Þriðjudagur, 18. desember 2007
Uppskipting Landsvirkjunar: fyrsta skref til einkavæðingar?
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs telur alvarlegar spurningar vakna við þær fréttir að nú eigi að kljúfa Landsvirkjun í tvö fyrirtæki, annars vegar Landsvirkjun og hins vegar Landsvirkjun Power ehf. Með þessu sé verið að búa til tvo forstjórastóla í stað eins og færa hluta af umsvifum fyrirtækisins, ákvarðanir og verkefni, fjær eigendum, þ.e.a.s. almenningi. Aðhald og eftirlit kjörinna fulltrúa virðist með þessu verða takmarkað enn frekar en áður jafnvel þótt í hlut eigi einokunarrisi íslensks orkumarkaðar í 100% eigu almennings. Er þó svo illa komið nú þegar að fjármálaráðherra skipar einn stjórn Landsvirkjunar í stað þess að hún sé þingkjörin og komi frá sveitafélögum eins og áður var.
Við þessar breytingar mun upplýsingagjöf ehf.-hluta fyrirtækisins væntanlega skerðast og viðbúið er að reynt verði að undanþiggja þann hluta starfseminnar ákvæðum upplýsingalaga og stjórnsýslulaga. Einnig hefur þetta áhrif á réttarstöðu starfsmanna. Með LV Power ehf. virðist ekki í reynd verið að afmarka áhættuna heldur þvert á móti blanda saman verkefnum innan lands og erlendis með tilheyrandi áhættu. 8 milljarða heimanmundur, frá fyrirtæki með ríkisábyrgð á öllum sínum lánum, er settur inn í lokað fyrirtæki sem á að vera í áhætturekstri en hefur um leið með höndum alla rannsóknavinnu, undirbúning og umsjón með framkvæmdum hérlendis.
Það er athyglisvert að þessum gjörningi er hampað sem hluta af og beinlínis vísað til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Það helsta sem þar kemur fram varðandi orkumál er eftirfarandi:
Tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja.
Ber að túlka þetta svo að til standi að hleypa einkafjármagninu inn í framkvæmdir hér innan lands einnig, þar eð LV Power virðist jöfnum höndum eiga að annast verkefni hérlendis og erlendis?
Þingflokkur VG varar sterklega við þessum áformum og fer fram á frekari útskýringar á málinu, bendir á að lagaumhverfi orkufyrirtækjanna kunni að taka breytingum á næstu misserum, spyr hvort það sé tilviljun að þessi áform eru kynnt um leið og Alþingi hefur lokið störfum fyrir jól og minnir á að til þess eru vítin að varast þau, sbr. OR/REI/GGE málið.
Athugasemdir
Tel það augljóst að einkavæða eigi Landsvirkjun!...vil þess vegna koma því skýrt á framfæri sem fyrst að ég vil gjarna kaupa hlut á sömu kjörum og Bjarni Ármannsson ætlaði í Orkuveitunni! Landsvirkjun er olíulind og ég vil hlut í einkavæðingunni
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 18.12.2007 kl. 13:52
Því hefur verið lýst yfir að markmiðið með þessari breytingu sé að draga úr áhættu LV og þá væntanlega ríkisins. Fyrsta verkefni stjórnarandstöðunnar varðandi þetta mál er að fá upp á yfirborðið hvort nýja fyrirtækið eigi að njóta ríkisábyrgðar, því ef svo er er augljóst að það er ósatt að verið sé að draga úr áhættu!
Það sem ég á við er þetta: Þetta mál má ekki tækla með því að veifa bara einkavæðingargrýlunni og lyppast svo niður í kjölfarið. Það þarf aðra nálgun sem snýst um gagnrýni út frá viðskiptalegum forsendum.
Þorsteinn Siglaugsson, 18.12.2007 kl. 16:55
Getur verið að þetta nýja útspil Landsvirkjunar sé eitthvað á vegum ítlaska fyrirtækisins Imprégíló og um sé að vera einhvern lið í uppgjörsmálum þessara aðila?
Nú er þekkt í viðskiptum að stofnað er til dótturfyrirtækja oftast í „hagræðingarskyni“. Þá er hagnaður, skuldir, tekjur og eignir millifært fram og aftur milli aðila, allt eftir því hvernig skattyfirvöld líta augum sínum á silfrið. Ef dótturfyrirtæki er í skattaparadís, getur verið ákaflega hagstætt að beina hagnaðinum og eignunum þangað sem skattur er hvað lægstur, helst enginn. Af stað fer mikil pappírsvinna þar sem faktúrur fyrir hinu og þessu eru búnar til að villa fyrir skatteftirliti. Skuldir og skuldbindingar eru sendar til þess lands þar sem skattumhverfið er einna lakast.
Við Íslendingar verðum að gæta að því, að lagaumhverfi kringum svona starfsemi er ákaflega frumstætt hér á landi og því tiltölulega auðvelt fyrir bíræfna athafnamenn að komast upp með nánast hvað sem er!
Meira að segja íslenskir stjórnmálamenn hafa gumað sig af því að við erum ekki í Efnahagsbandalagi Evróp, en ef svo væri, væru mörg lagaákvæði hér gildandi réttur sem tekur virkilega á þessum málum. „Við tökum ekki við tilskipunum frá Bruxelles“ er haft eftir Páli Péturssyni á Höllustöðum og fannst honum sjálfsagt að svo væri!!
Með bestu kveðjum
Guðjón Sigþór Jensson, 19.12.2007 kl. 21:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.