Alvöru bangsi og þingsköp

"Það sem er allra, allra best", sagði Bangsímon,

en svo þagnaði hann snögglega. Af því að hann fattaði um leið og hann byrjaði að segja þetta að jafnvel þótt að það að borða hunang væri það allra besta í heimi, þá væri eitt sem væri enn betra: andartakið áður en hann byrjaði að fá sér. En hann vissi ekki hvað það hét svo hann kláraði ekki setninguna.

"Árnar vita þetta: við getum andað róleg, við komumst á leiðarenda að lokum."

Bangsímon er snillingur, eins og ég hef sagt áður. Huggar harma og hreinsar pirring.

Ég er einmitt mjög pirruð yfir fádæma vinnubrögðum og yfirgangi við boðaðar breytingar á þingskaparlögum. Hvílík verslun sem hér hefur verið viðhöfð - og VG oftar sem áður þau einu sem standa í lappirnar.

Meirihlutinn traðkar á öllum tillögum (eða réttara sagt lítur ekki á þær, hefur ekki áhuga) þess flokks sem ég staðhæfi að hafa unnið heimavinnuna sína langtum betur en aðrir í þessum efnum - og hefur það að einbeittu markmiði sínu að vilja styrkja þingræðið í landinu.

Við viljum breyta Alþingi úr stimplana- og færibandaverksmiðju ríkisstjórnarinnar yfir í vandaða, sjálfstæða, alvöru löggjafarsamkundu. Hvort haldið þið að meirihluti landslaga komi frá þingi eða embættismanna- og valdakerfi ráðuneyta? Duglegir stjórnarandstöðuþingmenn leggja nótt við dag en hafa ekki undan við að taka á móti flóðbylgju frumvarpa sem eru keyrð í gegnum þingið á engum tíma.

Meirihlutinn stóri sem ann lýðræðinu svo mjög má ekki vera að því að hlusta - hann er of upptekinn við að keyra í gegn heftingu á málfrelsi lítillar stjórnarandstöu og stinga snuðum upp í þá sem það þiggja. Þetta er víst allt gert í nafni lýðræðisins.

Cut the crap hefði Bangsímon kannski sagt á móðurmálinu. Alvöru bangsi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Svo heimta ég að fá "Mr Smith Goes To Washington" sýnda í Sjónvarpinu á besta tíma einhvern tímann á næstunni.

Elías Halldór Ágústsson, 30.11.2007 kl. 02:11

2 identicon

Það er gott að þú ert pirruð. Ég er líka pirraður, ég sendi öllum þingmönnum þessa háheilaga þingfloggs VG og einhverjum varaþingmönnum tölvupóst á dögunum.

Svo undarlegt sem það er með þessa mannvini, talsmenn lýðræðis og vinnusem þingmanna, að ekki einn einasti hefur séð ástæðu til að svar þeim póst. Er slíkt þó talin kurteysi hjá siðuðu fólki. Það er ljóst að það er ekki bara meirihlutinn stóri sem ekki hefur tíma til að hlusta.

Það bakar mér mikil vonbrigði að ekki einu sinni þú skulir hafa manndóm í þér til að svara erindum sem þér berast. Eins vel gerð kona og Þú annars ert.

Guðmundur Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 02:24

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Guðfríður Lilja, þú segir...

"Við viljum breyta Alþingi úr stimplana- og færibandaverksmiðju ríkisstjórnarinnar yfir í vandaða, sjálfstæða, alvöru löggjafarsamkundu. "

Við, íbúar þessa lands stöndum í þeirri trú að nákvæmlega svona sé Alþingi...þ.e., vönduð, sjálfstæð, alvöru löggjafarsamkunda?

Þannig var til hennar stofnað og í þannig þankagangi liggur stolt okkar? 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.11.2007 kl. 02:52

4 identicon

Það er nokkuð til í því að framkvæmdavaldið "notar" löggjafarvaldið sem stimpil. Þetta hefur verið áhyggjuefni allt frá doddsonárunum. Ákvörðun Davíðs og Halldórs varðandi Írakstríðið er einstæð og ótrúlegt að skulu vera lögleg. Meir að segja Dagný Jónsdóttir fullyrti að hún yrði að taka ákvörðun þingflokks framfyrir stjórnarskrárlega skoðunarrétt þingmanna. Með þetta allt í huga verð ég hlynntari því að ráðherrar séu ekki jafnframt hluti af löggjafarvaldinu þ.e. fyrir þá er kallaður inn varamaður.

En það er engin ástæða fyrir þingmann að vera pirraður. Steingrímur foringi þinn sagði í umræðum í gær að Alþingi sé ekki sunnudagsskóli. Mér finnst reyndar merkilegt að Vg standa einir gegn þessum breytingum. Þar með er hér aukinn meirihluti fyrir leikreglum Alþingis og ná því í gegn. Ef stjórnarandstaðan hefði öll staðið staðföst á móti þá hefði þetta ekki verið keyrt í gegn. Til eru dæmi um það.

Annars hélt ég að þú hefðir skrifað um annan bangsa. Um kennslukonuna sem var dæmd í fangelsi vegna nafns á bangsa. Sjá heimasíðu mína.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 09:38

5 identicon

Heil og sæl öll! Takk fyrir athugasemdirnar. Ég hef það fyrir (ó)sið að svara ekki athugasemdum hér a blogginu og ástæðan er einföld: ég hef einfaldlega ekki tíma til þess, því miður, og kemst ekki yfir nærri því allt sem mig mundi langa til að gera. Mér finnst það leiðinlegt og mundi mjög gjarnan vilja svara öllu sem hér kemur fram, en eins og svo ótal margir í þessu samfélagi er ég pínulítið að drukkna í verkefnum og hlaupum og eitt af því sem ég ákvað til að geta komist yfir sem flest var að svara ekki athugasemdum á blogginu... því að þá væri ég í fullri vinnu við það! Þetta er ekki af vanvirðingu við fólk sem skrifar hér, ég les allar athugasemdir af áhuga og finnst þar oft koma þarfar og góðar ábendingar fram - stundum sem ég er hjartanlega ósammála og stundum sem ég er sammála og stundum mitt á milli. Jafnvel þótt það sé leiðinlegt að svara ekki athugasemdum þá ætla ég samt að halda áfram að blogga í bili - en reyndar hef ég oft hugsað hvort ég eigi ekki bara að hætta því...

Guðmundur: mér þykir leitt að hafa ekki enn svarað tölvupóstinum þínum sem þú sendir ef ég man rétt á þriðjudag eða miðvikudag. Ég lofa þér að þú færð svar fljótlega. Þetta hefur einfaldlega farist fyrir og ég bið þig afsökunar á því.

Já mér datt nú reyndar bangsinn Múhameð í hug Gísli þegar hugurinn leitað til Bangsímons... Auðvitað átti öll stjórnarandstaðan að standa á móti þessu,  og þetta frumvarp til breytinga á þingsköpum er stórundarlegt plagg ef maður skoðar það vel. Allt í einu spretta upp langar útlistanir og hlutir í greinargerð sem hafa nákvæmlega ekkert með lagabreytinguna að gera, heldur eru einhvers konar loforð til stjórnarandstöðunnar um að hún fái nú eitthvað fyrir sinn snúð. Það á ekki að versla með þingsköp! Hvað þá styrkingu lýðræðisins! Hvað varðar þína spurningu Anna þá er staðreyndin sú að það þarf að gera mikla meira til að styrkja Alþingi sem sterka og sjálfstæða löggjafasamkundu. Þar er margt frábært og gott fólk, og oft finnst mér alltof illa talað um einstaklinga í stjórnmálum, ýmsir leggja sig fram og vinna mjög langa vinnudaga í þeirri von að gera gott af heilum hug. En kerfið er allt rammskakkt. Það er alltof mikið um það að stór og viðamikil stjórnarfrumvörp sem fæðast og eru alin upp innan ráðuneytanna, embættismannakerfi framkvæmdavaldsins, þeysast í gegnum þingið á einni nóttu, á meðan mál sem brenna á þingmönnum og þeir vilja vinna að daga uppi. Framkvæmdavaldið hefur alltof mikið um það að segja hvaða starf fer fram á Alþingi - en í raun ætti þetta að vera öfugt.

Guðfríður Lilja (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 10:25

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk fyrir þetta Lilja.  Tek undir að allt of illa sé talað um stjórnmálamenn oft á tíðum.  Umræðan á að vera á málefnalegum nótum.  En á móti má svo segja að ekki allir þingmenn séu málefnalegir...alltaf.

Mér finnst alltaf meira og meira til alþingis koma eftir að það var sjónvarpað beint. Horfi oft á það og hef gaman af. 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.11.2007 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband