Þriðjudagur, 26. júní 2007
Landfylling lýðræðisins
Hetjur hversdagsins.
Ég var á nokkuð mögnuðum fundi í gærkvöldi. Þá var haldinn
kynningarfundur í Þjórsárveri þar sem kynntar voru tvær tillögur að
aðalskipulagi Flóahrepps.
Annars vegar var kynnt tillaga sem hreppsnefnd Flóahrepps samþykkti
13. júní sl. þar sem vatnsmesti foss landsins, Urriðafoss, rennur
vígur og reifur eins og hann hefur gert í aldanna rás.
Hins vegar var kynnt tillaga sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti
eftir að Landsvirkjun hafði tekið hreppsnefnd tali um daginn, lofað
vegi og bættu gsm-símasambandi á svæðinu, og viti menn, Urriðafoss
bara virkjaður sisvona skv. skipulagi nr. 2.
Lýðræðið er eins og hver önnur landfylling í augum sumra.
Ég var snortin að heyra hvern Flóamann á fætur öðrum tala af hugrekki,
skynsemi og einurð í gærkvöldi um þá svívirðilegu aðför að
náttúruperlum svæðisins sem með þessu er gerð. Það er ekki auðvelt að
standa upprétt gegn slíku ofríki en þarna er fólk að verja sveitina
sína.
Ætlar einhver að voga sér að kalla þau öfga-umhverfissinna? Reyna að
gera málflutning heimafólks ótrúverðugan, ótraustvekjandi, ómarktækan
með því að kasta í þau nokkrum vel völdum stimplum? Eru þau kannski
alltaf á móti öllu nema framförum?
Þetta eru venjulegir Íslendingar sem hafa nóg annað á sinni könnu, eru
í fullu starfi við að sjá fyrir heimilum sínum og börnum og sinna
störfum sínum. En í stað þess að geta gert það í friði eru þau á
fullri ferð við að verja landið sitt og hafa lengi þurft að standa í
stappi gegn yfirgangi. - Eitthvað sem við kjósum lýðræðislega kjörna
fulltrúa okkar til að gera í okkar umboði, en þeir bregðast trekk í
trekk og halda áfram á fullri ferð í stóriðjubrjálæðinu.
Er það ekki á könnu ríkisvaldsins að sjá til þess að vegir séu byggðir
fyrir fólkið í landinu? Til hvers eru skattpeningar? Eru þeir kannski
aðallega til að flottræflar geti farið í flottar ferðir erlendis á
kostnað venjulegs launafólks, ekki til að venjulegir Íslendingar geti
búið við sjálfsögð fjarskipti og samgöngur? Er jafnræði til búsetu
ekki ein af grundvallarstoðum samfélagsins - á að þurfa að borga fyrir
símasamband og samgöngur með fossum og flúðum, jörðum og sálu?
Mér var gróflega misboðið að hlusta á þær aðferðir sem notaðar hafa
verið í þessum málum - enn og aftur.
En leikur stjórnvalda er kunnuglegur: sveltum sveitafélögin, mismunum
fólki landsbyggðarinnar, neyðum þau á hnén þar til álver og
einkavæðing virðist eina lausnin, tryggjum að Landsvirkjun fái sínu fram ef hún reddar nokkrum hlutum sem ættu að vera sjálfsagðar almannaframkvæmdir ríkisvaldsins. Þvoum svo hendur okkar af öllu saman - "þetta hefur ekkert með okkur að gera, þetta er ekki á okkar könnu, þetta eru bara orkufyrirtækin, þetta er sveitastjórnarmál, landsbyggðin þarf á þessu að halda, það er kallað eftir þessu, þetta er ekki á okkar verksviði."
Ég bara vinn hérna. Ég fer bara með völd.
Þegar alls ekki er kallað eftir virkjunum, þegar heimamenn mótmæla og
vilja að landið þeirra sé látið í friði, þá er samt haldið linnulaust
áfram. Það skal virkjað.
Stórmennskan, sýnin og heiðarleikinn ríða ekki við einteyming. Ný
ríkisstjórn er verulega stórhuga, hreinlega allt öðruvísi en sú fyrri ekki satt. Einmitt.
Er það rétt reiknað hjá mér að 570 milljónir Bandaríkjadollara séu um
það bil 35-40 milljarðar íslenskra króna? Eða eru það bara 3,5-4 milljarðar?
Hver er flínkur í að telja núll og vita hvað rétt gengi er, kaup- og
söluverð?
Athugasemdir
Já þetta var magnaður fundir á mánudagskvöldið og af Fréttablaðinu að dæma í dag skilaði hann góðum árangri! Haft er eftur oddvita hreppsnefndar Aðalsteini Sveinssyni að "Líkur á virkjun hafa stórminnkað!
Valgerður Halldórsdóttir, 27.6.2007 kl. 13:41
Góð grein hjá þér. Ég var einmitt á þessum fundi því ég er Flóhreppingur
Held einmitt að eina vitið sé að bíða og sjá og gera aðalskipulag fyrir FLÓAHREPP
Rannveig Bjarnfinnsdóttir, 27.6.2007 kl. 14:16
æ ég ýtti óvart á vista. En það sem ég vildi segja var þetta: Það ætti að gera eitt aðalskipulag fyrir nýja hreppinn okkar (Flóahrepp) og því er eina vitið að bíða með þetta í dágóðan tíma.
Rannveig Bjarnfinnsdóttir, 27.6.2007 kl. 14:18
Þetta var árið 1950 og þá tíðkaðist að þéra fólk. Góður kunningi minn sem reið norðan úr Skagafirði á fyrsta Landsmót hestamanna á Þingvöllum sagði mér söguna.
Hvítur gæðingur í eigu konu hans hafði verið sýndur og vakið athygli áhorfenda. Þetta kvöld, er þau hjón voru sest að í tjaldi sínu við veitingar og í hópi góðkunningja, vatt sér inn maður og kynnti sig. þetta var þjóðkunnur umsvifamaður í verslun og fjármálum og erindið var að vita hvort hestur þessi væri ekki falur til kaups. Kona kunningja míns og eigandi hestsins varð fyrir svörum og sagði sem var að hesturinn væri ekki til sölu.
Maðurinn var ekki vanur því að viðskiptum við hann væri hafnað svo afdráttarlaust og nefndi nú upphæð sem fékk alla viðstadda til að svima. Þessi hjón voru ekki auðkýfingar og þarna voru boðnir þeir fjármunir sem hefðu getað breytt efnahag þeirra umtalsvert. En svar konunnar var afdráttarlaust: "Ef þér hafið efni á að eiga svona dýran hest þá hlýt ég að hafa það líka!" -"Og þá var ég stoltur af henni Ingibjörgu", sagði Pétur vinur minn og meinti það af einlægni.
Þessi saga kemur mér oft í hug þegar íslenskir pólitíkusar kikna undan boðum erlendra auðhringa og afhenda þeim dýr náttúruvætti. Engir garmar held ég að séu svo aumir að þeir þurfi að bera fyrir þeim nokkra "respekt".
Árni Gunnarsson, 27.6.2007 kl. 17:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.