Laugardagur, 6. september 2008
Frá Sveini Víkingi til Árna Matt
Í ritröðinni Íslenzkar ljósmæður. Æviþættir og endurminningar skrifar séra Sveinn Víkingur árið 1962:
konur hafa veitt aðstoð og hjálp við fæðingar hér allt frá landnámsöld og til þess einkum valizt þær konur, er öðrum voru fremri að handlagni, nærgætni og fórnarlund um nafnlausa minningu þeirra leikur fögur birta, ekki síður en um heitið sem þeim var valið ljósmóðir. Í aðdáun bætir Sveinn við að ljósmæður hafi, í kyrrþey og án tillits til launa, lagt fram sérstakan og ómetanlegan skerf til íslenzks líknarstarfs og menningar.
Þessi litla og magnaða stétt er nú risin upp í einhuga samstöðu, eftir langlundargeð og biðlund í gegnum árin, áratugina og aldirnar. Fyrsta verkfall íslenskra ljósmæðra frá upphafi er staðreynd. Uppsagnir um helmings ljósmæðra taka gildi um næstu mánaðamót. Þrátt fyrir að samningar takist getur verið að fyrir sumar sé það oft seint, þær hafa ráðið sig annað. Ef ekkert er hins vegar að gert er elsta fagstétt íslenskra kvenna að hruni komin. Gera ráðamenn sér grein fyrir alvöru málsins?
Frá stofnun Ljósmæðrafélags Íslands, sem á næsta ári fagnar 90 ára afmæli, var markmið félagsins að sjálfsögðu að standa að launa- og réttindabaráttu ljósmæðra, enda ekki vanþörf á. En hitt ber að hafa í huga að Ljósmæðrafélagið hafði frá upphafi mikinn metnað í að bæta menntun og þjálfun ljósmæðra og var því ekki síður umhugað um skyldur ljósmæðra við samfélagið allt. Þar hefur til tekist framúrskarandi vel, öllum barnshafandi konum og fjölskyldum þeirra til heilla.
Menntun ljósmæðra á Íslandi er ein sú besta á byggðu bóli. Bakgrunnur þeirra er 6 ára háskólanám, og flestar hafa auk þess starfsreynslu við hjúkrunarstörf áður en þær hefja framhaldsnám í ljósmóðurfræðum. Með sanni má segja að ljósmæður hafi sýnt óheyrilega biðlund í að kjör þeirra séu leiðrétt. Um leið hafa þær verið sérlega framsæknar og duglegar við að afla sér frekari þekkingar, víðtækrar reynslu og færni. Þær eru ein af lykilstéttum heilbrigðisþjónustu sem státar hér af lægsta ungbarnadauða í heimi og mæðravernd eins og hún gerist best.
Ljósmæður fortíðar unnu þrekvirki í okkar strjálbýla landi og þjóðin öll á ljósmæðrum í nútíð og fortíð skuld að gjalda. Framtíðin mun ekki bera þess bætur ef við greiðum ekki þá skuld nú þegar, þótt víst sé að hún verði aldrei öll gerð upp sem skyldi. Á hverjum degi bera ljósmæður tvö mannslíf í hendi sér og taka á móti stórfenglegustu stund allra mæðra og feðra. Þær hjálpa okkur í heiminn. Ábyrgð hverra er meiri?
Það á ekki að þurfa að nauðbeygja stjórnvöld til að efna eigin loforð. Nú er tækifæri fyrir ríkisstjórnina til að ganga fram fyrir skjöldu og koma fram af reisn. Ef við sem samfélag ráðum ekki við þetta verkefni, við hvað ráðum við þá?
Birtist í Morgunblaðinu 6. september 2008.
Athugasemdir
Langaði bara til að þakka þér (og félögum þínum í VG) fyrir hversu ötul þú ert við að vekja athygli á málstað ljósmæðra og sýna stuðning þinn í verki. Ég er satt að segja gáttuð á því að umræða um kjarabaráttu ljósmæðra, skuli ekki fá meira pláss í fjölmiðlum þessa dagana. Fyrir mér er þetta svo stórt mál, þetta er spurning um jafnrétti.
Laufey Einarsdóttir (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 16:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.