Ísinn brotinn

Jæja. Þá er Íslandsmóti kvenna í skák 2006 loksins lokið og ég get farið að skrifa hér á síðuna - ekki seinna vænna!

Ég hafði hugsað mér að sleppa Íslandsmótinu í ár og einbeita mér að öðrum verkefnum, en þegar á reyndi fann ég að ég hreinlega gat það ekki. Það fylgir því ábyrgð að vera skákkona á Íslandi - við erum nefnilega alltof fáar! Við hinar eldri verðum sem mest við megum að gefa þeim yngri tækifæri til að tefla við okkur á móti sem þessu og sannreyna sig í landsliðshópnum. Það kom enda upp úr dúrnum að unga kynslóðin sló í gegn á mótinu og það eru gleðilegar fréttir.

En fyrst vil ég byrja á því að óska eina kvennastórmeistara okkar Íslendinga, Lenku Ptacnikovu, innilega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn. Lenka er frábær skákkona og afgerandi fyrirmynd ungra íslenskra stúlkna sem eru að tefla. Hún er líka gott dæmi um þann jákvæða kraft sem innflytjendur koma með hingað til lands. Í kvennaskákinni hefur koma Lenku haft mikil áhrif. Hún ber með sér allt annan þjálfunar- og kennslubakgrunn í skák en við Íslendingar eigum að venjast og sjálfsagi hennar og samviskusemi er aðdáunarverð. Hún gefur mikið af sér og er ómetanlegur liðsmaður í íslenska kvennalandsliðinu. Til hamingju Lenka! 

Ég verð líka að fá að óska ungu stúlkunum í mótinu til hamingju með glæsilegan árangur. Það er firnasterk kynslóð ungra stúlkna að koma upp í skákinni sem á án efa eftir að velta okkur hinum eldri af stalli fyrr en varir. Sérstakar hamingjuóskir fær hin 13 ára gamla Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir sem tefldi af miklu öryggi allt mótið og var lengst af í 2. sæti - þar til rétt í síðustu umferð að ég náði að skjótast upp fyrir hana. Frábær árangur hjá þessari ungu skákkonu og vonandi að hún, sem og allar hinar í hópnum þær Elsa María, Tinna Kristín, Jóhanna og Sigríður Björg, haldi áfram á þessari braut. Ég óska þeim öllum alls hins besta í framtíðinni og vona að þær fari að velta okkur gömlu kempunum allrækilega úr sessi. Ef þær fá áfram að njóta handleiðslu Lenku og annarra góðra meistara verður þess ekki langt að bíða.

Nú er baráttan á skákborðinu að baki í bili en önnur stærri bíður: sú sem nær lokaáfanga sínum 12. maí næstkomandi. Ég er full eftirvæntingar að vera nú búin að kasta mér út í þá baráttu og afar ánægð að sjá þann fjölbreytta og góða hóp frambjóðenda sem nú gefur kost á sér fyrir VG í Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi.

Ég vona að sem flestir taki eftir því hvernig VG stendur að prófkjörsmálum á annan hátt en aðrir flokkar. Hjá okkur er það ekki fjármagn eða sölumennska sem ræður för, enda hlýtur það að teljast mjög varhugavert ef stjórnmálamenn standa í þakkarskuld (eða annars konar skuld) við tiltekin fyrirtæki eða styrktaraðila. Í anda VG er það málefnastaðan sem er lykillinn að góðu forvali. Tíminn framundan verður vonandi gefandi reynsla fyrir okkur öll sem í forvalinu stöndum - sem og þau sem kjósa!

Við frambjóðendurnir þrjátíu (já, þrjátíu!) vorum í dag á sameiginlegum forvalsfundi í Kópavogi þar sem við kynntum okkar sjónarmið og áherslur. Það var skemmtileg stemmning í hópnum og ég hlakka til að taka þátt í þeim verkefnum sem framundan eru með þessari vösku sveit.

Ég hreinlega trúi ekki öðru en að VG vinni stórsigur í kosningunum í vor. Íslensk náttúra og íslenskt velferðarsamfélag þarf nauðsynlega á því að halda.

P.S. Ég lét svo lítið að reyna að setja hér á síðuna auglýsingu fyrir fundinn í dag, en vegna fullkominnar vankunnáttu í tæknilegum hliðum þessarar síðu virðist það hafa mistekist herfilega (tæknileg mistök liggja víða...). Allavega, þið sem misstuð af fundinum í dag: það verður annar sameiginlegur fundur fljótlega \u0013 komið og hittið okkur!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband