Laugardagur, 13. september 2008
Biðjist afsökunar!
ÁGÚST Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingar lýsti því yfir í vikunni að Ögmundur Jónasson ætti að biðjast opinberlega afsökunar á því að hafa sett Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra við hliðina á Gaddafi Líbýuleiðtoga á mynd á heimasíðu sinni.
ÖGMUNDUR hefur í mörg ár haldið úti einni öflugustu heimasíðu landsins, www.ogmundur.is. Þar er að finna hárbeitta pistla, innihaldsríka og fróðlega, og iðulega fylgja heimatilbúnar myndir sem skeytt er saman héðan og þaðan í pólitískt skop.
ÝMSIR helstu leiðtogar vestrænna ríkja keppast nú um að taka í hönd Gaddafi og hrósa honum fyrir að selja opinberar eigur líbýsku þjóðarinnar í hendur fjölþjóðlegum einkaaðilum. Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti og Condoleeza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna eru meðal þeirra sem nú eru hæstánægð með Gaddafi. Condoleeza skartar einmitt hálsmeni frá Ingibjörgu Sólrúnu.
HVERS vegna úr varð fjaðrafok hjá tilteknum vinum heilbrigðisráðherra út af skopmynd Ögmundar er umhugsunarefni. Á sama tíma var afgreitt frá Alþingi frumvarp sem leggur tæki einkavæðingar á heilbrigðisþjónustu Íslendinga beint upp í hendurnar á Sjálfstæðisflokknum. Ætlar Samfylkingin að biðjast afsökunar á því?
Í LJÓSI þess að varaformaður "Jafnaðarmannaflokks Íslands" hefur krafist afsökunarbeiðni frá Ögmundi langar mig að fara fram á afsökunarbeiðni valdhafa á eftirfarandi:
-AÐ nauðbeygja þurfi ríkisstjórnina til að standa við brotabrot af gefnum loforðum, m.a. um bætt kjör kvennastétta, og að stétt ljósmæðra sé ítrekað sýnd lítilsvirðing;
-AÐ 100 milljónum af fé skattborgara sé sóað í eina heræfingu (af mörgum komandi), svipuð fjárhæð og nægir til að leiðrétta kjör ljósmæðra í heilt ár;
-AÐ nýtt ríkisbákn hermála rísi þar sem milljarðarnir flæða á meðan velferðarkerfið molnar;
-AÐ álvæðing Íslands og stórfelld náttúruspjöll séu á fullri ferð þvert á ítrekuð loforð um "Fagra Ísland";
-AÐ ráðherrar í "Jafnaðarmannaflokki Íslands" skuli enn ekki vera búin að afnema eigin sérréttindi í eftirlaunum, á sama tíma og misskipting í samfélaginu hefur aldrei verið meiri.
ÞETTA er ekki tæmandi listi, hér er bara fátt eitt nefnt.
EF þau sem bera ábyrgð á því sem að ofan greinir láta svo lítið að biðjast opinberlega afsökunar - þótt ekki sé nema á einu atriði - þá skal ég persónulega tryggja að Ögmundur Jónasson biðji einkavæðingarvin varaformanns Samfylkingarinnar afsökunar á að hafa skeytt honum saman við Frakklandsforseta að heilsa Líbýuleiðtoga.
SANNGJARN díll?
Birtist í Morgunblaðinu 13. september 2008.
Athugasemdir
Heyr heyr
Res (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 17:34
Góður pistill. Sjálfstæðismenn mega vart vatni halda þegar Kaninn er annarsvegar.
Ég er sannfærður um að Guðlaugur Þór hefur gert í sig af spenningi og gleði að sjá sig við hliðina á þessum nýjasta vini átrúnaðargoða hans.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 13.9.2008 kl. 21:07
Það er náttúrulega eitt í þessu og það er það að á sumum mönnum er mark á takandi og öðrum allavega síður. Yfirleitt verður húmor þeirra sem mark er á takandi beinskeittari og sárari. Ögmundur mætti ef til vill huga að þessu áður en hann fær næsta ærslakast.
Guðlaugur Vilberg (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 21:35
Skil reyndar ekki þennan húmor Ögmundar. Finnst hann all sérstæðurog á skjön við það sem maður á að venjast. Vegna þess að þú nefnir sem afsökun fyrir þessum ósmekklegheitum að Samfylkingin sé ekki búin að afnema eftirlaun þingmanna, vil ég benda þér að ræða málið við Steingrím Sigfússon. Hann var stuðningsmaður þessa eftirlaunafrumvarps. Sennilega hefur hann samt skipt um skoðun þegar að ljóst var að almenningi var brugðið. Þykir líklegt að hann hafi á þeim tímapunkti hlaupið frá fyrri skoðun sinni á málinu, það væri að minnsta kosti í hans stíl.
Guðmundur Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 01:20
Börn grípa til þess að uppnefna, þegar þeim verður orðafátt.
Óþarfi hjá Ögmundi að grípa til sömu aðferða. Hann ætti að vera nægilega þroskaður til þess falla ekki í sömu gildrur og börnin.
Óli Garðars, 14.9.2008 kl. 12:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.