Mánudagur, 6. nóvember 2006
Hvers vegna?
Hvers vegna býð ég mig fram?
Svarið er einfalt: Mér er svo heitt í hamsi að ég get ekki á mér setið. Það er verið að ráðast á landið okkar - bókstaflega - og grafa undan því fallegasta sem við Íslendingar höfum fengið í arf.
Stórbrotin náttúra og samfélag þar sem allir standa jafnir ættu með réttu að vera lifandi leiðarljós okkar inn í framtíðina: leiðarljós sem ekkert fær hnikað. Þess í stað er þessum hugsjónum kastað á bálköst græðgi og neysluhyggju í æ ríkari mæli: misskiptingin og óréttlætið æðir áfram með ógnarhraða og náttúrugæðin skerðast í sama takti.
Á slíkum tímum er það er skylda okkar allra að taka afstöðu, láta í okkur heyra, beita okkur fyrir breytingum og bættu samfélagi. Taka skrefið til fulls.
Þótt mér sé heitt í hamsi er ég bjartsýn á framtíðina. Við Íslendingar höfum alla burði til að byggja hér upp gott samfélag þar sem við verndum landið og virkjum okkur sjálf til góðra verka. Við erum framsækin, sveigjanleg og kraftmikil þjóð og við njótum þeirra forréttinda að vera fámenn. Við getum því auðveldlega sameinast þegar mikið liggur við og unnið lítil kraftaverk ef því er að skipta. Nú liggur mikið við og við megum ekki bregðast.
Umhverfismál hafi aldrei átt jafn brýnt erindi í íslensku samfélagi og nú. Framtíð íslenskrar náttúru veltur á kosningunum í vor. Við sem viljum setja umhverfismál í öndvegi höfum aðeins einn skýran valkost í komandi kosningum: Vinstrihreyfinguna - grænt framboð sem stóð vaktina á meðan aðrir brugðust, og bregðast enn. Næstu fjögur ár munu skipta sköpum í baráttunni fyrir vernd og viðhaldi íslenskra náttúrugersema og mótun ábyrgrar umhverfisstefnu Íslendinga á alþjóðlegum vettvangi. Ég vil leggja mig alla fram við að taka þátt í því mikilvæga starfi.
Auk umbóta í umhverfismálum þurfum við framsækna stefnu í menntamálum og jafnréttismálum og við þurfum að treysta undirstöður velferðarkerfisins í samfélagi þar sem sívaxandi misskipting og sinnuleysi viðgengst. Þá þurfum við að taka rækilega til í innflytjendamálum og breyta þar vörn í sókn. Við þurfum að stöðva gettóvæðingu, jöðrun og mismunun gagnvart fólki af erlendum uppruna og tryggja virka þátttöku þeirra á jafnréttisgrundvelli í samfélagi okkar allra.
Skýrt gildismat er forsenda góðra verka. Ég vil beita mér fyrir hugarfarsbreytingu í samfélaginu þar sem virðing, samábyrgð og sálarheill eru í forgrunni - og þar sem allir skipta máli.
Ég gef kost á mér í 2. sæti í sameiginlegu forvali Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi sem fram fer 2. desember nk.
Þetta er mín fyrsta bloggfærsla! Á næstu dögum mun ég halda áfram að þróa þessa síðu og deila afstöðu minni til lífsins og sýn á samfélagsmál með öllum þeim sem lesa vilja...
Að lokum þetta: Til hamingju skákjöfur Hrafn Jökulsson með enn eitt þrekvirkið! Hrafn sat við í 34 tíma í Kringlunni um helgina og tefldi 250 skákir til styrktar barnastarfi Hróksins á Grænlandi. Það var magnað að fylgjast með Hrafni eflast við hverja raun og máta hvern andstæðinginn á fætum öðrum í þágu nágranna okkar á Grænlandi. Þið getið skoðað eina af glæsilegri skákum maraþonsins hér.
Hamingjuóskir líka til Hrundar Hauksdóttur sem um helgina sigraði B-flokk Íslandsmóts kvenna og tryggði sér þar með sæti í A-flokki Íslandsmótsins að ári - aðeins 10 ára að aldri! Ég gerðist sjálf svo glæfraleg að vera með í A-flokki og er nýkomin frá viðureign minni við Elsu Maríu Þorfinnsdóttur, sem er ein af efnilegustu skákstúlkum landsins. Mér tókst að vinna og er því altént komin á blað eftir fyrstu umferð. Þið getið lesið meira um Íslandsmót kvenna í skák 2006 hér.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.