Sunnudagur, 19. nóvember 2006
Jólabókin í ár!
Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég vaknaði í morgun. Þykkur snjór yfir öllu. Fullkomin afsökun til að vera bara heima í notalegheitum og lesa bók... Og hvaða bók er þá betri heldur en einmitt Við öll eftir Steingrím J. Sigfússon? Bókin var að koma út og ég er bara rétt nýbyrjuð að lesa en mér líst mjög vel á. Þegar ég er búin með bókina mun ég skrifa meira um hana en hér til að byrja með eru nokkrar vel valdar tilvitnanir:
"Það er bjargföst sannfæring mín að fáar aðrar þjóðir eigi jafn stórkostlega möguleika til að byggja upp og þróa farsælt, sjálfbært velferðarsamfélag og Íslendingar. Við erum ung og vel menntuð þjóð og höfum fengið til búsetu og varðveislu stórkostlegt land ríkt af auðlindum og möguleikum." Heyr, heyr!
ARFUR ELDRI KYNSLÓÐA - OG ÞAKKLÆTI OKKAR HINNA :Þó sjálfstæði þjóðarinnar hafi án efa nýst henni vel og við séum gæfusöm að búa í stóru og gjöfulu landi þurfti fleira til. Eldhugur, óbilandi dugnaður og bjartsýni aldamótakynslóðarinnar, fólksins sem vann að uppbyggingu íslensks samfélags á 20. öldinni, er einn stærsti þátturinn þegar leitað er skýringa á velgengni landsmanna. Kynni mín af því fólki sem varði starfsævi sinni á síðusu öld, 20. öldinni, til að byggja upp landið hafa sannfært mig um að þar fór óvenju vinnusöm kynslóð sem gerði miklar kröfur til sjálfrar sín og miklu fremur en til annarra. Fólk var á þessum tíma almennt vel meðvitað um það mikilvæga hlutverk sem það hafði með höndum. Verkefnið var að koma fótum undir sjálfstætt velmegunar- og menningarsamfélag í landinu. Hitt er svo annað mál hvort aðbúnaður og kjör aldraðra í dag endurspegli skilning og þakklæti fyrir það framlag. Dæmi hver fyrir sig.
KYNBUNDINN LAUNAMUNUR: Önnur hroðaleg meinsemd á íslenskum vinnumarkaði er kynbundinn launamunur. Flestar kannanir benda til að hreinn kynbundinn launamunur sé í það minnsta 15-16% hér á landi og fari síst minnkandi síðastliðin 10 ár. Heildarlaun kvenna eru aðeins um 2/3 af heildarlaunum karla og staðan óþolandi hvernig sem á málið er litið.
FÁTÆKT: Fátækt er ekki einskorðuð við hópa sem oftast eru nefndir til sögunnar, svo sem einstæða foreldra, öryrkja, aldraða, atvinnulausa, innflytjendur eða fólk sem hefur leiðst út í óreglu. Aldeilis ekki. Fátækt er staðreynd meðal fjölskyldna venjulegra fullvinnandi launamanna og skyldi engan undra eins og lægstu launum er hér háttað og í ljósi vaxandi skattbyrði láglaunafólks í ofanálag.
SAMFÉLAGSLAUN: Það þarf að innleiða nýja hugsun og nýja hugtakanotkun þegar við tölum um málefni aldraðra, atvinnulausra, öryrkja eða annarra hópa sem á ákveðnu æviskeiði eða vegna áfalla eða fötlunar njóta stuðnings frá samfélaginu. Forðast bera alla aðgreiningu. Við erum eitt samfélag, ein samábyrg fjölskylda, ein þjóð í stóra þjóðahafinu. Við skulum temja okkur að tala um samfélagslaun í stað bóta. Samfélagslaun þurfa að taka mið af vandaðri lífskjarakönnun og vera í samhengi við raunverulegan framfærslukostnað þannig að upphæðir þeirrs séu hafnar yfir hvundagsþrætur stjórnmálanna.
UMHVERFI: Það eru umhverfismálin sem langsamlega mestu skipta fyrir framtíðina, fyrir velferð mannkyns á komandi áratugum og öldum og fyrir sjálfa framvindu lífsins hér á jörðinni...
Því er eins farið með umhverfismálin og jafnréttisbaráttuna að menn verða að þora að stíga skrefið til fulls. Slík barátta er róttæk í eðli sínu. Hún krefst grundvallarbreytinga eigi að nást raunverulegur árangur. Umhverfishyggja sem er aðeins í nösum manna og til hátíðarbrúks á tyllidögum, sem ekki þorir að setja markaðs- og fjármagnsöflunum skorður, verður alltaf bitlaus að lokum. Rétt eins og jafnréttisbarátta kynjanna sem ekki þorir að segja forréttindum og yfirgangi karla gagnvart konum í feðraveldinu stríð á hendur, ekki þorir að vera femínisk, raunveruleg kvenfrelsisbarátta. Það að setja umhverfismálin í öndvegi, að forgangsraða í þeirra þágu, þýðir að menn viðurkenna að ekki er alltaf hægt bæði að sleppa og halda. Þó það sé lífseig og vinsæl klisja að verndun og nýting fara saman þá er það auðvitað ekki alltaf svo. Stundum verður einfaldlega að velja á milli verndunar eða eyðileggingar og það er þá sem á reynir.
Ég mæli með því að Við öll verði Jólabókin í ár. Ákall um vakningu!
Falleg kápa bókarinnar er einmitt eftir meðframbjóðanda minn Mireyu Samper og með fylgir listrænt bókamerki hennar líka. Já, það er ekki af frambjóðendum VG skafið!
Athugasemdir
Takk min kæra, ég er buin að setja þessi fallegu orð þín inn á bloggið mitt, þú ert flott!! Mireya
mireya Samper (IP-tala skráð) 19.11.2006 kl. 17:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.