Hættum við að sukka?

 

Íslenskt samfélag er á ýmsan hátt gegnsýrt af alkóhólisma, sukki, meðvirkni og afneitun. Okkur finnst oft þægilegra að halda bara áfram á fylleríinu í stað þess að taka okkur taki.

Þeir sem kjósa meintan "stöðugleika í efnhagsmálum" ríkisstjórnarinnar eru að kjósa einmitt þetta: áframhaldandi sukk, skuldasöfnun og afneitun.

Góðærið er fengið að láni hjá komandi kynslóðum og sett á kostnað tekjulægri stétta samfélagsins. Stöðugleikinn er stöðugur í niðurrifi sínu á íslenska velferðarsamfélaginu, hruni í tannheilsu barna, stórauknum komugjöldum sjúklinga og aukinni misskiptingu og fátækt.

Skuldir íslenskra heimila eru einhverjar hinar mestu í heimi - rúmlega 200% af ráðstöfunartekjum.

Halló?

Nánast allar skattabreytingar sitjandi ríkisstjórnar hafa miðað að því að bæta stöðu fjármagnseigenda og nýríkra yfirstétta. Kostnaði við velferðarþjónustu hefur verið velt yfir á neytendur (hinum tekjulægri til mikilla miska) og skattar og gjöld lágtekjufólks hafa aukist á meðan milljarðamæringum er pakkað inn í dúnmúkan bómull.

Nei, ég hef ekki á móti þeim sem allt eiga til alls og miklu meira til, en ég hef á móti hróplegu óréttlæti í íslensku samfélagi. Blind þjónkun við auðvald kemur niður á þeim sem síst skyldi og er okkur öllum til skammar. Það eiga allir að greiða sinn réttláta hlut til samfélagsins - og við erum öll jafnar manneskjur og berum ábyrgð hvert á öðru. Ísland á stolt að vera eitt og gegnheilt samfélag fyrir alla þar sem sanngirni skiptir máli.

Óstjórn og óstöðugleiki hefur ríkt í efnahagsmálum þjóðarinnar en reynt er að breiða yfir allt saman með því að lofa áframhaldandi fylleríi: það er treyst á meðvirknina.

Hversu lengi ætlum við að kjósa gróðafíkn, skuldasöfnun og sukk á kostnað komandi kynslóða, náttúrunnar og þeirra sem höllum standa fæti í samfélaginu?

Við sem viljum breytta stefnu höfum lagt okkur í líma við að koma með ábyrgar tillögur til úrbóta. Við vitum að til að snúa á rétta braut aftur þarf að vanda mjög til verka og ganga fram af varfærni og ábyrgð - en með heilbrigt verðmætamat og breytta forgangsröðun að leiðarljósi. Í vor verður kosið um forgangsröðun en ekki byltingu - við skulum hafna hræðsluáróðri hagsmunaaflanna þar að lútandi.

Hættum að sukka og höfnum óstjórn!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Íslenskt þjóðfélag minnir mann á einstakling sem lemur sig aftur og aftur í hausinn með hamri til að upplifa hversu þægilegt ástandið er á milli hamarshögganna.  Lifðu heil.

Pálmi Gunnarsson, 21.4.2007 kl. 11:44

2 identicon

Hallelúja  Gott að það er til fólk með vitglóru í hausnum..! Held ég kjósi bara VG ... föður mínum til mikilla ama ... Búin að fá nóg af sukkinu og svínaríinu og BLEKKINGUNNI. Flott blogg..

Kristín (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 12:04

3 Smámynd: Pétur Þorleifsson

"Enda er nú svo mikill auður á Íslandi að þarf að farga honum, bílaumboð í borginni fargaði á síðasta ári 4-5 ára gömlum notuðum bílum sem ekki fékkst nógu hátt verð fyrir, frekar en selja þá ódýrt."

Pétur Þorleifsson , 21.4.2007 kl. 14:21

4 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Sukk er böl, svo mikið er víst, hvar sem það birtist en núverandi ríkisstjórn er kannski báðum megin við borðið í þeim efnum, sumt er vekki gott og annað sem betur mætti fara. En ég von að þú komist á þing.

Benedikt Halldórsson, 21.4.2007 kl. 15:39

5 Smámynd: Helgi Kristinn Jakobsson

Við Íslendingar höfum það gott, höfum það á hreinu!  Við eigum mikið af vel menntuðu fólki og flest allir fá störf við sitt hæfi og vel borgaða meira að segja!  Þetta fólk þarf þak yfir höfuðið, nýjan bíl o.s.frv.  sem hleypir auðvitað lífi í markaðinn.  Það sem við búum við hér á Íslandi er að nánast allir hafa það gott!, allir eru að kaupa nýjan bíl, nýtt sjónvarp, fleygja út gömlu innréttingunum o.s.frv.  Í hagfræði er sú einfalda staðreynd kennd að það sem fer upp, kemur niður!  “Óstjórnin” sem þið í VG talið um er ekki meiri en svo að á síðustu mánuðum hefur verið töluverð verðbólga sem er nota bene á niðurleið!  Hvað er “Óstjórn” og hvað er “Sukk” og langar mig að spyrja þig Guðfríður!

Á hvernig bíl ekur þú?  Því ef að þú ekur á bíl sem er yngri en þriggja ára þá hefur þú verið að “sukka” eins og þú kallar það og held ég að þú ættir að byrja á sjálfum þér og fá þér reiðhjól, það er í anda ykkar stefnu hjá VG! allir á reiðhjól og engin má græða!

Helgi Kristinn Jakobsson, 21.4.2007 kl. 18:51

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

já...setjum stefnuna á EBS og EVRUNA!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 21.4.2007 kl. 20:17

7 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Þú dregur upp nokkuð dökka mynd Guðfríður. Á Íslandi hefur ríkt ævintýralegt uppgangstímabil síðan 1990.  Við fá lönd er þar saman að jafna og af þessu getum við verið stolt. Enda menning okkar merkilegt kraftaverk hér í norður í hafi.

Ekki dugar að öfundast út í þá sem græða en það fylgir jafnan svona breytingum sem við höfum verið að upplifa -  að allnokkrir verða yfir þyrmandi ríkir.

Ekki er hins vegar alveg jafn víst að ríkidæmi þeirra sér beinlínis "á kostnað" þeirra sem minna hafa. Allir hafa fengið meira. Ég vil benda á þetta til þess að "öfundarhyggjan" sé ekki prímus mótor í löngun manna til að knýja fram betra þjóðfélag. Það hefur viljað loða  við róttæka vinstrimennsku.

En rétt er það að við eigum einbeitt að tryggja að einstakir hópar komi ekki illa út, lifi við fátækt, einangrun eða verði utan garðs. Kannski er ekkert mikilvægara.

Sumt af þessu er ekki einungis efnahagslegt vandamál í okkar þjóðfélgagi. Miklum fremur menningarlegt því græðgin er farin að dóminera á svo mörgum sviðum. Græðgin er óvinur menningarinnar -  gerir hana einhæfa og okkur einsýn og kjánaleg. Og þar með fátæk í raun.

Margt sem er í raun mikils virði hverfur okkur sjónum vegna sífelldrar peningahyggju. Fjölmiðlar bera stóra ábyrgð á þessum heilaþvotti því máttur þeirra er yfirþyrmandi.  Kveðja og gangi þér vel.

Guðmundur Pálsson, 21.4.2007 kl. 20:54

8 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mér ofbjóða þessi skrif. Talandi um sukk og vitleysu, hvar í andsk.  hefurðu haldið þig síðustu árin? örugglega ekki á Íslandi og ef svo er,þá í eigin gerviheimi. Ykkur sem hatið ríkisstjórnina meira en ALLT eruð orðin sködduð af slæmum hugsunum, þetta er eitthvað það argast bull sem ég hef heyrt lengi þessi grein þín,  eru þá um 60% að bulla þegar þau segjast hafa það betra nú en áður?? gættu orða þinna kona og hvað þú ert að birta, er ég láglaunamanneskjan, með mörg börn sem eru orðin fullorðin, búsett víða, í námi eða hér heima að kaupa sér húsnæði og koma upp börnum, erum við sukkarar??? við erum bara venjulegt heiðarlegt fólk sem kann að fara með peningana,  tökum þátt í lífinu en erum ekki í gróðafíkn á kostnað komandi kynslóða.    Það er líka algjört dúndur þessi auglýsing ykkar um að "Samfylkingi ætlar að koma á ókeyps tannvernd"  váááá æði, hversu margir kokgleypa þetta ekki?? tannvernd er dálítið annað en tannviðgerðir, tannvernd er skoðun einu sinni á ári og forvarnir. Besta forvörnin er að fara með börnin til tannlæknis frá 1 árs aldri og síðan alltaf fram eftir öllum aldri. Það þarf líka að hreinsa tennurnar og borða hollan mat. Mér er til efs, það sjaldan þegar ég er í t.d. Kringlunni og sé þar öll börnin ráfandi um étandi nammi eða sitja á matsölustöðum með foreldrum sínum, sem eru þá náttl. að sukka með þau og á fylleríi, þetta fólk getur alveg farið með börnin sín til tannlæknis ef það getur keypt draslmat, svo er ég líka viss um að þetta er einmitt fólkið sem fer með börnin sín til tannl. við vitum vel og það má bara horfast í augun við það að það er sama hversu mikið sumum er hjálpað, það gerir ekkert gagn í því, því miður.

Ásdís Sigurðardóttir, 21.4.2007 kl. 21:43

9 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ásdís, tannvernd er í tryggingum í Hollandi og einnig í danska heilbrigðiskerfinu svo af hverju er þetta óraunhæft hér?

Er reyndar sammála um að besta tannvernd sé að borða hollt...en er það ekki útúrsnúningur í þessu samhengi? 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 21.4.2007 kl. 22:25

10 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er ekki að mótmæla því að tannvernd sé í heilbrigðiskerfinu. Ég er alveg sammála því að ríkið á að koma að málum og endurgreiða foreldrum hluta kostnaðar eins og gert hefur verið, en ekki nóg, endurgr. hafa dregist aftur úr, það þarf að laga, en mér bara finnst það ekki flott kosningaloforð að "lofa ókeyps tannvernd"  margur gæti misskilið það og álitið að það væri um að ræða allar tannviðgerðir, þetta er loðið loforð. Vonandi verður þetta eitt af þeim málum sem ný ríkisstjórn lagar strax hægri/vinstri kemur í ljós.  Mér finnst ekki útúrsnúningur að benda á að fólk á að huga betur að tannheilsu barna sinna, við ákváðum að eignast þau og þau sitja fyrir í öllu.

Ásdís Sigurðardóttir, 21.4.2007 kl. 22:43

11 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Sveinn Elías blessaður. Ég veit ekki alveg til hvers þú ert að vísa til nákvæmlega en líklega kvótakerfisins. Það þarf að lagfæra að mínu mati svo nýjir menn komist inn í greinina.  Td. mætti  leyfa strandveiðiflota minni báta að veiða innan 20- 30 mílna á sóknarmarki með vissum veiðarfærum. Segjum leyfða veiði 15 eða 10 daga í mánuði. Þá yrði allt yðandi af lífi í plássunum hver fiskur kæmi að landi og af mjög góðum gæðum. Það myndi gerbreyta lífi margra. Einnig herða reglur um kvótabrask og leigu.

Guðmundur Pálsson, 21.4.2007 kl. 23:18

12 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Heil og sæl Guðfríður Lilja. Það er skemmst frá að segja, að ég er hjartanlega sammála öllu því sem kemur fram í pistlinum þínum. Þeir sem ekki sjá eða skynja auðvaldssukkið, óstjórnina, vaxandi og yfirþyrmandi gróðafíkn með tilheyrandi spennu, streitu og hraða og tillitsleysi, já og ekki síst meðvirknina í þjóðfélaginu, hljóta að vera eitthvað óeðlilega dofnir til höfuðsins. Gerir fólk sér virkilega ekki grein fyrir að ungt fólk í dag, svo dæmi sé tekið, sem er að koma þaki yfir sig og sína, er í mörgum tilfellum að selja sig í ánauð fjármagnseigenda, m.ö.o. auðvaldsins, til langframa, jafnvel ævina á enda.

Guðmundur Pálsson segir hér að ofan: ,,Ekki dugar að öfundast út í þá sem græða en það fylgir jafnan svona breytingum sem við höfum verið að upplifa -  að allnokkrir verða yfir þyrmandi ríkir. Ekki er hins vegar alveg jafn víst að ríkidæmi þeirra sér beinlínis "á kostnað" þeirra sem minna hafa. Allir hafa fengið meira. Ég vil benda á þetta til þess að "öfundarhyggjan" sé ekki prímus mótor í löngun manna til að knýja fram betra þjóðfélag. Það hefur viljað loða  við róttæka vinstrimennsku."

Guðmundur virðist gera að því skóna, að löngun vinstrimanna, einkum róttækra, í betra þjóðfélag sé knúin áfram af öfund. Ég vil minna Guðmund á að alhæfingar af þessu tagi eru heldur en ekki vafasamar. Það vill þannig til, að ég hef á lífsleiðinni kynnst fjölda fólks sem spannar allt litróf stjórnmálaskoðanna. Ég hef ekki orðið var við að róttækir vinstrimenn séu öðrum fremur knúðir áfram af öfundarhyggju, nema síður sé. Öfundarhyggjuna hef ég hef ég hinsvegar oftar rekist á í fari hægrimanna, enda eru öfund og græðgi sprotar á sama meiði. Og við skulum ekki gleyma því að kapítalismi byggir tilveru sína á græðgi; því meiri græðgi, því meiri samkeppni og öfund, því betra fyrir hraðann á hjólum auðvaldsvélarinnar. 

Þá mótmæli ég því ákveðið, að ,,allir" hafi fengið meira í sinn hlut í góðærinu. Ég fæ bara ekki með nokkru móti séð, að kjör verkafólks hafi batnað hætishót. Nokkrar krónur til eða frá skipta engu máli meðan ekki er hægt að lifa sómasamlegu lífi af 40 stunda vinnuviku, en það er nánast ógerlegt þegar verkalýðsstéttin á í hlut. Við skulum líka muna, að það var láglaunafólkið á Íslandi sem færði stærstu fórnirnar á ,,þjóðarsáttartímabilinu" svokallaða, en bar minnst úr bítum þegar upp var staðið.

Jóhannes Ragnarsson, 22.4.2007 kl. 10:03

13 Smámynd: Snorri Sigurðsson

Sammála Jóhannesi að mestu leyti. En auðvitað má ekki fara offari í að mála skrattan á vegginn. Langflestir hafa það ágætt hér á landi en margt af því sem við höfum er kannski óþarfa bruðl og víst er að löngunin í nýja hluti er oft sterkari skynseminni. Hvað annað getur útskýrt himinháa yfirdrætti hjá óramörgum ungmennum hérlendis. Jú allir verða að eiga bíl og ipod og tölvu og ný föt tvisvar í mánuði. Lífsgæðakapphlaupið er ekkert grín. Og það er engin hræsni að benda á það þó maður taki þátt í því sjálfur. Það er ekkert auðvelt að vera á skjön við alla aðra, síst af öllu þegar maður er ungur og ómótaður. Fjölmiðlar ýta svo undir þetta sem og bankarnir sem herja á ungu kynslóðina með gylliboðum um lán fyrir hinu og þessu. Peningahyggjan er orðin veigamikill þáttur í menningu þessa lands og hvort það sé neikvætt eða jákvætt verður hver að gera upp við sig. Þessu fylgir líka mikill hraði og tímaskortur sem getur komið niður á öðru, enda halda því sumir fram að mörg jákvæð gildi svo sem kurteisi, hjálpsemi, þekkingaröflun og jafnvel friður (persónulegur sem samfélagslegur) eigi undir högg að sækja. Það getur verið gott að velta því fyrir sér hverju við erum að fórna í þessu lífsgæðakapphlaupi ?

Snorri Sigurðsson, 23.4.2007 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband