
Við eigum að gera eitthvað annað. Hvað skyldi það nú vera? þessari eitthvað annað lausn felst leyndur galdur og einfaldur. Hann felst í því að leyfa fólkinu að leysa sín mál í friði fyrir alræðisflónsku pólitíkusanna. Þegar þjóðin kemst að því að stjórnvöld ætla sér ekki að segja henni til í öllum efnum eins og skólastjóri í barnaskóla fer hún ósjálfrátt að hugsa. Og ég treysti þessari þjóð ennþá til að finna lausnir á sínum verkefnum ef hún fær næði til þess.
Við eigum ennþá mikilvæga auðlind sem er fiskurinn í sjónum. Hana má fólkið í sjávarplássunum hinsvegar ekki nýta að vild vegna hagfræðilegrar samþjöppunar á aflaheimildum. Þeirri hugmyndafræði þurfum við að varpa fyrir borð og nú er tækifærið. Og nú getum við hleypt nýju lífi í öll sjávarþorpin víðs vegar um landið. Þetta er eitt mikilvægasta svarið við hvaðeigumviðþáaðgera öskrinu. Við skulum nýta niðurbrotið hagkerfi til að hugsa upp á nýtt og leyfa fólkinu að fá að vera í friði. En við þurfum að eiga stjórnvöld sem eru reiðubúin til að styðja góðar hugmyndir. Þær eiga bara að koma innan frá.
Árni Gunnarsson, 29.10.2008 kl. 10:30
Árni, þannig að þín lausn er "eitthvað annað"? Leyfa fólki að leysa sín mál í friði fyrir pólitíkusum? Sem er ég algerlega sammála. Þannig að VG vill þá leyfa fólki að virkja ef það svo kýs, fá inn þann iðnað sem það sjálft kýs, og í raun stofna fyrirtæki og selja vörur og/eða þjónustu og halda eftir hagnaðinum sjálft, eða bera tapið sjálft?
Glæsilegt. Þetta myndi reyndar gera VG að frjálslyndum flokki, sem er frábært.
Ég held, hins vegar, að þú sért að boða það að allir fái frelsi til að gera það sem þeim sýnist, svo fremi að VG samþykki það og það sé ekki bannað. S.s. allt sé bannað nema það sé sérstaklega leyft. Frelsi til handa öllum, innan skilgreinda vikmarka frá VG.
Ef ég fæ næði til að stofna mitt fyrirtæki og uppskera (vonandi ríkulega) í friði fyrir Vg, þá er ég ánægður. En hins vegar er það þannig að VG virðist líta á alla sem uppskera vel sem sérstaka óvini sína sem beri að úthrópa í fjölmiðlum (sem auðvaldið) og helst refsa á löggjafarstiginu (með sértækri skattheimtu og íþyngjandi aðgerðum). Þannig að frelsið sem þú boðar er ekkert frelsi.
Bíð enn svara frá Guðfríði
Liberal, 29.10.2008 kl. 11:50
Einar, síðasta setningin hjá þér er ótrúlega kjánaleg. Að þú getir ekki orðið efnaður nema þú svindlir eða sért ríkur fyrir (og hafir þá væntanlega svindlað í upphafi).
Ég leyfi mér að benda á ca 7000 ára sögu mannkyns sem sönnun þess að þú hefur rangt fyrir þér. Ef þitt viðhorf í lífinu er það að allir sem eru efnaðir séu svindlarar, þá ertu alveg í hárréttum flokki ef þú er VGisti. Því eins og margoft hefur komið fram í málflutningi þess fólks er enginn "alvöru" nema hann lepji dauðann úr skel og sé á framfæri ríkisins.
Bíð enn svara frá Guðfríði Lilju.
Liberal, 30.10.2008 kl. 12:21
Það sem þú kallar svindl er í raun og veru mismunandi mat á gæðum. Þú kallar það svindl að borga meira fyrir bíl bara svo hægt sé að borga Schumacher milljónir evra á ári, en ég kalla það annað. Margir VILJA borga meira fyrir bíla sem tengjast á þennan hátt Schumacher og því það er þeirra verðmat á þeim gæðum sem í því felast.
Munurinn á mér (frjálshyggjumanni) og vinstrimönnum er sá að ég dæmi ekki gildismat annara en vil fá að vera í friði með mitt gildismat. Alveg eins og þú segir, þá fer þetta allt eftir því hvernig á það er litið. En ef þú t.d. kýst að skulda alla þína ævi, vera með lágar tekjur (t.d. starfa sem ljóðskáld) og heimta styrki og bætur frá hinu opinbera, þá er það þitt mál og við búum í samfélagi þar sem fólk getur gert slíkt. En þó svo að mér myndi ekki hugnast það, þá myndi ég virða það sem þína ákvörðun og ekki uppnefna þig sem iðjuleysingja eða annað slíkt. En hins vegar virðist þú vilja uppnefna þá sem deila EKKI þínum gildum sem svindlara og dregur í dilka.
Það er nákvæmlega það sem VG gerir. Ef fólk er þeim ósammála, þá er uppnefnt og úthrópað og leitað leiða til að refsa. Það er það sem ég hræðist mest í málfari VG; fullkominn skortur á umburðarlyndi. Það vantar ekki umburðarlyndið gagnvart þeim sem eru minnimáttar í þjóðfélaginu, ónei... en umburðarlyndi gagnvart ólíkum skoðunum og gildismati er ekki til.
Við getum því verið sammála um að vera ósammála, en ég læt hins vegar sleggjudómana um þig og þitt gildismat eiga sig.
Bíð enn svara frá Guðfríði. Held að hún hafi gugnað.
Liberal, 31.10.2008 kl. 08:29
Þannig að þeir sem verða ríkir með aðferðum sem hugnast þínum lífsgildum eru góðir, en þeir sem verða ríkir með aðferðum sem ekki passa inn í þín viðhorf eru svindlarar?
Kaup og sala verðbréfa er ekkert annað en kaup og sala fyrirtækja, ef þú stofnar fyrirtæki sem gengur vel og þú skráir á markað (til þess að hafa sem bestan aðgang að fjármagni) og heldur áfram að ganga vel, þá hagnast þeir sem eiga hlutabréfin í fyrirtækinu (s.s. eiga fyrirtækið). Enginn hagnast á viðskiptum við hlutabréf nema bréf séu seld og verð myndist, þannig að ef einhver hagnast þá er það sjálfkrafa tap annars. Ég sé ekki alveg hvar svindlið er í því, þú fyrirgefur.
Ef einhver kaupir hlutabréf alltof dýru verði, þá hagnast sá sem seldi og sá sem keypti tapaði. Og svo fremi að það varst ekki þú sem keyptir á of háu verði, af hverju ætti þér ekki að vera sama? Eða pirrar það þig að einhver skuli hagnast á hlutum sem þú ert einfaldlega á móti af heimspekilegum ástæðum?
Ég biðst afsökunar á því að hafa spyrt þig við VG, ég hefði betur sleppt því. Ef ég myndi t.d. segja að ég ber afskaplega litla virðingu fyrir t.d. fólki eins og Björk og Sigurrós sem hljóðrita eitthvað jarm og baul inn á plötur og hagnast gríðarlega á því. Jú, mér finnst þessi "tónlist" þeirra hundleiðinleg og ómerkileg, og þess vegna finnst mér að þau séu að hagnast á svindli og froðu, þau eru ofurlaunaþegar í skjóli einskis. Er sú fullyrðing eitthvað réttminni en að þú skulir kalla fjárfesta svindlara? Mér finnst ekkert búa að baki því sem skapar Björk og Sigurrós auðinn. Hæfileikar? Sé þá ekki. Aðrir sjá þá, en ekki ég. Ég veit að fjárfestar eru margir mjög hæfileikaríkir, undrabörn (kannski ekki íslenskir, en margir erlendir) og get alveg fullyrt og rökstutt þá skoðun.
Björk og Sigurrós framleiða ekkert (og vitna ég þá í hin sívinsælu rök sumra í VG og verkalýðshreyfingarinnar að þeir sem ekki strita í skurði 14 tíma á dag vinni þar af leiðandi ekki handtak).
En veistu, þetta er bara ekki mín skoðun. Ég skil ekki Björk og Sigurrós, það sem þau gera höfðar ekki til mín og ég myndi aldrei borga krónu fyrir verk þeirra. En ég virði það hins vegar að aðrir vilji gera það og fagna því að þeim gangi vel. Ef einhver hagnast (löglega, nota bene) er það bara gott, því það þýðir að einhver, einhvers staðar telur sjálfan sig hagnast á því að kaupa af þeim vöru eða þjónustu. Fólk sem kaupir disk Bjarkar á 2500 kall telur líf sitt auðugara fyrir vikið um sem nemur meira en 2500 krónum sem það reiddi af hendi. Jón Jónsson sem kaupir af mér hlutabréf í Össuri telur að í bréfinu séu meiri verðmæti (sem eiga eftir að koma fram ef fyrirtækinu gengur vel) en ég tel, því annars hefði hann ekki keypt og ég ekki selt.
Alveg eins og sá sem kaupir Bjarkardiskinn á 2500 kall og finnst hann ekkert merkilegur finnst hann hafa borgað of mikið (sem gæti vel gerst) og hefur því tapað, þá getur sá sem kaupir af mér hlutabréfið í Össuri (sem svo lækkar í verði) orðið svekktur og fundist hann hafa tapað.
Þannig er bara lífið. Fólk tekur ákvarðanir og er annað hvort betur eða verr statt fyrir vikið. Svo fremi að fólk sé innan marka laga og reglna, er það þá virkilega okkar að úthrópa aðra sem svindlara eða loddara, bara af því að við ekki skiljum eða líkar ekki hvað viðkomandi gerir? Mér finnst það þröngsýni.
Megi Björk og Sigurrós selja eins mikið af verkum sínum og mögulega er hægt, og megi fjárfestar kaupa og selja verðbréf á þeim verðum sem þeim sýnist. Þú, ég, eða VG eigum ekkert með að skipta okkur af því. Við tökum ákvörðun um hvort við kaupum disk Sigurrósar eða hlutabréf í Össuri, og eigum ekki að skipta okkur af ákvörðunum annara í þeim efnum.
Liberal, 1.11.2008 kl. 10:23
Úúú.... maður kemst bara ekki að fyrir þessum gáfnaljósum sem eru með hvert fræðsluerindið á fætur öðru, til að upplýsa okkur hinn sem vitum ekkert, (á ekki við þig Guðríður), þakka bara fyrir að Vinstri-Grænir fóru ekki í Stjórn með Sjálfstæðinu, þeir hefðu getað kennt ykkur um þetta allt saman, enn núna eru þeir gjörsamlega áttavilltir og hafa engan til að skella skuldinni á.
Sigurveig Eysteins, 4.11.2008 kl. 04:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.