Hugtakið einkavæðing

 Fylgismenn sjúkratryggingafrumvarpsins bregðast ókvæða við þegar bent er á þær dyr sem frumvarpið opnar á einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Minnihluta hefur verið legið á hálsi fyrir að nota orðið einkavæðing um það sem stjórnarliðar vilja frekar kalla einkarekstur og segja að eigi ekkert skylt við einkavæðingu.

Þessar deilur eru ekki til komnar að ástæðulausu. Það hentar stjórnvöldum einfaldlega betur að halda því fram að stjórnarflokkarnir séu eiginlega ekki að einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Slíkt er ekki endilega til vinsælda fallið og er enn viðkvæmara þegar kemur að rótgróinni grunnþjónustu íslenska velferðarkerfisins á borð við heilbrigðisþjónustu og menntun.

Í þessari orðræðu hefur oft verið vísað til þess að Íslendingar búi nú þegar við heilmikinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Þar er vitnað til sjálfstætt starfandi sérfræðinga og sjálfseignarstofnana, samtök, félög sjúklinga og aðstandenda, þ.e. félög án arðsemiskröfu (svokallaðra „non-profit“ félaga), eins og DAS/Hrafnistu, SÍBS/Reykjalund o.s.frv. 

VG hefur ítrekað bent á að það er langur vegur milli þess konar rekstrarforms annars vegar, þar sem allur ágóði sem til kann að verða fer aftur til baka inn í reksturinn til að bæta þjónustuna, og hins vegar einkarekstrar sem miðar að því að fá arð út úr rekstri heilbrigðis- eða öldrunarstofnana. Á þessu er grundvallarmunur - non-profit einkarekstur er einfaldlega allt annað en einkarekstur gróðans.

             Í þessu samhengi er aftur vert að benda á umsögn Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors við Háskóla Íslands, en hann hefur ítrekað bent á skilgreiningu fræðimanna á hugtakinu einkavæðing. Í umsögn Rúnars segir m.a.:

“Einkavæðing heilbrigðisþjónustu er yfirhugtak sem felur í sér eitt eða fleira af eftirfarandi:

 a) Eignatilfærsla (sala eða afhending opinberra stofnana, opinberra fyrirtækja eða annarra opinberra eigna til einkaaðila). b) Tilfærsla á rekstri (frá hinu opinbera til einkaaðila, sbr. einkaframkvæmd). c) Tilfærsla á fjármögnun (þar sem einkafjármögnun kemur að hluta eða öllu leyti í stað opinberrar fjármögnunar áður).

Rekstrartilfærsla (svo sem einkaframkvæmd) í heilbrigðisþjónustu er sem sagt órjúfanlegur hluti einkavæðingar og jafnframt stórt heilsupólitískt málefni, en ekki bara eitthvert tæknilegt eða praktískt mál, eins og sumir stjórnmálamenn hafa haldið fram. Ástæðan er m.a. sú að aukinn einkarekstur heilbrigðisþjónustu dregur sjálfkrafa úr rekstrarlegri ábyrgð hins opinbera, (rekstrarleg ábyrgð hins opinbera er mest þegar hið opinbera annast sjálft rekstur þjónustunnar), auk þess sem einkareknar einingar (í hagnaðarrekstri) hafa tilhneigingu til að vera kostnaðarsamari (sjá síðar), og þjappa sér saman í þéttbýli (einkum efnalega betur stæðu þéttbýli) umfram opinbert reknar einingar. Þá getur reynst erfiðara að koma við heildstæðri og samfelldri heilbrigðisþjónustu gegnum einkareknar einingar vegna þess m.a. að þær beinast einkum að hinum ábatasamari þáttum heilbrigðisþjónustunnar og eru gjarnan í samkeppni um sjúklinga hver við aðra og við opinberar rekstrareinginar. Niðurstaðan getur orðið brotakennd og ósamfelld þjónusta”.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Góð samantekt á máli sem ég held að vefjist fyrir mörgum, enda ekkert reynt af hálfu stjórnvalda til þess að halda því heiðskíru.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 10.9.2008 kl. 14:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband