Þar sem er þrjóska þar er von

Fólkið er þarna ennþá, en þjóðin er horfin. Það gerðist á síðustu 15 árum. Hún var keypt. Bara neysla.

Þetta segir finnski kvikmyndaleikstjórinni Aki Kaurismaki þegar hann er spurður af Lárusi Ými Óskarssyni í Lesbók Morgunblaðsins í dag hvað honum finnist um Finnland.

Ef Íslendingar væru nógu hreinskilnir og ekki jafn uppteknir af því að sýna fram á góða ímynd útávið (og græða á henni) þá mundu þeir kannski svara einhverju þessu líkt um Ísland í erlendu dagblaði. Þjóð sem getur ekki einu sinni druslast til að standa vörð um eigin náttúruperlur, hún er horfin - gæti til dæmis einhver sagt í erlendu dagblaði. Íslensk nútímamenning kristallast í skrílslátum allar helgar og trylltri áfengissýki sem fer harðnandi og snertir hverja fjölskyldu - gæti einhver annar sagt.

En þetta segir enginn Íslendingur í erlendu dagblaði. Best að láta alla halda áfram að við séum miklu betri en við erum. Þjórsá er falleg í túristabæklingi en í raun er henni best komið undir lón. Handritin eru fín í túristabæklingi en í raun eru þau ólesin. 

Einn daginn verður litið til baka og kynslóðir líta á eyðileggingu náttúrunnar með svipuðum hætti og við í dag mundum líta fólk sem færi brennandi eldi um Stofnun Árna Magnússonar og handritin.

Við höfum ekkert í Finnlandi nema þrjósku,

segir Kaurismaki á öðrum stað í viðtalinu.

Oft hefur verið sagt að Íslendingar og Finnar séu um margt líkir. Og þá eygjum við von.

Af því að þar sem er þrjóska, þar er von.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Gríðarleg niðursveifla varð í finnsku efnahagslífi við fall kommúnismans í Sovétríkjunum. Finnar höfðu lagt of mörg egg í Sovétkörfuna, viðskipti þeirra við grannann í austri var stórt hlutfall í viðskiptum þeirra. Þeir þurftu því að byggja sig upp á nýtt hvað erlend viðskipti varðaði og það gerðu þeir með stæl og sumir tala um finnska efnahagsundrið. Afrakstur þess er m.a. betra og aðgengilegra mennta og heilbrigðiskerfi en þekkist t.d. í Svíþjóð. En af því árangurinn er afrakstur vel heppnaðs kapitalisma þá sjá þeir sem eru yst til vinstri í stjórnmálum ekkert nema dauða og djöful. Hlægileg tilvistarkreppa það! 

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.9.2007 kl. 14:40

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Við á Íslandi höfum oft verið einum 10 árum á eftir nágrannaþjóðunum á ýmsum sviðum. Ég óttast að það skeytingarleysi sem við sjáum í dag gagnvart umhverfi okkar, menningu og sögu hafi alls ekki náð hámarki enn. En því lengri sem þessi túr varir, því verri verða timburmennirnir.

Sigurður Hrellir, 22.9.2007 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband