Mannúð í millilendingu

Fídel Smári sonur Rosemary og Pauls fæddist á Landspítalanum í Reykjavík fyrir nokkrum vikum. Hann er myndardrengur. Íslensk ljósmóðir tók á móti honum í þennan heim, áður en hún sagði upp starfi sínu vegna svikinna loforða um bættan hag kvennastétta.

Nú er spurningin: Hvenær ætla yfirvöld að vísa Fídel Smára, 5 vikna, úr landi? Í dag, á morgun, í næstu viku? Og þá hvert?

Að því er best verður skilið var föður Fídels Smára, Paul Ramses, vísað af landi brott án mikils fyrirvara eða undirbúnings fyrir hann og fjölskylduna. Hann virtist í það minnsta grandalaus í þeirri trú að alvarlegt mál hans væri í vandvirku umsækjendaferli hérlendis. Í vikunni var Paul svo nauðugur á leið í ítalskar hælisleitendabúðir af því hann millilenti á Ítalíu á leið til Íslands og fékk þar vegabréfsáritun. Já, það getur reynst afdrifaríkt að millilenda ef maður er á flótta. Hvar millilenti mamman áður en hún fékk dvalarleyfi í Svíþjóð? En Fídel Smári?

Fídel Smári millilenti hvergi. Hann lenti beint á Íslandi þegar hann fæddist. Fjölskylduvæn millilendingarstefna undir yfirskini Schengen getur varla sent Fídel Smára aftur til baka á annan stað en Landspítalann. Eða hvað?

Paul á íslenska vini og kunningja og kom fyrst til landsins árið 2005. Paul hefur unnið að ýmsum uppbyggingarstörfum í Kenía og líf hans er nú í hættu, en alda ofbeldis og ofsókna hefur herjað í landinu.

Hvernig er í raun hægt að réttlæta þessa meðferð á Paul og fjölskyldu hans? Hvað knúði á? Og hvenær á yfirleitt að bæta úr aðstæðum og málsmeðferð hælisleitenda hérlendis? Þess er knýjandi þörf, umbúða- og millilendingarlaust.

Sumt er löglaust og siðlaust. Annað er löglegt en siðlaust. Svo er til enn annað sem er hvort tveggja í senn: löglegt og siðlegt.

Íslensk stjórnvöld gátu hæglega tekið umsókn Paul Ramses efnislega fyrir og leyft honum að dvelja hér áfram ásamt eiginkonu og nýfæddum syni á meðan málið væri kannað frekar með góðum vilja. Yfirvöldum var í sjálfsvald sett að vera þar bæði lögleg og siðleg.

Í millitíðinni hefði Paul Ramses getað verið hlíft við þeim “hreinsunum” sem nú standa yfir á Ítalíu gagnvart “ólöglegum innflytjendum” í stað þess að vera sendur beint í þann úfna faðm. Honum hefði einnig getað verið bjargað frá nöturlegum hælisleitendabúðum sem hafa verið harðlega gagnrýndar fyrir slæman aðbúnað.

Vonandi verður mömmu og syni ekki vísað lengra í burtu en á fæðingarstaðinn við Hringbraut og faðirinn kallaður aftur heim til lendingar. Það er jú hægt að halda því fram með einhverjum rökum að það hafi verið við Hringbraut sem fjölskyldan unga leit dagsins ljós og “lenti beint” á Íslandi. Mannúð millilendir ekki, og fjölskylda er fjölskylda.

Birtist í Morgunblaðinu 5. júlí 2008.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband