Ákall

Ég má ekki til þess hugsa að umhverfismálin týnist í hinni pólitísku umræðu fyrir þessar kosningar. Það hreinlega má ekki gerast.

Það er auðvitað deginum ljósara að það þjónar hinum ýmsustu valda- og hagsmunaöflum óskaplega vel að einmitt það gerist. Að umhverfismálin séu þögguð. Og það þjónar svo sannarlega ríkjandi stjórnvöldum vel.

En hvenær ætlum við að kjósa um framtíð landsins okkar og ábyrgð í umhverfismálum ef ekki nú? Nú er tækifærið, nú og bara nú.

Ábyrgð í umhverfismálum snýr ekki bara að stóriðju. Stóriðjustefnan er sannarlega tákngervingur alls þess sem við brjótum af okkur í umhverfismálum og náttúruvernd, en ábyrgð okkar snýr einnig að svo ótal mörgu öðru.

Hún snýr að orkustefnu og orkunýtingu til framtíðar, loftlagsmálum, vatnsauðlindinni, líffræðilegri fjölbreytni, landslagi og víðernum, vistvænum veiðum og lífríki hafsins, gróðri og jarðvegsvernd, landnýtingu, dýraríki, ferðaþjónustu og útivist, samgöngum, mengun, efnum og efnavörum, matvælum og matvælaöryggi, sjálfbærri neyslu og framleiðsu, náttúrusiðfræði og góðri meðferð dýra, umhverfismennt, stjórnsýslu umhverfismála - og fleiru sem snertir hjarta þess í hvernig samfélagi við viljum búa og hverju við skilum til komandi kynslóða.

Það er þyngra en tárum taki ef við Íslendingar kjósum ekki um náttúruvernd og umhverfismál í þessum kosningum. Við verðum að standa vaktina núna, við megum ekki bregðast. Ekki einu sinni Þjórsárver virðast raunverulega hólpin - hvað er að okkur? Er græðgin búin að éta okkur inn að beini? Hvar eru lífsgildin, virðingin?

Ég hélt að raunveruleg vakning hefði loks átt sér stað hérlendis í þessum efnum. Er það ekki svo?

Fólk við Þjórsá hefur í fleiri ár barist hetjulegri baráttu til verndar Þjórsárverum og til verndar náttúrugersemum öðrum við Þjórsá. Svo ótal mörg ómetanleg svæði önnur verða undir ef við kjósum ekki græna framtíð núna eftir 6 daga. Við megum ekki klúðra þessu. Við megum það ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Það virðist vera að auglýsingar, umræða fjölmðla og ýmislegt fleira sé að drepa þeirri markvissu umræðu sem verið hefur á dreif. Vika framundan og ég svo sem veit ekki hvernig hún mun verða. Til dæmis hvort útspil Íslandshreyfingarinnar um helgina, Andri Snær, mun koma þessum málum á dagskrá af því  þeir náðu eyrum fjölmiðla. Held að það yrði okkur bara í hag, því það efast enginn um hlutverk VG sem forystuafls í umhverfismálum. Ef Íslandshreyfingin nær manni á þing (sem er enn möguleiki) þá sé ég fyrir mér græna ríkisstjórn, VG, Íslandshreyfingar og Samfylkingar.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.5.2007 kl. 23:08

2 Smámynd: Auðun Gíslason

Eru forpokaðar aðferðir Vg í kosningarbaráttunni að bitna á fylginu? Hvar eru auglýsingar Vg eða samræmist það ekki Hugsjóninni að reka kosningabaráttuna með nútímalegum aðferðum? 

Auðun Gíslason, 7.5.2007 kl. 10:17

3 Smámynd: Björn Viðarsson

Held að fólk átti sig á að það er enginn að fara að ganga af landinu dauðu þó að reynt sé að skapa smá atvinnu fyrir hinar deyjandi byggðir.

Múgæsingin náði hámarki í Hafnarfirði og nú er fólk farið að sjá að sér. Veit ekki hvaðan pistlahöfundur sækir sýna vænisýki um að núverandi flokkar vilji ganga af landinu dauðu í þessum efnum.  Má ekki bara fara hinn hófsama milliveg?

Björn Viðarsson, 7.5.2007 kl. 13:19

4 identicon

Mér finnst gjörsamlega óþolandi þegar fólk talar um græðgisvæðingu og setur alla Íslendinga undir einn hatt varðandi eyðslu fés og lántöku.  Auðvitað eru til einstaklingar sem eyða um efni fram alveg eins og það eru nískupúkar sem deyja á endanum frá milljónum sínum undir koddanum en það er óþolandi þegar fólk alhæfir þetta um heila þjóð.  Við eigum að eiga frjálst val og ef við höfum efni á jeppanum og öllu hinu þá er bara í góðu lagi að eiga það.  Ég sjálf eins og flestir sem ég þekki förum hins vegar milliveginn og reynum að eyða eftir efnum.  

Á endanum er það nú svo að einstaklingarnir verða að bera ábyrgð á sér sjálfir.  Að við skulum hafa tækifæri til að gera svo margt skemmtilegt á Íslandi í dag er ekki neikvætt og ég nenni ekki að hlusta á þetta neikvæða bull.

Elín Karitas (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband