Bumbult af sátt

 

Það hefur margt á daga drifið síðan ég skrifaði hér síðast. 

Það væri gaman að telja það allt upp, en það tæki margar blaðsíður svo best að byrja bara á einhverju litlu einhvers staðar af tilviljun. Tilviljun er magnað eðlisfræðilegt alheimsafl. 

Rétt fyrir kosningar var ég í kokteilboði og heyrði á tal tveggja manna. Það er nú gott að þessi umhverfisbóla er að líða hjá sagði annar. Já heldur betur sagði hinn. Og þetta með Írak er ekkert sem bítur sagði þá aftur sami annar. Nei það verða engin vandræði út af því sagði hinn.

Getraun sumarsins er létt, hvaða flokkum þessir ágætu menn tilheyri.

Fór til gamallar heimaborgar Berlínar í dásamlegt frí en samt alltaf gott að koma aftur Heim með stóru H. Verst hvað mér er eitthvað bumbult þessa dagana þótt sól skíni í heiði á okkar fagra landi. Fagra Íslandi sem er áfram til sölu.  

Eins og sumir forframaðir sem hafa setið í framtíðarhópum hef ég alltaf verið dálítið spennt fyrir því að festast ekki í fortíðinni. Horfa fram á veginn. Er líka ein af þessum týpum sem er voða veik fyrir sátt. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Það sagði Lilli Klifurmús.

Það vilja engir menn með mönnum vera óþægir á Íslandi í dag (nema kannski vinstrigræn enda fá þau að heyra það - beint í skammarkrókinn með ykkur). Þegjandi samkomulag og ylmjúk Sátt á fullri ferð út um allt alls staðar. Hún horfir fram á veginn en ekki í baksýnisspegilinn, Sáttin bljúga og blíða, og hún kemur við á ólíklegustu stöðum.

Útlit fyrir að Alþingi verði meiri stimpilstofnun en nokkurn tímann fyrr (a.m.k. ef marka má vinnubrögð nýs meirihluta á sumarþingi, en gefum þeim annan séns og svo aftur annan, fall er fararheill. Segið svo að innfæddir Íslendingar vinni ekki lengur við færibandavinnu), meirihlutavaldið valtar skínandi fagurt á bak við enn fegurri orð um lýðræði (afsakið, hvar má æla?), Samfylkingin rennur inn í Sjálfstæðisflokkinn eins mjúklega og áreynslulaust og orkufyrirtækin inn í auðlindirnar, álbræðslur spretta upp hér þar og alls staðar og stóriðjustefnan eflist undir nýju yfirskini, fjölmiðlar eru eyrnamerktir stjórnarflokkunum í bak og fyrir, og peningaöflin eru himinlifandi af því að þau fengu nákvæmlega það sem þau vildu.

Á nútímamáli nútúmalegra jafnaðarmanna heitir þetta Sögulegar Sættir.

Ætli hægt sé að fá svo rosalega mikla overdoze af Sátt inn að beini og upp í öll vit að af því myndist vottur af flökurleika?

Er eitthvað raunverulega nýtt að frétta á Íslandi í dag, einhverjar raunverulegar breytingar?

Já það er eitt, eitt einasta eitt. Ísland er orðið alvöru land í fótbolta. Í fyrsta sinn. Man einhver eftir því þegar varla var minnst einu orði á stelpur sem voru að keppa í fótbolta eða handbolta eða...? Mikið er ég stolt af stúlkunum.

Sólin skín og fuglar syngja. Hver nennir að vera annað en glaður þegar sumar ríkir á Íslandi og við vinnum í fótbolta? 

Njótum Þjórsár í sumar á meðan hún rennur enn. Á meðan ekki er enn búið að svíkja hana opinberlega þótt loftið sé mettað af reyk Sáttarinnar á bakvið tjöldin og við bíðum eftir næsta spinni.

Við trúum á kraftaverk þrátt fyrir allt. Trúum að eitthvað breytist raunverulega einhvern tímann. Ekki bara í sýndarveruleika innihaldslausra yfirlýsinga og hamingjukossum valdastólanna heldur í raun. Trúum því að annars konar sýn hafi á endanum eitthvað að segja, að peningaöflin vinni ekki allar orrustur þótt þau vinni flestar, langsamlega flestar, og fái langoftast þau stjórnmálaöfl sem þeim þóknast, biðja um, krefjast, hygla, styrkja, tryggja, innsigla, fagna. Stjórna?

Það er altént eins gott að vera ekkert að ögra þeim alltof mikið ef þú vilt vera maður með mönnum, það vita nútímalegir jafnaðarmenn sem lifa með sátt. Öll dýrin í skóginum eru vinir en sumir eru betri vinir en aðrir. Sumir eru jafnari en aðrir og um það skal ríkja sátt - eða viltu kannski lenda í skammarkróknum?

Kraftaverk er magnað eðlisfræðilegt alheimsafl. Rétt eins og tilviljun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Velkomin aftur kæra Lilja! Takk fyrir frábæran pistil, eins og talað frá mínu hjarta. Nú brettum við upp ermar og byggjum okkur upp, það veitir ekki af að veita þessari stjórn aðhald og ef við gerum það ekki þá gerir það enginn. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 24.6.2007 kl. 08:34

2 Smámynd: Sævar Einarsson

Ég er ekki Vinstri grænn en það er margt til í þessu hjá þér, enda afburðar greind og ekki skemmir fyrir kynþokkafull. Ég vill sjá netþjónabú hér á landi, það er orkufrekur iðnaður en vaxtamöguleikar gríðarlegir og tala nú ekki um þörfina á vel menntuðu fólki við slíka stafssemi. Ég vill líka sjá að akstursbrautir handa akstursáhugafólki, akstursíþróttafólki, ökukennurum og allt sem snýr að vélknúnum tækjum verði byggð upp í grend slíks iðnaðar, þá er hægt að nýta tól og tæki í verkið og ríkið sparar.

Sævar Einarsson, 24.6.2007 kl. 10:06

3 Smámynd: halkatla

þú ert frábær

halkatla, 24.6.2007 kl. 12:21

4 Smámynd: Daníel Haukur

Gaman að sjá að þú ert kominn aftur. Flott blogg og þú ert bara æðisleg. Ég held ég viti líka 100% hverjir mennirnir í kokteilboðinu voru.

Sjáumst:D

Daníel Haukur, 25.6.2007 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband