Reykás handa hræddri þjóð

Ragnar Reykás segir alltaf það sem fólk vill heyra.

Hann byrjar öll viðtöl á hástemmdum yfirlýsingum um ígrundaðar skoðanir sínar á líðandi stund. Fimm mínútum seinna er hann svo kominn á öndverða skoðun og talar jafnstoltur og sannfærður og áður. Korteri seinna er hann kominn annan hring.

Einn daginn er Reykás á móti álverum, næsta dag fylgjandi. Einn daginn er Reykás á móti einkavæðingu, næsta dag fylgjandi. Einn daginn er Reykás höfuðandstæðingur, næsta dag besti vinur. Einn daginn talar Reykás fyrir umönnunarstéttum, næsta dag fyrir auðjöfrum.

"Ég vil vernda Þjórsá!" hrópar Reykás. Svo tekur hann glaðbeittur skóflustungur og skrifar undir samninga. "Ég berst gegn spillingu!" hrópar Reykás. Svo ræður hann vini og flokksbræður í öll störf og nefndir. "Ég er á móti eftirlaunafrumvörpum!" hrópar Reykás. Svo byrjar hann að skjálfa. "Ég er á móti hrefnuveiðum!" hrópar Reykás. Svo halda veiðarnar áfram. "Ég vil rannsókn" hrópar Reykás og allt ætlar um koll að keyra. "Hvílíkt hugrekki! Hann talar! Og það með stóra bróður við hlið sér!" Svo verður engin rannsókn. "Ég er friðarsinni" hrópar Reykás. Svo býr hann til varnarmálastofnun þar sem millljarðarnir flæða. Það eru víst þannig útgjöld sem mest þarf á að halda í kreppunni.

Það er þó eitt mál þar sem Reykás sýnir staðfestu: Hann vill ganga í Evrópusambandið.

Og þó. Ekki einu sinni þar er hann allur þar sem hann er séður. Fyrir kosningar gleymist allt í einu að setja aðild að ESB á dagskrá. Málinu er snyrtilega ýtt til hliðar og vart á það minnst þegar það er ekki alveg í tísku. Best að herma frekar eftir hinum: Lofa kraftaverkum í velferðarmálum, stóriðjuhléi, stöðugleika í efnahag, barnvænu samfélagi, félagshyggju.

"Nei, nei, nei, nei, nei! Þetta er ekki einkavæðing! Þetta er ekki einkavæðing!" hrópar Reykás á hverjum degi á meðan glimrandi samvinna tekst með stóra bróður um að gera gallað heilbrigðiskerfi enn verra fyrir þorra almennings en betra fyrir þá sem vilja græða.

En enn er von: Þótt Reykás sé áhrifagjarn og agnarsmár, og röddin sé margfalt skrækari, háværari og ákveðnari en innistæða er fyrir, þá hefur hann vissulega tiltekna kosti. Það er hægt að treysta þvi að hann sé alltaf tækifærissinnaður, alltaf teygjanlegur og sveigjanlegur í verki þótt orðin segi annað. Með betri félagsskap gæti hann því hugsanlega gert ágæta hluti og snúið í allt annan hring.

Ragnar Reykás mun án efa fjölmenna á tónleikana í Laugardalnum í dag til verndar náttúru Íslands. Hann mun slá um sig og klappa og kinka kolli til viðstaddra og brosa og jafnvel hrópa húrrahróp á réttum stöðum þótt líklega skilji hann samviskuna eftir heima.

Á mánudag mætir hann svo glaðbeittur í vinnuna og skrifar upp á fleiri virkjanir og álver.

Ragnar Reykás: Stjórnmálaafl handa hræddri þjóð.

Birtist í Morgunblaðinu 28. júní 2008.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Gott að fá kraftmikla pistla frá þér Lilja. Ragnar Reykás er í Samfylkingunni (og heitir Össur, Björgvin...)

Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 29.6.2008 kl. 17:57

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mjög beitt og flott greining og leynir sér ekki hver er Reykásinn.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 29.6.2008 kl. 18:34

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hólmdís Hjartardóttir, 29.6.2008 kl. 19:45

4 identicon

Gott að fá þig aftur vinkona :) allt of langt síðan ég hef séð þig, knús til ykkar - kær kv. alma

alma (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 20:22

5 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

:)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 29.6.2008 kl. 20:35

6 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Þetta er listilega góð greining á SF. Fagra Ísland sökk við bryggjuna daginn eftir kosningar. Álverin voru "í pípunum" svo SF getur ekkert gert. Og í raun hefur SF svikið hvert einasta kosningaloforð sitt. Bestu kveðjur til þín og þinna.

Sigurður Sveinsson, 29.6.2008 kl. 22:55

7 identicon

Já, aðal-Reykásinn var helvíti ódýr. Orkuútrásarvíkingarnir þurftu ekki að bjóða honum í nema eins og tvær utanlandsferðir til að heilaþvo hann.

Ellert Grétarsson (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 23:12

8 Smámynd: arnar valgeirsson

glæsilegur pistill.

eins og einhverjir sögðu: maður veit þó hvar maður hefur sjallana. en ómögulegt að spá um samfó. ómögulegt sko...

arnar valgeirsson, 29.6.2008 kl. 23:44

9 identicon

Hehe..

Frábært blogg.

Merkilegt hvað margir verða litlir þegar á reynir.

Hinn upprunalegi Reykás er þó bara stuttur á fótinn 

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 00:09

10 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Frábær grein, sá hana í Mogga og klippti út.

Takk.

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.6.2008 kl. 02:20

11 Smámynd: Sigurjón

Góður pistill og sannur.  Eins gott að Hlynur útskýrði hver persónugervingurinn Ragnar er.  Við heimska fólkið hefðum annars aldrei fattað það.

Bara innskot: Ragnar hét upphaflega Reykhás hjá þeim Spaugstofumönnum... 

Sigurjón, 30.6.2008 kl. 05:33

12 Smámynd: Ólafur fannberg

hehehe

Ólafur fannberg, 30.6.2008 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband