Fyrsti kvenbæjarstjóri landsins

 

Nú eru liðin rétt 50 ár frá því að kona gegndi fyrst stöðu bæjarstjóra á Íslandi. Árið 1957 varð Hulda Dóra Jakobsdóttir fyrst íslenskra kvenna bæjarstjóri í Kópavogi, en á sinni tíð vann Hulda að stórmerkum og víðtækum framfaramálum fyrir bæinn sinn - og landið.

Í tilefni af þessu verður opnuð sýning í Bókasafni Kópavogs, Hamraborg 6a, í dag kl. 17 undir yfirskriftinni 4. júlí 1957 - 4. júlí 2007. Afhending jafnréttisviðurkenningar jafnréttisnefndar Kópavogs fer fram á sama tíma.  

Þessi orð eru höfð eftir Huldu í frásögn Gylfa Gröndal, Við byggðum nýjan bæ:

"Það er að vísu rétt að konur taka ekki mikinn þátt í opinberum málum og veldur þar auðvitað mestu, að mikill hluti kvenþjóðarinnar er bókstaflega bundinn í báða skó við heimilisannir og barnauppeldi. Á hinn bóginn er ég alveg viss um, að konur fylgjast ekki síður með því sem gerist á opinberum vettvangi heldur en karlmenn, þótt þær geri lítið af því að taka til máls á fundum, séu kannski ekki mikið fyrir að láta draga sig í pólitíska dilka. Og það er þó áreiðanlega víst, að í bæjar- og sveitastjórnarmálum fylgjast konur vel með og alveg sérstaklega hér í Kópavogshreppi. Það er áreiðanlega víst, að þær konur sem hafa búið hér svo lengi, að þær muna eftir því, þegar hér var sama sem veglaust, ekkert rafmagn, ekkert vatn, ekkert frárennsli, enginn skóli og yfirleitt ekkert það, sem talið er nokkurn veginn mannsæmandi skilyrði í nútímaþjóðfélagi, þær konur hafa sannarlega fylgst með því sem hér hefur gerst í hagsmunamálum íbúanna."

Það var skrítið að þegar ég var að leita að mynd af Huldu til að láta hér fylgja með þá kom ekki ein einasta mynd upp á veraldarvefnum - sem þarf nú að ráða bót á hið snarasta...? Hér er þó hægt að finna mynd af Huldu úr tímatali um ártöl og áfanga í sögu íslenskra kvenna...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í þessari ritgerð eru margar frábærar myndir af Huldu, og ekki skaðar að ritgerðin er mjög skemmtileg líka.

Gestur Svavarsson (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 17:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband